Koparreynir – Sorbus frutescens
Harðgerður meðalhár – hávaxinn runni (2 – 3 m). Brum nær svört. Greinar útsveigðar með tímanum og dálítið drjúpandi. Blöðin dökkgræn, mött, fínleg, stakfjöðruð og allt að 18 sm löng. Smáblaðapör venjulega 11 – 12 talsins. Smáblöð 15 – 24 mm löng alla jafna, tennt, egglaga – lensulaga. Rauðir haustlitir í september. Smáir, hvítir blómsveipir snemmsumars. Hvít – fölbleik ber í stórum klösum þroskast á haustin. Mikið af berjum þroskast á hverju hausti einnig þó sumarið sé slakt!. Koparreynir er „apomictic“ smátegund og er því einsleitur upp af fræi.
Koparreynir þrífst í allri venjulegri garðmold sem ekki er of blaut. Koparreynir er glæsilegur stakstæður. Einnig fallegur í röðum og þyrpingum með 1 – 1,5 m millibili. Koparreyni má einnig gróðursetja í limgerði sem eru ýmist klippt eða meira og minna óklippt. Hæfilegt millibil er 50 – 60 sm í limgerði. Koparreynir er fallegastar í fullri sól en þolir vel hálfskugga. Klippið á sumrin en ekki að hausti eða vetri til að forðast reyniátu (Cytospora rubescens). Koparreynir er vinsæll og algengur í íslenskum görðum. Heimkynni: Kína. Líklega frá NV-Gansu. Rósaætt (Rosaceae).