Showing 37–72 of 389 results

Bogkvistur – Spiraea veitchii – Kristinn Guðsteinsson

Stórvaxinn (3 m) , þokkalega harðgerður runni. Blómin hvít í stórum sveipum. Blómgast síðsumars. Greinarnar vaxa í sveig. Þolir hálfskugga. Fer best stakstæður en hentar einnig í raðir, þyrpingar og blönduð beð. Gulir - rauðgulir haustlitir.

Bogsýrena – S. komarowii ssp. reflexa ‘Hólmfríður’

Harðgerður, stórvaxinn runni eða lítið tré (3 - 4 m). Blómin fyrst lillableik en síðan bleik í drjúpandi klösum, ilmandi. Blómgast miðsumars (júlí). Móðurtréið stendur í garðinum að Skúlaskeiði 32, Hafnarfirði þar sem Hólmfríður Finnbogadóttir og Reynir Jóhannsson bjuggu lengst af. Hólmfríður var formaður og síðan framkvæmdastjóri Skógræktarfélags Hafnarfjarðar og Þallar ehf.

Bogsýrena ‘Mjallhvít’ – Syringa komarowii subsp. reflexa ‘Mjallhvít’

Harðgerður, stórvaxinn, sumargrænn runni. Hæð 3 - 4,5 m. Laufblöðin eru oddbaugótt og heilrennd og sitja gagnstætt á greinunum. Lengd laufblaða gjarnan í kringum 15 sm. Blómin holdlituð í knúpp en hvít útsprungin, í stórum (20 sm), aflöngum, drjúpandi klösum miðsumars. Ilmar. Móðurplantan er í garði við Skerseyrarveg í Hafnarfiði og er greinilega margra áratuga gömul. Ekkert er nánar vitað um uppruna hennar. Blómstrar sum ár mjög mikið og önnur minna. Þrífst í allri sæmilega frjórri, framræstri garðmold. Blómgast mest í fullri sól. Bogsýrena 'Mjallhvít' hentar stakstæð, í raðir og þyrpingar, sem skraut í skógarlundi og í bland með öðrum runnagróðri. Millibil í upphafi 1 - 1,5 m. Náttúruleg heimkynni bogsýrenu eru í fjalllendi M-Kína. Smjörviðarætt (Oleaceae).

Bolvíðir – Salix udensis – Ivashka, Kamsjatka

Harðgert, hraðvaxta tré / runni. Laufið er mjólensulaga. Gulir haustlitir. Virðist stöðugri og beinvaxnari en flestur annar víðir að selju (Salix caprea) undanskilinni. Sólelskur. Þrífst í allri venjulegri garðmold. Um er að ræða klón frá Ivashka, Kamtsjatka, Rússlandi sem safnað var í Kamtsjatka-leiðangri Óla Vals Hanssonar og Brynjólfs Jónssonar árið 1993. Bolvíðir hentar sem stakstætt tré en einnig í raðir og þyrpingar með um 2 m millibili hið minnsta. Sjaldgæfur hérlendis. Kvenkyns klón.

Breiðumispill ‘Eichholz’ – Cotoneaster dammeri ‘Eichholz’

All harðgerður, sígrænn, fremur hægvaxta jarðlægur runni. Hæð: 10 - 25 sm. Breidd: 80 sm. Laufið smátt, dökkgrænt. Ljós stjörnulaga blóm birtast í júni/júlí. Þroskar rauð ber í september sem gjarnan sitja á greinunum fram á vetur. Þolir vel hálfskugga. Þrífst í allri venjulegri garðmold. Hentar sérstaklega vel sem kantplanta, sem undirgróður undir trjám/runnum sem ekki varpa of miklum skugga. Breiðusmispill 'Eichholz er einnig kjörinn í hleðslur, steinhæðir og brekkur. Millibil um 70 sm.

