NÝJAR PLÖNTUR

Japanselri / Fjallelri – Alnus maximowiczii

Harðgerður, stórvaxinn, sumargrænn runni eða lágvaxið tré. Ein- eða margstofna. Hæð 3 - 7 m. Börkur grár. Árssprotar og brum dökkbrún eða því sem næst svört. Laufin eru gljáandi, egglaga fín-sagtennt með hjartalaga grunni. Brúnleitir haustlitir eða frýs grænt. Blómstrar rétt fyrir laufgun í  maí. Karlreklar aflangir, gulgrænir, drjúpandi og um 5 sm langir. Kvenreklar, smáir í fyrstu og rauðleitir. Að hausti líkjast kvenreklarnir litlum, könglum. Þeir eru um 2 sm á lengd, egglaga og grænir en brúnleitir fullþroska. Sitja á greinunum fram á vetur. Sólelskt. Niturbindandi eins og aðrar tegundir elris. Gerir því litlar kröfur til jarðvegs. Japanselri er enn tiltölulega sjaldgæft en hefur hingað til reynst harðgert. Japanselri hentar í runnaþyrpingar, skjólbelti og þess háttar. Millibil 1,5 m. Heimkynni: Til fjalla í mið- og N-Japan, Kóreu og A-Rússlandi. Japanselrið sem er í ræktun hérlendis mun allt vera ættað frá Hokkaido, Japan. Var það Ólafur S. Njálsson sem safnaði þar fræi og kom með til landins árið 1996. Okkar plöntur eru ræktaðar upp af fræi sem safnað hefur verið hérlendis. Líklegt er að japanselri myndi kynblendinga með öðrum elritegundum sem hér vaxa.

Svartyllir ‘Black Beauty’ – Sambucus nigra ‘Black Beauty’

Sæmilega harðgerður lauffellandi skrautrunni. Hæð 1,5 - 2 m. Getur ef til vill orðið hærri á góðum stöðum hérlendis. Laufin vínrauð - rauðbrún, stakfjöðruð. Blómin ilmandi, fölbleik, smá, mörg saman í sveip í lok júlí eða ágúst. Haustkelur gjarnan. Þolir vel klippingu. Sólelskur. Í skugga verða laufin grænni en ella. Svatyllir þrífst í sæmilega frjóum, rakaheldnum jarðvegi. Blandið moltu eða gömlu hrossataði saman við jarðveginn við gróðursetningu. Svartyllir 'Black Beauty' fer vel í blönduðum beðum með runnum og jurtum. Millibil 1 m eða meir. Yllisætt (Adoxaceae).

Vorlyng ‘Rosalie – Erica carnea ‘Rosalie’

All harðgerður, sígrænn dvergrunni. Laufblöð smá og nállaga. Græn - bronslit. Hæð: 15 sm. Blómin smá, klukkulaga, bleik snemma á vorin. Sólelskt. Vorlyng gerir ekki sérstakar kröfur til þess að jarðvegur sé súr. Íslensk mómold hentar því vel. Blandið saman við moldina gömlum furunálum. Millibil 30 - 40 sm. Hentar framarlega í beð með sígrænum gróðri sem gerir svipaðar kröfur til jarðvegs eins og barrviðir og lyngrósir. Gjarnan fer vel á því að gróðursetja nokkur vorlyng saman í þyrpingar. Þarf vetrarskýli á skjóllausum svæðum. Þýskt yrki. Náttúruleg heimkynni vorlyngs eru í fjalllendi Suður-, Mið- og A-Evrópu.

Rós ‘Lac Majeau’ – Rosa ‘Lac Majeau’

All harðgerð runnarós. Hæð 70 - 100 sm eða hærri á góðum stöðum. Lítið þyrnótt. Laufblöð mött. Ígulrósablendingur (R. rugosa) Rauðleitir blómknúppar. Blómin sitja gjarnan nokkur saman á greinarendum. Blómin hvít, hálffyllt með gulleitum fræflum og ilmandi. Blómgast síðsumars og fram á haust. Stundum þroskast rauðleitar nýpur á haustin. Sólelsk en sögð þola hálfskugga. Þrífst best í sæmilega frjóum, framræstum jarðvegi sem gjarnan má vera blandaður sandi og möl. Blandið gömlum búfjáráburði eða moltu í jarðveginn við gróðursetningu. 'Lac Majeau' hentar í blönduð beð með öðrum rósum, runnum og fjölæringum. Millibil 80 - 100 sm. 'Lac Majeau' er gjarnan seld ágrædd. Við gróðursetningu er best að ágræðslustaðurinn fari 10 sm undir jarðvegsyfirborðið. Uppruni: Georges Bugnet, Kanada fyrir árið 1981.

