Breiðumispill / Hrísmispill ‘Skogholm’ – Cotoneaster x suecicus ‘Skogholm’
All harðgerður, sígrænn, jarðlægur, þekjandi runni. Laufið dökkgrænt, heilrennt. Verður gjarnan bronslitað yfir vetrartímann. Stundum vill laufið sviðna að vetri til en það lagast yfirleitt fljótlega aftur. Blómin smá, hvít með rauðbleikum frjóhnöppum, stjörnulaga snemmsumars. Stundum þroskast rauðgul ber á haustin. Þolir hálfskugga. Tilvalinn í hleðslur, kanta, upp á veggi, í ker og þess háttar. Greinarnar geta með tímanum slútað niður um 2 m. Millibil 60 – 80 sm. Vinsæl garðplanta hérlendis. Fjótvaxnari samanborið við skriðmispil (C. apiculatus). Þrífst í allri venjulegri, vel framræstri garðmold. ‘Skogholm’ er sænskt úrvalsyrki frá árinu 1941.
Vörunr.
ffd8d009055c
Vöruflokkar: Sígrænir runnar og sígræn smátré, Tré og runnar í pottum, Þekjuplöntur
Tengdar plöntur
Alaskaösp – Populus trichocarpa ‘Keisari’, ‘Sæland’, ‘Pinni’, ‘Haukur’ og ‘Súla’
Hraðvaxta, harðgert, hávaxið, sumargrænt tré. Gulir haustlitir. Brum og brumhlífar klístruð. Balsamilmur áberandi á vorin og í röku veðri. Blómgast í apríl/maí. Blómskipunin rekill. Sérbýl. Kvenkyns tré dreifa miklu magni af fræi sem líkist dún upp úr miðju sumri. Króna mis umfangsmikil milli yrkja og því mis plássfrek. Rætur liggja almennt grunnt og rótarkambar því áberandi. Ljóselsk.
'Keisari' reynist best allra yrkja næst sjávarsíðunni. Gróðursett stakstæð, í raðir og þyrpingar. Fín í skjólbelti kringum landbúnaðarsvæði o.þ.h. Einstöku sinnum ræktuð sem klippt limgerði (sjá mynd).
Þrífst best í rakaheldnum, næringarríkum/steinefnaríkum jarðvegi. Þolir all vel bleytu hluta úr ári. Bil milli trjáa fer eftir því um hvaða yrki er um að ræða en getur spannað frá 2 - 6 m. Heimkynni: Vestanverð N-Ameríka. Allt frá Alaska til Baja Kalifornía í Mexíkó. Íslenski stofninn er allur eða nær allur ættaður frá Alaska.
Beyki – Fagus sylvatica
Sumargrænt, lágvaxið - meðalstórt tré hérlendis. Getur trúlega farið upp fyrir 12 m hæð á bestu stöðum. Laufið skærgrænt þegar það springur út fyrir miðjan júní. Visið, gullinbrúnt laufið hangir á greinum ungra trjáa allan veturinn og einnig á neðstu greinum eldri trjáa. Brum hvassydd. Börkur, sléttur, grár. Þarf hlýjan vaxtarstað og frjóan jarðveg til að þrífast. Þolir vel hálfskugga. Þolir vel klippingu og gjarnan notað í klippt limgerði erlendis. Yrki með purpurarauðum laufum (sjá blóðbeyki) eru algengari hérlendis heldur en beyki með grænum laufum. Sumir eru á því að þau rauðu þrífist betur en þau grænu. Beyki finnst hér og þar í görðum en ekki gróðursett í skógrækt hérlendis ennþá enda full hitakær tegund til stórfelldrar ræktunar hérlendis. Heimkynni: Stór hluti Evrópu þó ekki allra nyrst.
Japansýr ‘Nana’ – Taxus cuspidata ‘Nana’
Lágvaxinn - meðalhár sígrænn runni. Barrið dökkgræn og mjúkt viðkomu. Skuggþolinn. Þarf eitthvert skjól. Hægvaxta. Þolir vel klippingu. Eitraður sé hans neytt. Japansýr er kjörið að gróðursetja undir stærri trjám, í blönduð beð með ekki of ágengum plöntum og jafnvel fleiri saman í þyrpingar. Talinn vera einn harðgerðasti ýviðurinn (Taxus sp.). 'Nana' er gamalt karlkyns yrki. Millibil um 1 m.
