Sígrænn runni. Hæð um 1,5 m. Þarf skjól. Þolir vel hálfskugga. Þrífst best í mómold sem blönduð er gömlu hrossataði og furunálum. Þannig helst jarðvegurinn í súrari kantinum. Einnig er mikilvægt að jarðvegurinn sé vel framræstur en rakaheldinn. Ekki blanda kalki/skeljasandi saman við jarðveginn. Vökvið vel eftir gróðursetningu og næstu daga ef þurfa þykir. Hentar í gróna garða og sumarhúsalóðir. Fer best með öðrum lyngrósum, sígrænum runnum, lyngi, kristþyrni (Ilex spp.) og þess háttar. Skýlið alla vega fyrsta veturinn eftir gróðursetningu. Blómgast í júní. Blómin eru stór og mörg saman, lillableik. Berið á blandaðan garðáburð á lyngrósina í maí sem svarar sléttfullri matskeið aðeins einu sinni á ári. Gott er að þekja lyngrósabeð með trjákurli til að draga úr vexti illgresis, halda jöfnun jarðvegsraka og vernda grunnstætt rótarkerfi lyngrósa.
Dröfnulyngrós ‘Roseum Elegans’ – Rhododendron catawbiense ‘Roseum Elegans’
Vöruflokkar: Lyngrósir, Sígrænir runnar og sígræn smátré, Tré og runnar í pottum
Nánari lýsing
Tengdar plöntur
Birki / Ilmbjörk – Betula pubescens
Harðgert íslenskt tré. Hæð breytileg. Sólelskt. Í meðallagi hraðvaxið. Þrífst best í frjóum jarðvegi en annars nægjusamt. Getur lifað í all blautum jarðvegi. Lauf ilmar, sérstaklega á vorin í röku veðri. Haustlitur á ekta ilmbjörk er gulur. Eina trjátegundin sem myndað hefur skóga hérlendis frá því að síðustu ísöld lauk fyrir um 10.000 árum. Myndar gjarnan blendinga með fjalldrapa (B. nana). Blendingurinn kallast skógviðarbróðir og er misstór runni en ekki tré og mjög algengur í íslenskri náttúru, sérstaklega vestanlands. Skógviðarbróðir hefur yfirleitt dökkan / svartan börk, smágert lauf og rauðgulan haustlit. Birki hentar sem stakstætt tré eða fleiri saman í þyrpingum og röðum með að minnsta kosti 2,5 m millibili. Einnig notað til skógræktar og uppgræðslu. Vex þó hægt í ófrjóu landi. Birki hentar einnig í klippt limgerði á sólríkum stöðum. Upp á síðkastið hafa nýjar tegundir skordýra sem herja á birki numið land. Birkið okkar í Þöll er af Bæjarstaða-uppruna. Móðurtréin eru af yrkinu 'Embla'. Því fá tréin venjulega ljósan börk með aldrinum. Náttúruleg heimkynni imbjarkar eru auk Íslands mestur hluti Evrópu nema syðst, Norður og Mið-Asía og S-Grænland.
Alaskaösp – Populus trichocarpa ‘Keisari’, ‘Sæland’, ‘Pinni’, ‘Haukur’ og ‘Súla’
Hraðvaxta, harðgert, hávaxið, sumargrænt tré. Gulir haustlitir. Brum og brumhlífar klístruð. Balsamilmur áberandi á vorin og í röku veðri. Blómgast í apríl/maí. Blómskipunin rekill. Sérbýl. Kvenkyns tré dreifa miklu magni af fræi sem líkist dún upp úr miðju sumri. Króna mis umfangsmikil milli yrkja og því mis plássfrek. Rætur liggja almennt grunnt og rótarkambar því áberandi. Ljóselsk.
'Keisari' reynist best allra yrkja næst sjávarsíðunni. Gróðursett stakstæð, í raðir og þyrpingar. Fín í skjólbelti kringum landbúnaðarsvæði o.þ.h. Einstöku sinnum ræktuð sem klippt limgerði (sjá mynd).
Þrífst best í rakaheldnum, næringarríkum/steinefnaríkum jarðvegi. Þolir all vel bleytu hluta úr ári. Bil milli trjáa fer eftir því um hvaða yrki er um að ræða en getur spannað frá 2 - 6 m. Heimkynni: Vestanverð N-Ameríka. Allt frá Alaska til Baja Kalifornía í Mexíkó. Íslenski stofninn er allur eða nær allur ættaður frá Alaska.
