Bogkvistur – Spiraea veitchii – Kristinn Guðsteinsson
Stórvaxinn (3 m) , þokkalega harðgerður runni. Blómin hvít í stórum sveipum. Blómgast síðsumars. Greinarnar vaxa í sveig. Þolir hálfskugga. Fer best stakstæður en hentar einnig í raðir, þyrpingar og blönduð beð. Gulir – rauðgulir haustlitir.
Vörunr.
67bcf3ce14f4
Vöruflokkar: Runnar, Tré og runnar í pottum
Tengdar plöntur
Hélurifs ‘Lukka’ – Ribes laxiflorum ‘Lukka’
Harðgerður, lágvaxinn (30 - 50 sm), jarðlægur runni. Laufið handflipótt. Laufgast í apríl. Rauðir haustlitir birtast strax í ágúst. Rauðbrún blóm í klasa í maí. Blá, héluð, , hærð, æt ber þroskast í lok júlí eða í ágúst. Má nýta í sultu og fleira.
Hélurifs 'Lukka' þrífst í sæmilega frjóum, rakaheldnum jarðvegi. Skuggþolið en mest berjauppskera fæst í fullri sól. Hentar sem undirgróður undir trjám, í kanta, jaðra og þess háttar. Nóg er að planta 1 - 2 plöntum á fermetra. 'Lukka' er úrvalsyrki úr Lystigarði Akureyrar. Heimkynni: Vestanverð N-Ameríka. Garðaberjaætt (Grossulariaceae).
Hafþyrnir – Hippophae rhamnoides
Harðgerður, þyrnóttur, lauffellandi, lágvaxinn - hávaxinn runni (1 - 3 m). Laufið lensulaga og grásilfrað. Blómin smá og lítið árberandi. Sérbýll. Kvenplöntur þroska rauðgul, æt ber séu karlplöntur í nágrenninu. Ein karlplanta dugar til að fræva nokkrar kvenplöntur. Vindfrævun. Berin hanga á runnunum langt fram á vetur þar sem fuglar virðast lítið sækja í þau. Sólelskur. Vind- og saltþolinn. Lifir í sambýli við niturbindandi bakteríur (Frankia) sem gerir honum kleift að vaxa í rýrum jarðvegi. Hafþyrnir hefur mjög skriðullt og kröftugt rótarkerfi.
Berin eru nýtt í sultur og þess háttar og eru sögð mjög holl og eru t.d. mjög C-vítamínrík. Laufið má nýta í te. Hentar sérlega vel við sjávarsíðuna, til að binda sendinn og malarborinn jarðveg og þess háttar. Þrífst í alls konar jarðvegi en þó ekki blautum. Hafþyrnir hentar í runnaþyrpingar og raðir t.d. á vindasömum stöðum og í villigarða og sumarhúsalóðir. Millibil við gróðursetningu um 1 m. Rótarskot geta verið til ama t.d. nálægt gangstéttum og þess háttar. Fer jafnvel í gegnum malbik!
Við höfum verið að prófa okkur áfram með mismunandi yrki og stofna. Finnsku yrkin 'Tytti' (kvk), 'Terhi' (kvk), 'Rudolf' (kk) og 'Tarmo' (kk), fást gjarnan hjá okkur og hafa reynst vel. Einnig eigum við stundum til kvk og kk yrki úr Hallargarðinum, Rvk. Höfum einnig framleitt og boðið upp á íslenskar fræplöntur af hafþyrni.
Heimkynni: Kaldtempruð svæði Evrasíu. Í heimkynnum sínum vex hafþyrnir aðallega með ströndum fram og til fjalla. Silfurblaðsætt (Elaeagnaceae)
Sýrena ‘Bríet’ – Syringa ‘Bríet’
Harðgerður, stórvaxinn runni eða lítið tré. Hæð 4 - 5 m. Laufgast seinna en aðrar sýrenur og verður því ekki fyrir "vor-kvefi". Laufið er einnig smærra en á flestum öðrum sýrenum sem hér eru í ræktun. Blómin eru mörg saman í klasa, laxableik og ilmandi. Blómgast í júlí. Þolir vel hálfskugga. Móðurplantan stendur við hús nr. 69 í Bergstaðastræti í Reykjavík. Ekki er vitað hvaða tegund eða tegundarblendingur er hér á ferðinni. Stórvaxnasta sýrenan sem hér er í ræktun. Þrífst í allri venjulegri, framræstri garðmold. Sýrena 'Bríet' hentar stakstæð, í raðir, þyrpingar og blönduð runna- og blómabeð. Gæti jafnvel hentað í skjólbelti. Millibil að minnsta kosti 1,5 m. Yrkið er kennt við Bríet Bjarnhéðinsdóttur (1856 - 1940).
