Harðgert, sumargrænt, hraðvaxta, einstofna, meðalstórt - stórvaxið tré. Getur væntanlega náð allt að 20 m hæð á góðum stöðum hérlendis. Lágvaxnara og runnkendara við erfið skilyrði. Börkur grár með ljósum þverrákum. Gjarnan ber á uppblásnum trjákvoðu-bólum á berki. Íslenska heitið og fræðiheitið rubra vísa til þess að sé skorið í börkinn verður sárið áberandi ryðrautt.
Brum stilkuð. Laufblöðin eru egglaga - oddbaugótt, 7 - 15 sm á lengd, 4,5 - 7,5 sm á breidd, tvísagtennt með grunna sepa og ydd. Blaðjaðarinn verpist aðeins niður á við og er þetta helsta greiningareinkenni ryðelris frá öðrum tegundum elris. Lauf ljósari að neðan og stundum með ryðrauðum hárum á æðastrengjum. Ung lauf gjarnan rauðmenguð. Blaðstilkur allt að 2 sm langur. Haustlitur brúnn eða frýs grænt. Rauðleitir karlreklar, 10 - 15 sm langir, vaxa fram snemma vors (mars / apríl). Verða gulbrúnleitir þegar frjóhirslunar opnast. Kvenreklar eru nokkrir saman, brúnir, sporöskjulaga og 2 - 3 sm á lengd fullþroska. Minna á litla köngla. Fræið hefur tvo himnukennda vængi.
Ryðelri gerir litlar kröfur til jarðvegs. Þrífst best í rakaheldnum jarðvegi. Talið henta til gróðursetningar í vatnsrásir og þess háttar svæði sem eru aðeins tímabundið undir vatni. Vex eins og annað elri í sambýli við niturbindandi Frankia bakteríur. Rótarskot engin eða lítið áberandi. Ryðelri hentar stakstætt, í raðir / þyrpingar með að minnsta kosti 3 m millibili. Hentar einnig til skógræktar. Fremur nýlegt í ræktun en lofar mjög góðu. Hugsanlega hentugt sem götutré. Ryðölurinn okkar er allur vaxinn upp af fræi sem safnað hefur verið hérlendis.
Erlendis er timbrið nýtt í húsgögn, hljóðfæri og fleira. Viðurinn þykir sérlega góður til að reykja fisk og kjöt.
Heimkynni: Vesturströnd N-Ameríku allt frá Alaska suður til Kaliforníu. Bjarkarætt (Betulaceae).