Dvergavör ‘Atropurpurea’ – Ajuga reptans ‘Atropurpurea’
Harðgerð, alveg jarðlæg fjölær jurt. Laufið gljáandi, dökk-purpurarautt – brúnt. Hálf-sígræn. Blómin dökkfjólublá í uppréttum klasa. Blómgast á miðju sumri. Dreifir sér út með ofanjarðar-renglum. Skuggþolin. Prýðis þekjuplanta undir trjám og inn á milli runna og fjölæringa. Þrífst í allri venjulegri garðmold svo fremi að hún sé of þurr.
Vöruflokkar: Fjölærar jurtir, Þekjuplöntur
Tengdar plöntur
Berghnoðri – Petrosedum rupestre
Harðgerð, lágvaxin, jarðlæg, sígræn jurt. Blaðbreiðan er aðeins nokkrir sm á hæð. Laufið smágert, um 1 sm á lengd, sívallt, blágrænt eða rauðleitt. Laufin sitja mjög þétt á blaðsprotum en gisnar og eru meira útsveigð á blómsprotum. Laufið minnir á barrnálar en mýkra. Blómsprotarnir vaxa upp í 15 - 20 sm hæð. Meðan blómstilkarnir eru að vaxa upp drjúpir blómskipunin en snýr svo upp þegar blómin opnast. Blómin eru skærgul, stjörnulaga, all stór í greinóttum, flötum eða svolítið hvelfdum hálfsveipum. Blómgast síðsumars og fram á haust.
Sólelskur. Þrífst best í þurrum, sendnum/grýttum jarðvegi. Hentar því best í steinhæðir, hleðslur, ker, lifandi þök o.þ.h. Hentar sem þekjuplanta þar sem er sólríkt, jarðvegur ekki of frjór og ekki ágengt illgresi fyrir. All hraðvaxta. Sagður ætur og notaður til manneldis sums staðar í Evrópu. Berghnoðri er betur þekktur undir fræðiheitunum Sedum reflexum og S. rupestre.
Heimkynni: Fjalllendi víða í Mið- og V-Evrópu. Hnoðraætt (Crassulaceae).
Kínalykill – Primula sikkimensis
Harðgerð, fjölær jurt. Hæð 40 - 50 sm. Laufblöðin sitja í jarðlægum hvirfingum. Blöðin eru öfugegglaga - oddbaugótt og bogadregin í oddinn. Mjókka að grunni. Blaðstöngull er styttri en blaðkan. Hrukkótt. Blómin sitja mörg saman í sveip á stöngulendum. Bikarblöð eru brúnleit. Blómin eru ljósgul, drjúpandi og ilma vel. Blómleggir grannir og mélugir. Króna allt að 3 x 3 sm. Blómgast í júní - júlí.
Kínalykill þrífst vel í allri sæmilega frjórri og rakaheldinni garðmold. Þolir vel hálfskugga. Hentar í blönduð beð með öðrum fjölæringum eða inn á milli runna.
Heimkynni: Himalajafjöll. Maríulykilsætt (Primulaceae).
Silkibóndarós – Paeonia lactiflora
Fjölær jurt. Hæð: 75 - 90 sm. Laufið djúpskert, gljáandi. Lauf og stönglar áberandi rauð fyrst á vorin. Gróðursetjið silkibóndarós á sólríkan og skjólgóðan stað í frjóa, velframræsta garðmold. Færið ekki aftur eftir gróðursetningu. Það tekur bóndarósir nokkurn tíma að koma sér fyrir og byrja að blómstra, gjarnan 2 - 3 ár. Setjið moltu ofan á jarðveginn á vorin. Blómin eru stór, fyllt og ilmandi. Þau þurfa gjarnan stuðning. Blómin þykja góð til afskurðar. Blómgast í júlí. Svo plönturnar setji ekki orku í fræmyndun er mælt með því að blómhöfuðin séu skorin af að blómgun lokinni. Hlífið rótunum að vetri til með lagi af trjákurli ofan á moldina. Vorið 2021 bjóðum við upp á þrjú mismunandi yrki af silkibóndarós: 'Sara Bernhardt' með fölbleikum blómum, 'Karl Rosenfield' með rauðum, blómum og 'Shirley Temple' sem er bleik í knúpp en snjóhvít útsprungin. Bóndarósir eru ekki eiginlegar rósir heldur fjölærar jurtir af bóndarósaætt (Paeoniaceae).
Sæhvönn – Ligusticum scoticum
Harðgerð, íslensk jurt. Hæð um 40 - 60 sm. Vex villt við ströndina, aðallega í sjávarhömrum, eyjum og þess háttar. Algengust á sunnan- og vestanlands. Lauf þrífingruð og gljáandi. Hvítir blómsveipir birtast á miðju sumri. Aldin brúnleit. Sæhvönn er æt. Blöðin bragðast ekki ósvipað og steinselju eða selleríi og fræið eins og broddkúmen eða bukkasmári (fenugreek). Blöðin eru best til átu fyrir blómgun. Mjög saltþolin. Þolir illa beit. Heimkynni: Auk Íslands, strandsvæði NA-Ameríka og N-Evrópu.
Valurt – Symphytum officinale
Harðgerð, fjölær jurt. Hæð 60 - 100 sm. Stundum hærri. Stofnlauf stór, egglaga - lensulaga, langydd og með blaðstilk. Stöngulblöð aflöng - lensulaga og stilklaus. Stöngull hærður og vængjaður. Blómin sitja nokkur saman í kvíslskúf. Blómin fjólublá eða purpurarauð. Blómgast í júlí - ágúst. Valurt þrífst best í sæmilega rökum jarðvegi. Þolir nokkurn skugga. Hentar t.d. aftarlega í blómbeð, í villigarða og sem undirgróður undir stærri tré. Vex sums staðar sem slæðingur utan garða hérlendis. Valurt er gömul lækningajurt og þótti sérstaklega græðandi. Í dag er almennt varað við inntöku og annarri notkun valurtar vegna hættu á lifrarskemmdum. Heimkynni: Víða í Evrópu, V-Asíu á rökum svæðum.