„Hansarós“ – Rosa rugosa ‘Hansa’
Harðgerð, meðalstór runnarós af ígulrósakyni (R. rugosa). Blómin stór, vel fyllt, rauðfjólblá og ilmandi. Blómgast frá því í júlí og eitthvað fram á haustið. Blómviljug. Þroskar lítið sem ekkert af nýpum. Rauðgulir haustlitir. Mjög algeng hérlendis. Mest notuð í raðir og þyrpingar. Hentar vel í limgerði sem ekki eru "stífklippt". Millibil um 80 sm. Vind- og saltþolin. Skríður eitthvað út sé hún á eigin rót. Stundum kölluð "Vestmannaeyjarós". Tvímælalaust algengasta rósin í íslenskum görðum. Ekki er óalgengt að ígulrósir (R. rugosa) séu í daglegu tali kallaðar "hansarósir" þó að í raun eigi það aðeins við um þetta tiltekna yrki af ígulrós. Gamalt hollenskt yrki.
„Páfarós“ – Rosa ‘Poppius’
Mjög harðgerð, meðalstór runnarós. Þyrnirósablendingur. Blómin fremur smá, hálffyllt, lillableik. Daufur ilmur. Smágerðar, dökkar nýpur. Rauðgulir haustlitir. Sólelsk. Ekki svo skriðul. Fer vel í blönduð runnabeð, í raðir, þyrpingar og í sumarhúsalandið. Ein allra harðgerðasta rósin sem völ er á. 'Poppius' er sögð blendingur fjallarósar (R. pendulina) og þyrnirósar (R. pimpinellifolia). Úr smiðju Carl Stenberg, Svíþjóð frá árinu 1838. Hann skýrði yrkið í höfuðið á vini sínum Dr Gabriel Poppius sem var finnskur grasafræðingur og stjórnaði sænsku Konunglegu landbúnaðarakademíunni. Millibil 70 - 80 sm.
„Purpurabroddur“ ‘Silver Miles’ – Berberis x ottawensis ‘Silver Miles’
Þyrnóttur runni. Laufið purpurarautt með ljósari skellum. Sólelskur. Hæð allt að 2 m. Þolir vel klippingu. Þrífst vel í allri venjulegri garðmold sem ekki er of blaut. Þarf eitthvert skjól til að þrífast. Blómin eru gul í klösum og aldinin aflöng, dökkrauð ber. Nýlegur í ræktun og er reynsla því takmörkuð. Hið rétta heiti þessa tegundablendings milli sólbrodds (B. thunbergii) annars vegar og ryðbrodds hins vegar (B. vulgaris) er sunnubroddur (B. x ottawensis).
Alaskaepli – Malus fusca
Harðgert, fremur hægvaxta, lágvaxið tré eða runni (3 - 6 m). Laufin eru 5 - 8 sm á lengd egglaga eða sporöskjulaga. Óreglulega flipótt og sagtennt. Blómin hvít, ilmandi í sveipum fyrri part sumars. Aldinið lítið gulgrænt - rauðleitt, ætt epli á stærð við vínber. Þroskar yfirleitt aldin á hverju ári. Rauðir haustlitir. Þolir vel klippingu. Stundum ber á rótarskotum. Þrífst í allri venjulegri, rakaheldinni garðmold. Blandið moltu eða gömlum búfjáráburði saman við jarðveginn við gróðursetningu. Alaskaepli fer vel stakstætt eða fleiri saman með að minnsta kosti 2 m millibili. Alaskaepli hentar vel í klippt limgerði. Í limgerði er hæfilegt millibil um 70 sm. Greinar alaskaeplis eru harðar/stífar og dvergsprotar áberandi hvassir. Alaskaepli er harðgerðasta skrauteplið fyrir íslenskar aðstæður sem völ er á. Við framleiðum eingöngu alaskaepli af íslensku fræi. Aldin alaskaeplis má nýta í sultu- og hlaupgerð en þau eru rík af pektíni. Ekki er ósennilegt að alaskaepli nýtist sem frjógjafi fyrir matarepli (M. domestica) en erlendis er það þekkt að þar sem þessar tegundir vaxa saman mynda þær stundum blendinga (M. x dawsoniana). Heimkynni: Vesturströnd N-Ameríka allt frá Alaska í norðri suður til Kaliforníu. Í sínum heimkynnum vex það gjarnan í deiglendi og nálægt ströndinni.
