Showing 1–36 of 389 results

„Hansarós“ – Rosa rugosa ‘Hansa’

Harðgerð, meðalstór runnarós af ígulrósakyni (R. rugosa). Blómin stór, vel fyllt, rauðfjólblá og ilmandi. Blómgast frá því í júlí og eitthvað fram á haustið. Blómviljug. Þroskar lítið sem ekkert af nýpum. Rauðgulir haustlitir. Mjög algeng hérlendis. Mest notuð í raðir og þyrpingar. Hentar vel í limgerði sem ekki eru "stífklippt". Millibil um 80 sm. Vind- og saltþolin. Skríður eitthvað út sé hún á eigin rót. Stundum kölluð "Vestmannaeyjarós". Tvímælalaust algengasta rósin í íslenskum görðum. Ekki er óalgengt að ígulrósir (R. rugosa) séu í daglegu tali kallaðar "hansarósir" þó að í raun eigi það aðeins við um þetta tiltekna yrki af ígulrós. Gamalt hollenskt yrki.

„Páfarós“ – Rosa ‘Poppius’

Mjög harðgerð, meðalstór runnarós. Þyrnirósablendingur. Blómin fremur smá, hálffyllt, lillableik. Daufur ilmur. Smágerðar, dökkar nýpur. Rauðgulir haustlitir. Sólelsk. Ekki svo skriðul. Fer vel í blönduð runnabeð, í raðir, þyrpingar og í sumarhúsalandið. Ein allra harðgerðasta rósin sem völ er á. 'Poppius' er sögð blendingur fjallarósar (R. pendulina) og þyrnirósar (R. pimpinellifolia). Úr smiðju Carl Stenberg, Svíþjóð frá árinu 1838. Hann skýrði yrkið í höfuðið á vini sínum Dr Gabriel Poppius sem var finnskur grasafræðingur og stjórnaði sænsku Konunglegu landbúnaðarakademíunni. Millibil 70 - 80 sm.

„Purpurabroddur“ ‘Silver Miles’ – Berberis x ottawensis ‘Silver Miles’

Þyrnóttur runni. Laufið purpurarautt með ljósari skellum. Sólelskur. Hæð allt að 2 m. Þolir vel klippingu. Þrífst vel í allri venjulegri garðmold sem ekki er of blaut. Þarf eitthvert skjól til að þrífast. Blómin eru gul í klösum og aldinin aflöng, dökkrauð ber. Nýlegur í ræktun og er reynsla því takmörkuð. Hið rétta heiti þessa tegundablendings milli sólbrodds (B. thunbergii) annars vegar og ryðbrodds hins vegar (B. vulgaris) er sunnubroddur (B. x ottawensis).

Alaskaepli – Malus fusca

Harðgert, fremur hægvaxta, lágvaxið tré eða runni (3 - 6 m). Laufin eru 5 - 8 sm á lengd egglaga eða sporöskjulaga. Óreglulega flipótt og sagtennt. Blómin hvít, ilmandi í sveipum fyrri part sumars. Aldinið lítið gulgrænt - rauðleitt, ætt epli á stærð við vínber. Þroskar yfirleitt aldin á hverju ári. Rauðir haustlitir. Þolir vel klippingu. Stundum ber á rótarskotum. Þrífst í allri venjulegri, rakaheldinni garðmold. Blandið moltu eða gömlum búfjáráburði saman við jarðveginn við gróðursetningu. Alaskaepli fer vel stakstætt eða fleiri saman með að minnsta kosti 2 m millibili. Alaskaepli hentar vel í klippt limgerði. Í limgerði er hæfilegt millibil um 70 sm. Greinar alaskaeplis eru harðar/stífar og dvergsprotar áberandi hvassir. Alaskaepli er harðgerðasta skrauteplið fyrir íslenskar aðstæður sem völ er á. Við framleiðum eingöngu alaskaepli af íslensku fræi. Aldin alaskaeplis má nýta í sultu- og hlaupgerð en þau eru rík af pektíni. Ekki er ósennilegt að alaskaepli nýtist sem frjógjafi fyrir matarepli (M. domestica) en erlendis er það þekkt að þar sem þessar tegundir vaxa saman mynda þær stundum blendinga (M. x dawsoniana).     Heimkynni: Vesturströnd N-Ameríka allt frá Alaska í norðri suður til Kaliforníu. Í sínum heimkynnum vex það gjarnan í deiglendi og nálægt ströndinni.

