Showing 25–36 of 389 results

Bjarmarós ‘Maxima’ – Rosa alba ‘Maxima’

Sæmilega harðgerð runnarós / antíkrós. Hæð allt að 1,5 m. Greinar gisþyrnóttar. Blóm fölbleik í knúpp. Rjómahvít, meðalstór, fyllt og ilmandi útsprungin. Blómgast í nokkrar vikur síðsumars. Laufblöðin stakfjöðruð, grágræn. Sólelsk og skjólþurfi. Þrífst best í sæmilega frjóum jarðvegi. Blandið gömlu hrossataði eða moltu saman við jarðveginn við gróðursetningu. Berið á tilbúinn áburð einu sinni til tvisvar í kringum rósina á vorin og fyrri part sumars sem nemur um einni matskeið. Klippið aðeins kalnar greinar í maí / júní. 'Maxima' hentar í rósabeð við vegg á móti sól eða annars staðar með rósum og jurtum í góðu skjóli og sól. Getur hentað sem klifurrós á grind við vegg. 'Maxima' er mjög gamalt yrki af óþekktum uppruna.

Bjarmasýrena ‘Valkyrja’ – Syringa wolfii ‘Valkyrja’

Harðgerður, þéttur, meðalhár runni (1,5 - 2,5 m). Blómin lillableik, ilmandi í klösum. Lágvaxnari en aðrar sýrenur. Sólelsk en þolir hálfskugga. Nýtur sín vel stakstæð eða fleiri saman í þyrpingu með um 120 sm millibili. Hentar einnig í stóra potta. Kettir sækja talsvert í Bjarmasýrenu 'Valkyrju' og geta eyðilagt hana meðan hún er ung. Því borgar sig að setja girðingu/net utan um nýgróðursettar plöntur og hafa það í kring fyrstu árin þar sem mikið er um ketti. 'Valkyrja' er úrval úr Grasagarði Reykjavíkur.

Bjarttoppur – Lonicera x tellmanniana

All harðgerður klifurrunni/vafningsviður. Laufblöð gagnstæð. Blómin rauðgul í krönsum síðsumars. Gróðursetjið upp við vegg við klifurgrind. Getur einnig klifrað upp tré og runna. Þrífst í frjósamri garðmold í skjólgóðum görðum. Sólelskur en þolir hálfskugga.

Bláfífill – Cicerbita alpina

Harðgerð, hávaxin, fjölær jurt. Blómkörfurnar fjólubláar með eingöngu tungukrónum í löngum greinóttum toppum. Laufið minnir á lauf túnfífils en stórvaxnara. Getur þurft uppbindingu. Þarf frjóan, rakaheldinn jarðveg. Blómgast miðsumars. Á það til að sá sér eitthvað út. Þolir vel hálfskugga. Hentar aftarlega í blóma- og runnabeð. Heimkynni: Fjalllendi Evrópu, austur til Úralfjalla í Rússlandi.

Blágreni – Picea engelmannii

Harðgert, hávaxið, keilulaga, sígrænt barrtré. Nýja barrið bláleitt, ekki eins stingandi eins og barr sitkagrenis (Picea sitchensis). Gömul tré hérlendis þroska stundum köngla. Fremur hægvaxta. Krónan gjarnan fremur mjóslegin. Þolir hálfskugga. Þrífst betur inn til landsins en síður við sjávarsíðuna. Sitkalús getur verið vandamál. Blágreni er glæsilegt stakstætt tré. Sómir sér einnig í þyrpingum með að minnsta kosti 3 m millibili. Úrvals jólatré enda barrheldið. Víða nýtt til skógræktar sérstaklega norðan- og austanlands. Blágreni þykir all gott timburtré og viðurinn sagður léttur en fremur sterkur. M.a. nýtt í ýmis hljóðfæri. Blágreni er fyrst og fremst háfjallatré. Heimkynni blágrenis eru aðallega í Klettafjöllum og Fossafjöllum (Cascade Range) N-Ameríku. Vex þar víða upp að skógarmörkum. Myndar blendinga með hvít- (P. glauca) og sitkagreni (P. sitchensis) í heimkynnum sínum þar sem útbreiðslusvæði þessara tegunda skarast.

Blárifs ‘Perla’ – Ribes bracteosum ‘Perla’

Fremur harðgerður lágvaxinn til meðalstór runni (1,5 - 2 m). Laufin fremur stór, handsepótt, gljáandi á löngum blaðstilk. Gulir haustlitir. Blómin brúnleit í útstæðum klösum. Berin bláhéluð í löngum útstæðum klösum. Henta í sultur og þess háttar en ekki sérstök til átu hrá. Blárifs 'Perla' er skuggþolið en þroskar mest af berjum í sól. Þrífst betur við ströndina en inn til landsins. Hentar í raðir, þyrpingar, í berjagarðinn og sem undirgróður undir trjám. 'Perla' er úrvalsyrki valið af Ólafi S. Njálssyni úr Alaskasafni því er barst til landsins með Óla Val og félögum árið 1985.

