Berghnoðri – Petrosedum rupestre
Harðgerð, lágvaxin, jarðlæg, sígræn jurt. Blaðbreiðan er aðeins nokkrir sm á hæð. Laufið smágert, um 1 sm á lengd, sívallt, blágrænt eða rauðleitt. Laufin sitja mjög þétt á blaðsprotum en gisnar og eru meira útsveigð á blómsprotum. Laufið minnir á barrnálar en mýkra. Blómsprotarnir vaxa upp í 15 – 20 sm hæð. Meðan blómstilkarnir eru að vaxa upp drjúpir blómskipunin en snýr svo upp þegar blómin opnast. Blómin eru skærgul, stjörnulaga, all stór í greinóttum, flötum eða svolítið hvelfdum hálfsveipum. Blómgast síðsumars og fram á haust.
Sólelskur. Þrífst best í þurrum, sendnum/grýttum jarðvegi. Hentar því best í steinhæðir, hleðslur, ker, lifandi þök o.þ.h. Hentar sem þekjuplanta þar sem er sólríkt, jarðvegur ekki of frjór og ekki ágengt illgresi fyrir. All hraðvaxta. Sagður ætur og notaður til manneldis sums staðar í Evrópu. Berghnoðri er betur þekktur undir fræðiheitunum Sedum reflexum og S. rupestre.
Heimkynni: Fjalllendi víða í Mið- og V-Evrópu. Hnoðraætt (Crassulaceae).