NÝJAR PLÖNTUR

Bogsýrena ‘Mjallhvít’ – Syringa komarowii subsp. reflexa

Harðgerður, stórvaxinn runni. Blómin holdlituð í knúpp en hvít útsprungin, í stórum, drjúpandi klösum miðsumars. Ilmar. Hæð 3 - 4,5 m. Móðurplantan er i garði við Skerseyrarveg í Hafnarfiði og er greinilega margra áratuga gömul. Ekkert er nánar vitað um uppruna hennar. Blómstrar sum ár mjög mikið og önnur minna. Þrífst í allri sæmilega frjórri, framræstri garðmold. Blómgast mest í fullri sól. Bogsýrena 'Mjallhvít' hentar stakstæð, í raðir og þyrpingar, sem skraut í skógarlundi og í bland með öðrum runnagróðri. Millibil í upphafi 1 - 1,5 m. Náttúruleg heimkynni bogsýrenu eru í fjalllendi Kína.

Lambarunni – Viburnum lantana

All harðgerður, sumargrænn runni. Hæð: 2 - 3 m hérlendis. Laufin gagnstæð, sporöskjulaga - lensulaga og tennt. 6 - 13 sm á lengd og 4 - 9 sm á breidd. Dúnhærð á neðra borði en nánast hárlaus að ofan. Blómin eru smá, mörg saman í sveip, rjómahvít fyrri part sumars. Það vottar strax fyrir blómsveipunum á greinarendum haustið áður. Berin sem þroskast á haustin eru í raun steinaldin. Fyrst græn, svo rauð og fullþroska svört. Berin eru óæt. Frýs gjarnan grænn en haustlitur annars rauður. Lambarunni þrífst best í ögn basískum, frjóum, framræstum jarðvegi. Þolir hálfskugga. Þarf nokkurt skjól. Verður gjarnan nokkuð breiður með tímanum. Millibil 1 m eða meir. Heimkynni: Mið-, Suður- og V-Evrópa, NV-Afríka og SV-Asía.

Demantsvíðir ‘Kodiak’ – Salix pulchra ‘Kodiak’

Harðgerður, þéttur runni. Hæð um 1,5 m. Greinar og sprotar áberandi rauðbrúnar. Laufin eru sporöskjulaga - lensulaga, hárlaus, ydd og gljáandi á efra borði. Blágræn á því neðra. Stöku lauf sitja á runnanum allan veturinn. Það á sama á við um axlarblöðin sem eru mjó og nokkrir millimetrar á lengd. Silfur-loðnir reklar birtast seinni part vetrar (feb/mars). Sólelskur. Demantsvíðir þrífst í öllum sæmilega frjóum og rakaheldnum jarðvegi. Hentar í runnaþyrpingar einn og sér eða í bland með öðrum tegundum. Hentar sjálfsagt í lægri limgerði. Millibil 50 - 100 sm. Yrkinu 'Kodiak' var safnað á Kodiakeyju við Alaska í leiðangri Ólafar S. Njálssonar, Nátthaga og Pers í Mörk árið 1994. Heimkynni demantsvíðis eru auk Alaska, NV-Kanada og NA-Rússland.

Garðahálmgresi ‘Karl Foerster’ – Calamagrostis x acutiflora ‘Karl Foerster’

Harðgert, fjölært skrautgras. Hæð: 1 - 1,5 m. Uppréttur vöxtur. Axið er fyrst grænleitt en síðan hálmlitað. Visin öxin standa meira og minna allan veturinn. Klippið visin blöð og stöngla niður í um 15 sm stubba snemma vors (apríl  - maí). Sólelskt en þolir hálfskugga. Þrífst í allri venjulegri garðmold. Má vera vel rök eða allt að því blaut. Skríður ekki út. Garðahálmgresi 'Karl Foerster' fer vel aftarlega í blómabeðum eða fleiri saman í þyrpingum. Hentar einnig í ker og potta. Millibil: 60 - 70 sm. Skrautgras þetta hefur stundum í hæðni verið nefnt "braggagras" eða "braggastráin" eftir að talsvert magn af umræddu grasi var gróðursett við braggann í Nauthólsvík, Rvk. Radaði þetta í fjölmiðla og vakti talsverða athygli á sínum tíma. Garðahálmgresi er ófrjór tegundarblendingur á milli C. epigejos  og C. arundinacea sem báðar eru upprunar í Evrasíu. Yrkið er kennt við þýska garðyrkjumanninn Karl Foerster (1874 - 1970).

