Showing 37–48 of 390 results

Bogkvistur – Spiraea veitchii – Kristinn Guðsteinsson

Stórvaxinn (3 m) , þokkalega harðgerður runni. Blómin hvít í stórum sveipum. Blómgast síðsumars. Greinarnar vaxa í sveig. Þolir hálfskugga. Fer best stakstæður en hentar einnig í raðir, þyrpingar og blönduð beð. Gulir - rauðgulir haustlitir.

Bogsýrena – S. komarowii ssp. reflexa ‘Hólmfríður’

Harðgerður, stórvaxinn runni eða lítið tré (3 - 4 m). Blómin fyrst lillableik en síðan bleik í drjúpandi klösum, ilmandi. Blómgast miðsumars (júlí). Móðurtréið stendur í garðinum að Skúlaskeiði 32, Hafnarfirði þar sem Hólmfríður Finnbogadóttir og Reynir Jóhannsson bjuggu lengst af. Hólmfríður var formaður og síðan framkvæmdastjóri Skógræktarfélags Hafnarfjarðar og Þallar ehf.

Bogsýrena ‘Mjallhvít’ – Syringa komarowii subsp. reflexa ‘Mjallhvít’

Harðgerður, stórvaxinn, sumargrænn runni. Hæð 3 - 4,5 m. Laufblöðin eru oddbaugótt og heilrennd og sitja gagnstætt á greinunum. Lengd laufblaða gjarnan í kringum 15 sm. Blómin holdlituð í knúpp en hvít útsprungin, í stórum (20 sm), aflöngum, drjúpandi klösum miðsumars. Ilmar. Móðurplantan er í garði við Skerseyrarveg í Hafnarfiði og er greinilega margra áratuga gömul. Ekkert er nánar vitað um uppruna hennar. Blómstrar sum ár mjög mikið og önnur minna. Þrífst í allri sæmilega frjórri, framræstri garðmold. Blómgast mest í fullri sól. Bogsýrena 'Mjallhvít' hentar stakstæð, í raðir og þyrpingar, sem skraut í skógarlundi og í bland með öðrum runnagróðri. Millibil í upphafi 1 - 1,5 m. Náttúruleg heimkynni bogsýrenu eru í fjalllendi M-Kína. Smjörviðarætt (Oleaceae).

Bolvíðir – Salix udensis – Ivashka, Kamsjatka

Harðgert, hraðvaxta tré / runni. Laufið er mjólensulaga. Gulir haustlitir. Virðist stöðugri og beinvaxnari en flestur annar víðir að selju (Salix caprea) undanskilinni. Sólelskur. Þrífst í allri venjulegri garðmold. Um er að ræða klón frá Ivashka, Kamtsjatka, Rússlandi sem safnað var í Kamtsjatka-leiðangri Óla Vals Hanssonar og Brynjólfs Jónssonar árið 1993. Bolvíðir hentar sem stakstætt tré en einnig í raðir og þyrpingar með um 2 m millibili hið minnsta. Sjaldgæfur hérlendis. Kvenkyns klón.

Breiðumispill ‘Eichholz’ – Cotoneaster dammeri ‘Eichholz’

All harðgerður, sígrænn, fremur hægvaxta jarðlægur runni. Hæð: 10 - 25 sm. Breidd: 80 sm. Laufið smátt, dökkgrænt. Ljós stjörnulaga blóm birtast í júni/júlí. Þroskar rauð ber í september sem gjarnan sitja á greinunum fram á vetur. Þolir vel hálfskugga. Þrífst í allri venjulegri garðmold. Hentar sérstaklega vel sem kantplanta, sem undirgróður undir trjám/runnum sem ekki varpa of miklum skugga. Breiðusmispill 'Eichholz er einnig kjörinn í hleðslur, steinhæðir og brekkur. Millibil um 70 sm.

Breiðumispill ‘Major’ – Cotoneaster dammeri ‘Major’

Sæmilega harðgerður, sígrænn, jarðlægur runni. Blöðin eru sporöskjulaga og stærri samanborið við önnur yrki breiðumispils. Blöðin verða gjarnan rauðleit á veturna. Blómin eru smá, hvít, stjörnulaga með rauðum fræflum og birtast miðsumars. Rauð ber þroskast á haustin. Sitja gjarnan á greinunum fram á vetur. Breiðumispill 'Major' þolir hálfskugga. Hentar sem kantplanta, sem undirgróður undir trjám/runnum sem ekki varpa miklum skugga. Fer einnig vel í hleðslum og ofan á veggjum þar sem greinarnar geta slútað niður. Millibil um 60 - 70 sm. Þrífst eingöngu í grónum görðum í sæmilega frjóum, vel framræstum jarðvegi. Skýlið fyrsta veturinn með t.d. striga.

