Alpareynir – Sorbus mougeotii
Harðgert, fremur lágvaxið tré eða hávaxinn runni (5 – 8 m). Ýmist ein- eða margstofna. Laufið grænt og gljáandi að ofan en silfurhvít-hært að neðanverðu. Blóm hvít í hálfsveipum fyrri part sumars. Rauðir berjaklasar þroskast að hausti. Berin endast gjarnan á trjánum langt fram á vetur ólíkt berjum flestra annarra reynitegunda. Gulir haustlitir.
Alpareynir sómir sér stakstæður eða í þyrpingum og röðum. Millibil ekki minna en 2 m. Einnig má nota alpareyni í klippt limgerði og planta með um 50 – 60 sm millibili. Hentar jafnvel í stór ker (sjá mynd). Fremur vind- og saltþolinn. Þolir hálfskugga. Líkist mjög doppureyni/týrólareyni (S. austriaca) og silfurreyni (S. intermedia). Á það til að sá sér út. Heimkynni: Fjalllendi Mið- og V-Evrópu, þ.e.a.s. Pýreneafjöll, Alparnir og norður til Vosges-fjalla. Rósaætt (Rosaceae).