Körfurunni / Brárunni – Chiliotrichum diffusum
Harðgerður, sígrænn, lágvaxinn runni (1 – 1,5 m). Blöðin fremur smá, dökkgræn að ofan, ljós að neðan. Blómin fremur smá, mörg saman, með hvítar tungukrónur og gulleytar pípukrónur. Litlar biðukollur þroskast að hausti. Sólelskur. Ættaðar frá sunnanverðri S-Ameríku og Falklandseyjum. Virðist all vind- og saltþolinn. Þrífst best í vel framræstum jarðvegi. Körfurunni sómir sér vel í blönduðum beðum með runnum og blómum. Einnig fer vel á því að gróðursetja nokkra saman í þyrpingu með um 70 – 80 sm millibili. Körfurunni finnst hér og þar í görðum. Einnig nefndur „brárunni“. Körfurunni minnir í útliti á rósmarín (Rosmarinus officinalis).
Vöruflokkar: Sígrænir runnar og sígræn smátré, Tré og runnar í pottum
Tengdar plöntur
Baunatré – Caragana arborescens
Harðgerður runni eða lítið tré (1,5 - 2,5 m). Blómin smá, gul, ilmandi. Þau eru æt og má nota í salat. Aldinið belgur með nokkrum ætum baunum/fræjum. Sjóðið fræin áður en þeirra er neytt. Laufið er fjaðrað, mjög ljóst, nánast hvítt á vorin og fyrri part sumars en síðan áberandi gulgrænt. Axlarblöð lík þyrnum. Greinar grænleitar. Sólelskt. Hægvaxta. Lifir í sambýli við niturbinandi bakteríur. Baunatré gerir því litlar kröfur til jarðvegs. Baunatré sómir sér vel stakstætt í garðinum eða í blönduð beð með öðrum gróðri. Einnig má planta baunatré í klippt eða óklippt limgerði. Gengur einnig undir nöfnunum "síberískt baunatré" og "kergi". Náttúruleg heimkynni baunatrés er M-Asía.
Kanadalífviður ‘Brabant’ – Thuja occidentalis ‘Brabant’
Sæmilega harðgert, hægvaxta, þétt, upprétt, sígrænt tré. Hæð 3 - 4 m eftir 15 ár. Getur sjálfsagt náð 5 - 7 m hæð á bestu stöðum með tímanum. Breidd 1 - 1,5 m fyrstu 15 árin. Barrið hreisturkennt, grænt en gjarnan brúnleitara sérstaklega á greinaendum á veturna. Barrið ilmar sé það klippt eða nuddað. Könglar smáir, aflangir. Börkur rauðbrúnn og flagnar með tímanum af í strimlum. 'Brabant' er talið eitt harðgerðasta yrkið af lífvið til ræktunar hérlendis. Þolir vel hálfskugga. Þolir vel klippingu. Hentar í gróna, skjólgóða garða. Kanadalífviður 'Brabant' hentar í blönduð beð með öðrum sígrænum runnum og smátrjám. Einnig fyrir innan skjólgirðingar og þess háttar. Hentar í ker/potta þar sem er gott skjól annars sviðnar barrið illa og plantan veslast upp. Erlendis er 'Brabant' hvað mest gróðursettur í limgerði. Þrífst í allri vel framræstri garðmold. Hollenskt yrki frá níunda áratug síðustu aldar. 'Brabant' er af sumum talinn vera blendingur kanada- og risalífviðar (Thuja plicata).
Blárifs ‘Perla’ – Ribes bracteosum ‘Perla’
Fremur harðgerður lágvaxinn til meðalstór runni (1,5 - 2 m). Laufin fremur stór, handsepótt, gljáandi á löngum blaðstilk. Gulir haustlitir. Blómin brúnleit í útstæðum klösum. Berin bláhéluð í löngum útstæðum klösum. Henta í sultur og þess háttar en ekki sérstök til átu hrá. Blárifs 'Perla' er skuggþolið en þroskar mest af berjum í sól. Þrífst betur við ströndina en inn til landsins. Hentar í raðir, þyrpingar, í berjagarðinn og sem undirgróður undir trjám. 'Perla' er úrvalsyrki valið af Ólafi S. Njálssyni úr Alaskasafni því er barst til landsins með Óla Val og félögum árið 1985.
Einir – Juniperus communis – Undirhlíðar-Hfj
Harðgerður, sígrænn, lágvaxinn runni (30 - 120 sm). Ýmist jarðlægur eða hálfuppréttur. Sérbýll. Kvenplöntur þroska einiber á tveimur árum. Þau má nýta í matargerð. Sólelskur. Hægvaxta. Einir hentar í ker, hleðslur, kanta og þess háttar. Einnig í blönduð beð með öðrum sígrænum runnum. Jarðlæg yrki nokkuð þekjandi. Vex villtur víða um land.
Blátoppur ‘Þokki’ – Lonicera caerulea ‘Þokki’
Mjög harðgerður, þéttur, fremur hægvaxta runni. Laufið blágrænt, gagnstætt. Blómin smá, gulgræn og lítið áberandi. Aldinið blátt ber. Ekki talin góð til átu. Blátoppur 'Þokki' er skuggþolinn. Hentar í raðir, þyrpingar, limgerði og til uppfyllingar í skuggsæl horn og undir trjám. Lokar sér vel niður að jörð og heldur þannig niðri illgresi. Almennt heilbrigður. Þrífst vel í allri venjulegri garðmold. Millibil í limgerði um 50 sm eða meir.
Birki / Ilmbjörk – Betula pubescens
Harðgert íslenskt tré. Hæð breytileg. Sólelskt. Í meðallagi hraðvaxið. Þrífst best í frjóum jarðvegi en annars nægjusamt. Getur lifað í all blautum jarðvegi. Lauf ilmar, sérstaklega á vorin í röku veðri. Haustlitur á ekta ilmbjörk er gulur. Eina trjátegundin sem myndað hefur skóga hérlendis frá því að síðustu ísöld lauk fyrir um 10.000 árum. Myndar gjarnan blendinga með fjalldrapa (B. nana). Blendingurinn kallast skógviðarbróðir og er misstór runni en ekki tré og mjög algengur í íslenskri náttúru, sérstaklega vestanlands. Skógviðarbróðir hefur yfirleitt dökkan / svartan börk, smágert lauf og rauðgulan haustlit. Birki hentar sem stakstætt tré eða fleiri saman í þyrpingum og röðum með að minnsta kosti 2,5 m millibili. Einnig notað til skógræktar og uppgræðslu. Vex þó hægt í ófrjóu landi. Birki hentar einnig í klippt limgerði á sólríkum stöðum. Upp á síðkastið hafa nýjar tegundir skordýra sem herja á birki numið land. Birkið okkar í Þöll er af Bæjarstaða-uppruna. Móðurtréin eru af yrkinu 'Embla'. Því fá tréin venjulega ljósan börk með aldrinum.