Breiðumispill / Hrísmispill ‘Skogholm’ – Cotoneaster x suecicus ‘Skogholm’

All harðgerður, sígrænn, jarðlægur, þekjandi runni. Laufið dökkgrænt, heilrennt. Verður gjarnan bronslitað yfir vetrartímann. Stundum vill laufið sviðna að vetri til en það lagast yfirleitt fljótlega aftur. Blómin smá, hvít með rauðbleikum frjóhnöppum, stjörnulaga snemmsumars. Stundum þroskast rauðgul ber á haustin. Þolir hálfskugga. Tilvalinn í hleðslur, kanta, upp á veggi, í ker og þess háttar. Greinarnar geta með tímanum slútað niður um 2 m. Millibil 60 - 80 sm. Vinsæl garðplanta hérlendis. Fjótvaxnari samanborið við skriðmispil (C. apiculatus). Þrífst í allri venjulegri, vel framræstri garðmold. 'Skogholm' er sænskt úrvalsyrki frá árinu 1941.

Broddhlynur – Acer platanoides

Sæmilega harðgert, meðalhátt - hávaxið tré. Blöðin stór, þunn, með löngum blaðstilk, gagnstæð, handsepótt. Skuggþolinn en skjólþurfi. Hentar eingöngu til ræktunar í grónum hverfum eða í skógarskjóli. Sómir sér best stakstæður. Gulir - rauður haustlitir. Verður gjarnan fyrir haustkali. Ekki eins harðgerður og garðahlynur (Acer pseudoplatanus). Blómin eru smá, gulleit í klösum. Blómstar fyrir laufgun. Horn á milli hnotvængja um 180 gráður. Bjóðum einnig upp broddhlyn með purpuralitum/bronslituðum laufum (sjá myndir).

Broddhlynur rauður /“Purpurahlynur“ – Acer platanoides f. purpurea

Sæmilega harðgert tré. Hæð 5 - 6 m eða meira hérlendis. Hætt við haustkali. Blöðin eru dökkpurpurarauð og þunn. Laufgast í byrjun júní. Haustlitur skærrauður - rauðgulur. Blómgast stundum fyrri part sumars ljósgulum blómum í sveipum. Stundum myndast aldin sem eru vængjaðar hnotir tvær og tvær saman nánast í beinni línu en mynda ekki horn eins og aldin garðahlyns (A. pseudoplatanus). Þarf frjóan, vel framræstan, ekki súran jarðveg. Sólelskur en getur staðið í hálfskugga. Hentar í grónar lóðir þar sem vaxtartími er ekki of stuttur. Millibil alla vega 2 m. Broddhlynirnir okkar eru af fræi og því ekki sérstök yrki.

Burnirót – Rhodiola rosea

Mjög harðgerður, íslenskur, fjölær þykkblöðungur. Laufið gráleitt. Vex upp af gildum jarðstönglum. Karlblóm gulleit en kvenblóm rauðleit. Sólelsk. Þrífst vel í þurrum jarðvegi. Burnirót hentar aðallega í hleðslur, steinhæðir, ker og þess háttar. Burnirót á sér langa sögu sem lækninga- og heilsujurt.

Degli – Pseudotsuga menziesii

Meðalhátt - hávaxið, sígrænt tré hérlendis. Barrið mjúkt. Minnir á þin (Abies spp.). Brum deglis eru lang- og hvassydd en sljóydd eða alveg rúnuð á þin. Krónan er venjulega keilulaga. Stundum afmynduð sökum kals. Barrið grænt - gulgrænt. Könglar meðalstórir með mjög áberandi langri hreisturblöðku. Degli þarf nokkuð skjól til að þrífast. Þolir hálfskugga. Þarf þokkalega frjóan, rakaheldinn jarðveg. All hraðvaxið á góðum stöðum.  Degli hentar stakstætt eða í þyrpingar með alla vega 3 m millibili. Einnig til skógræktar í skjóli af öðrum trjám. Degli hefur einnig gengið undir nöfnunum "döglingsviður" og "douglasgreni". Í timburiðnaði nefnist degli "Oregon pine". Fremur sjaldgæft hérlendis. Hefur þroskað spírunarhæft fræ hérlendis.

Demantsvíðir ‘Flesja’ – S. pulchra ‘Flesja’

Harðgerður, alveg jarðlægur runni. Litlir gráloðnir reklar birtast jafnvel á miðjum vetri. Laufið ljósgrænt, heilrennt og gljáandi. Axlarblöð áberandi. Gulir haustlitir í september - október. Visin lauf sitja gjarnan á greinunum fram á vetur. Hentar í hleðslur, kanta, ker o.þ.h. Sólelskur. Hentar því ekki sem undirgróður. Nægjusamur hvað varðar jarðveg. Úrvalsyrki úr Alaskaferð Óla Vals og félaga 1985. Heimkynni tegundarinnar eru auk Alaska í Kanada og Rússlandi.