Dúnheggur – Prunus maximowiczii
All harðgert, fremur lágvaxið tré eða runni (5 – 7 m). Blómin hvít í sveip snemmsumars. Aldinið lítið rautt – svart ber. Rauðir – gulir haustlitir. Takmörkuð reynsla. Hentar stakstæður eða í þyrpingar með um 3 m millibili. Þolir hálfskugga.
Vöruflokkar: Tré, Tré og runnar í pottum
Tengdar plöntur
Stafafura / Strandfura – Pinus contorta – Hafnarfjörður (Skagway)
Mjög harðgert, meðalstórt, sígrænt tré (7 - 15 m). Lægra á vindasömum stöðum. Gerir litlar kröfur til jarðvegs. Sólelsk. Nálarnar fagurgrænar, 2 - 3 saman í knippi. Þroskar meðalstóra, kanelbrúna köngla strax á unga aldri. Algengasta furan hérlendis. Vinsælasta íslenska jólatréið. Þrífst víðast hvar á landinu. Hraðvaxnasta furan. Sáir sér gjarnan út þar sem aðstæður henta. Stafafura hentar stakstæð en einnig í raðir, þyrpingar og til skógræktar sérstaklega í rýru landi. Millibil ekki minna en 2 m. Tré sem hafa rými verða gjarnan mjög greinamikil og breið. Skýlið alla vega fyrsta veturinn ef gróðursett er á mjög berangurslegum stöðum. Barr roðnar gjarnan mikið eftir mikla saltákomu af hafi.
Hvítgreni – Picea glauca – Nýfundnaland
All hávaxið, sígrænt, keilulaga tré. Barrið grágrænt - blágrænt. Fínlegra og ekki eins stingandi samanborið við sitkageni (Picea sitchensis). Hægvaxnara og mjóslegnara samanborið við sitkagreni. Hentar frekar inn til landsins en við sjávarsíðuna. Lyktar. Hvítgreni og sitkagreni mynda gjarnan kynblendinga sem kallast sitkabastarður eða hvítsitkagreni (Picea x lutzii). Blendingur þessi er algengur hérlendis. Hvítgrenið okkar er af fræi frá Nýfundnalandi.
Blóðheggur ‘Colorata’ – Prunus padus ‘Colorata’
Lágvaxið, fremur harðgert tré (3 - 6 m). Stundum runni. Laufið purpurarautt / vínrautt. Skærrauðir haustlitir. Blómin bleik í klösum í lok maí - júní. Sprotar nær svartir. Ljóselskur en þolir hálfskugga. Í skugga verður blóðheggur grænni en ella. Hentar stakstæður eða í bland með öðrum gróðri.
Bolvíðir – Salix udensis – Ivashka, Kamsjatka
Harðgert, hraðvaxta tré / runni. Virðist stöðugri og beinvaxnari en flestur annar víðir að selju (Salix caprea) undanskilinni. Sólelskur. Þrífst í allri venjulegri garðmold. Um er að ræða klón frá Ivashka, Kamtsjatka, Rússlandi sem safnað var í Kamtsjatka-leiðangri Óla Vals Hanssonar og Brynjólfs Jónssonar árið 1993. Bolvíðir hentar sem stakstætt tré en einnig í raðir og þyrpingar með um 2 m millibili hið minnsta. Sjaldgæfur hérlendis. Kvenkyns klón.
Heggur ‘Laila’ – Prunus padus ‘Laila’
Harðgert, fremur lágvaxið tré. Hæð 5 - 8 m. Blómin hvít, ilmandi í klösum fyrri part sumars. Stundum sjást svört steinaldin/ber á haustin. Gulir haustlitir. Þolir hálfskugga. Þrífst í allri venjulegri garðmold.
Alpareynir – Sorbus mougeotii
Harðgert, fremur lágvaxið tré eða hávaxinn runni (5 - 8 m). Laufið grænt og gljáandi að ofan en silfurhvít-hært að neðanverðu. Rauðir berjaklasar þroskast að hausti. Gulir haustlitir. Alpareynir sómir sér stakstæður eða í þyrpingum og röðum. Millibil ekki minna en 2 m. Einnig má nota alpareyni í klippt limgerði og planta með um 50 - 60 sm millibili. Hentar jafnvel í stór ker (sjá mynd). Fremur vind- og saltþolinn. Þolir hálfskugga. Líkist mjög doppureyni/týrólareyni (Sorbus austriaca) og silfurreyni (Sorbus intermedia)
Hjartatré – Cercidiphyllum japonicum
Fremur lítið tré hérlendis (3 - 6 m). Stundum runni. Þarf skjólgóðan og sólríkan stað til að þrífast. Þrífst í venjulegri garðmold. Laufið hjartalaga og rauðleitt fyrst á vorin og á vaxandi sprotum. Haustlitir bleikir. Karamelluilm leggur af laufinu á haustin. Blóm ekki áberandi og sjást sjaldan hérlendis. Sérbýlt. Heppilegt og fallegt garðtré í skjólgóðum hverfum. Hætt við haustkali. Heimkynni: Kína og Japan.
Blágreni – Picea engelmannii
Harðgert, hávaxið, keilulaga, sígrænt barrtré. Nýja barrið bláleitt, ekki eins stingandi eins og barr sitkagrenis (Picea sitchensis). Fremur hægvaxta. Krónan gjarnan fremur mjóslegin. Þolir hálfskugga. Þrífst betur inn til landsins en síður við sjávarsíðuna. Sitkalús getur verið vandamál. Blágreni er glæsilegt stakstætt tré. Sómir sér einnig í þyrpingum með að minnsta kosti 2,5 m millibili. Úrvals jólatré. Víða nýtt til skógræktar sérstaklega norðan- og austanlands.