NÝJAR PLÖNTUR

Balsamþinur ‘Cook’s Blue’ – Abies balsamea ‘Cook’s Blue’

Sæmilega harðgert, keilulaga, hægvaxta, sígrænt barrtré. Krónan fremur mjóslegin. Óvíst er hve hávaxinn hann getur orðið hérlendis en reikna má með 10 m á bestu vaxtarstöðum. Annars er yrkið 'Cook's Blue' sagt lágvaxnara en balsamþinur almennt. Börkur á ungum trjám er sléttur, grár með trjákvoðublöðrum (harpeis) en sprunginn og flögóttur á eldri trjám. Nálar flatar, grænar - blágrænar, 1,5 - 3 sm á lengd og ilmandi. Á neðra borði nála eru tvær ljósar loftaugarákir og gjarnan er blettur með loftaugum við nálarendann. Barrnálar aðeins sýldar í endann. Nálarnar liggja meira og minna lárétt út frá greinum/sprotum. Nálarnar hafa tilhneigingu til að verða styttri og þykkari ofar í krónunni. Könglar sívalir, uppréttir á greinunum, purpurabrúnir, 2,5 - 5 sm á lengd. Gjarnan með trjákvoðuútfellingum. Karlblóm rauðbrún, í litlum blómhnoðum á greinarendum fyrri part sumars. Reynsla hérlendis er takmörkuð en lofar góðu. Þarf nokkurt skjól. Þrífst vel í hálfskugga eða fullri sól í grónum görðum eða skógarskjóli og sæmilega frjóum, rakaheldnum, framræstum jarðvegi sem gjarnan má vera ögn súr. Balsamþinur 'Cook's Blue' fer vel stakstæður eða fleiri saman með 2,5 - 3 m millibili. þar sem balsamþinur 'Cook's Blue' er fræyrki er nokkur breytileiki meðal plantna undir þessu nafni. Barrið er þó almennt blágrænna en gengur og gerist með balsamþin almennt. Köfnunarefnisáburður (N) ýtir undir bláa litinn. Bláminn stafar af vaxhúð sem myndast á barrinu. Erlendis er þetta yrki m.a. ræktað og nýtt sem jólatré. Náttúruleg heimkynni balsamþins eru Mið- og A-Kanada og norðaustanverð Bandaríkin. Þallarætt (Pinaceae).        

Evrópuþinur -Abies alba

Sæmilega harðgert, sígrænt barrtré. Óvíst er hversu hávaxinn evrópuþinur getur orðið hérlendis en reikna má með afmarkað 10 - 15 m hæð á góðum stöðum. Nálarnar eru flatar, 1,8 - 3 sm á lengd og 2 mm á breidd. Dökkgrænar og gljáandi á efra borði en að neðan með tvær ljósar loftaugarákir. Nálarendinn aðeins sýldur. Nálarnar liggja meira og minna láréttar út frá greinum/sprotum. Það er þó ekki algillt og fer eftir kvæmum/undirtegundum. Könglarnir eru 9 - 17 sm langir og 3 - 4 sm breiðir með 150 - 200 hreisturblöð. Hreisturblaðka sýnileg. Könglarnir molna í sundur þegar þeir eru fullþroska. Fræið er vængjað. Viðurinn er hvítur og er fræðiheiti tegundarinnar "alba" dregið af því. Evrópuþinur hentar stakstæður í skjóli. Einnig fleiri saman með um 3 m millibili. Þrífst í sæmilega frjóum, rakaheldnum jarðvegi. Evrópuþinur er sjaldgæfur hérlendis og reynsla því takmörkuð. Virðist þrífast vel í skógarskjóli. Erlendis m.a. nýttur sem jólatré en einnig sem timburtré. Í sínum heimkynnum vex hann til fjalla aðallega í norðurhlíðum með meðalársúrkomu yfir 1.500 mm. Náttúruleg heimkynni eru fjalllendi í Mið- og S-Evrópu. Víða hálfvilltur norðar í álfunni. Þallarætt (Pinaceae).  