Meyjarós / Hæðarós ‘Highdownensis’ – Rosa moyesii ‘Highdownensis’

Fremur harðgerð, hávaxin runnarós. Hæð: 3 - 4 m. Greinar fyrst uppréttar. Síðan útsveigðar. Laufin stakfjöðruð. 9 - 11 smáblöð. Dökkgræn og mött á efra borði. Blaðstilkar þyrnóttir. Greinar og sprotar þyrnótt. Blómin all stór, einföld, rauðbleik. Daufur ilmur. Blómgast í júlí - ágúst. Krónublöðin ljósari neðst. Gulir fræflar. Þroskar rauðgular, flöskulaga nýpur á haustin sem standa fram á vetur. Sólelsk. Meyjarós 'Highdownensis' fer vel stakstæð eða aftarlega í runna- og blómabeðum. Plássfrek. Mætti nota sem klifurrós á vegg. Getur einnig prílað upp tré. Þrífst í sæmilega frjóum, framræstum jarðvegi. Má gjarna vera sand- og malarborinn. 'Highdownensis' er ættuð frá F.C. Stern frá árinu 1928 og kennd við garð hans, Highdownensis, Sussex, Englandi. 'Highdownensis' er ýmist talin vera meyjarós eða meyjarósarblendingur (R. highdownensis) þar sem hitt foreldrið er óþekkt. Náttúruleg heimkynni meyjarrósar eru í V-Kína.

Blóðbeyki – Fagus sylvatica ‘Purpurea’

Sæmilega harðgert, þétt, fremur hægvaxta tré. Hæstu blóðbeyki hérlendis eru hátt 8 m há. Getur sjálfsagt náð 12 m hæð eða meir á bestu stöðum. Laufin áberandi purpurarauð/vínrauð. Dökkgræn/blágræn í skugga. Laufgast um mánaðarmótin maí/júní. Laufin sitja visin, ljósbrún á greinum yngri trjáa og á neðstu greinum á eldri trjám allan veturinn. Sólelskt. Almennt heilbrigt. Blóðbeyki þarf sæmilega djúpan, frjóan og vel framræstan jarðveg. Hentar aðeins til ræktunar í sæmilega grónum hverfum og í skógarskjóla ekki of langt inn til landsins. Aðallega gróðursett stakstætt. Millibil 3 m eða meir. Blóðbeyki er stökkbreyting af venjulegu beyki (F. sylvatica) sem hefur óvenju mikið af "anthocyanin" litarefni. Blóðbeyki er fyrst talið hafa fundist í skógi við bæinn Sondershausen í Thuringia í Þýskalandi árið 1690. Talið er að stærstur hluti blóðbeykitrjáa í dag reki uppruna sinn til þessa trés.

Villijarðarber – Fragaria vesca

Harðgerð, lágvaxin, íslensk jurt. Laufblöðin þrífingruð. Smáblöðin tennt og silfurhærð á neðra borði. Blómin hvít með fimm krónublöðum og gulum fræflum og frævum. Blómgast frá því í júní og fram eftir sumri. Síðsumars geta verið blóm og þroskuð ber á sömu plöntunni. Berin eru fremur lítil en bragðgóð og þroskast síðsumars og fram á haust. Berin eru í raun útbelgdur blómbotn og aldinin (hneturnar) sitja þar utan á. Dreifir sér kynlaust með jarðlægum renglum. Þolir vel hálfskugga en þá verður minni berjaþroski. Þrífst vel í öllum sæmilega frjóum, vel framræstum jarðvegi. Heimkynni: Víða á norðurhveli jarðar þar með talið Ísland.

Kristþyrnir ‘Alaska’ – Ilex aquifolium ‘Alaska’

Sæmilega harðgerður, sígrænn, þéttur, hægvaxta runni eða lítið tré. Vaxtarlagið breiðkeilulaga. Hefur náð um 3 m hæð hérlendis. Getur sjálfsagt orðið hærri með tímanum á góðum stöðum. Laufin eru stíf viðkomu, dökkgræn að ofanverðu með bylgjaðan og þyrnóttan blaðjaðar. Blómin smá, hvít, ilmandi, mörg saman fyrri part sumars. Aldinið rautt, óætt ber eða réttara sagt steinaldin. 'Alaska' er sjálffrjóvgandi þýskt yrki frá því um 1960. Sé karlplanta í grennd getur það þó aukið aldinmyndun. Einn harðgerðasti kristþyrnirinn. Kristþyrnir þrífst aðeins í skjólgóðum görðum. Þolir vel að vaxa í hálfskugga t.d. í skógarskjóli hærri trjáa og runna. Skýlið alla vega fyrsta veturinn eftir gróðursetningu. Þrífst í allri venjulegri, rakaheldinni garðmold, þó ekki í blautum jarðvegi. Gerar engar sérstakar kröfur til sýrustigs jarðvegs. Þolir ágætlega klippingu. Klippið helst síðvetrar ef þörf er á. Tegundin kristþyrnir (I. aquifolium) vex villt víða í Evrópu, NV-Afríku og Litlu-Asíu.