Alaskaösp – Populus trichocarpa ‘Keisari’, ‘Sæland’, ‘Pinni’ og fleiri yrki

Hraðvaxta, harðgert, hávaxið, sumargrænt tré. Gulir haustlitir. Brum og brumhlífar klístruð. Balsamilmur áberandi á vorin og í röku veðri. Blómgast í apríl/maí. Blómskipunin rekill. Sérbýl. Kvenkyns tré dreifa miklu magni af fræi sem líkist dún upp úr miðju sumri. Króna mis umfangsmikil milli yrkja og því mis plássfrek. Rætur liggja almennt grunnt og rótarkambar því áberandi. Ljóselsk. 'Keisari' reynist best allra yrkja næst sjávarsíðunni. Gróðursett stakstæð, í raðir og þyrpingar. Fín í skjólbelti kringum landbúnaðarsvæði o.þ.h. Einstöku sinnum ræktuð sem klippt limgerði (sjá mynd). Þrífst best í rakaheldnum, næringarríkum/steinefnaríkum jarðvegi. Þolir all vel bleytu hluta úr ári. Bil milli trjáa fer eftir því um hvaða yrki er um að ræða en getur spannað frá 2 - 6 m. Heimkynni: Vestanverð N-Ameríka. Allt frá Alaska til Baja Kalifornía í Mexíkó. Íslenski stofninn er allur eða nær allur ættaður frá Alaska.

Alaskasýprus – Cupressus nootkatensis

Lágvaxið, sígrænt tré. Gjarnan líkari runna fyrstu árin. Toppurinn og smágreinar áberandi drjúpandi. Barrið hreisturlaga, blágrænt - gulgrænt. Könglar kúlulaga á stærð við bláber. Dökkbláir fullþroska. Þokkafullur og jafnvel draugalegur að sjá. Þarf nokkurt skjól. Fremur skuggþolinn. Þolir vel klippingu. Almennt talinn harðgerðasti sýprusinn. Óvíst er hveru hár alaskasýprus getur orðið hérlendis. Reikna má með 6 - 7 m hæð á bestu stöðum í skógarskjóli. Getur orðið talsvert breiður. Alaskasýprus þrífst í skjólgóðum görðum og trjálundum. Hentar í beð og þyrpingar með öðrum sígrænum runnum og smátrjám. Einnig framan við og jafnvel undir stærri trjám. Þrífst í allri venjulegri, framræstri garðmold. Framleiðum eingöngu alaskasýprus af íslensku fræi. Einnig nefndur Callitropsis nootkatensis. Heimkynni: Vesturströnd N-Ameríku. Allt frá Alaska suður til N-Kaliforníu. Grátviðarætt (Cupressaceae).

Alaskavíðir – Salix alaxensis – ‘Gústa’, ‘Oddur Guli’, ‘Töggur’ o.fl. yrki

Mjög harðgerður, vind- og saltþolinn, hraðvaxta, hávaxinn runni/lágvaxið tré (3-7 m). Greinar í fyrstu uppréttar en síðar útvaxnar og jafnvel drjúpandi. Það er þó talsvert mismunandi eftir yrkjum. Laufblöð sporbaugótt - öfugegglaga með hvítu lóhærðu neðra borði, allt að 11 sm löng. Sérbýll. Blómgast í apríl en silfurgráir reklar birtast gjarnan í mars.  Humlur sækja í reklana á vorin. 'Gústa' sem einnig gengur undir nafninu "tröllavíðir" og "brúnn alaskavíðir" hefur dökkbrúna sprota, hvíthærða í endana. 'Oddur Guli' hefur gulgræna sprota og 'Töggur' skærgræna. Greinar 'Sunnu' eru óvenju mikið slútandi. 'Máni' hefur brúna til græna sprota sem eru ekki mikið hærðir í endana. 'Hríma' hefur þykka, hvíthærða sprota alla leið. Alaskavíðir er aðallega gróðursettur í skjólbelti og limgerði. Gróðursettar eru 2-3 plöntur/m. Þarf frjóan, steinefnaríkan og rakaheldinn jarðveg til að þrífast. Sólelskur. Klippið reglulega til að halda í góðu formi. Gulir haustlitir í október. Laus við asparglyttu og ryð. Gamall (25 - 30 ára) óklipptur alaskavíðir fellur gjarnan um koll en stofnskot vaxa jafn harðan upp aftur. Sáir sér út í raskað land þar sem aðstæður leyfa. Heimkynni: Alaska og NV-Kanada. Víðisætt (Salicaceae).