Rós ‘Aicha’ – Rosa ‘Aicha’

Sæmilega harðgerð runnarós. Hæð 1,5 - 2 m. Ekki sérlega þyrnótt. Greinar aðeins bogsveigðar með tímanum. Laufblöðin stakfjöðruð, dökk blágræn, og mött. Blómin eru stór, allt að 9 sm í þvermál, einföld - tvöfölld. Krónublöðin eru ljósgul. Fræflarnir dökkgulir. Blómbotninn áberandi rauðgulur. Sterkur og góður ilmur. Blómstrar síðsumars og fram á haust. Eins og aðrar rósir er 'Aicha' sólelsk en þolir að vaxa í hálfskugga. Þrífst best í frjóum, vel framræstum jarðvegi á skjólgóðum stað. Blandið moltu eða stöðnu hrossataði saman við jarðveginn við gróðursetningu. Þar sem 'Aicha' er yfirleitt seld ágrædd þarf að gróðursetja hana djúpt þannig að ágræðslustaðurinn sé um 10 sm undir jarðvegsyfirborðinu. Jarðvegurinn má gjarnan vera sand- og malarborinn. Hentar í beð með öðrum rósum, lágvöxnum runnum og jurtum. Millibil um eða yfir 1 m. Einnig er hægt að gróðursetja 'Aicha' við grind upp við vegg og rækta sem klifurrós. 'Aicha' er úr smiðju Valdemar Petersen, Kolding, Danmörku frá sjöunda áratug síðustu aldar. Foreldarar eru terósablendingurinn 'Souvenir de Jack Verschuren' og þyrnirósablendingurinn 'Guldtop'. Rósaætt (Rosaceae).

Sitkavíðir ‘Þruma’ – Salix sitchensis ‘Þruma’

Harðgerður, sumargrænn runni. Hæð 3 - 5 m. Greinar grábrúnar. Árssprotar frekar grannir, rauðbrúnir. Efri hluti þeirra er hærður. Brum rauðbrún, útstæð. Laufblöðin eru mjóöfugegglaga - öfuglenslulaga, meira og minna heilrend og gráleit. Gishært að ofan og silkihært á neðra borði. Nýtt lauf gjarnan rauðbrúnleitt. Gulur haustlitur. Sitkavíðir 'Þruma' er vindþolin. Sólelsk. Hún er laus við asparglyttu sem er mikill kostur. Þrífst best í sæmilega frjóum, rakaheldnum jarðvegi sem gjarnan má vera sendinn og malarborinn. Blandið moltu eða hrossataði saman við jarðveginn við gróðursetningu. Sitkavíðir 'Þruma' hentar í klippt limgerði og skjólbelti. Hæfilegt er að setja 2 - 3 plöntur/m. Klippið 'Þrumu' alla vega einu sinni á ári. Heppilegur tími til klippingar er seinni part vetrar. 'Þruma' er úrvalsyrki úr efniviðnum sem barst hingað úr Alaskaferð Óla Vals og félaga haustið 1985.  Nánar tiltekið er 'Þruma' ættuð frá grifjum/námum við Kopará austan við Cordova í S-Alaska. Víðisætt (Salicaceae).  

Gotareynir – Sorbus teodorii

Sumargrænt tré eða runni. Hæð um eða yfir 2 m. Laufblöðin eru fjöðruð og er endasmáblaðið stærra og þrískipt. Rauðgulir haustlitir. Blómin eru smá, mörg saman, gulhvít í hálfsveip. Berin eru rauð fullþroska á haustin. Gotareynir er "apomictic" smátegund þ.e.a.s. að hann myndar fræ án undangenginnar æxlunar / frjóvgunar. Mjög sjaldgæfur hérlendis en virðist harðgerður. Trúlega sæmilega vind- og saltþolinn. Óvíst er hversu hávaxinn gotareynir getur orðið hérlendis. Hentar í garða og sumarhúsalóðir til að auka fjölbreyttnina. Millibil að minnsta kosti 2 m. Heimkynni: Gotland, Suðurmannaland og Uppland í Svíþjóð. Álandseyjar, Finnlandi og Staldzene, Lettlandi. Rósaætt (Rosaceae).

