Breiðumispill ‘Major’ – Cotoneaster dammeri ‘Major’
Sæmilega harðgerður, sígrænn, jarðlægur runni. Blöðin eru sporöskjulaga og stærri samanborið við önnur yrki breiðumispils. Blöðin verða gjarnan rauðleit á veturna. Blómin eru smá, hvít, stjörnulaga með rauðum fræflum og birtast miðsumars. Rauð ber þroskast á haustin. Sitja gjarnan á greinunum fram á vetur. Breiðumispill ‘Major’ þolir hálfskugga. Hentar sem kantplanta, sem undirgróður undir trjám/runnum sem ekki varpa miklum skugga. Fer einnig vel í hleðslum og ofan á veggjum þar sem greinarnar geta slútað niður. Millibil um 60 – 70 sm. Þrífst eingöngu í grónum görðum í sæmilega frjóum, vel framræstum jarðvegi. Skýlið fyrsta veturinn með t.d. striga.
Vöruflokkar: Sígrænir runnar og sígræn smátré, Tré og runnar í pottum, Þekjuplöntur
Tengdar plöntur
Blárifs ‘Perla’ – Ribes bracteosum ‘Perla’
Fremur harðgerður, sumargrænn, gisgreinóttur runni. Hæð: 1,5 - 2 m. Laufin fremur stór, handflipótt, 5 til 7 - flipótt með egglaga - egglensulaga, ydda og tennta flipa. Lauf gljáandi á löngum blaðstilk. Gulir haustlitir. Blómin græn-brúnleit í útstæðum klösum. Blómgast í júní. Berin bláhéluð, áberandi í löngum útstæðum klösum. Þroskast í lok ágúst og fram í september. Henta í sultur og þess háttar en sæmileg til átu beint af runnanum.
Blárifs 'Perla' þrífst best í sæmilega frjóum, rakaheldnum jarðvegi. Blandið gömlum húdýraáburði eða moltu saman við jarðveginn við gróðursetningu. Gott er að setja álíka lífrænt efni í kringum runnana á fárra ára fresti. Blárifs er all skuggþolið en þroskar mest af berjum í sól. Þrífst betur við ströndina en inn til landsins. Hentar í raðir, þyrpingar, í berjagarðinn og sem undirgróður undir trjám. Millibil um 1 m eða meir.
'Perla' er úrvalsyrki valið af Ólafi S. Njálssyni úr Alaskasafni því er barst til landsins með Óla Val og félögum árið 1985. Heimkynni: Vesturströnd N-Ameríku allt frá S-Alaska í norðri suður til N-Kaliforníu. Garðaberjaætt (Grossulariaceae).
Hafþyrnir – Hippophae rhamnoides
Harðgerður, þyrnóttur, lauffellandi, lágvaxinn - hávaxinn runni (1 - 3 m). Laufið lensulaga og grásilfrað. Blómin smá og lítið árberandi. Sérbýll. Kvenplöntur þroska rauðgul, æt ber séu karlplöntur í nágrenninu. Ein karlplanta dugar til að fræva nokkrar kvenplöntur. Vindfrævun. Berin hanga á runnunum langt fram á vetur þar sem fuglar virðast lítið sækja í þau. Sólelskur. Vind- og saltþolinn. Lifir í sambýli við niturbindandi bakteríur (Frankia) sem gerir honum kleift að vaxa í rýrum jarðvegi. Hafþyrnir hefur mjög skriðullt og kröftugt rótarkerfi.
Berin eru nýtt í sultur og þess háttar og eru sögð mjög holl og eru t.d. mjög C-vítamínrík. Laufið má nýta í te. Hentar sérlega vel við sjávarsíðuna, til að binda sendinn og malarborinn jarðveg og þess háttar. Þrífst í alls konar jarðvegi en þó ekki blautum. Hafþyrnir hentar í runnaþyrpingar og raðir t.d. á vindasömum stöðum og í villigarða og sumarhúsalóðir. Millibil við gróðursetningu um 1 m. Rótarskot geta verið til ama t.d. nálægt gangstéttum og þess háttar. Fer jafnvel í gegnum malbik!
Við höfum verið að prófa okkur áfram með mismunandi yrki og stofna. Finnsku yrkin 'Tytti' (kvk), 'Terhi' (kvk), 'Rudolf' (kk) og 'Tarmo' (kk), fást gjarnan hjá okkur og hafa reynst vel. Einnig eigum við stundum til kvk og kk yrki úr Hallargarðinum, Rvk. Höfum einnig framleitt og boðið upp á íslenskar fræplöntur af hafþyrni.
Heimkynni: Kaldtempruð svæði Evrasíu. Í heimkynnum sínum vex hafþyrnir aðallega með ströndum fram og til fjalla. Silfurblaðsætt (Elaeagnaceae)
Bergreynir – Sorbus x ambigua
Harðgert lítið tré eða all stór runni (2 - 5 m). Ýmist ein- eða margstofna. Lauf sporöskjulaga og sagtennt. Blómin eru rauðbleik í hálfsveip fyrri part sumars. Rauð ber í klösum í september. Rauðgulir haustlitir. Minnir mjög á úlfareyni (S. x hostii). Blöð bergreynis eru minna hærð og meira gljáandi samanborið við úlfareyni, einnig á neðra borði. Vindþolinn og trúlega saltþolinn einnig. Bergreyni sómir sér stakstæður, í beðum með öðrum gróðri, í raðir og þyrpingar. Mætti jafnvel nota í klippt limgerði. Tilvalinn í sumarhúsalóðina. Millibil 1,5 - 2 m. Í limgerði 50 - 100 sm. Byrjar ungur að blómgast og þroska ber, fyrr samanborið við úlfareyni. Bergreynir er náttúrulegur blendingur seljureynis (Sorbus aria) og blikreynis (S. chamaemespilus). Vex villtur í fjalllendi Mið - S-Evrópu. Íslenski stofninn er líklega allur kominn af tré/trjám í Grasagarði Rvk sem uxu upp af fræi frá Haute-Savoie í frönsku Ölpunum og sáð var til árið 1989.