Birki / Ilmbjörk – Betula pubescens
Harðgert íslenskt tré. Hæð breytileg. Sólelskt. Í meðallagi hraðvaxið. Þrífst best í frjóum jarðvegi en annars nægjusamt. Getur lifað í all blautum jarðvegi. Lauf ilmar, sérstaklega á vorin í röku veðri. Haustlitur á ekta ilmbjörk er gulur. Eina trjátegundin sem myndað hefur skóga hérlendis frá því að síðustu ísöld lauk fyrir um 10.000 árum. Myndar gjarnan blendinga með fjalldrapa (B. nana). Blendingurinn kallast skógviðarbróðir og er misstór runni en ekki tré og mjög algengur í íslenskri náttúru, sérstaklega vestanlands. Skógviðarbróðir hefur yfirleitt dökkan / svartan börk, smágert lauf og rauðgulan haustlit. Birki hentar sem stakstætt tré eða fleiri saman í þyrpingum og röðum með að minnsta kosti 2,5 m millibili. Einnig notað til skógræktar og uppgræðslu. Vex þó hægt í ófrjóu landi. Birki hentar einnig í klippt limgerði á sólríkum stöðum. Upp á síðkastið hafa nýjar tegundir skordýra sem herja á birki numið land. Birkið okkar í Þöll er af Bæjarstaða-uppruna. Móðurtréin eru af yrkinu 'Embla'. Því fá tréin venjulega ljósan börk með aldrinum. Náttúruleg heimkynni imbjarkar eru auk Íslands mestur hluti Evrópu nema syðst, Norður og Mið-Asía og S-Grænland.
Kanadalífviður ‘Brabant’ – Thuja occidentalis ‘Brabant’
Sæmilega harðgert, hægvaxta, þétt, upprétt, sígrænt tré. Hæð 3 - 4 m eftir 15 ár. Getur sjálfsagt náð 5 - 7 m hæð á bestu stöðum með tímanum. Breidd 1 - 1,5 m fyrstu 15 árin. Barrið hreisturkennt, grænt en gjarnan brúnleitara sérstaklega á greinaendum á veturna. Barrið ilmar sé það klippt eða nuddað. Könglar smáir, aflangir. Börkur rauðbrúnn og flagnar með tímanum af í strimlum.
'Brabant' er talið eitt harðgerðasta yrkið af lífvið til ræktunar hérlendis. Þolir vel hálfskugga. Þolir vel klippingu. Hentar í gróna, skjólgóða garða. Kanadalífviður 'Brabant' hentar í blönduð beð með öðrum sígrænum runnum og smátrjám. Einnig fyrir innan skjólgirðingar og þess háttar. Hentar í ker/potta þar sem er gott skjól annars sviðnar barrið illa og plantan veslast upp.
Erlendis er 'Brabant' hvað mest gróðursettur í limgerði. Þrífst í allri sæmilega frjórri, vel framræstri garðmold. Hollenskt yrki frá níunda áratug síðustu aldar. 'Brabant' er af sumum talinn vera blendingur kanada- og risalífviðar (T. plicata).
Blárifs ‘Perla’ – Ribes bracteosum ‘Perla’
Fremur harðgerður, sumargrænn, gisgreinóttur runni. Hæð: 1,5 - 2 m. Laufin fremur stór, handflipótt, 5 til 7 - flipótt með egglaga - egglensulaga, ydda og tennta flipa. Lauf gljáandi á löngum blaðstilk. Gulir haustlitir. Blómin græn-brúnleit í útstæðum klösum. Blómgast í júní. Berin bláhéluð, áberandi í löngum útstæðum klösum. Þroskast í lok ágúst og fram í september. Henta í sultur og þess háttar en sæmileg til átu beint af runnanum.
Blárifs 'Perla' þrífst best í sæmilega frjóum, rakaheldnum jarðvegi. Blandið gömlum húdýraáburði eða moltu saman við jarðveginn við gróðursetningu. Gott er að setja álíka lífrænt efni í kringum runnana á fárra ára fresti. Blárifs er all skuggþolið en þroskar mest af berjum í sól. Þrífst betur við ströndina en inn til landsins. Hentar í raðir, þyrpingar, í berjagarðinn og sem undirgróður undir trjám. Millibil um 1 m eða meir.
'Perla' er úrvalsyrki valið af Ólafi S. Njálssyni úr Alaskasafni því er barst til landsins með Óla Val og félögum árið 1985. Heimkynni: Vesturströnd N-Ameríku allt frá S-Alaska í norðri suður til N-Kaliforníu. Garðaberjaætt (Grossulariaceae).