Broddhlynur rauður /“Purpurahlynur“ – Acer platanoides f. purpurea
Sæmilega harðgert tré. Hæð 5 – 6 m eða meira hérlendis. Hætt við haustkali. Blöðin eru dökkpurpurarauð og þunn. Laufgast í byrjun júní. Haustlitur skærrauður – rauðgulur. Blómgast stundum fyrri part sumars ljósgulum blómum í sveipum. Stundum myndast aldin sem eru vængjaðar hnotir tvær og tvær saman nánast í beinni línu en mynda ekki horn eins og aldin garðahlyns (A. pseudoplatanus). Þarf frjóan, vel framræstan, ekki súran jarðveg. Sólelskur en getur staðið í hálfskugga. Hentar í grónar lóðir þar sem vaxtartími er ekki of stuttur. Millibil alla vega 2 m. Broddhlynirnir okkar eru af fræi og því ekki sérstök yrki.
Vöruflokkar: Tré, Tré og runnar í pottum
Tengdar plöntur
Heggur – Prunus padus
Harðgert, lágvaxið - meðalhátt tré (5 - 10 m). Ein- eða margstofna. Stundum runni. Blómin hvít, ilmandi í klösum í maí - júní. Stundum þroskast svört ber (steinaldin)í gisnum klösum að hausti. Gulir - rauðgulir haustlitir. Heggur þrífst í öllum sæmilega frjóum, framræstum jarðvegi. Heggur sómir sér vel stakur eða fleiri saman í þyrpingum og röðum. Tilvalinn í sumarhúsalandið. Þolir vel hálfskugga. Lágmarks-millibil: 2 m. Þolir vel klippingu en blómgast þá minna. Heggurinn okkar er vaxinn upp af fræi sem safnað er hérlendis. Heimkynni: Norður og M-Evrópu, Norður og NA-Asía.
Hjartatré – Cercidiphyllum japonicum
Fremur lítið tré hérlendis (3 - 6 m). Stundum runni. Þarf skjólgóðan og sólríkan stað til að þrífast. Þrífst í venjulegri garðmold. Laufið hjartalaga og rauðleitt fyrst á vorin og á vaxandi sprotum. Haustlitir bleikir. Karamelluilm leggur af laufinu á haustin. Blóm ekki áberandi og sjást sjaldan hérlendis. Sérbýlt. Þolir hálfskugga. Heppilegt og fallegt garðtré í skjólgóðum hverfum. Hætt við haustkali. Heimkynni: Kína og Japan.
Ryðelri / Ryðölur – Alnus rubra
Harðgert, sumargrænt, hraðvaxta, einstofna, meðalstórt - stórvaxið tré. Getur væntanlega náð allt að 20 m hæð á góðum stöðum hérlendis. Lágvaxnara og runnkendara við erfið skilyrði. Börkur grár með ljósum þverrákum. Gjarnan ber á uppblásnum trjákvoðu-bólum á berki. Íslenska heitið og fræðiheitið rubra vísa til þess að sé skorið í börkinn verður sárið áberandi ryðrautt.
Brum stilkuð. Laufblöðin eru egglaga - oddbaugótt, 7 - 15 sm á lengd, 4,5 - 7,5 sm á breidd, tvísagtennt með grunna sepa og ydd. Blaðjaðarinn verpist aðeins niður á við og er þetta helsta greiningareinkenni ryðelris frá öðrum tegundum elris. Lauf ljósari að neðan og stundum með ryðrauðum hárum á æðastrengjum. Ung lauf gjarnan rauðmenguð. Blaðstilkur allt að 2 sm langur. Haustlitur brúnn eða frýs grænt. Rauðleitir karlreklar, 10 - 15 sm langir, vaxa fram snemma vors (mars / apríl). Verða gulbrúnleitir þegar frjóhirslunar opnast. Kvenreklar eru nokkrir saman, brúnir, sporöskjulaga og 2 - 3 sm á lengd fullþroska. Minna á litla köngla. Fræið hefur tvo himnukennda vængi.
Ryðelri gerir litlar kröfur til jarðvegs. Þrífst best í rakaheldnum jarðvegi. Talið henta til gróðursetningar í vatnsrásir og þess háttar svæði sem eru aðeins tímabundið undir vatni. Vex eins og annað elri í sambýli við niturbindandi Frankia bakteríur. Rótarskot engin eða lítið áberandi. Ryðelri hentar stakstætt, í raðir / þyrpingar með að minnsta kosti 3 m millibili. Hentar einnig til skógræktar. Fremur nýlegt í ræktun en lofar mjög góðu. Hugsanlega hentugt sem götutré. Ryðölurinn okkar er allur vaxinn upp af fræi sem safnað hefur verið hérlendis.
Erlendis er timbrið nýtt í húsgögn, hljóðfæri og fleira. Viðurinn þykir sérlega góður til að reykja fisk og kjöt.
Heimkynni: Vesturströnd N-Ameríku allt frá Alaska suður til Kaliforníu. Bjarkarætt (Betulaceae).
