Bersarunni – Viburnum edule
Harðgerður, meðalhár, sumargrænn runni (1,5 – 2,5 m). Laufin sitja gagnstætt á greinunum og eru gjarnan þrí-sepótt. Óreglulega tennt. Brum áberandi rauð. Rauðir og bleikir haustlitir. Blómin hvít – bleik í litlum sveipum. Rauðgul, æt ber (steinaldin) þroskast að hausti. Hægvaxta eða í meðallagi hraðvaxta.
Skuggþolinn en fallegastir haustlitir og mest berjauppskera í fullri sól. Þrífst í öllum sæmilega frjóum, rakaheldnum jarðvegi. Bersarunni fer vel í blönduðum runnabeðum, röðum og þyrpingum. Millibil um 80 sm. Berin má nýta í sultur og þess háttar. Þau eru sögð rík af andoxunarefnum. Okkar bersarunnar eru allir vaxnir upp af fræi sem tínt er hérlendis. Íslenski efniviðurinn af bersarunna er trúlega allur frá Alaska. Heimkynni: Norðanverð N-Ameríka. Desjurtaætt (Adoxaceae).