Dúnheggur – Prunus maximowiczii
All harðgert, fremur lágvaxið tré eða runni (5 – 7 m). Sprotar og blaðstilkar dúnhærðir. Laufin sporöskjulaga – egglaga og ydd í endann. Snubbótt – fleyglaga í grunninn og tvísagtennt. Gishærð. Blómin hvít, nokkur saman snemmsumars (júní) á all löngum blómstilkum með lauflíku háblaði. Aldinið lítið rautt – svart ætt, ber (steinaldin). Rauðgulir – koparbrúnir haustlitir. Stundum jafvel rauðir.
Takmörkuð reynsla er af dúnhegg hérlendis enda sárasjaldgæfur. Þrífst í sæmilega frjósömum, rakaheldnum jarðvegi þar sem einhvers skjóls nýtur. Virðist annars harðgerður. Blómin eru ekki eins áberandi og á hegg (P. padus). Aldinin eru heldur ekki sérlega áberandi. Fallegastur er hann á haustin vegna haustlitanna. Hentar stakstæður eða í þyrpingar með um 2,5 – 3 m millibili. Þolir hálfskugga.
Heimkynni dúnheggs eru í NA-Asíu (Kína, Kórea, Rússland og Japan). Vex þar til fjalla í leirkenndum jarðvegi. Plönturnar okkar eru vaxnar upp af fræi sem safnað var hérlendis. Rósaætt (Rosaceae).