Dúnheggur – Prunus maximowiczii
All harðgert, fremur lágvaxið tré eða runni (5 – 7 m). Blómin hvít, nokkur saman snemmsumars (júní). Aldinið lítið rautt – svart ætt, ber (steinaldin). Rauðir – gulir haustlitir. Takmörkuð reynsla enda sárasjaldgæfur hérlendis. Hentar stakstæður eða í þyrpingar með um 3 m millibili. Þolir hálfskugga. Heimkynni dúnheggs eru í NA-Asíu (Kína, Kórea, Rússland og Japan). Vex þar til fjalla í leirkenndum jarðvegi. Plönturnar okkar eru vaxnar upp af fræi sem safnað var hérlendis.
Vöruflokkar: Tré, Tré og runnar í pottum
Tengdar plöntur
Risalífviður – Thuja plicata
Sígrænt, keilulaga, í meðallagi hraðvaxta tré. Óvíst er hversu hár risalífviður getur orðið hérlendis. Hefur þó náð afmarkað 12 m hæð við Jökullæk í Hallormsstaðaskógi. Barrið er hreisturkennt og ilmandi. Grænt að ofan en ljósara að neðanverðu. Ilmurinn minnir á ananas. Börkur rauðbrúnn. Þarf gott skjól í uppvextinum. Þolir talsverðan skugga. Könglarnir eru litlir og aflangir en ekki kringlóttir eins og á sýprus (Chamaecyparis spp. og Cupressus spp.). Risalífviður getur í heimkynnum sínum orðið mjög stórvaxinn og langlífur.
Risalífviður þrífst helst í skógarskjóli eða í grónum görðum í frjóum, rakaheldnum en framræstum jarðvegi. Barrið verður gjarnan brúnleitara á vetrum en grænkar svo aftur ef plantan er óskemmd. Skýlið alla vega fyrsta veturinn eftir gróðursetningu nema að skjólið sé þeim mun meira. Þolir vel klippingu og er m.a. notaður í klippt limgerði erlendis. Risalífviðirnir okkar eru afkomendur trjánna við Jökullæk. Þau tré eru af kvæminu, Kamloops, Bresku Kólumbíu, Kanada. Þykir gott timburtré en viður risalífviðar hefur náttúrulega fúavörn og er ilmandi. Heimkynni: Norðvestanverð N-Ameríka. Grátviðarætt (Cupressaceae).
Súlueik – Quercus robur ‘Fastigiata’
Fremur viðkvæmt tré hérlendis. Krónan mjóslegin. Laufgast upp úr miðjum júní. Frýs yfirleitt græn en stundum sjást gulir/gulbrúnir haustlitir. Fremur hægvaxta. Þrífst eingöngu í grónum görðum þar sem er skjólsælt. Sólelsk en þolir hálfskugga. Jarðvegurinn þarf að vera frjór og rakaheldinn. Óvíst er hversu hávaxin súleikin getur orðið hérlendis en reikna má með 6 - 7 m á allra bestu stöðum á löngum tíma.
Kínareynir ‘Bjartur’ – Sorbus vilmorinii ‘Bjartur’
Lítið tré eða stór runni (3 - 5 m). Virðist harðgerður. Vaxinn upp af fræi sem Ólafur Njálsson í Nátthaga, Ölfusi safnaði af reynirunna í N-Wales haustið 1989. 'Bjartur' var valinn til áframhaldandi ræktunar af þeim 5 plöntum sem komu upp. Virðist fræekta (apomixis). Hvítir blómsveipir birtast snemmsumars. Bleik ber þroskast á haustin. Rauðir haustlitir. Berin hanga á trjánum fram á vetur þar sem fuglar eru ekki sólgnir í þau. Þolir hálfskugga. Óvíst er hvort að um ekta kínareyni sé að ræða. 'Bjartur' hentar sem garðtré í t.d. litla garða. Þrífst í venjulegri, vel framræstri garðmold sem gjarnan má vera sand- og/eða malarborin.
Ryðelri / Ryðölur – Alnus rubra
Harðgert, hraðvaxta, einstofna, meðalstór - stórvaxið tré (10 m). Lágvaxnara og runnkendara við erfið skilyrði. Laufin eru egglaga, 7 - 15 sm á lengd, sagtennt og langydd. Blaðjaðarinn verpist aðeins niður á við. Ung lauf gjarnan rauðmenguð. Haustlitur brúnn eða frýs grænn. Rauðleitir karlreklar vaxa fram snemma vors (mars / apríl). Kvenreklar brúnir fullþroska. Minna á litla köngla. Börkur grár með ljósum þverrákum. Gjarnan ber á uppblásnum trjákvoðu-bólum á berki. Sólelskt en gerir litlar kröfur til jarðvegs. Vex eins og annað elri í sambýli við niturbindandi bakteríur. Rótarskot engin eða lítið áberandi. Ryðelri hentar stakstætt, í raðir / þyrpingar með að minnsta kosti 2,5 m millibili. Hentar einnig til skógræktar. Nýlegur í ræktun en lofar mjög góðu. Hugsanlega hentugt sem götutré. Ryðölurinn okkar er allur vaxinn upp af fræi sem safnað hefur verið hérlendis. Heimkynni: Vesturströnd N-Ameríku allt frá Alaska suður til Kaliforníu.