Alaskayllir / Rauðyllir – Sambucus racemosa ssp. arborescens

Harðgerður, stórvaxinn, grófur runni. Hæð: 3-5 m. Blómin mörg saman í kremuðum klasa í maí - júní. Berin eldrauð í ágúst. Fuglar sækja mjög í berin. Brumin gagnstæð. Laufblöðin stór, stakfjöðruð. Laufgast snemma á vorin. Gulir - brúnir haustlitir. Hraðvaxta. Mjög skuggþolinn. Þrífst í frjóum, rakaheldnum jarðvegi. Sáir sér gjarnan út þar sem aðstæður leyfa. Góður til uppfyllingar í skuggsæl horn o.þ.h. Getur hæglega vaxið yfir aðrar plöntur og skyggt þær út. Virðist nokkuð saltþolinn. Þolir vel klippingu. Millibil 1,5 - 2,0 m. Berin má nýta í sultur, vín og fleira séu þau soðin og fræið, sem er eitrað, sigtað frá. Alaskayllir er sá yllir sem er algengastur hérlendis. Sú deilitegund (S. racemosa ssp. arborescens) eða afbrigði (S. racemosa var. racemosa) er ættað frá vestanverðri N-Ameríku.

Álfakollur – Betonica macrantha

Harðgerð, meðalhá, fjölær jurt. Hæð um 50 sm. Laufblöðin eru egglaga til hjartalaga og bogtennt. Blómin fjólublá í krönsum í júlí til ágúst. Þolir hálfskugga. Þrífst vel í venjulegri garðmold. Breiðir smám saman úr sér. Álfakollur fer vel í blönduðum beðum með öðrum fjölærum jurtum eða margir saman í breiðum. Millibil við gróðursetningu um 70 sm. Getur einnig vaxið hálfvilltur við litla umhirðu í frjóu landi. Eldra og þekktara fræðiheiti er Stachys macrantha. Heimkynni: Kákasus, NA-Tyrkland og NV-Íran.

Alpareynir – Sorbus mougeotii

Harðgert, fremur lágvaxið tré eða hávaxinn runni (5 - 8 m). Ýmist ein- eða margstofna. Laufið grænt og gljáandi að ofan en silfurhvít-hært að neðanverðu. Blóm hvít í hálfsveipum fyrri part sumars. Rauðir berjaklasar þroskast að hausti. Berin endast gjarnan á trjánum langt fram á vetur ólíkt berjum flestra annarra reynitegunda. Gulir haustlitir. Alpareynir sómir sér stakstæður eða í þyrpingum og röðum. Millibil ekki minna en 2 m. Einnig má nota alpareyni í klippt limgerði og planta með um 50 - 60 sm millibili. Hentar jafnvel í stór ker (sjá mynd). Fremur vind- og saltþolinn. Þolir hálfskugga. Líkist mjög doppureyni/týrólareyni (S. austriaca) og silfurreyni (S. intermedia). Á það til að sá sér út. Heimkynni: Fjalllendi Mið- og V-Evrópu, þ.e.a.s. Pýreneafjöll, Alparnir og norður til Vosges-fjalla. Rósaætt (Rosaceae).

Askur – Fraxinus excelsior

Í meðallagi hávaxið tré hérlendis. Blöðin stór, stakfjöðruð. Laufgast í júní. Gulir haustlitir. Svört, fremur stór, gagnstæð brum. Börkur ljósgrár. Hefur blómgast og þroskað fræ hérlendis. Þarf þokkalegt skjól í uppvextinum og frjósaman jarðveg. Þolir hálfskugga. Fer vel stakstæður eða fleiri saman þar sem pláss er nóg. Bil þarf að lágmarki að vera 4 m. Í skógrækt borgar sig að gróðursetja ask undir skerm en lauf asks þola alls ekki að frjósa. Fremur skuggþolinn í æsku. Þarf frjósaman, framræstan jarðveg sem er ekki súr. Hentar eingöngu til gróðursetningar í skógarskjóli eða grónum hverfum. Heimkynni: Stór hluti Evrópu, þó ekki allra nyrst, austur til Kákasus og Alborz fjalla.

Bambus gulur – Fargesia murielae

Sígrænt, trjákennt gras. Stönglar gulgrænir - gulir. Laufið sviðnar gjarnan fram eftir vetri. Myndar þétta þyrpingu stöngla en skríður ekki út. Þrífst best í rakaheldnum, frjóum jarðvegi á sólríkum stað í þokkalegu skjóli. Þolir hálfskugga. Hæð 1,5 - 3,5 m eftir yrkjum og staðsetningu. Almennt talin ein harðgerðasta bambus-tegundin. Hentar stakstæður, aftarlega í beðum og í þyrpingar og raðir með 80 - 100 sm millibili.

