NÝJAR PLÖNTUR

Kínareynir ‘Bjartur’ – Sorbus vilmorinii ‘Bjartur’

Lítið tré eða stór runni (3 - 5 m). Virðist harðgerður. Vaxinn upp af fræi sem Ólafur Njálsson í Nátthaga, Ölfusi safnaði af reynirunna í N-Wales haustið 1989. 'Bjartur' var valinn til áframhaldandi ræktunar af þeim 5 plöntum sem komu upp. Virðist fræekta (apomixis). Hvítir blómsveipir birtast snemmsumars. Bleik ber þroskast á haustin. Rauðir haustlitir. Berin hanga á trjánum fram á vetur þar sem fuglar eru ekki sólgnir í þau. Þolir hálfskugga. Óvíst er hvort að um ekta kínareyni sé að ræða. 'Bjartur' hentar sem garðtré í t.d. litla garða. Þrífst í venjulegri, vel framræstri garðmold sem gjarnan má vera sand- og/eða malarborin.

Fjallarifs / Alparifs ‘Dima’ – Ribes alpinum ‘Dima’

Harðgerður, þéttur, heilbrigður runni. Laufgast snemma eða í lok apríl - maí. All skuggþolið. Mest notað í klippt limgerði. Hæð: 1,5 - 1,7 m. Það má auðveldlega halda því lægra með klippingu. Venjulega eru settar niður þrjár plöntur á hvern metra. Fremur hægvaxta. Gulir haustlitir. Fjallarifs er mjög mikið gróðursett í limgerði hérlendis. Hentar víðast hvar í byggð hérlendis nema á mjög vindasömum stöðum t.d. við sjó á útnesjum. Þá hentar jörfavíðir, alaskavíðir og strandavíðir betur. 'Dima' er kvenkyns yrki sem reynst hefur vel. Getur þroskað rauð, bragðdauf ber á haustin. Því ekki ræktað sem berjarunni! Aðallega fáanlegt á vorin og fyrri part sumars sem berrótarplöntur. Þrífst vel í allri venjulegri garðmold. Blandið búfjáráburði eða molti í jarðveginn áður eða þegar fjallarifs er gróðursett. Vökvið vel eftir gróðursetningu og næstu daga á eftir.

Japanskvistur ‘Odensala’ / Valhallarkvistur – Spiraea japonica ‘Odensala’

Harðgerður, lágvaxinn, þekjandi runni. Lillableikir, all stórir blómsveipir birtast síðsumars. Ekki sérlega blómviljugur. Rauðir haustlitir. Rótarkerfið er aðeins skriðult. Þolir hálfskugga. Hentar sem þekjandi kantplanta. Millibil 70 - 80 sm. Finnskt yrki.

Reyniblaðka ‘Sem’ – Sorbaria sorbifolia ‘Sem’

All harðgerður skrautrunni. Laufið stakfjaðrað, gulgrænt. Yngsta laufið bleikleitt/bronslitað. Laufgast snemma vors. Kelur stundum. Hæð: 1 - 1,5. Lágvaxnari en reyniblaðka 'Pia'. Lítið skriðul. Þolir vel hálfskugga en litirnir verða sterkastir í góðri birtu. Hvítir uppréttir blómklasar birtast síðsumars (ágúst). Þrífst vel í allri venjulegri garðmold. Millibil um 70 - 100 sm. Reyniblaðka 'Sem' hentar í blönduð runna- og blómabeð, ker og þess háttar. Hollenskt yrki.

Hjartarfífill – Doronicum orientale

Harðgerð, fjölær jurt. Laufið hjartalaga eða hóflaga og gróftennt. All þekjandi. Gular blómkörfur vaxa upp í 40 - 50 sm hæð í maí - júní. Ein og ein karfa á það til að birtast fram á haust. Þolir hálfskugga. Hentar í blönduð beð, raðir og þyrpingar með um 50 - 60 sm millibili. Algengur og auðræktaður í allri venjulegri garðmold. Ættaður frá SA-Evrópu og hluta SV-Asíu. Ekki frá A-Asíu eins og fræðiheitið gæti vísað til! Sagður eitraður og því ekki hæfur til manneldis.