Blátoppur ‘Rúnar’ – Lonicera caerulea ‘Rúnar’

Harðgerður, þéttur runni. Hæð 1,5 - 2,3 m. Laufin eru sporöskjulaga, heilrennd og mött. Laufgast gjarnan snemma í maí. Lauf skærgræn í fyrstu en dökk-blágræn þegar líður á sumarið. Haustlitur gulur - brúnn. Sprotar rauðleitir. Ungar greinar rauðbrúnar. Brumin gagnstæð og er það áberandi að þau sitja nokkur saman. Blómin eru gulgræn, tvö og tvö saman fyrri part sumars. Aldinið er dökkblátt ber. Blóm og aldin eru ekki áberandi. Berin eru ekki bragðgóð. Blátoppur er all skuggþolinn. Almennt heilbrigður. Þolir vel klippingu. Þetta yrki gæti verið 'Bergur'. Heimkynni: Kaldtempruð svæði í N-Ameríku, Evrópu og Asíu.

Blátoppur ‘Þokki’ – Lonicera caerulea ‘Þokki’

Mjög harðgerður, þéttur, fremur hægvaxta runni. Laufið blágrænt, gagnstætt. Blómin smá, gulgræn og lítið áberandi. Aldinið blátt ber. Ekki talin góð til átu. Blátoppur 'Þokki' er skuggþolinn. Hentar í raðir, þyrpingar, limgerði og til uppfyllingar í skuggsæl horn og undir trjám. Lokar sér vel niður að jörð og heldur þannig niðri illgresi. Almennt heilbrigður. Þrífst vel í allri venjulegri garðmold. Millibil í limgerði um 50 sm eða meir.

Blóðbeyki – Fagus sylvatica ‘Purpurea’

Sæmilega harðgert, þétt, fremur hægvaxta tré. Hæstu blóðbeyki hérlendis eru hátt í 9 m há. Getur sjálfsagt náð 12 m á hæð eða meir á bestu stöðum. Laufin áberandi purpurarauð/vínrauð. Dökkgræn/blágræn í skugga. Laufgast um mánaðarmótin maí/júní. Laufin sitja visin, ljósbrún á greinum yngri trjáa og á neðstu greinum á eldri trjám allan veturinn. Sólelskt. Almennt heilbrigt. Blóðbeyki þarf sæmilega djúpan, frjóan og vel framræstan jarðveg. Hentar aðeins til ræktunar í sæmilega grónum hverfum og í skógarskjóla ekki of langt inn til landsins. Aðallega gróðursett stakstætt. Millibil 3 m eða meir. Blóðbeyki er stökkbreyting af venjulegu beyki (F. sylvatica) sem hefur óvenju mikið af "anthocyanin" litarefni. Blóðbeyki er fyrst talið hafa fundist í skógi við bæinn Sondershausen í Thuringia í Þýskalandi árið 1690. Talið er að stærstur hluti blóðbeykitrjáa í dag reki uppruna sinn til þessa trés. Beykiætt (Fagaceae).

Blóðheggur ‘Colorata’ – Prunus padus ‘Colorata’

Lágvaxið, fremur harðgert tré (4 - 8 m). Stundum runni. Laufið purpurarautt / vínrautt á vorin og fyrri part sumars. Eldra lauf grænna þegar líður á sumarið. Laufgast strax og fer að hlýna í maí. Ljósrauðir - gulir haustlitir í september. Blómin bleik í klösum í lok maí - júní. Einstaka sinnum þroskast svört ber (steinaldin) á haustin. Oftast aflagast þó aldinin af völdum heggvendils (Taphrina padi). Sprotar nær svartir. Ljóselskur en þolir hálfskugga. Í skugga verður blóðheggur grænni en ella. Blóðheggur þrífst í öllum sæmilega frjóum og framræstum jarðvegi. Laufið getur farið illa af völdum lirfa og blaðlúsar í júní en blóðheggurinn laufgast þá upp á nýtt ef því er að skipta. Hentar stakstæður eða í bland með öðrum gróðri. 'Colorata' er sænskt yrki. Fundið í Smálöndum árið 1953. Fremur algengur í ræktun hérlendis.

Blóðrifs ‘Færeyjar’ – Ribes sanguineum ‘Færeyjar’

Harðgerður, meðalhár runni (1,5 - 1,8 m). Lauf handflipótt, mött. Blómin fölbleik í klösum í maí - júní. Þroskar sjaldan ber. Gulir haustlitir. Þolir vel hálfskugga. Blóðrifs 'Færeyjar' hentar í raðir, þyrpingar og limgerði. Þolir vel klippingu. Vinsælt í limgerði í Færeyjum. Þrífst í allri venjulegri garðmold. Barst hingað frá Færeyjum en blóðrifs er annars ættað frá vestanverðri N-Ameríku.

Blóðrifs ‘Svanur’ – Ribes sanguineum ‘Svanur’

All harðgerður, meðalstór runnir (1,5 - 2,5 m). Rauðir blómklasar snemmsumars (júní). Laufið handsepótt. Stundum þroskast blá, æt ber í kjölfarið. Gulir - rauðgulir haustlitir. Þolir hálfskugga. Þrífst vel í venjulegri garðmold í þokkalegu skjóli. Mjög áberandi í blóma. Móðurplantan er í garði Svans Pálssonar og Línu, Háukinn, Hfj. Blóðrifs 'Svanur' fer vel í blönduðum beðum með öðrum runnum og fjölærum jurtum. Hentar einnig í raðir og þyrpingar með um 1 m millibili. Þarf nokkurt skjól til að þrífast. Ekki eins harðgert og blóðrifs 'Færeyjar'. Hugsanlegt er að blóðrifs 'Svanur' sé í raun yrkið 'King Edward VII' en móðurplantan í garði Svans og Línu var á sínum tíma fengin gróðrarstöð Skógræktarfélags Rvk, Fossvogi. Garðaberjaætt (Grossulariaceae).