Blátoppur ‘Þokki’ – Lonicera caerulea ‘Þokki’
Mjög harðgerður, þéttur, fremur hægvaxta runni. Laufið blágrænt, gagnstætt. Blómin smá, gulgræn og lítið áberandi. Aldinið blátt ber. Ekki talin góð til átu. Blátoppur 'Þokki' er skuggþolinn. Hentar í raðir, þyrpingar, limgerði og til uppfyllingar í skuggsæl horn og undir trjám. Lokar sér vel niður að jörð og heldur þannig niðri illgresi. Almennt heilbrigður. Þrífst vel í allri venjulegri garðmold. Millibil í limgerði um 50 sm eða meir.
Alaskavíðir – Salix alaxensis – ‘Gústa’, ‘Oddur Guli’, ‘Töggur’ o.fl. yrki
Mjög harðgerður, vind- og saltþolinn, hraðvaxta, hávaxinn runni/lágvaxið tré (3-7 m). Greinar í fyrstu uppréttar en síðar útvaxnar og jafnvel drjúpandi. Það er þó talsvert mismunandi eftir yrkjum. Laufblöð sporbaugótt - öfugegglaga með hvítu lóhærðu neðra borði, allt að 11 sm löng. Sérbýll. Blómgast í apríl en silfurgráir reklar birtast gjarnan í mars. Humlur sækja í reklana á vorin.
'Gústa' sem einnig gengur undir nafninu "tröllavíðir" og "brúnn alaskavíðir" hefur dökkbrúna sprota, hvíthærða í endana. 'Oddur Guli' hefur gulgræna sprota og 'Töggur' skærgræna. Greinar 'Sunnu' eru óvenju mikið slútandi. 'Máni' hefur brúna til græna sprota sem eru ekki mikið hærðir í endana. 'Hríma' hefur þykka, hvíthærða sprota alla leið.
Alaskavíðir er aðallega gróðursettur í skjólbelti og limgerði. Gróðursettar eru 2-3 plöntur/m. Þarf frjóan, steinefnaríkan og rakaheldinn jarðveg til að þrífast. Sólelskur. Klippið reglulega til að halda í góðu formi. Gulir haustlitir í október. Laus við asparglyttu og ryð. Gamall (25 - 30 ára) óklipptur alaskavíðir fellur gjarnan um koll en stofnskot vaxa jafn harðan upp aftur. Sáir sér út í raskað land þar sem aðstæður leyfa. Heimkynni: Alaska og NV-Kanada. Víðisætt (Salicaceae).
Beyki – Fagus sylvatica
Sumargrænt, lágvaxið - meðalstórt tré hérlendis. Getur trúlega farið upp fyrir 12 m hæð á bestu stöðum. Laufið skærgrænt þegar það springur út fyrir miðjan júní. Visið, gullinbrúnt laufið hangir á greinum ungra trjáa allan veturinn og einnig á neðstu greinum eldri trjáa. Brum hvassydd. Börkur, sléttur, grár. Þarf hlýjan vaxtarstað og frjóan jarðveg til að þrífast. Þolir vel hálfskugga. Þolir vel klippingu og gjarnan notað í klippt limgerði erlendis. Yrki með purpurarauðum laufum (sjá blóðbeyki) eru algengari hérlendis heldur en beyki með grænum laufum. Sumir eru á því að þau rauðu þrífist betur en þau grænu. Beyki finnst hér og þar í görðum en ekki gróðursett í skógrækt hérlendis ennþá enda full hitakær tegund til stórfelldrar ræktunar hérlendis. Heimkynni: Stór hluti Evrópu þó ekki allra nyrst.
Alaskasýprus – Cupressus nootkatensis
Lágvaxið, sígrænt tré. Gjarnan líkari runna fyrstu árin. Toppurinn og smágreinar áberandi drjúpandi. Barrið hreisturlaga, blágrænt - gulgrænt. Könglar kúlulaga á stærð við bláber. Dökkbláir fullþroska. Þokkafullur og jafnvel draugalegur að sjá. Þarf nokkurt skjól. Fremur skuggþolinn. Þolir vel klippingu. Almennt talinn harðgerðasti sýprusinn.
Óvíst er hveru hár alaskasýprus getur orðið hérlendis. Reikna má með 6 - 7 m hæð á bestu stöðum í skógarskjóli. Getur orðið talsvert breiður. Alaskasýprus þrífst í skjólgóðum görðum og trjálundum. Hentar í beð og þyrpingar með öðrum sígrænum runnum og smátrjám. Einnig framan við og jafnvel undir stærri trjám. Þrífst í allri venjulegri, framræstri garðmold. Framleiðum eingöngu alaskasýprus af íslensku fræi. Einnig nefndur Callitropsis nootkatensis. Heimkynni: Vesturströnd N-Ameríku. Allt frá Alaska suður til N-Kaliforníu. Grátviðarætt (Cupressaceae).