Sólbroddur ‘Laugardalur’ – Berberis thunbergii ‘Laugardalur’
Fremur harðgerður, þéttur, þyrnóttur, meðalstór runni. Hæð: 1,5 - 2,5 m. Nýtt lauf rauðleitt. Annars grænt - gulgrænt með rauðum jöðrum. Smá gul blóm, nokkur saman fyrri part sumars. Sólelskur. Þolir vel klippingu. Skærrauðir haustlitir í október - nóvember. Þrífst best í venjulegri garðmold. Hentar í raðir, þyrpingar, í limgerði og stakstæður. Í limgerði er hæfilegt millibil 60 - 70 sm. Annars 1 m. Yrkið er fræplanta af B. thunbergii 'Golden Ring' að talið er sem sáð var til í Grasagarði Reykjavíkur, Laugardal. Vegna þess hve sólbroddur 'Laugardalur' heldur laufinu lengi fram eftir hausti hefur hann stundum ranglega verið talinn sígrænn. Einn allra útbreiddasti broddurinn (Berberis spp.) hérlendis. Heimkynni tegundarinnar eru A-Asía þar á meðal Japan.
Loðvíðir – Salix lanata – jarðlægur
Mjög harðgerður, íslenskur, lágvaxinn/jarðlægur runni. Lauf og sprotar eru gráloðin. Karlreklar eru fallega gulir og birtast í apríl - maí. Sólelskur. Vind- og saltþolinn. Gerir litlar kröfur til jarðvegs. Vex villtur um land allt. Loðvíðir hentar í hleðslur, kanta, steinhæðir, ker og þess háttar. Jarðlægi loðvíðirinn okkar er karlkyns og seldur í stykkjatali í pottum.
Svartyllir – Sambucus nigra
All harðgerður runni. Hæð: 2 - 4 m. Grófgreinóttur. Brum gagnstæð. Blöðin stakfjöðruð, græn. Blómin hvít, mörg saman í stórum sveipum síðsumars (ágúst). Berin svört fullþroskuð en svartyllir dregur nafn sitt af liti berjanna. Svartyllir nær ekki að þroska ber utandyra hérlendis. Blómin má nýta í svaladrykk. Skuggþolinn en blómgast betur í sól. Þrífst vel í venjulegri, ekki of þurri garðmold. Þrífst vel í grónum görðum á höfuðborgarsvæðinu og víðar. Millibil: 1 m eða meir. Í seinni tíð hafa komið fram yrki af svartylli með rauðbrúnum/purpurarauðum laufum og bleikum blómum eins og 'Black Lace' og 'Black Tower'. Okkur í Þöll hefur tekist að láta íslenskt fræ spíra þrátt fyrir að berin séu ekki fullþroska. Fræið er að runnum við íþróttahúsið Strandgötu, Hfj og úr garði á Flötunum, Gbæ. Tvö yrki hafa verið valin úr fræplöntunum. Annað er 'Amma Dóra' og hitt 'Afi Tóti'. Yrkin eru kennd við hjónin Halldóru Halldórsdóttur og Þórólf Þorgrímsson sem eru fædd árið 1928 og hafa verið dyggir styrktaraðilar Skógræktarfélags Hfj í gegnum tíðina ásamt því að vera foreldrar Árna, Gunnars og Halldórs sem allir hafa unnið mikið fyrir félagið og Þöll. Heimkynni svartyllis eru í Evrópu þó ekki allra nyrst.
Þorrarunni ‘Dawn’ – Viburnum x bodnantense ‘Dawn’
Sumargrænn, meðalhár runni (1,5 - 2,5 m). Ung lauf bronslituð. Þorrarunni blómgast að vetri til eða réttara sagt hann getur blómgast frá hausti og fram á vor. Blómin eru rauð í knúpp en bleik útsprungin mörg saman í sveip, ilmandi. Þolir vel hálfskugga. Þorrarunni er glæsilegur stakstæður en einnig fleiri saman í þyrpingu með um 1 m millibili. Þorrarunni virðist harðgerður á höfuðborgarsvæðinu og víðar. Fremur sjaldgæfur í ræktun enn sem komið er.