Alaskaepli – Malus fusca
Harðgert, fremur hægvaxta, lágvaxið tré eða runni (3 - 6 m). Laufin eru 5 - 8 sm á lengd egglaga eða sporöskjulaga. Óreglulega flipótt og sagtennt. Blómin hvít, ilmandi í sveipum fyrri part sumars. Aldinið lítið gulgrænt - rauðleitt, ætt epli á stærð við vínber. Þroskar yfirleitt aldin á hverju ári. Rauðir haustlitir. Þolir vel klippingu. Stundum ber á rótarskotum. Þrífst í allri venjulegri, rakaheldinni garðmold. Blandið moltu eða gömlum búfjáráburði saman við jarðveginn við gróðursetningu. Alaskaepli fer vel stakstætt eða fleiri saman með að minnsta kosti 2 m millibili. Alaskaepli hentar vel í klippt limgerði. Í limgerði er hæfilegt millibil um 70 sm. Greinar alaskaeplis eru harðar/stífar og dvergsprotar áberandi hvassir. Alaskaepli er harðgerðasta skrauteplið fyrir íslenskar aðstæður sem völ er á. Við framleiðum eingöngu alaskaepli af íslensku fræi. Aldin alaskaeplis má nýta í sultu- og hlaupgerð en þau eru rík af pektíni. Ekki er ósennilegt að alaskaepli nýtist sem frjógjafi fyrir matarepli (M. domestica) en erlendis er það þekkt að þar sem þessar tegundir vaxa saman mynda þær stundum blendinga (M. x dawsoniana). Heimkynni: Vesturströnd N-Ameríka allt frá Alaska í norðri suður til Kaliforníu. Í sínum heimkynnum vex það gjarnan í deiglendi og nálægt ströndinni.
Birki / Ilmbjörk – Betula pubescens
Harðgert íslenskt tré. Hæð breytileg. Sólelskt. Í meðallagi hraðvaxið. Þrífst best í frjóum jarðvegi en annars nægjusamt. Getur lifað í all blautum jarðvegi. Lauf ilmar, sérstaklega á vorin í röku veðri. Haustlitur á ekta ilmbjörk er gulur. Eina trjátegundin sem myndað hefur skóga hérlendis frá því að síðustu ísöld lauk fyrir um 10.000 árum. Myndar gjarnan blendinga með fjalldrapa (B. nana). Blendingurinn kallast skógviðarbróðir og er misstór runni en ekki tré og mjög algengur í íslenskri náttúru, sérstaklega vestanlands. Skógviðarbróðir hefur yfirleitt dökkan / svartan börk, smágert lauf og rauðgulan haustlit. Birki hentar sem stakstætt tré eða fleiri saman í þyrpingum og röðum með að minnsta kosti 2,5 m millibili. Einnig notað til skógræktar og uppgræðslu. Vex þó hægt í ófrjóu landi. Birki hentar einnig í klippt limgerði á sólríkum stöðum. Upp á síðkastið hafa nýjar tegundir skordýra sem herja á birki numið land. Birkið okkar í Þöll er af Bæjarstaða-uppruna. Móðurtréin eru af yrkinu 'Embla'. Því fá tréin venjulega ljósan börk með aldrinum. Náttúruleg heimkynni imbjarkar eru auk Íslands mestur hluti Evrópu nema syðst, Norður og Mið-Asía og S-Grænland.
Bjarmasýrena ‘Valkyrja’ – Syringa wolfii ‘Valkyrja’
Harðgerður, þéttur, meðalhár runni (1,5 - 2,5 m). Blómin lillableik, ilmandi í klösum. Lágvaxnari en aðrar sýrenur. Sólelsk en þolir hálfskugga. Nýtur sín vel stakstæð eða fleiri saman í þyrpingu með um 120 sm millibili. Hentar einnig í stóra potta. Kettir sækja talsvert í Bjarmasýrenu 'Valkyrju' og geta eyðilagt hana meðan hún er ung. Því borgar sig að setja girðingu/net utan um nýgróðursettar plöntur og hafa það í kring fyrstu árin þar sem mikið er um ketti. 'Valkyrja' er úrval úr Grasagarði Reykjavíkur.
Alaskasýprus – Cupressus nootkatensis
Lágvaxið, sígrænt tré. Gjarnan líkari runna fyrstu árin. Toppurinn og smágreinar áberandi drjúpandi. Barrið hreisturlaga, blágrænt - gulgrænt. Könglar kúlulaga á stærð við bláber. Dökkbláir fullþroska. Þokkafullur og jafnvel draugalegur að sjá. Þarf nokkurt skjól. Fremur skuggþolinn. Þolir vel klippingu. Almennt talinn harðgerðasti sýprusinn.
Óvíst er hveru hár alaskasýprus getur orðið hérlendis. Reikna má með 6 - 7 m hæð á bestu stöðum í skógarskjóli. Getur orðið talsvert breiður. Alaskasýprus þrífst í skjólgóðum görðum og trjálundum. Hentar í beð og þyrpingar með öðrum sígrænum runnum og smátrjám. Einnig framan við og jafnvel undir stærri trjám. Þrífst í allri venjulegri, framræstri garðmold. Framleiðum eingöngu alaskasýprus af íslensku fræi. Einnig nefndur Callitropsis nootkatensis. Heimkynni: Vesturströnd N-Ameríku. Allt frá Alaska suður til N-Kaliforníu. Grátviðarætt (Cupressaceae).