Baunatré – Caragana arborescens

Harðgerður runni eða lítið tré (1,5 - 2,5 m). Blómin smá, gul, ilmandi. Þau eru æt og má nota í salat. Aldinið belgur með nokkrum ætum baunum/fræjum. Sjóðið fræin áður en þeirra er neytt. Laufið er fjaðrað, mjög ljóst, nánast hvítt á vorin og fyrri part sumars en síðan áberandi gulgrænt. Axlarblöð lík þyrnum. Greinar grænleitar. Sólelskt. Hægvaxta. Lifir í sambýli við niturbinandi bakteríur. Baunatré gerir því litlar kröfur til jarðvegs. Baunatré sómir sér vel stakstætt í garðinum eða í blönduð beð með öðrum gróðri. Einnig má planta baunatré í klippt eða óklippt limgerði. Gengur einnig undir nöfnunum "síberískt baunatré" og "kergi". Náttúruleg heimkynni baunatrés er M-Asía.

Bergflétta – Hedera helix

Sígrænn klifurrunni. Fetar sig upp veggi og trjástofna með heftirótum. Þrífst víða vel nálægt sjávarsíðunni en helst í einhverju skjóli. Skuggþolin. Getur einnig vaxið sem þekjandi runni á jörðu niðri á skjólsömum og mildum stöðum. Á áveðursömum stöðum t.d. þar sem gætir salts af hafi sviðnar laufið gjarnan mikið yfir veturinn en nær sér svo aftur sumarið á eftir.

Bergfura – Pinus uncinata

Mjög harðgert, sígrænt tré. Hæð fullvaxta trjáa mjög misjöfn enda trúlega oft blönduð fjallafuru (Pinus mugo) sem er runni en ekki tré. Nálar fremur langar, dökkgrænar - blágrænar, tvær saman í búnti. Nálar bergfuru eru lengri og dekkri samanborið við nálar stafafuru (Pinus contorta). Brum bergfuru er þykkt og ljóst enda þakið harpixi. Brum stafafuru er rauðbrúnt og mjórra og ekki þakið harpixi. Könglar eru tvílitir, dekkri á jöðrum köngulhreisturs og minna á köngla fjallafuru en eru enn ljósari (sjá mynd). Bergfurukönglar eru kúptir að neðan en ekki sléttir eins og könglar fjallafuru. Könglar stafafuru eru aftur á móti einlitir, kanelbrúnir. Bergfura er nægjusöm en ljóselsk. Getur farið mjög illa af völdum brum- og greinaþurrkssvepps (Gremmeniella abietina). Til að koma í veg fyrir að sveppurinn nái sér á strik er mikilvægt að bergfura standi aldrei þétt heldur að það lofti vel um hana frá öllum hliðum. Bergfura er mest gróðursett stakstæð í görðum. Einnig gróðursett í rýrt mólendi, skriður og þess háttar. Með allra harðgerðustu trjám sem völ er á. Fremur hægvaxta. Heimkynni: Pýreneafjöll og V-Alparnir. Háfjallategund sem vex þar aðallega í 1000 - 2300 m.h.y.s. Finnst einnig lægra í frostpollum og barnamosamýrum. Þar sem útbreiðslusvæði berg- og fjallafuru skarast myndast gjarnan blendingar (Pinus x rotundata). Þessi blendingur virðist algengur hérlendis sem lýsir sér í fremur lágvöxnum, margstofna trjám eða stórum runnum upp á 4 - 7 m. Bergfura er stundum skilgreind sem undirtegund fjallafuru, Pinus mugo subsp. uncinata.

Berghnoðri – Sedum reflexum

Harðgerð, lágvaxin, þekjandi, sígræn jurt. Laufið blágrænt eða rauðleitt. Blómin gul í sveipum síðsumars. Sólelskur. Þrífst best í þurrum, sendnum/grýttum jarðvegi. Hentar því best í steinhæðir, hleðslur, ker, lifandi þök o.þ.h.

Bergreynir – Sorbus x ambigua

Harðgert lítið tré eða all stór runni (2 - 5 m). Ýmist ein- eða margstofna. Lauf sporöskjulaga og sagtennt. Blómin eru rauðbleik í hálfsveip fyrri part sumars. Rauð ber í klösum í september. Rauðgulir haustlitir. Minnir mjög á úlfareyni (S. x hostii). Blöð bergreynis eru minna hærð og meira gljáandi samanborið við úlfareyni, einnig á neðra borði. Vindþolinn og trúlega saltþolinn einnig. Bergreyni sómir sér stakstæður, í beðum með öðrum gróðri, í raðir og þyrpingar. Mætti jafnvel nota í klippt limgerði. Tilvalinn í sumarhúsalóðina. Millibil 1,5 - 2 m. Í limgerði 50 - 100 sm. Byrjar ungur að blómgast og þroska ber, fyrr samanborið við úlfareyni. Bergreynir er náttúrulegur blendingur seljureynis (Sorbus aria) og blikreynis (S. chamaemespilus). Vex villtur í fjalllendi Mið - S-Evrópu. Íslenski stofninn er líklega allur kominn af tré/trjám í Grasagarði Rvk sem uxu upp af fræi frá Haute-Savoie í frönsku Ölpunum og sáð var til árið 1989.