Fjallareynir – Sorbus commixta
Harðgerður, hávaxinn runni eða lágvaxið tré (3 - 6 m). Laufin stakfjöðruð. Smáblöðin 11 - 17 talsins, hvassydd. Áberandi eldrauðir haustlitir. Brum rauð og hárlaus. Hvítir blómsveipir fyrri part sumars. Rauðgul, fremur smá reyniber í klösum þroskast að hausti. Fjallareynir er glæsilegur stakur eða fleiri saman með að minnsta kosti 2 m millibili. Kjörinn í sumarhúsalóðir. Fjallareynir er talsvert breytilegur enda fjölgar hann sér með kynæxlun og getur t.d. myndað kynblendinga með ilmreyni (S. aucuparia). Þolir hálfskugga. Þrífst í allri venjulegri garðmold. Þrífst einnig vel í lúpínubreiðum. Allur fjallareynirinn okkar er vaxinn upp af fræi sem safnað er hérlendis. Heimkynni: Japan, Kína, Kórea og Sakalín.
Týrólareynir / Doppureynir – Sorbus austriaca
Harðgert, fremur lágvaxið tré. Hæð: 6 - 10 m hérlendis. Stundum runni. Líkist alpareyni (Sorbus mougeotii). Talinn blendingur seljureynis (Sorbus aria) og reyniviðar (Sorbus aucuparia). Laufblöð breið-sporöskjulaga með kíllaga grunn. Lauf sagtennt en neðarlega á laufinu eru flipar sem skerast upp í blöðkuna sem nemur um 1/6 af breitt hennar. Flipar skarast ögn. Ofar eru laufblöðin tvísagtennt. Laufblöð ekki eins slétt og laufblöð alpareynis enda blaðjaðrar bylgjaðir. Lauf týrólareynis hafa þykkari hár en lauf annara reynitegunda í Sorbus aria deildinni. Gulir - brúnir haustlitir í október. Frýs stundum grænn. Blómin hvít í sveipum í júní. Rauðir berjaklasar þroskast í október. Trúlega verið hér í ræktun í einhverja áratugi og yfirleitt ranglega nefndur alpareynir. Finnst sjálfsáinn í nágrenni byggðar. Týrólareynir virðist beinvaxnari og jafnvel hávaxnari að jafnaði samanborið við alpareyni. Týrólareynir sómir sér vel stakur eða fleiri saman með um 3 m millibili eða meir. Hentar jafnvel í limgerði með um 2 plöntum/m. Þrífst í allri venjulegri, vel framræstri garðmold. Þrífst ekki í súrum jarðvegi. Heimkynni: Fjalllendi í Austurríki og á Balkanskaganum.
Beyki – Fagus sylvatica
Sumargrænt, lágvaxið - meðalstórt tré hérlendis. Getur trúlega farið upp fyrir 12 m hæð á bestu stöðum. Laufið skærgrænt þegar það springur út fyrir miðjan júní. Visið, gullinbrúnt laufið hangir á greinum ungra trjáa allan veturinn og einnig á neðstu greinum eldri trjáa. Brum hvassydd. Börkur, sléttur, grár. Þarf hlýjan vaxtarstað og frjóan jarðveg til að þrífast. Þolir vel hálfskugga. Þolir vel klippingu og gjarnan notað í klippt limgerði erlendis. Yrki með purpurarauðum laufum (sjá blóðbeyki) eru algengari hérlendis heldur en beyki með grænum laufum. Sumir eru á því að þau rauðu þrífist betur en þau grænu. Beyki finnst hér og þar í görðum en ekki gróðursett í skógrækt hérlendis ennþá enda full hitakær tegund til stórfelldrar ræktunar hérlendis. Heimkynni: Stór hluti Evrópu þó ekki allra nyrst.
Virginíuheggur ‘Canada Red’ – Prunus virginiana ‘Canada Red’
Lítið til meðalstórt (5- 7,5 m), all harðgert tré eða stórvaxinn runni. Gjarnan margstofna enda hefur virginíuheggur tilhneigingu til að skjóta upp stofnskotum. Hægt að forma með klippingu í einstofna tré. Fremur harðgerður. Grænt lauf fyrri part sumars. Dökk-purpurarautt lauf upp úr miðju sumri (júlí). Skærrautt lauf á haustin. Ljósir blómklasar, svört ber. Hefur þó lítið blómstrað hérlendis hingað til. Þolir hálfskugga en litsterkastur í fullri sól. Fallegur stakstæður eða innan um og framan við grænan og ljósari gróður. Virðist þola klippingu vel. Millibil 2,5/3 m eða meir. Heimkynni: Stór svæði í N-Ameríku. Aðallega S-Kanada og norðanverð Bandaríkin. Dæmigerður villtur virginíuheggur hefur ekki purpurarauð laufblöð yfir sumartímann. Yrkið 'Canada Red' er upprunið frá Minnesota í Bandaríkjunum frá því fyrir árið 1985.