Breiðumispill ‘Major’ – Cotoneaster dammeri ‘Major’

Sæmilega harðgerður, sígrænn, jarðlægur runni. Blöðin eru sporöskjulaga og stærri samanborið við önnur yrki breiðumispils. Blöðin verða gjarnan rauðleit á veturna. Blómin eru smá, hvít, stjörnulaga með rauðum fræflum og birtast miðsumars. Rauð ber þroskast á haustin. Sitja gjarnan á greinunum fram á vetur. Breiðumispill 'Major' þolir hálfskugga. Hentar sem kantplanta, sem undirgróður undir trjám/runnum sem ekki varpa miklum skugga. Fer einnig vel í hleðslum og ofan á veggjum þar sem greinarnar geta slútað niður. Millibil um 60 - 70 sm. Þrífst eingöngu í grónum görðum í sæmilega frjóum, vel framræstum jarðvegi. Skýlið fyrsta veturinn með t.d. striga.

Breiðumispill / Hrísmispill ‘Skogholm’ – Cotoneaster x suecicus ‘Skogholm’

All harðgerður, sígrænn, jarðlægur, þekjandi runni. Laufið dökkgrænt, heilrennt. Verður gjarnan bronslitað yfir vetrartímann. Stundum vill laufið sviðna að vetri til en það lagast yfirleitt fljótlega aftur. Blómin smá, hvít með rauðbleikum frjóhnöppum, stjörnulaga snemmsumars. Stundum þroskast rauðgul ber á haustin. Þolir hálfskugga. Tilvalinn í hleðslur, kanta, upp á veggi, í ker og þess háttar. Greinarnar geta með tímanum slútað niður um 2 m. Millibil 60 - 80 sm. Vinsæl garðplanta hérlendis. Fjótvaxnari samanborið við skriðmispil (C. apiculatus). Þrífst í allri venjulegri, vel framræstri garðmold. 'Skogholm' er sænskt úrvalsyrki frá árinu 1941.

Broddhlynur – Acer platanoides

Sæmilega harðgert, meðalhátt - hávaxið tré. Blöðin stór, þunn, með löngum blaðstilk, gagnstæð, handsepótt. Skuggþolinn en skjólþurfi. Hentar eingöngu til ræktunar í grónum hverfum eða í skógarskjóli. Sómir sér best stakstæður. Gulir - rauður haustlitir. Verður gjarnan fyrir haustkali. Ekki eins harðgerður og garðahlynur (Acer pseudoplatanus). Blómin eru smá, gulleit í klösum. Blómstar fyrir laufgun. Horn á milli hnotvængja um 180 gráður. Bjóðum einnig upp broddhlyn með purpuralitum/bronslituðum laufum (sjá myndir).

Broddhlynur rauður /“Purpurahlynur“ – Acer platanoides f. purpurea

Sæmilega harðgert tré. Hæð 5 - 6 m eða meira hérlendis. Hætt við haustkali. Blöðin eru dökkpurpurarauð og þunn. Laufgast í byrjun júní. Haustlitur skærrauður - rauðgulur. Blómgast stundum fyrri part sumars ljósgulum blómum í sveipum. Stundum myndast aldin sem eru vængjaðar hnotir tvær og tvær saman nánast í beinni línu en mynda ekki horn eins og aldin garðahlyns (A. pseudoplatanus). Þarf frjóan, vel framræstan, ekki súran jarðveg. Sólelskur en getur staðið í hálfskugga. Hentar í grónar lóðir þar sem vaxtartími er ekki of stuttur. Millibil alla vega 2 m. Broddhlynirnir okkar eru af fræi og því ekki sérstök yrki.

Burnirót – Rhodiola rosea

Mjög harðgerður, íslenskur, fjölær þykkblöðungur. Laufið gráleitt. Vex upp af gildum jarðstönglum. Karlblóm gulleit en kvenblóm rauðleit. Sólelsk. Þrífst vel í þurrum jarðvegi. Burnirót hentar aðallega í hleðslur, steinhæðir, ker og þess háttar. Burnirót á sér langa sögu sem lækninga- og heilsujurt.

