Bambus gulur – Fargesia murielae
Sígrænt, trjákennt gras. Stönglar gulgrænir – gulir. Laufið sviðnar gjarnan fram eftir vetri. Myndar þétta þyrpingu stöngla en skríður ekki út. Þrífst best í rakaheldnum, frjóum jarðvegi á sólríkum stað í þokkalegu skjóli. Þolir hálfskugga. Hæð 1,5 – 3,5 m eftir yrkjum og staðsetningu. Almennt talin ein harðgerðasta bambus-tegundin. Hentar stakstæður, aftarlega í beðum og í þyrpingar og raðir með 80 – 100 sm millibili.
Vöruflokkur: Sígrænir runnar og sígræn smátré
Tengdar plöntur
Fjallaþöll – Tsuga mertensiana – Íslensk kvæmi
Lágvaxið - meðalstórt tré hérlendis. Stundum aðeins runni. Barrið dökk-blágrænt. Aðeins ljósara að neðan. Könglar meðalstórir, tunnulaga, rauðbrúnir - brúnir. Skuggþolin. Hægvaxnari samanborið við marþöll (Tsuga heterophylla). Þrífst betur í innsveitum heldur en úti við ströndina. Fjallaþöll er falleg í blönduð beð með öðrum sígrænum gróðri. Einnig gróðursett undir skerm í skógi.
Himalajaeinir ‘Meyeri’ – Juniperus squamata ‘Meyeri’
Harðgerður, þéttur, lágvaxinn - meðalstór runni. Barrið er blágrænt - stálblátt. Ysta lag barkarins flagnar af með tímanum. Sólelskur er þolir hálfskugga. Þolir vel hóflega klippingu. Hentar í ker, stampa, blönduð beð en einnig fleiri saman í raðir og þyrpingar. Þrífst vel í allri venjulegri, vel framræstri garðmold. Vinsæll og algengur í íslenskum görðum.
Sabínueinir – Juniperus sabina
All harðgerður, sígrænn, þéttur, lágvaxinn runni. Hæð: 40 - 80 sm. Barrið smágert, blásilfrað. Sólelskur en þolir hálfskugga. Þrífst í vel framræstri, venjulegri garðmold. Sæmilega þekjandi. Yfirleitt sérbýll. Hentar fremst í beð með sígrænum gróðri, í hleðslur, steinhæðir og ker. Þrífst ekki á algerum berangri. Eitraður sé hans neytt. Heimkynni: Fjalllendi mið- og S-Evrópu og í NV-Asía.
Körfurunni / Brárunni – Chiliotrichum diffusum
Harðgerður, sígrænn, lágvaxinn runni (1 - 1,5 m). Blöðin fremur smá, dökkgræn að ofan, ljós að neðan. Blómin fremur smá, mörg saman, með hvítar tungukrónur og gulleytar pípukrónur. Litlar biðukollur þroskast að hausti. Sólelskur. Ættaðar frá sunnanverðri S-Ameríku og Falklandseyjum. Virðist all vind- og saltþolinn. Þrífst best í vel framræstum jarðvegi. Körfurunni sómir sér vel í blönduðum beðum með runnum og blómum. Einnig fer vel á því að gróðursetja nokkra saman í þyrpingu með um 70 - 80 sm millibili. Körfurunni finnst hér og þar í görðum. Einnig nefndur "brárunni". Körfurunni minnir í útliti á rósmarín (Rosmarinus officinalis).
Fjallasnepla – Hebe subalpina
Lágvaxinn (50 sm) , þéttur, sígrænn runni. Blómin hvít, í litlum klösum miðsumars. Sólelsk. Fjallasnepla þrífst best á vetrarmildustu svæðum landsins sunnanlands. Vind- og saltþolin en þolir ekki mikið frost. Forðist að planta henni í frostpolla. Þolir ekki blautan jarðveg. Hentar í ker, hleðslur og þess háttar.
Breiðumispill ‘Skogholm’ – Cotoneaster dammeri ‘Skogholm’
All harðgerður, sígrænn, jarðlægur, þekjandi runni. Laufið dökkgrænt, heilrennt. Stundum vill laufið sviðna að vetri til en það lagast fljótlega aftur. Blómin hvít, smá, stjörnulaga snemmsumars. Stundum þroskast rauðgul ber á haustin. Þolir hálfskugga. Tilvalinn í hleðslur, kanta, upp á veggi, í ker og þess háttar. Greinarnar geta með tímanum slútað niður um 2 m. Vinsæl garðplanta hérlendis. Fjótvaxnari samanborið við skriðmispil (C. apiculatus). Þrífst í allri venjulegri, vel framræstri garðmold. 'Skogholm' er sænskt úrvalsyrki frá árinu 1941.