Kristsþyrnir ‘Blue Princess’ – Ilex x meserveae ‘Blue Princess’

Þokkalega harðgerður, þéttur, sígrænn runni. Hæð um 1 - 1,5 m. Getur hugsanlega orðið hærri við góðar aðstæður. Laufblöðin blágræn og þyrnótt á jöðrunum. Sprotar og ungar greinar dökk-fjólublá. Blómin smá, hvít fyrri part sumars. 'Blue Princess' er kvk yrki. Þroskar rauð ber á haustin sé karlplantna í grennd. Berin endast gjarnan fram á vetur. Þrífst í frjórum, vel framræstum, aðeins súrum jarðvegi. Með harðgerðustu kristsþyrnum fyrir íslenskar aðstæður. Ilexmeserveae er blendingur á milli I. aquifolium og I. rugosa. Það var Kathleen K. Meserve frá St. James, New York sem upp úr 1950 víxlaði og kom á markaðinn yrkjum þessa blendings með það að markmiði að fá fram harðgerða kristsþyrna fyrir norðanverð Bandaríkin.

Kristsþyrnir ‘Blue Prince’ – Ilex x meserveae ‘Blue Prince’

Þokkalega harðgerður, hægvaxta, sígrænn, þéttur runni. Laufið blágrænt og þyrnótt á jöðrunum. Sprotar og ungar greinar dökk-fjólublá. Blómin smá, hvít fyrri part sumars. Þolir að vaxa í hálfskugga. Karlkyns yrki. Hentar sem frjógjafi fyrir kvk yrkin 'Blue Princess' og 'Blue Angel'. Þrífst í frjórum, vel framræstum, aðeins súrum jarðvegi. Með harðgerðustu kristsþyrnum fyrir íslenskar aðstæður. 'Blue Prince' hentar í blönduð beð með t.d. öðrum sígrænum runnum eins og auðvitað kvk yrkjum kristsþyrnis á borð við 'Blue Angel' og 'Blue Princess'. Hentar einnig með lyngrósum en kristsþyrnar gera svipaðar kröfur til jarðvegs og skjóls. Ilexmeserveae er blendingur á milli I. aquifolium og I. rugosa. Það var Kathleen K. Meserve frá St. James, New York sem upp úr 1950 víxlaði og kom á markaðinn yrkjum þessa blendings með það að markmiði að fá fram harðgerða kristsþyrna fyrir norðanverð Bandaríkin.  

Bjarmarós ‘Maxima’ – Rosa alba ‘Maxima’

Sæmilega harðgerð runnarós / antíkrós. Hæð allt að 1,5 m. Greinar gisþyrnóttar. Blóm fölbleik í knúpp. Rjómahvít, meðalstór, fyllt og ilmandi útsprungin. Blómgast í nokkrar vikur síðsumars. Laufblöðin stakfjöðruð, grágræn. Sólelsk og skjólþurfi. Þrífst best í sæmilega frjóum jarðvegi. Blandið gömlu hrossataði eða moltu saman við jarðveginn við gróðursetningu. Berið á tilbúinn áburð einu sinni til tvisvar í kringum rósina á vorin og fyrri part sumars sem nemur um einni matskeið. Klippið aðeins kalnar greinar í maí / júní. 'Maxima' hentar í rósabeð við vegg á móti sól eða annars staðar með rósum og jurtum í góðu skjóli og sól. Getur hentað sem klifurrós á grind við vegg. 'Maxima' er mjög gamalt yrki af óþekktum uppruna.

Sýrena ‘Hallveig’ – Syringa ‘Hallveig’

Harðgerður, fremur stórvaxinn, sumargrænn runni. Hæð 2 - 3 m. Laufin sitja gagnstætt á greinunum. Þau eru oddbaugótt - lensulaga. Ung lauf áberandi rauðbrún. Ungir sprotar eru áberandi dökkir. Óútsprungnir blómklasar dökk-fjólubláir. Útsprungin eru blómin lillableik og ilma. Byrjar að blómstra fyrr en aðrar sýrenur hérlendis eða seinni part júní eða í byrjun júlí. Blómviljug. Upprunanlega móðurplantan var gróðursett í Hallargarðinn við Lækjargötu í Rvk í kringum árið 1985. Hún hafði komið upp af fræi frá Milde grasagarðinum í Bergen, Noregi árið 1981. 'Hallveig' líkast helst gljásýrenu (S. josikaea) og er trúlega blendingur hennar. 'Hallveig' er því íslenskt úrvalsyrki valin af yrkisnefnd Yndisgróðurs árið 2013 og skýrð í höfuðið á Hallveigu Fróðadóttur eiginkonu landnámsmannsins Ingólfs Arnarsonar. Þrífst í allri sæmilega frjórri garðmold. Sólelsk en þolir hálfskugga.  'Hallveig' hentar stakstæð, aftarlega í beðum í bland með öðrum gróðri, í þyrpingar og raðir og í skjólbelti með um 1,5 - 2 m millibili. Þolir ágætlega klippingu. Smjörviðarætt (Oleaceae).