Degli – Pseudotsuga menziesii

Meðalhátt - hávaxið, sígrænt tré hérlendis. Barrið mjúkt. Minnir á þin (Abies spp.). Brum deglis eru lang- og hvassydd en sljóydd eða alveg rúnuð á þin. Krónan er venjulega keilulaga. Stundum afmynduð sökum kals. Barrið grænt - gulgrænt. Könglar meðalstórir með mjög áberandi langri hreisturblöðku. Degli þarf nokkuð skjól til að þrífast. Þolir hálfskugga. Þarf þokkalega frjóan, rakaheldinn jarðveg. All hraðvaxið á góðum stöðum.  Degli hentar stakstætt eða í þyrpingar með alla vega 3 m millibili. Einnig til skógræktar í skjóli af öðrum trjám. Degli hefur einnig gengið undir nöfnunum "döglingsviður" og "douglasgreni". Í timburiðnaði nefnist degli "Oregon pine". Fremur sjaldgæft hérlendis. Hefur þroskað spírunarhæft fræ hérlendis.

Demantsvíðir ‘Flesja’ – S. pulchra ‘Flesja’

Harðgerður, alveg jarðlægur runni. Litlir gráloðnir reklar birtast jafnvel á miðjum vetri. Laufið ljósgrænt, heilrennt og gljáandi. Axlarblöð áberandi. Gulir haustlitir í september - október. Visin lauf sitja gjarnan á greinunum fram á vetur. Hentar í hleðslur, kanta, ker o.þ.h. Sólelskur. Hentar því ekki sem undirgróður. Nægjusamur hvað varðar jarðveg. Úrvalsyrki úr Alaskaferð Óla Vals og félaga 1985. Heimkynni tegundarinnar eru auk Alaska í Kanada og Rússlandi.

Demantsvíðir ‘Kodiak’ – Salix pulchra ‘Kodiak’

All harðgerður, þéttur runni. Hæð um 1,5 m. Greinar og sprotar áberandi rauðbrúnar. Laufin eru sporöskjulaga - lensulaga, hárlaus, ydd og gljáandi á efra borði. Blágræn á því neðra. Stöku lauf sitja á runnanum allan veturinn. Það á sama á við um axlarblöðin sem eru mjó og nokkrir millimetrar á lengd. Silfur-loðnir reklar birtast seinni part vetrar (feb/mars). Sólelskur. Demantsvíðir þrífst í öllum sæmilega frjóum og rakaheldnum jarðvegi. Hentar í runnaþyrpingar einn og sér eða í bland með öðrum tegundum. Hentar sjálfsagt í lægri limgerði. Millibil 50 - 100 sm. Yrkinu 'Kodiak' var safnað á Kodiakeyju við Alaska í leiðangri Ólafar S. Njálssonar, Nátthaga og Pers í Mörk árið 1994. Heimkynni demantsvíðis eru auk Alaska, NV-Kanada og NA-Rússland. Víðisætt (Salicaceae).

Dílatvítönn – Lamium maculatum

Jarðlæg, þekjandi jurt. Lauf gjarnan meira og minna silfurgrátt. Blómkollar fjólubláir, bleikir eða hvítir eftir yrkjum. Skuggþolin. Þrífst best í venjulegri garðmold sem ekki er of þurr.

Döglingskvistur – Spiraea douglasii

Harðgerður, þéttur runni. Hæð rúmlega 1 m. Blómin fjólubleik í uppréttum klösum síðsumars (ágúst - september). Virðast loðin þar sem fræflarnir standa út fyrir blómskipunina. Greinar uppréttar, rauðbrúnar. Visnar blómskipanir standa fram á vetur. Döglingskvistur hefur talsvert skriðullt rótarkerfi. Laus við meindýr og sjúkdóma. Þolir hálfskugga. Best fer á því að klippa döglingskvist niður í svona 50 - 60 sm seinni part vetrar. Það hefur ekki áhrif á blómgun þar sem döglingskvistur blómgast á árssprotann. Þrífst í allri venjulegri rakaheldinni garðmold. Döglingskvist er gjarnan plantað í raðir / limgerði. Einnig í ker og þess háttar þar sem hann getur alveg fyllt út í rýmið. Hentar síður með öðrum gróðri nema tegundum sem eru sjálfar duglegar í samkeppni. Tilvalinn í villigarða þar sem hann má breiðast út. Líklegt er að stór hluti af því sem í daglegu tali kallast "döglingskvistur" sé í raun úlfakvistur (S. x billardii). Heimkynni: Vestanverð N-Ameríka. Úlfakvistur er blendingur döglings- og víðikvists (S. salicifolia). Víðikvistur er frá Evrasíu.