Steinahnoðri – Phedimus spurius

Harðgerð, jarðlæg sumargræn - hálfsígræn jurt. Hæð 10 - 15 sm. Laufblöðin eru gagnstæð, þykk, öfugegglaga, nýrlaga - hringlaga og tennt á efri hluta blöðkunnar. Blöðin eru gjarnan rauðmenguð á þeim plöntum sem bera rauðleit blóm. Blöðin sitja þétt á endum jarðlægra stöngla. Blómlitur er mismunandi eftir yrkjum / einstaklingum. Blómin eru stjörnulaga, bleik, hvít eða rauð. Þau eru í hálfsveip á stöngulendum. Blómgast síðsumars og fram á haust. Visnar blómskipanir standa uppréttar langt fram á næsta ár. Steinahnoðri er sólelskur. Annars nægjusamur. Þurrkþolinn. Þrífst ekki í blautum jarðvegi. Þrífst vel í sendnum og malarbornum jarðvegi. Hentar í hleðslur, ker og sem kantplanta. Þar sem steinahnoðri er breiðumyndandi hentar hann sem þekjuplanta þar sem er sæmilega sólríkt og ekki mjög ágengt illgresi fyrir. Steinahnoðri dreifir sér all hratt þar sem aðstæður leyfa. Humlur sækja í blóm steinahnoðra. Er sagður aðeins eitraður sé hans neytt. Eldra og betur þekkt fræðiheiti þessa hnoðra er Sedum spurium. Heimkynni: Kákasusfjöll. Hnoðraætt (Crassulaceae).

Baugavíðir ‘Ljúfa’ – Salix ovalifolia ‘Ljúfa’

Harðgerður, sumargrænn dvergrunni. Meira og minna jarðlægur. Hæð 10 - 20 sm. Laufin gljáandi, smá, breið oddbaugótt - öfugegglaga.  Blaðgrunnur bogadreginn. Sljóydd í endann. Blöð gjarnan lítið eitt hærð á neðra borði. Gulir haustlitir. Baugavíðir 'Ljúfa' er sólelskur annars nægjusamur. Hentar helst í hleðslur, steinhæðir og þess háttar. Baugavíður 'Ljúfa' er úrvalsyrki sem Ólafur S. Njálsson valdi úr efniviði þeim sem kom frá Alaska þegar Óli Valur Hansson og félagar voru þar á ferð haustið 1985. Líklega eini baugavíðirinn sem hér er í ræktun. Heimkynni: Alaska og Júkon og Norðvesturhéruðin í Kanada. Vex þar gjarnan í sendnu landi við strendur, í freðmýrum og þess háttar. Víðisætt (Salicaeae).  

Kínalykill – Primula sikkimensis

Harðgerð, fjölær jurt. Hæð 40 - 50 sm. Laufblöðin sitja í jarðlægum hvirfingum. Blöðin eru öfugegglaga - oddbaugótt og bogadregin í oddinn. Mjókka að grunni. Blaðstöngull er styttri en blaðkan. Hrukkótt. Blómin sitja mörg saman í sveip á stöngulendum. Bikarblöð eru brúnleit. Blómin eru ljósgul, drjúpandi og ilma vel. Blómleggir grannir og mélugir. Króna allt að 3 x 3 sm. Blómgast í júní - júlí. Kínalykill þrífst vel í allri sæmilega frjórri og rakaheldinni garðmold. Þolir vel hálfskugga. Hentar í blönduð beð með öðrum fjölæringum eða inn á milli runna. Heimkynni: Himalajafjöll. Maríulykilsætt (Primulaceae).  

Prestabrá – Leucanthemum maximum

Harðgerð, fjölær jurt. Hæð 70 - 90 sm. Laufblöð fremur þykk, aflöng, öfuglensulaga - langlensulaga og gróftennt. Blómkörfurnar stakar á stöngulendum, stórar með hvítar tungukrónur og gular pípukrónur. Minna á blóm baldursbrár en stærri. Blómgast í ágúst og september. Blómsæl. Prestabrá þrífst best í frjórri og rakaheldinni garðmold. Sólelsk en þolir hálfskugga. Sæmilega vindþolin. Prestabrá hentar í beð með öðrum fjölæringum. Hæfilegt millibil við gróðursetningu er um 50 sm. Vekur athygli þegar hún blómstrar með sín stóru blóm síðsumars og fram á haust. Heimkynni: Pýreneafjöll. Körfublómaætt (Asteraceae).

