Baunatré – Caragana arborescens
Harðgerður runni eða lítið tré (1,5 – 2,5 m). Blómin smá, gul. Aldinið belgur með nokkrum ætum baunum/fræjum. Laufið er mjög ljóst, nánast hvítt á vorin og fyrri part sumars en síðan áberandi gulgrænt. Sólelskt. Hægvaxta. Lifir í sambýli við niturbinandi bakteríur. Baunatré gerir því litlar kröfur til jarðvegs. Baunatré sómir sér vel stakstætt í garðinum eða í blönduð beð með öðrum gróðri. Einnig má planta baunatré í klippt eða óklippt limgerði. Gengur einnig undir nöfnunum „síberískt baunatré“ og „kergi“.
Vörunr. abffeba7821f
Vöruflokkar: Runnar, Tré, Tré og runnar í pottum
Tengdar plöntur
Blágreni – Picea engelmannii
Harðgert, hávaxið, keilulaga, sígrænt barrtré. Nýja barrið bláleitt, ekki eins stingandi eins og barr sitkagrenis (Picea sitchensis). Fremur hægvaxta. Krónan gjarnan fremur mjóslegin. Þolir hálfskugga. Þrífst betur inn til landsins en síður við sjávarsíðuna. Sitkalús getur verið vandamál. Blágreni er glæsilegt stakstætt tré. Sómir sér einnig í þyrpingum með að minnsta kosti 2,5 m millibili. Úrvals jólatré. Víða nýtt til skógræktar sérstaklega norðan- og austanlands.
Bolvíðir – Salix udensis – Ivashka, Kamsjatka
Harðgert, hraðvaxta tré / runni. Virðist stöðugri og beinvaxnari en flestur annar víðir að selju (Salix caprea) undanskilinni. Sólelskur. Þrífst í allri venjulegri garðmold. Um er að ræða klón frá Ivashka, Kamtsjatka, Rússlandi sem safnað var í Kamtsjatka-leiðangri Óla Vals Hanssonar og Brynjólfs Jónssonar árið 1993. Bolvíðir hentar sem stakstætt tré en einnig í raðir og þyrpingar með um 2 m millibili hið minnsta. Sjaldgæfur hérlendis. Kvenkyns klón.
Fjallareynir – Sorbus commixta
Harðgerður, hávaxinn runni eða lágvaxið tré (3 - 6 m). Laufin stakfjöðruð. Áberandi eldrauðir haustlitir. Brum rauð og hárlaus. Hvítir blómsveipir fyrri part sumars. Rauðgul, fremur smá reyniber í klösum þroskast að hausti. Fjallareynir er glæsilegur stakur eða fleiri saman með að minnsta kosti 2 m millibili. Kjörinn í sumarhúsalóðir. Fjallareynir er talsvert breytilegur enda fjölgar hann sér með kynæxlun og getur t.d. myndað kynblendinga með ilmreyni (S. aucuparia).
Alpareynir – Sorbus mougeotii
Harðgert, fremur lágvaxið tré eða hávaxinn runni (5 - 8 m). Laufið grænt og gljáandi að ofan en silfurhvít-hært að neðanverðu. Rauðir berjaklasar þroskast að hausti. Gulir haustlitir. Alpareynir sómir sér stakstæður eða í þyrpingum og röðum. Millibil ekki minna en 2 m. Einnig má nota alpareyni í klippt limgerði og planta með um 50 - 60 sm millibili. Hentar jafnvel í stór ker (sjá mynd). Fremur vind- og saltþolinn. Þolir hálfskugga. Líkist mjög doppureyni/týrólareyni (Sorbus austriaca) og silfurreyni (Sorbus intermedia)
Eðalþinur – Abies procera
Sígrænt, keilulaga all stórvaxið tré (8 - 10 m). Barrið grágrænt - blágrænt, mjúkt og ilmandi. Skuggþolinn og skjólþurfi. Könglarnir stórir, uppréttir. Birtast venjulega ekki fyrr en eftir einhverja áratugi nema þá á ágræddum plöntum. Eðalþinur hentar sem stakstætt tré í skjólgóðum görðum og undir skerm í lauf- og lerkiskógum. Mikið ræktaður í Danmörku til framleiðslu á jólagreinum enda barrheldinn og ilmandi.
Rósareynir – Sorbus rosea
All harðgerður hávaxinn runni eða lágvaxið tré (2,5 - 5 m). Blöðin stakfjöðruð, mött. Rauðgulir haustlitir. Fölbleik blóm í sveipum birtast fyrri part sumars. Fremur stór, bleik reyniber í klösum þroskast á haustin. Þolir hálfskugga. Rósareynir sómir sér vel stakur eða í bland með öðrum runnum. Fremur nýlegur í ræktun hérlendis. Minnir í útliti á kasmírreyni (S. cashmiriana).
Úlfareynir – Sorbus x hostii
Harðgert lágvaxið tré - hávaxinn runni (2,5 - 5 m, stundum hærri). Blöðin gljáandi á efra borði, gráloðin á því neðra. Blómin bleik í sveipum fyrri part sumars. Rauð reyniber í klösum þroskast á haustin. Gulir - rauðir haustlitir. Vind- og saltþolinn. Þolir hálfskugga. Fer vel stakstæður eða í bland með öðrum gróðri. Má einnig nota í limgerði. Úlfareynir er algengur í íslenskum görðum. Berin eru ekki römm og stundum notuð til manneldis.
Hengigullregn ‘Pendula’ – Laburnum alpinum ‘Pendula’
Ágrædd skrautré. Hæð um 2 m. Gulir blómklasar miðsumars. Sólelskt. Hentar stakstætt, innan um lægri gróður, framan við hús og í ker.