Möndluvíðir – Salix triandra

All harðgerður runni. Hæð 2 - 4 m. Lauf 5 - 10 sm á lengd, lensulaga, hárlaus, sagtennt, græn að ofan, ljósgræn að neðan. Axlarblöð áberandi, langæ. Sprotar nánast hárlausir og fremur grannir. Greinar fremur samofnar og hlykkjóttar. Henta til skreytinga. Blómgast um það leyti sem hann laufgast seinni part maí eða í byrjun júní. Sólelskur. Möndluvíðir hentar í raðir, þyrpingar og blönduð runnabeð. Millibil um 1 - 1,5 m. Vex best í frjóum, rakaheldnum jarðvegi. Þolir jafnvel blautan jarðveg. Sjaldgæfur hérlendis. Höfum verið með kk og kvk yrki. Kk yrkið er ættað frá Haparanda, Svíþjóð sem stendur við Helsingjabotn. Það var Jóhann Pálsson fyrrverandi garðyrkjustjóri Rvk sem kom með græðlinga af því yrki til landsins á sínum tíma. Möndluvíðirinn okkar gæti verið af undirtegundinni S. triandra var. hoffmanniana en sú undirtegund er lágvaxnari, með áberandi samofnar greinar og með laufum sem eru ekki blá- eða gráleyt á neðra borði samanborið við dæmigerðan möndluvíðir sem er almennt hávaxnari og með beina sprota sem mikið eru notaðir til körfugerðar erlendis. Heimkynni: Evrópa, vestur og M-Asía.

Kólýmavíðir / Fljótavíðir ‘Hólmfríður’ – Salix schwerinii ‘Hólmfríður’

All harðgerður, stórvaxinn, hraðvaxta runni eða margstofna tré. Hæð um 3 - 5 m eða jafnvel meir. Laufin eru mjó-lensulaga, 15-20 sm á lengd, silkidúnhærð að neðan og langydd. Nær hárlaus að ofan. Vex best í næringarríkum, sæmilega rökum jarðvegi. Sólelskur. Kólýmavíðir fer vel við tjarnir, læki og þess háttar. Best fer á því að klippa hann niður annað til þriðja hvert ár til halda honum þéttum og frísklegum. Við reglulega niðurklippingu myndar kólýmavíðir langar víðitágar sem ættu að henta til körfugerðar og þess háttar. Yrkið 'Hólmfríður' er gjöf til Hólmfríðar Finnbogadóttur (1931 - 2019) sem var lengi formaður og síðan framkvæmdastjóri Skógræktarfélags Hfj frá Brynjólfi Jónssyni framkvæmdastjóra Skógræktarfélags Íslands. Yrki þetta er vaxið upp af græðlingum sem teknir voru í Esso (söfnunarnr. 93-053) á Kamsjatka-skaganum í Rússlandi í ferð Brynjólfs og Óla Vals til Kamsjatka árið 1993. Kólýmavíðir er sjaldæfur hérlendis. Minnir í útliti á körfuvíði (S. viminalis). Heimkynni: NA-Asía.

Skriðtoppur – Lonicera prostrata

All harðgerður, jarðlægur runni. Hæð um eða yfir 30 sm. Þekjandi. Laufin fremur smá, nær stilklaus, oddbaugótt eða egglaga. Blómin smá, í blaðöxlunum, tvö og tvö saman, gulleit fyrri part sumars. Þroskar rauð ber á haustin. Þrífst í allri venjulegri garðmold. Þolir hálfskugga. Hentar sem undirgróður, í hleðslur og framanlega í beð. Heimkynni: V-Kína. Verður vonandi fáanlegur sumarið 2025.

Blátoppur ‘Rúnar’ – Lonicera caerulea ‘Rúnar’

Harðgerður, þéttur runni. Hæð 1,5 - 2,3 m. Laufin eru sporöskjulaga, heilrennd og mött. Laufgast gjarnan snemma í maí. Lauf skærgræn í fyrstu en dökk-blágræn þegar líður á sumarið. Haustlitur gulur - brúnn. Sprotar rauðleitir. Ungar greinar rauðbrúnar. Brumin gagnstæð og er það áberandi að þau sitja nokkur saman. Blómin eru gulgræn, tvö og tvö saman fyrri part sumars. Aldinið er dökkblátt ber. Blóm og aldin eru ekki áberandi. Berin eru ekki bragðgóð. Blátoppur er all skuggþolinn. Almennt heilbrigður. Þolir vel klippingu. Þetta yrki gæti verið 'Bergur'. Heimkynni: Kaldtempruð svæði í N-Ameríku, Evrópu og Asíu.