NÝJAR PLÖNTUR

Blátoppur ‘Rúnar’ – Lonicera caerulea ‘Rúnar’

Harðgerður, þéttur runni. Hæð 1,5 - 2,3 m. Laufin eru sporöskjulaga, heilrennd og mött. Laufgast gjarnan snemma í maí. Lauf skærgræn í fyrstu en dökk-blágræn þegar líður á sumarið. Haustlitur gulur - brúnn. Sprotar rauðleitir. Ungar greinar rauðbrúnar. Brumin gagnstæð og er það áberandi að þau sitja nokkur saman. Blómin eru gulgræn, tvö og tvö saman fyrri part sumars. Aldinið er dökkblátt ber. Blóm og aldin eru ekki áberandi. Berin eru ekki bragðgóð. Blátoppur er all skuggþolinn. Almennt heilbrigður. Þolir vel klippingu. Þetta yrki gæti verið 'Bergur'. Heimkynni: Kaldtempruð svæði í N-Ameríku, Evrópu og Asíu.

Runnamura ‘Stella’ – Dasiphora fruticosa ‘Stella’

Harðgerður, þéttur, fíngreinóttur runni. Hæð: 1 - 1,5 m. Laufblöð fremur smá, græn - blágræn, hærð, stakfjöðruð eða fingruð. Blómin gul 2 - 3 sm í þvermál með fimm krónublöðum. Blómin eru ljósari og ögn smærri en á runnumuru 'Goldfinger' en dekkri samanborið við runnamuru 'Månelys'. Sólelsk en þolir hálfskugga. 'Stella' er íslenskt úrval. Blómgast í júlí og fram í september. Stundum byrjar hún jafnvel í lok júní. Byrjar fyrr að blómgast á sumrin samanborið við 'Goldfinger'. Runnamura 'Stella' þrífst vel í öllum venjulegum, sæmilega frjóum, rakaheldnum jarðvegi. Hentar í lág limgerði, þyrpingar, ker og potta. Millibil um 70 - 80 sm. Runnamura er breytileg tegund sem vex villt á kald-tempruðum svæðum á norðurhveli jarðar. Í náttúrunni vex hún gjarnan í deiglendi og grýttum svæðum.

Forlagabrúska ‘Albomarginata’ – Hosta fortunei ‘Albomarginata’

Fremur harðgerð, fjölær jurt. Hæð: 40 - 65 sm. Kemur upp seint í maí eða júníbyrjun. Laufblöð meðalstór, egglaga - hjartalaga, mött, græn með hvítum jaðri. Gulir haustlitir. Blómin ljóslilla klukkur sem raða sér upp eftir blómstönglunum sem vaxa upp fyrir blaðbreiðuna. Blómgast síðsumar og fram á haust. Þrífst best í lífrænum, rakaheldnum jarðvegi. Skuggþolin. Hefur þekjandi eiginleika. Forlagabrúska  'Albomargina' hentar í skuggsæl beð, undir trjám og runnum og þess háttar. En einnig í blómabeð á sólríkari stöðum. Brúskur eru nýttar til matar víða í Asíu. Uppruni: garðayrki.

Sæhvönn – Ligusticum scoticum

Harðgerð, íslensk jurt. Hæð um 40 - 60 sm. Vex villt við ströndina, aðallega í sjávarhömrum, eyjum og þess háttar. Algengust á sunnan- og vestanlands. Lauf þrífingruð og gljáandi. Hvítir blómsveipir birtast á miðju sumri. Aldin brúnleit. Sæhvönn er æt. Blöðin bragðast ekki ósvipað og steinselju eða selleríi og fræið eins og broddkúmen eða bukkasmári (fenugreek). Blöðin eru best til átu fyrir blómgun. Mjög saltþolin. Þolir illa beit. Heimkynni: Auk Íslands, strandsvæði NA-Ameríka og N-Evrópu.