Berjablátoppur ‘Honey Bee’ – Lonicera caerulea ‘Honey Bee’

Harðgerður lágvaxinn - meðalstór, sumargrænn runni. Blómin gulgræn í apríl/maí. Aldinið blátt, aflangt, sætt og bragðgott ber sem þroskast síðsumars (ágúst). Berjablátoppur 'Honey Bee' er ekki sjálffrjóvgandi og þarf því frjó frá öðru yrki af blátopp til að þroska ber. Þrífst vel í hálfskugga en þroskar meira af berjum í sól. Þrífst vel í allri venjulegri garðmold. Millibil 80 - 100 sm. Reynsla af ræktun berjablátopps er ennþá takmörkuð. Helsta vandamálið hérlendis er að blómin skemmast gjarnan í vorfrostum sem veldur lítilli berjauppskeru. Berjablátoppur 'Honey Bee' er sagður sérlega góður til að frjóvga önnur yrki af berjablátopp. Berin á 'Honey Bee' eru sögð haldast sérlega vel á runnunum en ekki falla af eins og stundum gerist með önnur yrki. Kanadískt yrki.

Bersarunni – Viburnum edule

Harðgerður, meðalhár, sumargrænn runni (1,5 - 2,5 m). Laufin sitja gagnstætt á greinunum og eru gjarnan þrí-sepótt. Óreglulega tennt. Brum áberandi rauð. Rauðir og bleikir haustlitir. Blómin hvít - bleik í litlum sveipum. Rauðgul, æt ber (steinaldin) þroskast að hausti. Hægvaxta eða í meðallagi hraðvaxta. Skuggþolinn en fallegastir haustlitir og mest berjauppskera í fullri sól. Þrífst í öllum sæmilega frjóum, rakaheldnum jarðvegi. Bersarunni fer vel í blönduðum runnabeðum, röðum og þyrpingum. Millibil um 80 sm. Berin má nýta í sultur og þess háttar. Þau eru sögð rík af andoxunarefnum. Okkar bersarunnar eru allir vaxnir upp af fræi sem tínt er hérlendis. Íslenski efniviðurinn af bersarunna er trúlega allur frá Alaska. Heimkynni: Norðanverð N-Ameríka. Desjurtaætt (Adoxaceae).

Beyki – Fagus sylvatica

Sumargrænt, lágvaxið - meðalstórt tré hérlendis. Getur trúlega farið upp fyrir 12 m hæð á bestu stöðum. Laufið skærgrænt þegar það springur út fyrir miðjan júní. Visið, gullinbrúnt laufið hangir á greinum ungra trjáa allan veturinn og einnig á neðstu greinum eldri trjáa. Brum hvassydd. Börkur, sléttur, grár. Þarf hlýjan vaxtarstað og frjóan jarðveg til að þrífast. Þolir vel hálfskugga. Þolir vel klippingu og gjarnan notað í klippt limgerði erlendis. Yrki með purpurarauðum laufum (sjá blóðbeyki) eru algengari hérlendis heldur en beyki með grænum laufum. Sumir eru á því að þau rauðu þrífist betur en þau grænu. Beyki finnst hér og þar í görðum en ekki gróðursett í skógrækt hérlendis ennþá enda full hitakær tegund til stórfelldrar ræktunar hérlendis. Heimkynni: Stór hluti Evrópu þó ekki allra nyrst.