Döglingsþyrnir – Crataegus douglasii

Lítið tré eða runni (2-6 m). Þéttur. All harðgerður. Fremur hægvaxta. Laufið tvísagtennt, gljáandi. Rauðir haustlitir. Greinar þyrnóttar. Blómin hvít í sveip. Aldinið svart, ætt ber (kjarnaldin). Sólelskur en þolir hálfskugga. Döglingsþyrnir hentar sem stakstætt lítið tré, í þyrpingar með 2 m millibili eða í bland með öðrum runnum og jurtum. Hentar í klippt eða óklippt limgerði með um 0,7 - 1 m millibili. Hentar einnig í yndisskóga. Framleiðum eingöngu döglingsþyrni af fræi sem safnað er hérlendis. Heimkynni: Vestanverð N-Ameríka, allt norður til Alaska.

Dröfnulyngrós ‘Grandiflorum’ – Rhododendron catawbiense ‘Grandiflorum’

Lágvaxinn - meðalstór runni (1,5 m). Laufið all stórt, sígrænt. Blómin trektlaga, fjólubleik með rauðbrúnum dröfnum í krönsum í júní. Þarf nokkurt skjól. Þolir hálfskugga. Þrífst best í grónum görðum og skógarskjóli. Gróðursetjið í blöndu af mómold, furunálum og veðruðu hrossataði. Ein algengasta lyngrósin hérlendis.

Dröfnulyngrós ‘Roseum Elegans’ – Rhododendron catawbiense ‘Roseum Elegans’

Sígrænn runni. Hæð um 1,5 m. Þarf skjól. Þolir vel hálfskugga. Þrífst best í mómold sem blönduð er gömlu hrossataði

Dúnheggur – Prunus maximowiczii

All harðgert, fremur lágvaxið tré eða runni (5 - 7 m). Blómin hvít, nokkur saman snemmsumars (júní). Aldinið lítið rautt - svart ætt, ber (steinaldin). Rauðir - gulir haustlitir. Takmörkuð reynsla enda sárasjaldgæfur hérlendis. Hentar stakstæður eða í þyrpingar með um 3 m millibili. Þolir hálfskugga. Heimkynni dúnheggs eru í NA-Asíu (Kína, Kórea, Rússland og Japan). Vex þar til fjalla í leirkenndum jarðvegi. Plönturnar okkar eru vaxnar upp af fræi sem safnað var hérlendis.

Dúntoppur – Lonicera xylosteum

Harðgerður, þéttur, meðalhár - hávaxinn runni (1,5 - 3,0 m). Blómin smá, fölgul, tvö og tvö saman. Rauð, óæt, samvaxin ber þroskast á haustin. Laufið dúnhært. Gulir haustlitir. Skuggþolinn. Heilbrigður. Dúntoppur hentar sérlega vel sem undirgróður undir stærri trjám. Einnig tilvalinn í skuggsæl horn. Þolir vel klippingu og hentar því í limgerði. Millibil 50 - 100 sm. Sæmilega vind- og saltþolinn. Þrífst í allri venjulegri garðmold. Berin eru eitruð en ekki hættuleg. Heimkynni: Víða í Evrópu, N-Tyrkland og V-Síbería.

Dvergavör ‘Atropurpurea’ – Ajuga reptans ‘Atropurpurea’

Harðgerð, alveg jarðlæg fjölær jurt. Laufið gljáandi, dökk-purpurarautt - brúnt. Hálf-sígræn. Blómin dökkfjólublá í uppréttum klasa. Blómgast á miðju sumri. Dreifir sér út með ofanjarðar-renglum. Skuggþolin. Prýðis þekjuplanta undir trjám og inn á milli runna og fjölæringa. Þrífst í allri venjulegri garðmold svo fremi að hún sé of þurr.

