Bambus gulur – Fargesia murielae
Sígrænt, trjákennt gras. Stönglar gulgrænir – gulir. Laufið sviðnar gjarnan fram eftir vetri. Myndar þétta þyrpingu stöngla en skríður ekki út. Þrífst best í rakaheldnum, frjóum jarðvegi á sólríkum stað í þokkalegu skjóli. Þolir hálfskugga. Hæð 1,5 – 3,5 m eftir yrkjum og staðsetningu. Almennt talin ein harðgerðasta bambus-tegundin. Hentar stakstæður, aftarlega í beðum og í þyrpingar og raðir með 80 – 100 sm millibili.
Vöruflokkur: Sígrænir runnar og sígræn smátré
Tengdar plöntur
Lyngrós ‘Rabatz’ – Rhododendron ‘Rabatz’
Sígrænn runni. Hæð 1 - 1,5 m. Blómin stór, rauð, trektlaga, mörg saman á greinarendum í júní eða fram að mánaðarmótum júní/júlí. Skjólþurfi. Gróðursetjið í mómold blandaðri gömlu hrossataði og furunálum. Varist að planta lyngrósum of djúpt. Vökvið vel eftir gróðursetningu og næstu daga á eftir. Rakið laufi að lyngrósum að hausti. Mælt er með kurli í lyngrósabeð. Setjið moltu yfir lyngrósabeð að vori eða berið sem svarar einni matskeið af blönduðum garðáburði á hverja lyngrós í maí. Ekki meira en það árlega! Dreifið áburðinum vel. Skýlið alla vega fyrsta veturinn eftir gróðursetningu. Mælt er með skýli úr striga sem nær aðeins uppfyrir plöntuna, er opið að ofan og snertir ekki blöðin. Þolir hálfskugga. Lyngrósin 'Rabatz' þrífst eingöngu í góðu skjóli í vel grónum hverfum. Reynsla hérlendis er ennþá takmörkuð. Þessi lyngrósarblendingur er úr smiðju H. Hachmann, Þýskalandi 1984.
Garðaýr ‘Hatfieldii’ – Taxus x media ‘Hatfieldii’
Hægvaxta, þéttur, sígrænn runni. Barrið dökkgrænt og mjúkt. Vaxtarlagið upprétt, breiðkeilulaga. Hæð 2 - 3 m á löngum tíma. Skuggþolinn. Ef hann fær skjól er hann harðgerður. Þrífst í venjulegri garðmold sem ekki er of blaut. Þolir vel klippingu. Gjarnan notaður í limgerði erlendis en full hægvaxta í það hlutverk hérlendis. Garðaýr 'Hatfieldii' hentar í blönduð runnabeð, sem undirgróður undir trjám og í ker/potta í skjóli. Eitraður sé hans neytt.
Körfurunni / Brárunni – Chiliotrichum diffusum
Harðgerður, sígrænn, lágvaxinn runni (1 - 1,5 m). Blöðin fremur smá, dökkgræn að ofan, ljós að neðan. Blómin fremur smá, mörg saman, með hvítar tungukrónur og gulleytar pípukrónur. Litlar biðukollur þroskast að hausti. Sólelskur. Ættaðar frá sunnanverðri S-Ameríku og Falklandseyjum. Virðist all vind- og saltþolinn. Þrífst best í vel framræstum jarðvegi. Körfurunni sómir sér vel í blönduðum beðum með runnum og blómum. Einnig fer vel á því að gróðursetja nokkra saman í þyrpingu með um 70 - 80 sm millibili. Körfurunni finnst hér og þar í görðum. Einnig nefndur "brárunni". Körfurunni minnir í útliti á rósmarín (Rosmarinus officinalis).
Hélubroddur ‘Jytte’ – Berberis candidula ‘Jytte’
All harðgerður, þéttur, sígrænn, hægvaxta, lágvaxinn skrautrunni (50 - 100 sm). Greinar mikið þyrnóttar. Laufið oddbaugótt, dökkgrænt og gljándi á efra borði. Laufið er aftur á móti "hvíthélað" að neðan. Gjarnan ber á roða í laufinu yfir vetrarmánuðina. Blómin gul, smágerð, drjúpandi og ilmandi fyrri part sumars. Aldinið svarblátt ber. Þolir hálfskugga. Þarf þokkalegt skjól. Þrífst í fullri sól og hálfskugga. Þrífst í allri venjulegri garðmold. Hentar í blönduð beð með öðrum sígrænum gróðri og jafnvel í ker í góðu skjóli. Gæti hentað í lágvaxin limgerði í grónum görðum. Millibil um 80 sm en allt niður í 50 sm í limgerðum. Náttúruleg heimkynni hélubrodds eru í Kína. Mítursætt (Berberidaceae).
Hunangstoppur ‘Little Honey’ – Lonicera crassifolia ‘Little Honey’
Jarðlægur, sígrænn, hægvaxta dvergrunni. Blöðin smá, kringlótt og gljáandi. Dökkgræn en gjarnan vínrauð á veturna. Blómin gul, nokkur saman í krans miðsumars. Aldinið svart ber. Sólelskur en þolir hálfskugga. Nýlegur í ræktun og reynsla því takmörkuð. Hentar í hleðslur, kanta og ker í vel framræstum jarðvegi. Heimkynni: Kína.
Ljósalyng ‘Compacta’ – Andromeda polifolia ‘Compacta’
Fremur harðgerður, lágvaxinn dvergrunni. Laufin eru smá, mjó og þykk. Blaðjaðrar eru niðurorpnir. Neðra borð blaða hvítloðið. Blómin eru smá, klukkulaga, nokkur saman á stöngulendum, hvít eða bleik. Ljósalyng vex villt í mosa-mýrum/deiglendi í fremur súrum jarðvegi. Þolir vel hálfskugga. Hentar í rakan eða jafnvel blautan jarðveg. Þrífst þó í framræstum en rakaheldnum jarðvegi. Hentar sem kantplanta eða milligróður innan um lyngrósir og lágvaxna barrviði í lífrænum, ögn súrum jarðvegi. Gott er að dreifa trjákurli í kring um ljósalyng til að halda jöfnum raka. Skýlið fyrsta veturinn eftir gróðursetningu nema að staðurinn sé skjólsæll. Ljósalyng finnst villt á örfáum stöðum á Austurlandi. Fannst fyrst hérlendis árið 1985. Annars eru heimkynni ljósalyngs víða á norðurhveli. Ljósalyng er eitrað sé þess neitt. Vísbendingar eru um að ljósalyng geti þrifist í jarðvegi sem ekki er sélega súr nú rakur!