Alaskaösp – Populus trichocarpa ‘Keisari’, ‘Sæland’, ‘Pinni’, ‘Haukur’ og ‘Súla’
Hraðvaxta, harðgert, hávaxið, sumargrænt tré. Gulir haustlitir. Brum og brumhlífar klístruð. Balsamilmur áberandi á vorin og í röku veðri. Blómgast í apríl/maí. Blómskipunin rekill. Sérbýl. Kvenkyns tré dreifa miklu magni af fræi sem líkist dún upp úr miðju sumri. Króna mis umfangsmikil milli yrkja og því mis plássfrek. Rætur liggja almennt grunnt og rótarkambar því áberandi. Ljóselsk.
'Keisari' reynist best allra yrkja næst sjávarsíðunni. Gróðursett stakstæð, í raðir og þyrpingar. Fín í skjólbelti kringum landbúnaðarsvæði o.þ.h. Einstöku sinnum ræktuð sem klippt limgerði (sjá mynd).
Þrífst best í rakaheldnum, næringarríkum/steinefnaríkum jarðvegi. Þolir all vel bleytu hluta úr ári. Bil milli trjáa fer eftir því um hvaða yrki er um að ræða en getur spannað frá 2 - 6 m. Heimkynni: Vestanverð N-Ameríka. Allt frá Alaska til Baja Kalifornía í Mexíkó. Íslenski stofninn er allur eða nær allur ættaður frá Alaska.
Alaskasýprus – Cupressus nootkatensis
Lágvaxið, sígrænt tré. Gjarnan líkari runna fyrstu árin. Toppurinn og smágreinar áberandi drjúpandi. Barrið hreisturlaga, blágrænt - gulgrænt. Könglar kúlulaga á stærð við bláber. Dökkbláir fullþroska. Þokkafullur og jafnvel draugalegur að sjá. Þarf nokkurt skjól. Fremur skuggþolinn. Þolir vel klippingu. Almennt talinn harðgerðasti sýprusinn.
Óvíst er hveru hár alaskasýprus getur orðið hérlendis. Reikna má með 6 - 7 m hæð á bestu stöðum í skógarskjóli. Getur orðið talsvert breiður. Alaskasýprus þrífst í skjólgóðum görðum og trjálundum. Hentar í beð og þyrpingar með öðrum sígrænum runnum og smátrjám. Einnig framan við og jafnvel undir stærri trjám. Þrífst í allri venjulegri, framræstri garðmold. Framleiðum eingöngu alaskasýprus af íslensku fræi. Einnig nefndur Callitropsis nootkatensis. Heimkynni: Vesturströnd N-Ameríku. Allt frá Alaska suður til N-Kaliforníu. Grátviðarætt (Cupressaceae).
Alaskavíðir – Salix alaxensis – ‘Gústa’, ‘Oddur Guli’, ‘Töggur’ o.fl. yrki
Mjög harðgerður, vind- og saltþolinn, hraðvaxta, hávaxinn runni/lágvaxið tré (3-7 m). Greinar í fyrstu uppréttar en síðar útvaxnar og jafnvel drjúpandi. Það er þó talsvert mismunandi eftir yrkjum. Laufblöð sporbaugótt - öfugegglaga með hvítu lóhærðu neðra borði, allt að 11 sm löng. Sérbýll. Blómgast í apríl en silfurgráir reklar birtast gjarnan í mars. Humlur sækja í reklana á vorin.
'Gústa' sem einnig gengur undir nafninu "tröllavíðir" og "brúnn alaskavíðir" hefur dökkbrúna sprota, hvíthærða í endana. 'Oddur Guli' hefur gulgræna sprota og 'Töggur' skærgræna. Greinar 'Sunnu' eru óvenju mikið slútandi. 'Máni' hefur brúna til græna sprota sem eru ekki mikið hærðir í endana. 'Hríma' hefur þykka, hvíthærða sprota alla leið.
Alaskavíðir er aðallega gróðursettur í skjólbelti og limgerði. Gróðursettar eru 2-3 plöntur/m. Þarf frjóan, steinefnaríkan og rakaheldinn jarðveg til að þrífast. Sólelskur. Klippið reglulega til að halda í góðu formi. Gulir haustlitir í október. Laus við asparglyttu og ryð. Gamall (25 - 30 ára) óklipptur alaskavíðir fellur gjarnan um koll en stofnskot vaxa jafn harðan upp aftur. Sáir sér út í raskað land þar sem aðstæður leyfa. Heimkynni: Alaska og NV-Kanada. Víðisætt (Salicaceae).