Ulleungreynir / Pálmareynir ‘Dodong’ – Sorbus ulleungensis ‘Dodong’
All harðgert, fremur lágvaxið tré. Hæð 4 - 6 m hérlendis. Getur ef til vill orðið hærri á góðum stöðum. Laufin allt að 25 sm löng, stakfjöðruð. Smáblöð 15 - 17 talsins og hvassydd. Áberandi rauðir og rauðgulir haustlitir. Blómin hvít í sveipum fyrri part sumars. Berin sitja mörg saman í klösum, perulaga, rauðgul fullþroska.
Klippið og snyrtið 'Dodong' eingöngu yfir sumartímann til að forðast reyniátu. Yrkið 'Dodong' er vaxið upp af fræi sem safnað var í sænsk-dönskum leiðangri til kóreönsku eyjarinnar Ullungdo árið 1976. Yrkið er kennt við hafnarbæinn á umræddri eyju.
'Dodong' fer vel sem stakstæður í litlum sem stórum görðum. Einnig fellegur í röðum og þyrpingum með að minnsta kosti 2,5 m millibili. Heimkynni: Eyjan Ulleungdo, S-Kóreu. Rósaætt (Rosaceae).
Súlueik – Quercus robur ‘Fastigiata’
Fremur viðkvæmt tré hérlendis. Krónan mjóslegin. Laufgast upp úr miðjum júní. Frýs yfirleitt græn en stundum sjást gulir/gulbrúnir haustlitir. Fremur hægvaxta. Þrífst eingöngu í grónum görðum þar sem er skjólsælt. Sólelsk en þolir hálfskugga. Jarðvegurinn þarf að vera frjór og rakaheldinn. Óvíst er hversu hávaxin súleikin getur orðið hérlendis en reikna má með 6 - 7 m á allra bestu stöðum á löngum tíma.
Blágreni – Picea engelmannii
Harðgert, hávaxið, keilulaga, sígrænt barrtré. Nýja barrið bláleitt, ekki eins stingandi eins og barr sitkagrenis (Picea sitchensis). Gömul tré hérlendis þroska stundum köngla. Fremur hægvaxta. Krónan gjarnan fremur mjóslegin. Þolir hálfskugga. Þrífst betur inn til landsins en síður við sjávarsíðuna. Sitkalús getur verið vandamál. Blágreni er glæsilegt stakstætt tré. Sómir sér einnig í þyrpingum með að minnsta kosti 3 m millibili. Úrvals jólatré enda barrheldið. Víða nýtt til skógræktar sérstaklega norðan- og austanlands. Blágreni þykir all gott timburtré og viðurinn sagður léttur en fremur sterkur. M.a. nýtt í ýmis hljóðfæri. Blágreni er fyrst og fremst háfjallatré. Heimkynni blágrenis eru aðallega í Klettafjöllum og Fossafjöllum (Cascade Range) N-Ameríku. Vex þar víða upp að skógarmörkum. Myndar blendinga með hvít- (P. glauca) og sitkagreni (P. sitchensis) í heimkynnum sínum þar sem útbreiðslusvæði þessara tegunda skarast.
Fjallaþinur – Abies lasiocarpa
Meðalstórt - stórvaxið, sígrænt tré. Barrið grænt - blágrænt, mjúkt og ilmandi. Brumin hnöttótt og þakin hvítu harpixi. Krónan keilaga, mjó - meðalbreið. Könglar meðalstórir, dökkfjólubláir og uppréttir. Fjallaþinur þarf eitthvert skjól í uppvextinum. All skuggþolinn. Hætt við vorkali sérstaklega nálægt ströndinni þar sem vetur eru mildastir. Þrífst því betur í innsveitum. Algengasti og almennt talinn harðgerðasti þinurinn hérlendis. Þrífst í öllum sæmilega frjóum, framræstum jarðvegi. Fjallaþinur fer vel stakur eða fleiri saman með minnst 3 m millibili. Hentar vel til gróðursetningar inn í kjarr og skóga. Úrvals jólatré og greinarnar eru góðar til skreytinga. Heimkynni: Fjalllendi í vestanverðri N-Ameríku.
Alpareynir – Sorbus mougeotii
Harðgert, fremur lágvaxið tré eða hávaxinn runni (5 - 8 m). Ýmist ein- eða margstofna. Laufið grænt og gljáandi að ofan en silfurhvít-hært að neðanverðu. Blóm hvít í hálfsveipum fyrri part sumars. Rauðir berjaklasar þroskast að hausti. Berin endast gjarnan á trjánum langt fram á vetur ólíkt berjum flestra annarra reynitegunda. Gulir haustlitir.
Alpareynir sómir sér stakstæður eða í þyrpingum og röðum. Millibil ekki minna en 2 m. Einnig má nota alpareyni í klippt limgerði og planta með um 50 - 60 sm millibili. Hentar jafnvel í stór ker (sjá mynd). Fremur vind- og saltþolinn. Þolir hálfskugga. Líkist mjög doppureyni/týrólareyni (S. austriaca) og silfurreyni (S. intermedia). Á það til að sá sér út. Heimkynni: Fjalllendi Mið- og V-Evrópu, þ.e.a.s. Pýreneafjöll, Alparnir og norður til Vosges-fjalla. Rósaætt (Rosaceae).