Einir – Juniperus communis – Undirhlíðar-Hfj

Harðgerður, sígrænn, lágvaxinn runni (30 - 120 sm). Ýmist jarðlægur eða hálfuppréttur. Sérbýll. Kvenplöntur þroska einiber á tveimur árum. Þau má nýta í matargerð. Sólelskur. Hægvaxta. Einir hentar í ker, hleðslur, kanta og þess háttar. Einnig í blönduð beð með öðrum sígrænum runnum. Jarðlæg yrki nokkuð þekjandi. Vex villtur víða um land.

Einir ‘Holger’ – Juniperus ‘Holger’

All harðgerður, sígrænn, lágvaxinn, hægvaxta, þekjandi runni (50 sm á hæð). Barrið á nýjum sprotum ljósgult síðan gráblátt. Sólelskur. Hentar í ker, hleðslur, kanta og þess háttar. Ekki eins harðgerður og himalajaeinir 'Meyeri'. Yrkið 'Holger' mun vera blendingur garðaeinis (J. media 'Pfitzeriana Aurea') og himalajaeinis (J. squamata 'Meyeri'). Úr smiðju Holger Jensen, Svíþjóð frá árinu 1946.

Einir ‘Loderi’ – Juniperus ‘Loderi’

All harðgerður, sígrænn, þéttur, hægvaxta, keilulaga runni. Barrið er blágrænt og ilmandi. Hæð um 1 m. Getur hugsanlega orðið hærri með tímanum. Sólelskur en þolir hálfskugga. Þarf nokkurt skjól til að þrífast. Yrkið 'Loderi' er ýmist talið heyra undir himalajaeini  (J. squamata) eða J. pingii en einitegundir þessar eru líkar útlits. Þrífst í öllum sæmilega frjóum, framræstum jarðvegi. Má vera malar og/sandborinn. Sagður þurrkþolinn. Hentar í beð með sígrænum runnum eins og lyngrósum og lyngi. Einnig í steinhæðir og hleðslur þar sem skjól er þokkalegt. Hentar einnig í gróna kirkjugarða. Finnst hér og þar í görðum en ekki sérlega algengur. Lofar þó góðu. Grátviðarætt (Cupressaceae).

Einir / Írlandseinir – Juniperus communis ‘Hibernica’

Sígrænt, súlulaga smátré. Hæð allt að 2 m. Hægvaxta. Barrið stingandi. Sólelskur en þolir hálfskugga. Skjólþurfi. Hentar í blönduð beð með öðrum sígrænum gróðri og í ker í skjóli. Skýlið írlandseini að minnsta kosti fyrsta veturinn eftir gróðursetningu.

Eplamynta – Mentha suaveolens

All harðgerð, fjölær jurt. Hæð: 30 - 70 sm. Blöðin áberandi loðin. Hvít eða bleik blóm birtast stundum þegar komið er undir haust. Þrífst vel í frjóum, rakaheldnum eða jafnvel blautum jarðvegi. Sólelsk. Má nota ferska og þurrkaða í te, salöt, til að skreyta rétti og þess háttar. Eplamynta kemur fremur seint upp (júní) og gæti maður því haldið að hún væri dauð á vorin. Sjaldgæfari í ræktun hérlendis samanborið við piparmyntu (Mentha x piperita) Heimkynni: Suður- og V-Evrópa.

Eplatré ‘Transparente Blanche’ – Malus ‘Transparente Blanche’

Ólíkt flestum öðrum eplayrkjum er 'Transparente Blanche' sjálffrjótt. Þó gefur betri raun að planta epli af öðru yrki í grennd til að tryggja betri frjóvgun og aldinmyndun. Góðar frjósortir eru: 'Discovery'/ 'Katja'/ 'Sävstaholm'. Þrífst aðeins í skjóli og sól. Blandið nóg af lífrænu efni í holuna við gróðursetningu (molta, húsdýraáburður). Ágræðslun á að vera ofanjarðar að gróðursetningu lokinni. Setjið stoðir við tréið að gróðursetningu lokinni. Berið tilbúinn áburð í kringum tréið á hverju vori. Vökvið í þurrkatíð. Fullþroska epli eru ljós-gulgræn og bragðgóð og henta til átu beint af trénu en geymast ekki lengi. Stundum kallað 'Hvítt Glærepli'. Yrkið hefur gefið góða og mikla uppskeru hérlendis í góðu árferði.

