NÝJAR PLÖNTUR

Valurt – Symphytum officinale

Harðgerð, fjölær jurt. Hæð 60 - 100 sm. Stundum hærri. Stofnlauf stór, egglaga - lensulaga, langydd og með blaðstilk. Stöngulblöð aflöng - lensulaga og stilklaus. Stöngull hærður og vængjaður. Blómin sitja nokkur saman í kvíslskúf. Blómin fjólublá eða purpurarauð. Blómgast í júlí - ágúst. Valurt þrífst best í sæmilega rökum jarðvegi. Þolir nokkurn skugga. Hentar t.d. aftarlega í blómbeð, í villigarða og sem undirgróður undir stærri tré. Vex sums staðar sem slæðingur utan garða hérlendis. Valurt er gömul lækningajurt og þótti sérstaklega græðandi. Í dag er almennt varað við inntöku og annarri notkun valurtar vegna hættu á lifrarskemmdum. Heimkynni: Víða í Evrópu, V-Asíu á rökum svæðum.

Höfuðklukka – Campanula glomerata

Harðgerð, fjölær jurt. Hæð um 40 - 60 sm. Blómin dökk-fjólublá mörg saman í kúlulaga blómskipun. Blómgast í júlí og ágúst. Höfuðklukka er talsvert skriðul. Þolir vel samkeppni við ýmsar ágengar tegundir þ.m.t. gras. Þolir hálfskugga. Höfuðklukka fer vel í blönduðum blóma- og runnabeðum. Hentar einnig í villagarða og sumarhúsalóðir. Þrífst í allri venjulegri garðmold. Þrífst ekki í bleytu eða súrum jarðvegi. Blöð og blóm eru sögð æt og má nota t.d. í salat. Heimkynni: Evrasía, allt frá Bretlandseyjum austur til Japan.

Regnhlífarblóm / Skjaldsteinbrjótur – Darmera peltata

Harðgerð, fjölær jurt. Hæð: 1,5 m. Blómgast fyrir laufgun í maí. Blómin eru ljósrauð í hvelfdum sveip á allt að 1,5 m háum blómstöngli. Blöðin eru fremur stór, gljáandi, skjaldlaga og birtast eftir blómgun í júní. Rauðir haustlitir. Þrífst best í rökum og frjóum jarðvegi t.d. við læki og tjarnir. Skuggþolið. Dreifir sér rólega út með neðanjarðarrenglum. Regnhlífarblóm er ættað frá Óregon og Kaliforníu. Fremur sjaldgæft hérlendis.

Graslaukur – Allium schoenoprasum

Harðgerð, fjölær jurt. Hæð: 35- 40 sm. Blöð og blóm má nota í mat. Blöð eru gjarnan notuð í eggjakökur, súpur og í fisk- og kartöflurétti. Hálfopnuð blómin henta í salat til að gefa bragð og til skrauts. Blómgast rauðfjólubláum, blómum í kúlulaga blómskipun í júní sem innihalda mikið af blómasafa og eru því hentug sem fæðulind fyrir humlur og aðrar býflugur. Graslaukur vex upp af litlum laukum. Graslaukur er auðræktaður í allri venjulegri garðmold á sólríkum stöðum. Blandið gjarnan gömlum búfjáráburði eða moltu saman við jarðveginn við gróðursetningu. Einnig er tilvalið að setja moltu í kringum eldri plöntur að vori. Þó að graslaukur laði að hunangsflugur er hann almennt talinn fæla í burt ýmis skordýr sem sníkja á plöntum sökum brennisteinssambanda sem í honum eru. Er því gjarnan notaður t.d. inn á milli matjurta og annarra plantna til að fæla í burt sníkjudýr sem leggjast á mat- og skrautjurtir. Vex villtur víða í Evrópu, Asíu og N-Ameríku.