Rökkursteinbrjótur – Saxifraga cuneifolia

Harðgerð, lágvaxin, sígræn, fjölær jurt. Hæð 8 - 20 sm. Laufblöðin sitja í hvirfingum. Sprotar eru jarðlægir og bætast við nýjar blaðhvirfingar út frá þeim eldri. Myndar með tímanum þéttar breiður þar sem aðstæður leyfa. Laufblöðin eru fleyglaga, breið-egglaga eða því sem næst kringlótt. Þverstýfð í endann. Gjarnan tennt í efri hluta blöðkunnar. Blómsönglar rauðleitir og vaxa vel upp fyrir blaðbreiðuna. Bera nokkur eða all mörg, smá, hvít blóm stundum með gulum eða rauðleitum dröfnum. Blómgast í júní - júlí. Líkist smágerðu postulínsblómi (Saxifraga urbium). Rökkursteinbrjótur er skuggþolinn eins og nafnið gefur til kynna. Þrífst best í sæmilega frjóum, rakaheldnum jarðvegi. Jarðvegurinn þarf ekki að vera djúpur. Hentar í beðkanta, hleðslur, ker, potta og sem undirgróður. Þar sem rökkursteinbrjótur er mjög lágvaxinn getur hann ekki keppt við hávaxið, ágengt illgresi. Heimkynni: Fjalllendi Mið- og S-Evrópu. Steinbrjótsætt (Saxifragaceae).

Dröfnusteinbrjótur – Saxifraga rotundifolia

Harðgerð, fjölær jurt. Hæð 30 - 50 sm. Laufblöðin eru nær kringlótt eða nýrlaga, bogtennt, með all langan blaðstilk. Laufið er hálf sígrænt. Blómin eru smá, stjörnulaga og mörg saman á greinóttum, fínlegum blómstilkum og ná vel upp fyrir blaðbreiðuna. Blómin eru hvít með rauðum dröfnum. Blómgast í júlí. Dröfnusteinbrjótur er fremur skuggþolinn. Þrífst best í rakaheldnum jarðvegi. Hentar í steinhæðir og hleðslur þar sem jarðvegur er ekki of þurr. Einnig sem þekju- og kantplanta. Heimkynni dröfnusteinbrjóts eru í fjöllum Mið- og S-Evrópu þ.e.a.s. á Íberíuskaga, Ölpunum og Balkanskaga. Steinbrjótsætt (Saxifragaceae).

Japanselri / Fjallelri – Alnus maximowiczii

Harðgerður, stórvaxinn, sumargrænn runni eða lágvaxið tré. Ein- eða margstofna. Hæð 3 - 7 m. Börkur grár. Árssprotar og brum dökkbrún eða því sem næst svört. Laufin eru gljáandi, egglaga fín-sagtennt með hjartalaga grunni. Brúnleitir haustlitir eða frýs grænt. Blómstrar rétt fyrir laufgun í  maí. Karlreklar aflangir, gulgrænir, drjúpandi og um 5 sm langir. Kvenreklar, smáir í fyrstu og rauðleitir. Að hausti líkjast kvenreklarnir litlum, könglum. Þeir eru um 2 sm á lengd, egglaga og grænir en brúnleitir fullþroska. Sitja á greinunum fram á vetur. Sólelskt. Niturbindandi eins og aðrar tegundir elris. Gerir því litlar kröfur til jarðvegs. Japanselri er enn tiltölulega sjaldgæft en hefur hingað til reynst harðgert. Japanselri hentar í runnaþyrpingar, skjólbelti og þess háttar. Millibil 1,5 m. Heimkynni: Til fjalla í mið- og N-Japan, Kóreu og A-Rússlandi. Japanselrið sem er í ræktun hérlendis mun allt vera ættað frá Hokkaido, Japan. Var það Ólafur S. Njálsson sem safnaði þar fræi og kom með til landins árið 1996. Okkar plöntur eru ræktaðar upp af fræi sem safnað hefur verið hérlendis. Líklegt er að japanselri myndi kynblendinga með öðrum elritegundum sem hér vaxa.