Týrólareynir / Doppureynir – Sorbus austriaca

Harðgert, fremur lágvaxið tré. Hæð: 6 - 10 m hérlendis. Stundum runni. Líkist alpareyni (Sorbus mougeotii). Talinn blendingur seljureynis (Sorbus aucuparia) og reyniviðar (Sorbus aucuparia). Laufblöð breið-sporöskjulaga með kíllaga grunn. Lauf sagtennt en neðarlega á laufinu eru flipar sem skerast upp í blöðkuna sem nemur um 1/6 af breitt hennar. Flipar skarast ögn. Ofar eru laufblöðin tvísagtennt. Laufblöð ekki eins slétt og laufblöð alpareynis enda blaðjaðrar bylgjaðir. Lauf týrólareynis hafa þykkari hár en lauf annara reynitegunda í Sorbus aria deildinni. Gulir - brúnir haustlitir í október. Frýs stundum grænn. Blómin hvít í sveipum í júní. Rauðir berjaklasar þroskast í október. Trúlega verið hér í ræktun í einhverja áratugi og yfirleitt ranglega nefndur alpareynir. Finnst sjálfsáinn í nágrenni byggðar. Týrólareynir virðist beinvaxnari og jafnvel hávaxnari að jafnaði samanborið við alpareyni. Týrólareynir sómir sér vel stakur eða fleir saman með um 3 m millibili eða meir. Þrífst í allri venjulegri, vel framræstri garðmold. Þrífst ekki í súrum jarðvegi. Heimkynni: Fjalllendi í Austurríki og Balkanskaganum.

Birkikvistur ‘Tor Gold’ – Spiraea betulifolia ‘Tor Gold’

Harðgerður, þéttur, hálfkúlulaga, fremur lágvaxinn skrautrunni. Hæð og breidd 60 - 90 sm. Laufið meira gulleitt/gyllt samanborið við hefðbundinn birkikvist. Hvítir blómsveipir birtast miðsumars. Rauðbleikir haustlitir. Þrífst í allri venjulegri garðmold. Nýlegt yrki. Uppgötvaðist sem sport af birkikvisti 'Tor' í Hollandi árið 2008. Hentar í blönduð beð, raðir og þyrpingar með um 70 - 80 sm millibili. Hentar einnig í potta og ker. Þolir hálfskugga annars sólelskur.

Skessujurt – Levisticum officinale

Harðgerð, hávaxin, fjölær jurt. Hæð: 1,5 - 2 m. Laufblöð þrífjöðruð. Skessujurt hefur lengið verið nýtt sem mat- og lækningajurt. Blómin eru gulgræn í sveip í júlí - ágúst. Þrífst best í rakaheldnum, frjósömum jarðvegi. Þolir vel hálfskugga. Náttúruleg heimkynni eru ekki nákvæmlega þekkt. Skessujurt vex í dag víða villt í Evrópu og Asíu. Ilmur og bragð minna á sellerí og steinselju en skessujurt er bragðmeiri. Blöð og unga stöngla má nota í salat og súpur. Einnig má nýta rótina sem grænmeti. Fræ skessujurtar má nota sem krydd. Bragðið heldur sér vel við þurrkun. Skessujurt er góð í kryddsmjör og með bökuðum kartöflum. Skessujurt gengur stundum undir nafninu "maggijurt" samanber "maggiurt" á dönsku og "Maggikraut" á þýsku þar sem bragð minnir á frægar pakkasúpur og súputeninga. Skessujurt hentar til gróðursetningar aftarlega í beð, í skógarjaðra eða í horn til uppfyllingar t.d. í hálfskugga. Frekar nytjajurt en skrautjurt.

Valurt – Symphytum officinale

Harðgerð, fjölær jurt. Hæð 60 - 100 sm. Stundum hærri. Stofnlauf stór, egglaga - lensulaga, langydd og með blaðstilk. Stöngulblöð aflöng - lensulaga og stilklaus. Stöngull hærður og vængjaður. Blómin sitja nokkur saman í kvíslskúf. Blómin fjólublá eða purpurarauð. Blómgast í júlí - ágúst. Valurt þrífst best í sæmilega rökum jarðvegi. Þolir nokkurn skugga. Hentar t.d. aftarlega í blómbeð, í villigarða og sem undirgróður undir stærri tré. Vex sums staðar sem slæðingur utan garða hérlendis. Valurt er gömul lækningajurt og þótti sérstaklega græðandi. Í dag er almennt varað við inntöku og annarri notkun valurtar vegna hættu á lifrarskemmdum. Heimkynni: Víða í Evrópu, V-Asíu á rökum svæðum.