Hengibjörk / Vörtubirki – Betula pendula

All stórvaxið, sumargrænt tré. Smágreinar yfirleitt meira og minna slútandi. Börkur á eldri trjám áberandi hvítur með svörtum skellum við greinafestingar. Sólelsk. Þrífst best í sæmilega frjóum, vel framræstum, steinefna-ríkum jarðvegi. Hengibjörk hefur talsvert mikið verið reynd hérlendis enda með fegurstu trjám sem völ er á. Þrífst almennt illa. Kelur yfirleitt mikið og drepst að því er virðist upp úr þurru. Aftur á móti þrífst hengibjörk víða vel inn til landsins sérstaklega austur á Héraði og inn í Eyjafirði. Eigum til eitthvað af hengibjörk af finnskum uppruna.

Fjallabergsóley – Clematis alpina

Harðgerður, sumargrænn vafningsviður. Blómin eru yfirleitt lillablá og klukkulaga. Blómgast snemmsumars (júní). Aldinið er silfurhærð biðukolla og eru biðukollurnar einnig skrautlegar. Bergsóleyjar klifra með því að blaðstilkarnir vefja sig utan um greinar, net og þess háttar. Vex upp í 2 - 3 m ef aðstæður leyfa. Breidd 1 - 1,5 m. Fjallabergsóley þolir vel hálfskugga. Gróðursetjið bergsóleyjar 20 - 30 sm frá vegg / klifurgrind. Getur einnig klifrað upp runna og tré. Þrífst í allri venjulegri garðmold. Þolir vel klippingu. Verður gjarnan ber að neðan með tímanum. Best fer á því að gróðursetja jurtir eða lágvaxna runna framan við bergsóleyjar. Einnig er ráð að klippa þær talsvert á nokkurra ára fresti þar sem þær vilja verða þykkar og miklar um sig efst. Sé klippt að vetri til blómgast þær lítið eða ekki næsta sumar eftir klippingu. Úrvalið af bergsóleyjum er misjafnt á milli ára hjá okkur. Stundum eru til nokkur yrki af fjallabergsóley og stundum einnig fleiri tegundir af Clematis. Heimkynni fjallabergsóleyjar eru fjalllendi M-Evrópu.

Kanadalífviður ‘Brabant’ – Thuja occidentalis ‘Brabant’

Sæmilega harðgert, hægvaxta, þétt, upprétt, sígrænt tré. Hæð 3 - 4 m eftir 15 ár. Getur sjálfsagt náð 5 - 7 m hæð á bestu stöðum með tímanum. Breidd 1 - 1,5 m fyrstu 15 árin. Barrið hreisturkennt, grænt en gjarnan brúnleitara sérstaklega á greinaendum á veturna. Barrið ilmar sé það klippt eða nuddað. Könglar smáir, aflangir. Börkur rauðbrúnn og flagnar með tímanum af í strimlum. 'Brabant' er talið eitt harðgerðasta yrkið af lífvið til ræktunar hérlendis. Þolir vel hálfskugga. Þolir vel klippingu. Hentar í gróna, skjólgóða garða. Kanadalífviður 'Brabant' hentar í blönduð beð með öðrum sígrænum runnum og smátrjám. Einnig fyrir innan skjólgirðingar og þess háttar. Hentar í ker/potta þar sem er gott skjól annars sviðnar barrið illa og plantan veslast upp. Erlendis er 'Brabant' hvað mest gróðursettur í limgerði. Þrífst í allri vel framræstri garðmold. Hollenskt yrki frá níunda áratug síðustu aldar. 'Brabant' er af sumum talinn vera blendingur kanada- og risalífviðar (Thuja plicata).

