Blárifs ‘Perla’ – Ribes bracteosum ‘Perla’
Fremur harðgerður, sumargrænn, gisgreinóttur runni. Hæð: 1,5 – 2 m. Laufin fremur stór, handflipótt, 5 til 7 – flipótt með egglaga – egglensulaga, ydda og tennta flipa. Lauf gljáandi á löngum blaðstilk. Gulir haustlitir. Blómin græn-brúnleit í útstæðum klösum. Blómgast í júní. Berin bláhéluð, áberandi í löngum útstæðum klösum. Þroskast í lok ágúst og fram í september. Henta í sultur og þess háttar en sæmileg til átu beint af runnanum.
Blárifs ‘Perla’ þrífst best í sæmilega frjóum, rakaheldnum jarðvegi. Blandið gömlum húdýraáburði eða moltu saman við jarðveginn við gróðursetningu. Gott er að setja álíka lífrænt efni í kringum runnana á fárra ára fresti. Blárifs er all skuggþolið en þroskar mest af berjum í sól. Þrífst betur við ströndina en inn til landsins. Hentar í raðir, þyrpingar, í berjagarðinn og sem undirgróður undir trjám. Millibil um 1 m eða meir.
‘Perla’ er úrvalsyrki valið af Ólafi S. Njálssyni úr Alaskasafni því er barst til landsins með Óla Val og félögum árið 1985. Heimkynni: Vesturströnd N-Ameríku allt frá S-Alaska í norðri suður til N-Kaliforníu. Garðaberjaætt (Grossulariaceae).