Evrópulerki – Larix decidua

Alla jafna harðgert, einstofna barrtré. Barrfellir. Gulir haustlitir í október. Gerir litlar kröfur til jarðvegs. Sólelskt. Getur orðið fyrir haustkali og þess vegna orðið kræklótt. Varpar ekki miklum skugga. Reynist almennt betur í lágsveitum sunnan- og vestanlands samanborið við síberíulerki/rússalerki (L. sibirica). Evrópulerki hentar sem stakstætt tré eða í raðir/þyrpingar með 3-4 m millibili. Hentar einnig til skógræktar.

Fagurlim / Búxus – Buxus sempervirens

Þéttur, sígrænn, hægvaxta, lágvaxinn runni hérlendis (50 - 150 sm). Laufið heilrennt, smágert. Skuggþolið. Þrífst í grónum hverfum í venjulegri garðmold. Tæplega ræktanlegt inn til landsins. Vinsælt í ker og blönduð beð með sígrænum gróðri. Þolir mjög vel klippingu og gjarnan mótað til í kúlur, keilur og fleiri form. Fremur viðkvæmt. Með allra hægvöxnustu runnum hérlendis!

Fagursýprus ‘Columnaris Glauca’ – Chamaecyparis lawsoniana ‘Columnaris Glauca’

Sígrænt smátré eða runni. Barrið hreisturlaga, blágrænt og ilmandi. Uppréttur vöxtur. Hæð hérlendis 2 - 3,5 m. Skjólþurfi en skuggþolinn. Hentar í blönduð beð með öðrum sígrænum gróðri, raðir og ker í skjóli. Skýlið alla vega fyrsta veturinn eftir gróðursetningu.

Fagursýprus ‘Ellwood’s Gold’ – Chamaecyparis lawsoniana ‘Ellwood’s Gold’

Sígrænt (sígullt), smátré eða runni. Upprétt vaxtarlag. Barrið hreisturlaga ljósgrænt - gult. Skjólþurfi en þolir hálfskugga. Hentar í beð með öðrum sígrænum gróðri, raðir, ker í skjóli og þess háttar. Þrífst í allri venjulegri garðmold. Lýsir upp framan við dimman bakgrunn. Hægvaxta.

Fagursýprus / Jólasýprus – Chamaecyparis lawsoniana ‘Ellwoodii’

Þétt, sígrænt, upprétt vaxandi smátré eða runni. Barrið fíngert og fjaðurkennt, blágrænt. Skuggþolinn en skjólþurfi. Hægvaxta. Þrífst aðeins í skjólgóðum hverfum og skógarskjóli ekki of langt frá ströndinni. Skýlið fyrsta veturinn eftir gróðursetningu. Gjarnan seldur í blómabúðum fyrir jólin sem lítið "jólatré". Mikið notaður í ker og potta. Endist yfirleitt illa þannig nema í góðu skjóli. Passið að halda moldinni ávallt rakri. Hentar í blönduð beð með öðrum sígrænum gróðri. Þolir vel klippingu en afskaplega hægvaxta. Verður með tímanum 2 - 3 m hérlendis á bestu stöðum.

Fagursýrena ‘Elinor’ – Syringa x prestoniae ‘Elinor’

Harðgerður stórvaxinn runni eða lítið tré (3 - 4 m). Blómin lillableik, ilmandi í uppréttum klasa miðsumars. Hefur lengi verið ein vinsælasta sýrenan hérlendis enda blómsæl og harðgerð víðast hvar. Þolir hálfskugga. Hentar stakstæð, í bland með öðrum gróðri og í raðir og þyrpingar þar sem pláss leyfir. Hæfilegt bil á milli sýrena er 1,5 - 2,0 m. Kettir virðast ekki sækja sérstaklega í 'Elinor'. 'Elinor' er kanadískt úrvalsyrki úr smiðju Isabellu Preston (1881-1965).

