Alaskayllir – Sambucus racemosa ssp. arborescens
Harðgerður, stórvaxinn, grófur runni. Hæð: 3-5 m. Blómin mörg saman í kremuðum klasa í maí – júní. Berin eldrauð í ágúst. Fuglar sækja mjög í berin. Gulir – brúnir haustlitir. Laufgast snemma á vorin. Hraðvaxta. Mjög skuggþolinn. Sáir sér gjarnan út þar sem aðstæður leyfa. Góður til uppfyllingar í skuggsæl horn o.þ.h. Getur hæglega vaxið yfir aðrar plöntur og skyggt þær út. Virðist nokkuð saltþolinn. Þolir vel klippingu. Millibil 1,5 – 2,0 m.
Vörunr. fb09179d65fa
Vöruflokkar: Runnar, Tré og runnar í pottum
Tengdar plöntur
Hnjúkarifs / Jöklarifs- Ribes glaciale
Harðgerður, þéttur, meðalhár runni. Sprotar áberandi rauðir. Minnir annars á fjallarifs (Ribes alpinum). Börkur flagnar af í rauðbrúnum næfrum. Hentar í limgerði, klippt eða óklippt. Þolir vel hálfskugga.
Bogsýrena – S. komarowii ssp. reflexa ‘Hólmfríður’
Harðgerður, stórvaxinn runni eða lítið tré (3 - 4 m). Blómin fyrst lillableik en síðan bleik í drjúpandi klösum, ilmandi. Blómgast miðsumars (júlí). Móðurtréið stendur í garðinum að Skúlaskeiði 32, Hafnarfirði þar sem Hólmfríður Finnbogadóttir og Reynir Jóhannsson bjuggu lengst af. Hólmfríður var formaður og síðan framkvæmdastjóri Skógræktarfélags Hafnarfjarðar og Þallar ehf.
Perlukvistur – Spiraea x margaritae
Lágvaxinn, þéttur, hálfkúlu-laga runni. Hæð: 50 - 60 sm. Stórir fölbleikir blómsveipir síðsumars. Rauðgulir haustlitir. Fremur harðgerður. Hentar í ker / stampa, raðir, þyrpingar og blönduð beð. Millibil 60 - 70 sm. Best fer á því að klippa perlukvistinn niður síðvetrar. Blómgast á árssprotann.
Sólbroddur ‘Laugardalur’ – Berberis thunbergii ‘Laugardalur’
Fremur harðgerður, þéttur, þyrnóttur, meðalstór runni. Hæð: 1,5 - 2,5 m. Nýtt lauf rauðleitt. Smá gul blóm. Sólelskur. Þolir vel klippingu. Skærrauðir haustlitir í október - nóvember. Þrífst best í venjulegri garðmold. Hentar í raðir, þyrpingar, í limgerði og stakstæður. Yrkið er fræplanta af B. thunbergii 'Golden Ring' að talið er sem sáð var til í Grasagarði Reykjavíkur, Laugardal. Vegna þess hve sólbroddur 'Laugardalur' heldur laufinu lengi fram eftir hausti hefur hann stundum ranglega verið talinn sígrænn. Einn allra útbreiddasti broddurinn (Berberis spp.) hérlendis.
Demantsvíðir ‘Flesja’ – S. pulchra ‘Flesja’
Harðgerður, alveg jarðlægur runni. Litlir gráloðnir reklar birtast jafnvel á miðjum vetri. Laufið ljósgrænt, heilrennt og gljáandi. Axlarblöð áberandi. Visin lauf sitja gjarnan á greinunum fram á vetur. Hentar í hleðslur, kanta, ker o.þ.h. Sólelskur. Úrvalsyrki úr Alaskaferð Óla Vals og félaga 1985.
Purpurabroddur / sunnubroddur – Berberis x ottawensis ‘Superba’
Meðalstór, þyrnóttur runni (1,5 - 2,5 m). Purpurarautt lauf. Gulir blómklasar í júní. Skærrauðir haustlitir. Þolir vel klippingu. Sólelskur. Hentar í raðir, þyrpingar, stakstæður og jafnvel í klippt limgerði. Þrífst vel í venjulegtri garðmold. Vinsælasti broddurinn hérlendis.
Svartyllir ‘Black Lace’ – Sambucus nigra ‘Black Lace’
Frekar viðkvæmur runni. Hæð: 1,5 - 3,0 m. Laufið tvífjaðrað, dökk-purpurarautt. Blómin ljósbleik í sveip síðsumars. Þroskar ekki aldin hérlendis. Þrífst best í sól en þolir hálfskugga. Verður yfirleitt fyrir haustkali. Hentar aftarlega í blönduð beð innan um ljósari gróður. Einnig sem stakstæður.
Svartyllir – Sambucus nigra
All harðgerður, stórvaxinn runni. Hæð: 2 - 4 m. Grófgreinóttur. Brum gagnstæð. Blöðin stakfjöðruð, græn. Blómin hvít, mörg saman í stórum sveipum síðsumars (ágúst). Berin svört fullþroskuð en svartyllir dregur nafn sitt af liti berjanna. Nær ekki að þroska ber utandyra hérlendis. Blómin má nýta í svaladrykk. Skuggþolinn en blómgast betur í sól. Þrífst vel í venjulegri, ekki og þurri garðmold. Þrífst vel í grónum görðum á höfuðborgarsvæðinu og víðar. Millibil: 1 m eða meir. Í seinni tíð hafa komið fram yrki af svartylli með rauðbrúnum/purpurarauðum laufum og bleikum blómum eins og 'Black Lace' og 'Black Tower'