Rós ‘Morden Sunrise’ – Rosa ‘Morden Sunrise’

Lágvaxin runnarós. Hæð um 80 sm. Laufin eru þrífingruð eða stakfjöðruð, tennt og gljáandi. Blómin eru rauðgul í knúpp. Útsprungin eru þau tvöfölld, ilmandi og í fyrstu rauðgul síðan gul og loks fölgul. Blómgast síðsumars. Sólelsk. Þrífst í sæmilega frjóum, framræstum jarðvegi á skjólsælum stað. Setjið gamalt hrossatað eða moltu í holuna við gróðursetningu. Berið tilbúinn áburð eða vökvið með áburðarvatni einu sinni eða tvisvar árlega eftir það í lok maí og aftur í lok júní. Úr smiðju L. M. Collicutt og C. G. Davidson, Kanada frá árinu 1991. Hefur reynst vel hérlendis í skjólgóðum görðum. Rósaætt (Rosaceae).

Glæsireynir – Sorbus sp. aff. filipes

All harðgerður, sumargrænn, stórvaxinn runni. Hæð um 2 m og breidd um 1,5. Greinar gjarnan útsveigðar. Laufið stakfjaðrað og matt. Berin ljós með bleikum skellum í klösum á haustin. Vaxtarlag minnir á koparreyni (S. frutescens). Umræddur reynir kom upp af fræi frá H. McAllister, Liverpool í kringum aldamótin 2000. Trúlega ekki rétt greindur til tegundar. Glæsireynir fer vel stakstæður, aftarlega í beðum og í röðum og þyrpingum með um 1,5 m millibili. Heimkynni að öllum líkinum fjalllendi Kína. Rósaætt (Rosaceae).

Ígulrós ‘Jóhanna’ – Rosa rugosa ‘Jóhanna’

Mjög harðgerð, fremur hraðvaxta, all stórvaxin runnarós. Hæð um 2 m. Greinar brúnar, talsvert þyrnóttar og gjarnan útsveigðar í endann á kröftugum sprotum. Laufin stakfjöðruð. Gulir haustlitir. Blómin einföld, all stór, rauðfjólublá og ilmandi með gulum fræflum. Blómgast í júlí - september. Rauðar, flathnöttóttar nýpur þroskast á haustin sem nýta má til manneldis. Vind- og saltþolin. Skríður út með rótarskotum. Þrífst og blómstrar mest á sólríkum stað í sæmilega frjóum, framræstum jarðvegi sem gjarnan má vera blandaður sandi og möl. 'Jóhanna' hentar í raðir og þyrpingar með um 1 m millibili. Hentar í brekkur, umferðareyjar, opin svæði, í jaðar skjólbelta og villigarða. Hentar eingöngu saman með öðrum gróðri sem þolir vel samkeppni eins og t.d. aðrar skriðular rósir og saman með skriðulum kvistum og hávöxnum fjölæringum. 'Jóhanna' mun vera kennd við Jóhann Pálsson grasafræðing og rósakynbótamann. Rósaætt (Rosaceae).

Vorsópur ‘Allgold’ – Cytisus x praecox ‘Allgold’

Sæmilega harðgerður skrautrunni. Hæð um 1 m. Greinar sígrænar. Laufblöðin smá, silkihærð í fyrstu en lítt áberandi. Blómin eru dæmigerð ertublóm, ljósgul, ilmandi og þekja gjarnan runnann í júní og fram í júlí. Blómin eru ljósari samanborið við blóm geislasóps (C. purgans). Sólelskur. Niturbindandi. Þrífst best í vel framræstum jarðvegi sem má vera blandaður sandi og möl. Þurrkþolinn. Vorsópur 'Allgold' kelur gjarnan í greinaendana. Klippið kalið í burt á vorin (maí). Best er að klippa sópa með góðum skærum þar sem greinarnar eru svo þunnar. Vorsópur 'Allgold' fer vel í hleðslum, köntum og í blönduðum beðum í sæmulegu skjóli og á móti sól. Millibil: 80 sm. Vorsópur er blendingur Cytisus multiflorus og geislasóps. Vorsópur er ekki eins harðgerður og geislasópur. Ertublómaætt (Fabaceae).