Höfuðklukka – Campanula glomerata

Harðgerð, fjölær jurt. Hæð um 40 - 60 sm. Blómin dökk-fjólublá mörg saman í kúlulaga blómskipun. Blómgast í júlí og ágúst. Höfuðklukka er talsvert skriðul. Þolir vel samkeppni við ýmsar ágengar tegundir þ.m.t. gras. Þolir hálfskugga. Höfuðklukka fer vel í blönduðum blóma- og runnabeðum. Hentar einnig í villagarða og sumarhúsalóðir. Þrífst í allri venjulegri garðmold. Þrífst ekki í bleytu eða súrum jarðvegi. Blöð og blóm eru sögð æt og má nota t.d. í salat. Heimkynni: Evrasía, allt frá Bretlandseyjum austur til Japan.

Regnhlífarblóm / Skjaldsteinbrjótur – Darmera peltata

Harðgerð, fjölær jurt. Hæð: 1,5 m. Blómgast fyrir laufgun í maí. Blómin eru ljósrauð í hvelfdum sveip á allt að 1,5 m háum blómstöngli. Blöðin eru fremur stór, gljáandi, skjaldlaga og birtast eftir blómgun í júní. Rauðir haustlitir. Þrífst best í rökum og frjóum jarðvegi t.d. við læki og tjarnir. Skuggþolið. Dreifir sér rólega út með neðanjarðarrenglum. Regnhlífarblóm er ættað frá Óregon og Kaliforníu. Fremur sjaldgæft hérlendis.

Graslaukur – Allium schoenoprasum

Harðgerð, fjölær jurt. Hæð: 35- 40 sm. Blöð og blóm má nota í mat. Blöð eru gjarnan notuð í eggjakökur, súpur og í fisk- og kartöflurétti. Hálfopnuð blómin henta í salat til að gefa bragð og til skrauts. Blómgast rauðfjólubláum, blómum í kúlulaga blómskipun í júní sem innihalda mikið af blómasafa og eru því hentug sem fæðulind fyrir humlur og aðrar býflugur. Graslaukur vex upp af litlum laukum. Graslaukur er auðræktaður í allri venjulegri garðmold á sólríkum stöðum. Blandið gjarnan gömlum búfjáráburði eða moltu saman við jarðveginn við gróðursetningu. Einnig er tilvalið að setja moltu í kringum eldri plöntur að vori. Þó að graslaukur laði að hunangsflugur er hann almennt talinn fæla í burt ýmis skordýr sem sníkja á plöntum sökum brennisteinssambanda sem í honum eru. Er því gjarnan notaður t.d. inn á milli matjurta og annarra plantna til að fæla í burt sníkjudýr sem leggjast á mat- og skrautjurtir. Vex villtur víða í Evrópu, Asíu og N-Ameríku.

Hengibjörk / Vörtubirki – Betula pendula

All stórvaxið, sumargrænt tré. Smágreinar yfirleitt meira og minna slútandi. Börkur á eldri trjám áberandi hvítur með svörtum skellum við greinafestingar. Sólelsk. Þrífst best í sæmilega frjóum, vel framræstum, steinefna-ríkum jarðvegi. Hengibjörk hefur talsvert mikið verið reynd hérlendis enda með fegurstu trjám sem völ er á. Þrífst almennt illa. Kelur yfirleitt mikið og drepst að því er virðist upp úr þurru. Aftur á móti þrífst hengibjörk víða vel inn til landsins sérstaklega austur á Héraði og inn í Eyjafirði. Eigum til eitthvað af hengibjörk af finnskum uppruna.