Alaskayllir / Rauðyllir – Sambucus racemosa ssp. arborescens
Harðgerður, stórvaxinn, grófur runni. Hæð: 3-5 m. Blómin mörg saman í kremuðum klasa í maí - júní. Berin eldrauð í ágúst. Fuglar sækja mjög í berin. Brumin gagnstæð. Laufblöðin stór, stakfjöðruð. Laufgast snemma á vorin. Gulir - brúnir haustlitir. Hraðvaxta. Mjög skuggþolinn. Þrífst í frjóum, rakaheldnum jarðvegi. Sáir sér gjarnan út þar sem aðstæður leyfa. Góður til uppfyllingar í skuggsæl horn o.þ.h. Getur hæglega vaxið yfir aðrar plöntur og skyggt þær út. Virðist nokkuð saltþolinn. Þolir vel klippingu. Millibil 1,5 - 2,0 m. Berin má nýta í sultur, vín og fleira séu þau soðin og fræið, sem er eitrað, sigtað frá. Alaskayllir er sá yllir sem er algengastur hérlendis. Sú deilitegund (S. racemosa ssp. arborescens) eða afbrigði (S. racemosa var. racemosa) er ættað frá vestanverðri N-Ameríku.
Álfakollur – Betonica macrantha
Harðgerð, meðalhá, fjölær jurt. Hæð um 50 sm. Laufblöðin eru egglaga til hjartalaga og bogtennt. Blómin fjólublá í krönsum í júlí til ágúst. Þolir hálfskugga. Þrífst vel í venjulegri garðmold. Breiðir smám saman úr sér. Álfakollur fer vel í blönduðum beðum með öðrum fjölærum jurtum eða margir saman í breiðum. Millibil við gróðursetningu um 70 sm. Getur einnig vaxið hálfvilltur við litla umhirðu í frjóu landi. Eldra og þekktara fræðiheiti er Stachys macrantha. Heimkynni: Kákasus, NA-Tyrkland og NV-Íran.
Alpareynir – Sorbus mougeotii
Harðgert, fremur lágvaxið tré eða hávaxinn runni (5 - 8 m). Ýmist ein- eða margstofna. Laufið grænt og gljáandi að ofan en silfurhvít-hært að neðanverðu. Blóm hvít í hálfsveipum fyrri part sumars. Rauðir berjaklasar þroskast að hausti. Berin endast gjarnan á trjánum langt fram á vetur ólíkt berjum flestra annarra reynitegunda. Gulir haustlitir.
Alpareynir sómir sér stakstæður eða í þyrpingum og röðum. Millibil ekki minna en 2 m. Einnig má nota alpareyni í klippt limgerði og planta með um 50 - 60 sm millibili. Hentar jafnvel í stór ker (sjá mynd). Fremur vind- og saltþolinn. Þolir hálfskugga. Líkist mjög doppureyni/týrólareyni (S. austriaca) og silfurreyni (S. intermedia). Á það til að sá sér út. Heimkynni: Fjalllendi Mið- og V-Evrópu, þ.e.a.s. Pýreneafjöll, Alparnir og norður til Vosges-fjalla. Rósaætt (Rosaceae).
Askur – Fraxinus excelsior
Í meðallagi hávaxið tré hérlendis. Blöðin stór, stakfjöðruð. Laufgast í júní. Gulir haustlitir. Svört, fremur stór, gagnstæð brum. Börkur ljósgrár. Hefur blómgast og þroskað fræ hérlendis. Þarf þokkalegt skjól í uppvextinum og frjósaman jarðveg. Þolir hálfskugga. Fer vel stakstæður eða fleiri saman þar sem pláss er nóg. Bil þarf að lágmarki að vera 4 m. Í skógrækt borgar sig að gróðursetja ask undir skerm en lauf asks þola alls ekki að frjósa. Fremur skuggþolinn í æsku. Þarf frjósaman, framræstan jarðveg sem er ekki súr. Hentar eingöngu til gróðursetningar í skógarskjóli eða grónum hverfum. Heimkynni: Stór hluti Evrópu, þó ekki allra nyrst, austur til Kákasus og Alborz fjalla.
Bambus gulur – Fargesia murielae
Sígrænt, trjákennt gras. Stönglar gulgrænir - gulir. Laufið sviðnar gjarnan fram eftir vetri. Myndar þétta þyrpingu stöngla en skríður ekki út. Þrífst best í rakaheldnum, frjóum jarðvegi á sólríkum stað í þokkalegu skjóli. Þolir hálfskugga. Hæð 1,5 - 3,5 m eftir yrkjum og staðsetningu. Almennt talin ein harðgerðasta bambus-tegundin. Hentar stakstæður, aftarlega í beðum og í þyrpingar og raðir með 80 - 100 sm millibili.