Baugavíðir ‘Ljúfa’ – Salix ovalifolia ‘Ljúfa’
Harðgerður, sumargrænn dvergrunni. Meira og minna jarðlægur. Hæð 10 - 20 sm. Laufin gljáandi, smá, breið oddbaugótt - öfugegglaga. Blaðgrunnur bogadreginn. Sljóydd í endann. Blöð gjarnan lítið eitt hærð á neðra borði. Gulir haustlitir.
Baugavíðir 'Ljúfa' er sólelskur annars nægjusamur. Hentar helst í hleðslur, steinhæðir og þess háttar.
Baugavíður 'Ljúfa' er úrvalsyrki sem Ólafur S. Njálsson valdi úr efniviði þeim sem kom frá Alaska þegar Óli Valur Hansson og félagar voru þar á ferð haustið 1985. Líklega eini baugavíðirinn sem hér er í ræktun.
Heimkynni: Alaska og Júkon og Norðvesturhéruðin í Kanada. Vex þar gjarnan í sendnu landi við strendur, í freðmýrum og þess háttar. Víðisætt (Salicaeae).
Baunatré – Caragana arborescens
Harðgerður runni eða lítið tré (1,5 - 2,5 m). Blómin smá, gul, ilmandi. Þau eru æt og má nota í salat. Aldinið belgur með nokkrum ætum baunum/fræjum. Sjóðið fræin áður en þeirra er neytt. Laufið er fjaðrað, mjög ljóst, nánast hvítt á vorin og fyrri part sumars en síðan áberandi gulgrænt. Axlarblöð lík þyrnum. Greinar grænleitar. Sólelskt. Hægvaxta. Lifir í sambýli við niturbinandi bakteríur. Baunatré gerir því litlar kröfur til jarðvegs. Baunatré sómir sér vel stakstætt í garðinum eða í blönduð beð með öðrum gróðri. Einnig má planta baunatré í klippt eða óklippt limgerði. Gengur einnig undir nöfnunum "síberískt baunatré" og "kergi". Náttúruleg heimkynni baunatrés er M-Asía.
Bergflétta – Hedera helix
Sígrænn klifurrunni. Fetar sig upp veggi og trjástofna með heftirótum. Þrífst víða vel nálægt sjávarsíðunni en helst í einhverju skjóli. Skuggþolin. Getur einnig vaxið sem þekjandi runni á jörðu niðri á skjólsömum og mildum stöðum. Á áveðursömum stöðum t.d. þar sem gætir salts af hafi sviðnar laufið gjarnan mikið yfir veturinn en nær sér svo aftur sumarið á eftir.
Bergfura – Pinus uncinata
Mjög harðgert, sígrænt tré. Hæð fullvaxta trjáa mjög misjöfn enda trúlega oft blönduð fjallafuru (Pinus mugo) sem er runni en ekki tré. Nálar fremur langar, dökkgrænar - blágrænar, tvær saman í búnti. Nálar bergfuru eru lengri og dekkri samanborið við nálar stafafuru (Pinus contorta). Brum bergfuru er þykkt og ljóst enda þakið harpixi. Brum stafafuru er rauðbrúnt og mjórra og ekki þakið harpixi. Könglar eru tvílitir, dekkri á jöðrum köngulhreisturs og minna á köngla fjallafuru en eru enn ljósari (sjá mynd). Bergfurukönglar eru kúptir að neðan en ekki sléttir eins og könglar fjallafuru. Könglar stafafuru eru aftur á móti einlitir, kanelbrúnir. Bergfura er nægjusöm en ljóselsk. Getur farið mjög illa af völdum brum- og greinaþurrkssvepps (Gremmeniella abietina). Til að koma í veg fyrir að sveppurinn nái sér á strik er mikilvægt að bergfura standi aldrei þétt heldur að það lofti vel um hana frá öllum hliðum. Bergfura er mest gróðursett stakstæð í görðum. Einnig gróðursett í rýrt mólendi, skriður og þess háttar. Með allra harðgerðustu trjám sem völ er á. Fremur hægvaxta. Heimkynni: Pýreneafjöll og V-Alparnir. Háfjallategund sem vex þar aðallega í 1000 - 2300 m.h.y.s. Finnst einnig lægra í frostpollum og barnamosamýrum. Þar sem útbreiðslusvæði berg- og fjallafuru skarast myndast gjarnan blendingar (Pinus x rotundata). Þessi blendingur virðist algengur hérlendis sem lýsir sér í fremur lágvöxnum, margstofna trjám eða stórum runnum upp á 4 - 7 m. Bergfura er stundum skilgreind sem undirtegund fjallafuru, Pinus mugo subsp. uncinata.
