Demantsvíðir ‘Kodiak’ – Salix pulchra ‘Kodiak’
All harðgerður, þéttur runni. Hæð um 1,5 m. Greinar og sprotar áberandi rauðbrúnar. Laufin eru sporöskjulaga – lensulaga, hárlaus, ydd og gljáandi á efra borði. Blágræn á því neðra. Stöku lauf sitja á runnanum allan veturinn. Það á sama á við um axlarblöðin sem eru mjó og nokkrir millimetrar á lengd. Silfur-loðnir reklar birtast seinni part vetrar (feb/mars). Sólelskur.
Demantsvíðir þrífst í öllum sæmilega frjóum og rakaheldnum jarðvegi. Hentar í runnaþyrpingar einn og sér eða í bland með öðrum tegundum. Hentar sjálfsagt í lægri limgerði. Millibil 50 – 100 sm. Yrkinu ‘Kodiak’ var safnað á Kodiakeyju við Alaska í leiðangri Ólafar S. Njálssonar, Nátthaga og Pers í Mörk árið 1994. Heimkynni demantsvíðis eru auk Alaska, NV-Kanada og NA-Rússland. Víðisætt (Salicaceae).