Birki / Ilmbjörk – Betula pubescens

Harðgert íslenskt tré. Hæð breytileg. Sólelskt. Í meðallagi hraðvaxið. Þrífst best í frjóum jarðvegi en annars nægjusamt. Getur lifað í all blautum jarðvegi. Lauf ilmar, sérstaklega á vorin í röku veðri. Haustlitur á ekta ilmbjörk er gulur. Eina trjátegundin sem myndað hefur skóga hérlendis frá því að síðustu ísöld lauk fyrir um 10.000 árum. Myndar gjarnan blendinga með fjalldrapa (B. nana). Blendingurinn kallast skógviðarbróðir og er misstór runni en ekki tré og mjög algengur í íslenskri náttúru, sérstaklega vestanlands. Skógviðarbróðir hefur yfirleitt dökkan / svartan börk, smágert lauf og rauðgulan haustlit. Birki hentar sem stakstætt tré eða fleiri saman í þyrpingum og röðum með að minnsta kosti 2,5 m millibili. Einnig notað til skógræktar og uppgræðslu. Vex þó hægt í ófrjóu landi. Birki hentar einnig í klippt limgerði á sólríkum stöðum. Upp á síðkastið hafa nýjar tegundir skordýra sem herja á birki numið land. Birkið okkar í Þöll er af Bæjarstaða-uppruna. Móðurtréin eru af yrkinu 'Embla'. Því fá tréin venjulega ljósan börk með aldrinum. Náttúruleg heimkynni imbjarkar eru auk Íslands mestur hluti Evrópu nema syðst, Norður og Mið-Asía og S-Grænland.

Birkikvistur – Spiraea betulifolia

Mjög harðgerður, fremur lágvaxinn (1 m), þéttur runni. Blómin hvít í sveipum miðsumars. Rauðir haustlitir. Þolir hálfskugga. Vind- og saltþolinn. Hentar í potta, raðir og þyrpingar. Þolir vel klippingu. Klipptir birkikvistar blómstra minna en ella. Bil milli plantna ætti ekki að vera minna en 60 sm. Mjög algengur og vinsæll hérlendis. Þetta yrki gengur undir heitunum 'Birkikvistur', 'Ísland' og 'Island' og er fáanlegt víða í Evrópu.

Birkikvistur ‘Tor Gold’ – Spiraea betulifolia ‘Tor Gold’

Harðgerður, þéttur, hálfkúlulaga, fremur lágvaxinn skrautrunni. Hæð og breidd 60 - 90 sm. Laufið meira gulleitt/gyllt samanborið við hefðbundinn birkikvist. Hvítir blómsveipir birtast miðsumars. Rauðbleikir haustlitir. Þrífst í allri venjulegri garðmold. Nýlegt yrki. Uppgötvaðist sem sport af birkikvisti 'Tor' í Hollandi árið 2008. Hentar í blönduð beð, raðir og þyrpingar með um 70 - 80 sm millibili. Hentar einnig í potta og ker. Þolir hálfskugga annars sólelskur.

Bjarkeyjarkvistur – Spiraea chamaedryfolia

Harðgerður, þéttur, meðalhár runni (1,5 m). Laufið matt, óreglulega tennt. greinar ljósbrúnar, áberandi hlykkjóttar. Blómin hvít í sveip. Fræflar skaga upp fyrir krónublöðin. Blómgast miðsumars eða fyrir mitt sumar í lok júní og fram í júlí. Gulir og rauðir haustlitir. Bjarkeyjarkvistur hefur aðeins skriðullt rótarkerfi. Þolir vel hálfskugga. Þrífst í allri venjulegri garðmold. Hentar í runnaþyrpingar, raðir og undir stórum trjám. Millibil um 80 sm.

Bjarmarós ‘Maxima’ – Rosa alba ‘Maxima’

Sæmilega harðgerð runnarós / antíkrós. Hæð allt að 1,5 m. Greinar gisþyrnóttar. Blóm fölbleik í knúpp. Rjómahvít, meðalstór, fyllt og ilmandi útsprungin. Blómgast í nokkrar vikur síðsumars. Laufblöðin stakfjöðruð, grágræn. Sólelsk og skjólþurfi. Þrífst best í sæmilega frjóum jarðvegi. Blandið gömlu hrossataði eða moltu saman við jarðveginn við gróðursetningu. Berið á tilbúinn áburð einu sinni til tvisvar í kringum rósina á vorin og fyrri part sumars sem nemur um einni matskeið. Klippið aðeins kalnar greinar í maí / júní. 'Maxima' hentar í rósabeð við vegg á móti sól eða annars staðar með rósum og jurtum í góðu skjóli og sól. Getur hentað sem klifurrós á grind við vegg. 'Maxima' er mjög gamalt yrki af óþekktum uppruna.

Bjarmasýrena ‘Valkyrja’ – Syringa wolfii ‘Valkyrja’

Harðgerður, þéttur, meðalhár runni (1,5 - 2,5 m). Blómin lillableik, ilmandi í klösum. Lágvaxnari en aðrar sýrenur. Sólelsk en þolir hálfskugga. Nýtur sín vel stakstæð eða fleiri saman í þyrpingu með um 120 sm millibili. Hentar einnig í stóra potta. Kettir sækja talsvert í Bjarmasýrenu 'Valkyrju' og geta eyðilagt hana meðan hún er ung. Því borgar sig að setja girðingu/net utan um nýgróðursettar plöntur og hafa það í kring fyrstu árin þar sem mikið er um ketti. 'Valkyrja' er úrval úr Grasagarði Reykjavíkur.