Berghnoðri – Petrosedum rupestre
Harðgerð, lágvaxin, jarðlæg, sígræn jurt. Blaðbreiðan er aðeins nokkrir sm á hæð. Laufið smágert, um 1 sm á lengd, sívallt, blágrænt eða rauðleitt. Laufin sitja mjög þétt á blaðsprotum en gisnar og eru meira útsveigð á blómsprotum. Laufið minnir á barrnálar en mýkra. Blómsprotarnir vaxa upp í 15 - 20 sm hæð. Meðan blómstilkarnir eru að vaxa upp drjúpir blómskipunin en snýr svo upp þegar blómin opnast. Blómin eru skærgul, stjörnulaga, all stór í greinóttum, flötum eða svolítið hvelfdum hálfsveipum. Blómgast síðsumars og fram á haust.
Sólelskur. Þrífst best í þurrum, sendnum/grýttum jarðvegi. Hentar því best í steinhæðir, hleðslur, ker, lifandi þök o.þ.h. Hentar sem þekjuplanta þar sem er sólríkt, jarðvegur ekki of frjór og ekki ágengt illgresi fyrir. All hraðvaxta. Sagður ætur og notaður til manneldis sums staðar í Evrópu. Berghnoðri er betur þekktur undir fræðiheitunum Sedum reflexum og S. rupestre.
Heimkynni: Fjalllendi víða í Mið- og V-Evrópu. Hnoðraætt (Crassulaceae).
Bergreynir – Sorbus x ambigua
Harðgert lítið tré eða all stór runni (2 - 5 m). Ýmist ein- eða margstofna. Lauf sporöskjulaga og sagtennt. Blómin eru rauðbleik í hálfsveip fyrri part sumars. Rauð ber í klösum í september. Rauðgulir haustlitir. Minnir mjög á úlfareyni (S. x hostii). Blöð bergreynis eru minna hærð og meira gljáandi samanborið við úlfareyni, einnig á neðra borði. Vindþolinn og trúlega saltþolinn einnig. Bergreyni sómir sér stakstæður, í beðum með öðrum gróðri, í raðir og þyrpingar. Mætti jafnvel nota í klippt limgerði. Tilvalinn í sumarhúsalóðina. Millibil 1,5 - 2 m. Í limgerði 50 - 100 sm. Byrjar ungur að blómgast og þroska ber, fyrr samanborið við úlfareyni. Bergreynir er náttúrulegur blendingur seljureynis (Sorbus aria) og blikreynis (S. chamaemespilus). Vex villtur í fjalllendi Mið - S-Evrópu. Íslenski stofninn er líklega allur kominn af tré/trjám í Grasagarði Rvk sem uxu upp af fræi frá Haute-Savoie í frönsku Ölpunum og sáð var til árið 1989.
Berjablátoppur ‘Honey Bee’ – Lonicera caerulea ‘Honey Bee’
Harðgerður lágvaxinn - meðalstór, sumargrænn runni. Blómin gulgræn í apríl/maí. Aldinið blátt, aflangt, sætt og bragðgott ber sem þroskast síðsumars (ágúst). Berjablátoppur 'Honey Bee' er ekki sjálffrjóvgandi og þarf því frjó frá öðru yrki af blátopp til að þroska ber. Þrífst vel í hálfskugga en þroskar meira af berjum í sól. Þrífst vel í allri venjulegri garðmold. Millibil 80 - 100 sm. Reynsla af ræktun berjablátopps er ennþá takmörkuð. Helsta vandamálið hérlendis er að blómin skemmast gjarnan í vorfrostum sem veldur lítilli berjauppskeru. Berjablátoppur 'Honey Bee' er sagður sérlega góður til að frjóvga önnur yrki af berjablátopp. Berin á 'Honey Bee' eru sögð haldast sérlega vel á runnunum en ekki falla af eins og stundum gerist með önnur yrki. Kanadískt yrki.
Bersarunni – Viburnum edule
Harðgerður, meðalhár, sumargrænn runni (1,5 - 2,5 m). Laufin sitja gagnstætt á greinunum og eru gjarnan þrí-sepótt. Óreglulega tennt. Brum áberandi rauð. Rauðir og bleikir haustlitir. Blómin hvít - bleik í litlum sveipum. Rauðgul, æt ber (steinaldin) þroskast að hausti. Hægvaxta eða í meðallagi hraðvaxta.
