Bogsýrena ‘Mjallhvít’ – Syringa komarowii subsp. reflexa ‘Mjallhvít’
Harðgerður, stórvaxinn, sumargrænn runni. Hæð 3 – 4,5 m. Laufblöðin eru oddbaugótt og heilrennd og sitja gagnstætt á greinunum. Lengd laufblaða gjarnan í kringum 15 sm. Blómin holdlituð í knúpp en hvít útsprungin, í stórum (20 sm), aflöngum, drjúpandi klösum miðsumars. Ilmar.
Móðurplantan er í garði við Skerseyrarveg í Hafnarfiði og er greinilega margra áratuga gömul. Ekkert er nánar vitað um uppruna hennar. Blómstrar sum ár mjög mikið og önnur minna. Þrífst í allri sæmilega frjórri, framræstri garðmold. Blómgast mest í fullri sól.
Bogsýrena ‘Mjallhvít’ hentar stakstæð, í raðir og þyrpingar, sem skraut í skógarlundi og í bland með öðrum runnagróðri. Millibil í upphafi 1 – 1,5 m. Náttúruleg heimkynni bogsýrenu eru í fjalllendi M-Kína. Smjörviðarætt (Oleaceae).