Bjarttoppur – Lonicera x tellmanniana

All harðgerður klifurrunni/vafningsviður. Laufblöð gagnstæð. Blómin rauðgul í krönsum síðsumars. Gróðursetjið upp við vegg við klifurgrind. Getur einnig klifrað upp tré og runna. Þrífst í frjósamri garðmold í skjólgóðum görðum. Sólelskur en þolir hálfskugga.

Bláfífill – Cicerbita alpina

Harðgerð, hávaxin, fjölær jurt. Blómkörfurnar fjólubláar með eingöngu tungukrónum í löngum greinóttum toppum. Laufið minnir á lauf túnfífils en stórvaxnara. Getur þurft uppbindingu. Þarf frjóan, rakaheldinn jarðveg. Blómgast miðsumars. Á það til að sá sér eitthvað út. Þolir vel hálfskugga. Hentar aftarlega í blóma- og runnabeð. Heimkynni: Fjalllendi Evrópu, austur til Úralfjalla í Rússlandi.

Blágreni – Picea engelmannii

Harðgert, hávaxið, keilulaga, sígrænt barrtré. Nýja barrið bláleitt, ekki eins stingandi eins og barr sitkagrenis (Picea sitchensis). Gömul tré hérlendis þroska stundum köngla. Fremur hægvaxta. Krónan gjarnan fremur mjóslegin. Þolir hálfskugga. Þrífst betur inn til landsins en síður við sjávarsíðuna. Sitkalús getur verið vandamál. Blágreni er glæsilegt stakstætt tré. Sómir sér einnig í þyrpingum með að minnsta kosti 3 m millibili. Úrvals jólatré enda barrheldið. Víða nýtt til skógræktar sérstaklega norðan- og austanlands. Blágreni þykir all gott timburtré og viðurinn sagður léttur en fremur sterkur. M.a. nýtt í ýmis hljóðfæri. Blágreni er fyrst og fremst háfjallatré. Heimkynni blágrenis eru aðallega í Klettafjöllum og Fossafjöllum (Cascade Range) N-Ameríku. Vex þar víða upp að skógarmörkum. Myndar blendinga með hvít- (P. glauca) og sitkagreni (P. sitchensis) í heimkynnum sínum þar sem útbreiðslusvæði þessara tegunda skarast.

Blárifs ‘Perla’ – Ribes bracteosum ‘Perla’

Fremur harðgerður lágvaxinn til meðalstór runni (1,5 - 2 m). Laufin fremur stór, handsepótt, gljáandi á löngum blaðstilk. Gulir haustlitir. Blómin brúnleit í útstæðum klösum. Berin bláhéluð í löngum útstæðum klösum. Henta í sultur og þess háttar en ekki sérstök til átu hrá. Blárifs 'Perla' er skuggþolið en þroskar mest af berjum í sól. Þrífst betur við ströndina en inn til landsins. Hentar í raðir, þyrpingar, í berjagarðinn og sem undirgróður undir trjám. 'Perla' er úrvalsyrki valið af Ólafi S. Njálssyni úr Alaskasafni því er barst til landsins með Óla Val og félögum árið 1985.

Blátoppur ‘Rúnar’ – Lonicera caerulea ‘Rúnar’

Harðgerður, þéttur runni. Hæð 1,5 - 2,3 m. Laufin eru sporöskjulaga, heilrennd og mött. Laufgast gjarnan snemma í maí. Lauf skærgræn í fyrstu en dökk-blágræn þegar líður á sumarið. Haustlitur gulur - brúnn. Sprotar rauðleitir. Ungar greinar rauðbrúnar. Brumin gagnstæð og er það áberandi að þau sitja nokkur saman. Blómin eru gulgræn, tvö og tvö saman fyrri part sumars. Aldinið er dökkblátt ber. Blóm og aldin eru ekki áberandi. Berin eru ekki bragðgóð. Blátoppur er all skuggþolinn. Almennt heilbrigður. Þolir vel klippingu. Þetta yrki gæti verið 'Bergur'. Heimkynni: Kaldtempruð svæði í N-Ameríku, Evrópu og Asíu.

Blátoppur ‘Þokki’ – Lonicera caerulea ‘Þokki’

Mjög harðgerður, þéttur, fremur hægvaxta runni. Laufið blágrænt, gagnstætt. Blómin smá, gulgræn og lítið áberandi. Aldinið blátt ber. Ekki talin góð til átu. Blátoppur 'Þokki' er skuggþolinn. Hentar í raðir, þyrpingar, limgerði og til uppfyllingar í skuggsæl horn og undir trjám. Lokar sér vel niður að jörð og heldur þannig niðri illgresi. Almennt heilbrigður. Þrífst vel í allri venjulegri garðmold. Millibil í limgerði um 50 sm eða meir.