Garðabrúða – Valeriana officinalis

Harðgerð, all hávaxin jurt. 80 - 120 sm á hæð. Laufblöðin stakfjöðruð. Blómin bleik í sveipleitri blómskipan. Blómgast miðsumars. Þrífst í allri venjulegri garðmold sem ekki er of þurr. Þolir hálfskugga. Er víða í görðum. Hentar í blómabeð, í villigarða og jafnvel sem undirgróður í trjábeð. Millibil: Allt að 1 m. Vex villt hér og þar á landinu. Annars eru heimkynni garðabrúðu víða í Evrópu og Asíu. Hefur lengi verið nýtt til lækninga. Rótin er sögð hafa róandi áhrif. Kettir laðast að garðabrúðu sérstaklega rótinni sem lyktar.

Fjallasveipur – Adenostyles alliariae

Harðgerð, stórvaxin jurt. Hæð í kringum 1,5 m. Blómin smá, lillablá, mörg saman í all stórum sveipum. Blómgast miðsumars (júlí og fram í ágúst). Þolir vel hálf skugga. Þrífst best í frjóum, rakaheldnum jarðvegi. Fjallasveipur hentar aftarlega í blómabeð. Þarf yfirleitt ekki uppbindingu. Millibil allt að 1 m. Heimkynni: Fjalllendi M-Evrópu.

Garðalúpína / Fjölblaðalúpína – Lupinus polyphyllus

Harðgerð, fjölær jurt. Hæð um 100 sm eða jafnvel meir. Smáblöð í laufblaðakrans gjarnan 12 - 15 talsins. Sólelsk annars nægjusöm. Lifir í sambýli við niturbindandi gerla sem gerir lúpínunni kleift að vaxa í fremur snauðum jarðvegi. Jarðvegur þarf þó alltaf að vera vel framræstur. Garðalúpína blómgast í júlí og fram í ágúst. Sáir sér yfirleitt ekkert út af sjálfsdáðum. Til í ýmsum litbrigðum. Garðalúpína er kjörin í blómabeð. Hentar vel til afskurðar. Samanborið við alaskalúpínu (Lupinus nootkatensis) sem vex villt víða um land er garðalúpínan með fleiri smáblöð í hverjum laufblaðakrans, minna hærð, blómgast seinna á sumrin, sáir sér ekki út og finnst í ýmsum litaafbrigðum. Garðalúpína er tiltölulega útbreidd í íslenskum görðum.

Breiðumispill ‘Major’ – Cotoneaster dammeri ‘Major’

Sæmilega harðgerður, sígrænn, jarðlægur runni. Blöðin eru sporöskjulaga og stærri samanborið við önnur yrki breiðumispils. Blöðin verða gjarnan rauðleit á veturna. Blómin eru smá, hvít, stjörnulaga með rauðum fræflum og birtast miðsumars. Rauð ber þroskast á haustin. Sitja gjarnan á greinunum fram á vetur. Breiðumispill 'Major' þolir hálfskugga. Hentar sem kantplanta, sem undirgróður undir trjám/runnum sem ekki varpa miklum skugga. Fer einnig vel í hleðslum og ofan á veggjum þar sem greinarnar geta slútað niður. Millibil um 60 - 70 sm. Þrífst eingöngu í grónum görðum í sæmilega frjóum, vel framræstum jarðvegi. Skýlið fyrsta veturinn með t.d. striga.

Breiðumispill ‘Eichholz’ – Cotoneaster dammeri ‘Eichholz’

All harðgerður, sígrænn, fremur hægvaxta jarðlægur runni. Hæð: 10 - 25 sm. Breidd: 80 sm. Laufið smátt, dökkgrænt. Ljós stjörnulaga blóm birtast í júni/júlí. Þroskar rauð ber í september sem gjarnan sitja á greinunum fram á vetur. Þolir vel hálfskugga. Þrífst í allri venjulegri garðmold. Hentar sérstaklega vel sem kantplanta, sem undirgróður undir trjám/runnum sem ekki varpa of miklum skugga. Breiðusmispill 'Eichholz er einnig kjörinn í hleðslur, steinhæðir og brekkur. Millibil um 70 sm.