Döglingskvistur – Spiraea douglasii
Harðgerður, þéttur runni. Hæð rúmlega 1 m. Blómin fjólubleik í uppréttum klösum síðsumars (ágúst – september). Virðast loðin þar sem fræflarnir standa út fyrir blómskipunina. Greinar uppréttar, rauðbrúnar. Visnar blómskipanir standa fram á vetur. Döglingskvistur hefur talsvert skriðullt rótarkerfi. Laus við meindýr og sjúkdóma. Þolir hálfskugga. Best fer á því að klippa döglingskvist niður í svona 50 – 60 sm seinni part vetrar. Það hefur ekki áhrif á blómgun þar sem döglingskvistur blómgast á árssprotann. Þrífst í allri venjulegri rakaheldinni garðmold. Döglingskvist er gjarnan plantað í raðir / limgerði. Einnig í ker og þess háttar þar sem hann getur alveg fyllt út í rýmið. Hentar síður með öðrum gróðri nema tegundum sem eru sjálfar duglegar í samkeppni. Tilvalinn í villigarða þar sem hann má breiðast út. Líklegt er að stór hluti af því sem í daglegu tali kallast „döglingskvistur“ sé í raun úlfakvistur (S. x billardii). Heimkynni: Vestanverð N-Ameríka. Úlfakvistur er blendingur döglings- og víðikvists (S. salicifolia). Víðikvistur er frá Evrasíu.