Skuggþolinn en fallegastir haustlitir og mest berjauppskera í fullri sól. Þrífst í öllum sæmilega frjóum, rakaheldnum jarðvegi. Bersarunni fer vel í blönduðum runnabeðum, röðum og þyrpingum. Millibil um 80 sm. Berin má nýta í sultur og þess háttar. Þau eru sögð rík af andoxunarefnum. Okkar bersarunnar eru allir vaxnir upp af fræi sem tínt er hérlendis. Íslenski efniviðurinn af bersarunna er trúlega allur frá Alaska. Heimkynni: Norðanverð N-Ameríka. Desjurtaætt (Adoxaceae).
Beyki – Fagus sylvatica
Sumargrænt, lágvaxið - meðalstórt tré hérlendis. Getur trúlega farið upp fyrir 12 m hæð á bestu stöðum. Laufið skærgrænt þegar það springur út fyrir miðjan júní. Visið, gullinbrúnt laufið hangir á greinum ungra trjáa allan veturinn og einnig á neðstu greinum eldri trjáa. Brum hvassydd. Börkur, sléttur, grár. Þarf hlýjan vaxtarstað og frjóan jarðveg til að þrífast. Þolir vel hálfskugga. Þolir vel klippingu og gjarnan notað í klippt limgerði erlendis. Yrki með purpurarauðum laufum (sjá blóðbeyki) eru algengari hérlendis heldur en beyki með grænum laufum. Sumir eru á því að þau rauðu þrífist betur en þau grænu. Beyki finnst hér og þar í görðum en ekki gróðursett í skógrækt hérlendis ennþá enda full hitakær tegund til stórfelldrar ræktunar hérlendis. Heimkynni: Stór hluti Evrópu þó ekki allra nyrst.
Birki / Ilmbjörk – Betula pubescens
Harðgert íslenskt tré. Hæð breytileg. Sólelskt. Í meðallagi hraðvaxið. Þrífst best í frjóum jarðvegi en annars nægjusamt. Getur lifað í all blautum jarðvegi. Lauf ilmar, sérstaklega á vorin í röku veðri. Haustlitur á ekta ilmbjörk er gulur. Eina trjátegundin sem myndað hefur skóga hérlendis frá því að síðustu ísöld lauk fyrir um 10.000 árum. Myndar gjarnan blendinga með fjalldrapa (B. nana). Blendingurinn kallast skógviðarbróðir og er misstór runni en ekki tré og mjög algengur í íslenskri náttúru, sérstaklega vestanlands. Skógviðarbróðir hefur yfirleitt dökkan / svartan börk, smágert lauf og rauðgulan haustlit. Birki hentar sem stakstætt tré eða fleiri saman í þyrpingum og röðum með að minnsta kosti 2,5 m millibili. Einnig notað til skógræktar og uppgræðslu. Vex þó hægt í ófrjóu landi. Birki hentar einnig í klippt limgerði á sólríkum stöðum. Upp á síðkastið hafa nýjar tegundir skordýra sem herja á birki numið land. Birkið okkar í Þöll er af Bæjarstaða-uppruna. Móðurtréin eru af yrkinu 'Embla'. Því fá tréin venjulega ljósan börk með aldrinum. Náttúruleg heimkynni imbjarkar eru auk Íslands mestur hluti Evrópu nema syðst, Norður og Mið-Asía og S-Grænland.
Birkikvistur – Spiraea betulifolia
Mjög harðgerður, fremur lágvaxinn (1 m), þéttur runni. Blómin hvít í sveipum miðsumars. Rauðir haustlitir. Þolir hálfskugga. Vind- og saltþolinn. Hentar í potta, raðir og þyrpingar. Þolir vel klippingu. Klipptir birkikvistar blómstra minna en ella. Bil milli plantna ætti ekki að vera minna en 60 sm. Mjög algengur og vinsæll hérlendis. Þetta yrki gengur undir heitunum 'Birkikvistur', 'Ísland' og 'Island' og er fáanlegt víða í Evrópu.
Birkikvistur ‘Tor Gold’ – Spiraea betulifolia ‘Tor Gold’
Harðgerður, þéttur, hálfkúlulaga, fremur lágvaxinn skrautrunni. Hæð og breidd 60 - 90 sm. Laufið meira gulleitt/gyllt samanborið við hefðbundinn birkikvist. Hvítir blómsveipir birtast miðsumars. Rauðbleikir haustlitir.
Þrífst í allri venjulegri garðmold. Nýlegt yrki. Uppgötvaðist sem sport af birkikvisti 'Tor' í Hollandi árið 2008. Hentar í blönduð beð, raðir og þyrpingar með um 70 - 80 sm millibili. Hentar einnig í potta og ker. Þolir hálfskugga annars sólelskur.