Rós ‘Mrs John McNab’ – Rosa ‘Mrs John McNab’

All harðgerður eða harðgerður ígulrósablendingur. Blómin eru fyllt, fölbleik og ilmandi. Blómgast upp úr miðju sumri. Runnarós. Hæð: 1,5 m. Sólelsk. Úr smiðju Skinner, Kanada, 1941.

Garðablágresi – Geranium pratense f. albiflorum

Harðgerð, fjölær jurt. Blómin hvít miðsumars. Grunnlauf allt að 20 sm breið, skipt í 7-9 mjóa flipa, fjaðurskipta. Hæð: um og yfir 50 sm. Þolir hálfskugga. Hentar í blómabeð og blómaengi.

Fjalldalafífill – Geum rivale

Harðger, villt, íslensk jurt. Hæð um 30 - 40 sm. Blómin ferskjulituð og drjúpandi. Blómgast miðsumars. Laufin fjöðruð, loðin og tennt. Hvert aldin er með langri loðinni trjónu. Þrífst best í sæmilega frjóum, rakaheldnum jarðvegi. Hentar í blómabeð með öðrum fjölæringum og runnum og í villigarða.

Ilmblágresi / Ilmgresi ‘Spessart’ – Geranium macrorrhizum ‘Spessart’

Harðgerður, fremur lágvaxinn, þekjandi fjölæringur. Ilmandi blöðin eru djúpflipótt eða sepótt, ljósgræn og þéttsett kirtilhárum, hálfsígræn. Blómgast upp úr miðju sumri. Blómin hvít en bikarinn rauður. Úrvals þekju- og kantplanta. Ilmblágresi breiðist út með þykkum jarðstönglum. Hæfilegt millibil er 40 - 60 sm. Þrífst best í frjóum, sæmilega framræstum jarðvegi. Þolir vel hálfskugga.

Bláfífill – Cicerbita alpina

Harðgerð, hávaxin, fjölær jurt. Blómkörfurnar fjólubláar með eingöngu tungukrónum í löngum greinóttum toppum. Laufið minnir á lauf túnfífils en stórvaxnara. Getur þurft uppbindingu. Þarf frjóan, rakaheldinn jarðveg. Blómgast miðsumars. Á það til að sá sér eitthvað út. Þolir vel hálfskugga. Hentar aftarlega í blóma- og runnabeð. Heimkynni: Fjalllendi Evrópu, austur til Úralfjalla í Rússlandi.

Gljákastanía – Aesculus glabra

Viðkvæmt tré. Reynsla af ræktun gljákastaníu hérlendis er lítil sem engin. Laufblöðin eru fingruð. Heimkynni austanverð Bandaríkin.

Sýrena ‘Bríet’ – Syringa ‘Bríet’

Harðgerður, stórvaxinn runni eða lítið tré. Hæð 4 - 5 m. Laufgast seinna en aðrar sýrenur og verður því ekki fyrir "vor-kvefi". Laufið er einnig smærra en á flestum öðrum sýrenum sem hér eru í ræktun. Blómin eru mörg saman í klasa, laxableik og ilmandi. Blómgast í júlí. Þolir vel hálfskugga. Móðurplantan stendur í garði í Þingholtunum í Reykjavík. Stórvaxnasta sýrenan sem hér er í ræktun. Sýrena 'Bríet' hentar stakstæð, í raðir, þyrpingar og blönduð runna- og blómabeð. Gæti jafnvel hentað í skjólbelti. Millibil að minnsta kosti 1,5 m. Yrkið er kennt við Bríet Bjarnhéðinsdóttur (1856 - 1940).