Fjallabergsóley – Clematis alpina

Harðgerður, sumargrænn vafningsviður. Blómin eru yfirleitt lillablá og klukkulaga. Blómgast snemmsumars (júní). Aldinið er silfurhærð biðukolla og eru biðukollurnar einnig skrautlegar. Bergsóleyjar klifra með því að blaðstilkarnir vefja sig utan um greinar, net og þess háttar. Vex upp í 2 - 3 m ef aðstæður leyfa. Breidd 1 - 1,5 m. Fjallabergsóley þolir vel hálfskugga. Gróðursetjið bergsóleyjar 20 - 30 sm frá vegg / klifurgrind. Getur einnig klifrað upp runna og tré. Þrífst í allri venjulegri garðmold. Þolir vel klippingu. Verður gjarnan ber að neðan með tímanum. Best fer á því að gróðursetja jurtir eða lágvaxna runna framan við bergsóleyjar. Einnig er ráð að klippa þær talsvert á nokkurra ára fresti þar sem þær vilja verða þykkar og miklar um sig efst. Sé klippt að vetri til blómgast þær lítið eða ekki næsta sumar eftir klippingu. Úrvalið af bergsóleyjum er misjafnt á milli ára hjá okkur. Stundum eru til nokkur yrki af fjallabergsóley og stundum einnig fleiri tegundir af Clematis. Heimkynni fjallabergsóleyjar eru fjalllendi M-Evrópu.

Fjallafura / Dvergfura – Pinus mugo

Mjög harðgerður, lágvaxinn - meðalhár, sígrænn runni. Nálar dökkgrænar, 2 saman í búnti. Karlblóm ljósrauð, mörg saman neðst á árssprotum. Síðar rauðbrún. Könglar fremur smáir. Getur orðið talsvert breið. Til að halda fjallafuru þéttri borgar sig að brjóta til hálfs framan af brumun á greinaendum í kringum jónsmessuleytið. Fjallafura gerir litlar kröfur til jarðvegs. Fjallafura er sólelsk og hentar ekki sem undirgróður undir trjám. Fjallafura fer vel í blönduð beð með öðrum gróðri, nokkrar saman í þyrpingu með um 80 - 90 sm millibili. Einnig í stórgerðar hleðslur, ker og á opin svæði. Skýlið fjallafura alla vega fyrsta veturinn ef gróðursett er á mjög opnum og skjóllausum stöðum eins og í kringum háar byggingar o.þ.h. Smávaxin/fínleg fjallafura er gjarnan kölluð "dvergfura". Í raun er um stömu tegund að ræða. Fjallafura/dvergfura er mjög vinsæl og útbreidd í görðum og útivistarskógum. Fjallafuran okkar í Þöll er öll vaxin upp af fræi sem safnað hefur verið hérlendis eins og t.d. í Rauðvatnsstöðinni í Rvk, Gráhelluhrauni í Hfj og víðar. Heimkynni: Fjalllendi Mið- og SA-Evrópu. Myndar blendinga með bergfuru (P. uncinata) þar sem útbreiðslusvæði tegundanna skarast í vestanverðum Ölpunum.

Fjallagullregn – Laburnum alpinum

Harðgert lágvaxið - meðalhátt tré (6 - 12 m). Þrífingrað lauf. Gulir haustlitir. Langir, gulir, ilmandi, drjúpandi blómklasar. "Baunabelgir" þroskast á haustin. Hver með nokkrum, dökkbrúnum fræum sem eru eitraðasti hluti trésins. Gjarnan margstofna og krónan breið. Sólelskt en þolir hálfskugga. Lifir í sambýli við niturbindandi bakteríur. Klippið og snyrtið gullregn á sumrin til að minnka líkur á átu. Með allra glæsilegustu trjám sem völ er á. Sáir sér gjarnan eitthvað út en ekki til ama. Eitrað sé þess neytt.