Dvergavör ‘Atropurpurea’ – Ajuga reptans ‘Atropurpurea’
Harðgerð, alveg jarðlæg fjölær jurt. Laufið gljáandi, dökk-purpurarautt – brúnt. Hálf-sígræn. Blómin dökkfjólublá í uppréttum klasa. Blómgast á miðju sumri. Dreifir sér út með ofanjarðar-renglum. Skuggþolin. Prýðis þekjuplanta undir trjám og inn á milli runna og fjölæringa. Þrífst í allri venjulegri garðmold svo fremi að hún sé of þurr.
Vöruflokkar: Fjölærar jurtir, Þekjuplöntur
Tengdar plöntur
Krosshnappur – Glechoma hederacea
Harðgerð, jarðlæg fjölær, sígræn, þekjandi jurt. Laufið gjarnan rauðbrúnleitt. Laufið er ætt. Blómin fjólublá miðsumars. Þolir hálfskugga. Ilmandi. Þrífst best í frjóum, niturríkum, sæmilega rökum jarðvegi. Hentar sem þekjuplanta t.d. undir trjám, í ker og potta og þess háttar. Dreifir sér með jarðstönglum. Heimkynni: Evrasía.
Forlagabrúska ‘Hyacinthina’- Hosta fortunei ‘Hyacinthina’
Harðgerð, fjölær jurt. Stór, heilrennd, egglaga lauf. Gulir haustlitir. Ljóslilla blómklasar síðsumars. Hæð um 40 sm en blómklasar vaxa hærra upp. Skuggþolin. Breiðist rólega út. Þarf frjóa og jafnraka mold. Ein allra harðgerðasta brúskan. Talsvert þekjandi. Hentar sem undirgróður undir trjám, í skuggsæl horn og í blönduð blóma- og runnabeð. Millibil um 70 - 80 sm. Lauf og blaðstilkar á brúskum eru notuð í austurlenskri matargerð. Brúskur koma ekki upp úr jörðinni fyrr en í maílok eða í byrjun júní. Síðan vaxa þær hratt upp.
Sæhvönn – Ligusticum scoticum
Harðgerð, íslensk jurt. Hæð um 40 - 60 sm. Vex villt við ströndina, aðallega í sjávarhömrum, eyjum og þess háttar. Algengust á sunnan- og vestanlands. Lauf þrífingruð og gljáandi. Hvítir blómsveipir birtast á miðju sumri. Aldin brúnleit. Sæhvönn er æt. Blöðin bragðast ekki ósvipað og steinselju eða selleríi og fræið eins og broddkúmen eða bukkasmári (fenugreek). Blöðin eru best til átu fyrir blómgun. Mjög saltþolin. Þolir illa beit. Heimkynni: Auk Íslands, strandsvæði NA-Ameríka og N-Evrópu.
Friggjarlykill – Primula florindae
Harðgerð fjölær jurt. Hæð 50 - 80 sm. Blómin oftast gul, drjúpandi, mörg saman á stönglum sem vaxa upp fyrir blaðhvirfinguna. Blómin ilma. Vex best í rökum, frjósömum jarðvegi. Heimkynni SA-Tíbet. Barst fyrst til V-Evrópu árið 1924 með breska grasafræðingnum Frank Kingdon-Ward sem nefndi jurtina í höfuðið á eiginkonu sinni Florinda.
Skessujurt – Levisticum officinale
Harðgerð, hávaxin, fjölær jurt. Hæð: 1,5 - 2 m. Laufblöð þrífjöðruð. Skessujurt hefur lengið verið nýtt sem mat- og lækningajurt. Blómin eru gulgræn í sveip í júlí - ágúst. Þrífst best í rakaheldnum, frjósömum jarðvegi. Þolir vel hálfskugga. Náttúruleg heimkynni eru ekki nákvæmlega þekkt. Skessujurt vex í dag víða villt í Evrópu og Asíu. Ilmur og bragð minna á sellerí og steinselju en skessujurt er bragðmeiri. Blöð og unga stöngla má nota í salat og súpur. Einnig má nýta rótina sem grænmeti. Fræ skessujurtar má nota sem krydd. Bragðið heldur sér vel við þurrkun. Skessujurt er góð í kryddsmjör og með bökuðum kartöflum. Skessujurt gengur stundum undir nafninu "maggijurt" samanber "maggiurt" á dönsku og "Maggikraut" á þýsku þar sem bragð minnir á frægar pakkasúpur og súputeninga. Skessujurt hentar til gróðursetningar aftarlega í beð, í skógarjaðra eða í horn til uppfyllingar t.d. í hálfskugga. Frekar nytjajurt en skrautjurt.