Blóðbeyki – Fagus sylvatica ‘Purpurea’

Sæmilega harðgert, þétt, fremur hægvaxta tré. Hæstu blóðbeyki hérlendis eru hátt í 9 m há. Getur sjálfsagt náð 12 m á hæð eða meir á bestu stöðum. Laufin áberandi purpurarauð/vínrauð. Dökkgræn/blágræn í skugga. Laufgast um mánaðarmótin maí/júní. Laufin sitja visin, ljósbrún á greinum yngri trjáa og á neðstu greinum á eldri trjám allan veturinn. Sólelskt. Almennt heilbrigt. Blóðbeyki þarf sæmilega djúpan, frjóan og vel framræstan jarðveg. Hentar aðeins til ræktunar í sæmilega grónum hverfum og í skógarskjóla ekki of langt inn til landsins. Aðallega gróðursett stakstætt. Millibil 3 m eða meir. Blóðbeyki er stökkbreyting af venjulegu beyki (F. sylvatica) sem hefur óvenju mikið af "anthocyanin" litarefni. Blóðbeyki er fyrst talið hafa fundist í skógi við bæinn Sondershausen í Thuringia í Þýskalandi árið 1690. Talið er að stærstur hluti blóðbeykitrjáa í dag reki uppruna sinn til þessa trés. Beykiætt (Fagaceae).

Blóðheggur ‘Colorata’ – Prunus padus ‘Colorata’

Lágvaxið, fremur harðgert tré (4 - 8 m). Stundum runni. Laufið purpurarautt / vínrautt á vorin og fyrri part sumars. Eldra lauf grænna þegar líður á sumarið. Laufgast strax og fer að hlýna í maí. Ljósrauðir - gulir haustlitir í september. Blómin bleik í klösum í lok maí - júní. Einstaka sinnum þroskast svört ber (steinaldin) á haustin. Oftast aflagast þó aldinin af völdum heggvendils (Taphrina padi). Sprotar nær svartir. Ljóselskur en þolir hálfskugga. Í skugga verður blóðheggur grænni en ella. Blóðheggur þrífst í öllum sæmilega frjóum og framræstum jarðvegi. Laufið getur farið illa af völdum lirfa og blaðlúsar í júní en blóðheggurinn laufgast þá upp á nýtt ef því er að skipta. Hentar stakstæður eða í bland með öðrum gróðri. 'Colorata' er sænskt yrki. Fundið í Smálöndum árið 1953. Fremur algengur í ræktun hérlendis.

Blóðrifs ‘Færeyjar’ – Ribes sanguineum ‘Færeyjar’

Harðgerður, meðalhár runni (1,5 - 1,8 m). Lauf handflipótt, mött. Blómin fölbleik í klösum í maí - júní. Þroskar sjaldan ber. Gulir haustlitir. Þolir vel hálfskugga. Blóðrifs 'Færeyjar' hentar í raðir, þyrpingar og limgerði. Þolir vel klippingu. Vinsælt í limgerði í Færeyjum. Þrífst í allri venjulegri garðmold. Barst hingað frá Færeyjum en blóðrifs er annars ættað frá vestanverðri N-Ameríku.

Blóðrifs ‘Svanur’ – Ribes sanguineum ‘Svanur’

All harðgerður, meðalstór runnir (1,5 - 2,5 m). Rauðir blómklasar snemmsumars (júní). Laufið handsepótt. Stundum þroskast blá, æt ber í kjölfarið. Gulir - rauðgulir haustlitir. Þolir hálfskugga. Þrífst vel í venjulegri garðmold í þokkalegu skjóli. Mjög áberandi í blóma. Móðurplantan er í garði Svans Pálssonar og Línu, Háukinn, Hfj. Blóðrifs 'Svanur' fer vel í blönduðum beðum með öðrum runnum og fjölærum jurtum. Hentar einnig í raðir og þyrpingar með um 1 m millibili. Þarf nokkurt skjól til að þrífast. Ekki eins harðgert og blóðrifs 'Færeyjar'. Hugsanlegt er að blóðrifs 'Svanur' sé í raun yrkið 'King Edward VII' en móðurplantan í garði Svans og Línu var á sínum tíma fengin gróðrarstöð Skógræktarfélags Rvk, Fossvogi. Garðaberjaætt (Grossulariaceae).