Eplamynta – Mentha suaveolens
All harðgerð, fjölær jurt. Hæð: 30 – 70 sm. Blöðin áberandi loðin. Hvít eða bleik blóm birtast stundum þegar komið er undir haust. Þrífst vel í frjóum, rakaheldnum eða jafnvel blautum jarðvegi. Sólelsk. Má nota ferska og þurrkaða í te, salöt, til að skreyta rétti og þess háttar. Eplamynta kemur fremur seint upp (júní) og gæti maður því haldið að hún væri dauð á vorin. Sjaldgæfari í ræktun hérlendis samanborið við piparmyntu (Mentha x piperita) Heimkynni: Suður- og V-Evrópa.
Vöruflokkur: Fjölærar jurtir
Tengdar plöntur
Sæhvönn – Ligusticum scoticum
Harðgerð, íslensk jurt. Hæð um 40 - 60 sm. Vex villt við ströndina, aðallega í sjávarhömrum, eyjum og þess háttar. Algengust á sunnan- og vestanlands. Lauf þrífingruð og gljáandi. Hvítir blómsveipir birtast á miðju sumri. Aldin brúnleit. Sæhvönn er æt. Blöðin bragðast ekki ósvipað og steinselju eða selleríi og fræið eins og broddkúmen eða bukkasmári (fenugreek). Blöðin eru best til átu fyrir blómgun. Mjög saltþolin. Þolir illa beit. Heimkynni: Auk Íslands, strandsvæði NA-Ameríka og N-Evrópu.
Skessujurt – Levisticum officinale
Harðgerð, hávaxin, fjölær jurt. Hæð: 1,5 - 2 m. Laufblöð þrífjöðruð. Skessujurt hefur lengið verið nýtt sem mat- og lækningajurt. Blómin eru gulgræn í sveip í júlí - ágúst. Þrífst best í rakaheldnum, frjósömum jarðvegi. Þolir vel hálfskugga. Náttúruleg heimkynni eru ekki nákvæmlega þekkt. Skessujurt vex í dag víða villt í Evrópu og Asíu. Ilmur og bragð minna á sellerí og steinselju en skessujurt er bragðmeiri. Blöð og unga stöngla má nota í salat og súpur. Einnig má nýta rótina sem grænmeti. Fræ skessujurtar má nota sem krydd. Bragðið heldur sér vel við þurrkun. Skessujurt er góð í kryddsmjör og með bökuðum kartöflum. Skessujurt gengur stundum undir nafninu "maggijurt" samanber "maggiurt" á dönsku og "Maggikraut" á þýsku þar sem bragð minnir á frægar pakkasúpur og súputeninga. Skessujurt hentar til gróðursetningar aftarlega í beð, í skógarjaðra eða í horn til uppfyllingar t.d. í hálfskugga. Frekar nytjajurt en skrautjurt.
Dvergavör ‘Atropurpurea’ – Ajuga reptans ‘Atropurpurea’
Harðgerð, alveg jarðlæg fjölær jurt. Laufið gljáandi, dökk-purpurarautt - brúnt. Hálf-sígræn. Blómin dökkfjólublá í uppréttum klasa. Blómgast á miðju sumri. Dreifir sér út með ofanjarðar-renglum. Skuggþolin. Prýðis þekjuplanta undir trjám og inn á milli runna og fjölæringa. Þrífst í allri venjulegri garðmold svo fremi að hún sé of þurr.
Silkibóndarós – Paeonia lactiflora
Fjölær jurt. Hæð: 75 - 90 sm. Laufið djúpskert, gljáandi. Lauf og stönglar áberandi rauð fyrst á vorin. Gróðursetjið silkibóndarós á sólríkan og skjólgóðan stað í frjóa, velframræsta garðmold. Færið ekki aftur eftir gróðursetningu. Það tekur bóndarósir nokkurn tíma að koma sér fyrir og byrja að blómstra, gjarnan 2 - 3 ár. Setjið moltu ofan á jarðveginn á vorin. Blómin eru stór, fyllt og ilmandi. Þau þurfa gjarnan stuðning. Blómin þykja góð til afskurðar. Blómgast í júlí. Svo plönturnar setji ekki orku í fræmyndun er mælt með því að blómhöfuðin séu skorin af að blómgun lokinni. Hlífið rótunum að vetri til með lagi af trjákurli ofan á moldina. Vorið 2021 bjóðum við upp á þrjú mismunandi yrki af silkibóndarós: 'Sara Bernhardt' með fölbleikum blómum, 'Karl Rosenfield' með rauðum, blómum og 'Shirley Temple' sem er bleik í knúpp en snjóhvít útsprungin. Bóndarósir eru ekki eiginlegar rósir heldur fjölærar jurtir af bóndarósaætt (Paeoniaceae).
Valurt – Symphytum officinale
Harðgerð, fjölær jurt. Hæð 60 - 100 sm. Stundum hærri. Stofnlauf stór, egglaga - lensulaga, langydd og með blaðstilk. Stöngulblöð aflöng - lensulaga og stilklaus. Stöngull hærður og vængjaður. Blómin sitja nokkur saman í kvíslskúf. Blómin fjólublá eða purpurarauð. Blómgast í júlí - ágúst. Valurt þrífst best í sæmilega rökum jarðvegi. Þolir nokkurn skugga. Hentar t.d. aftarlega í blómbeð, í villigarða og sem undirgróður undir stærri tré. Vex sums staðar sem slæðingur utan garða hérlendis. Valurt er gömul lækningajurt og þótti sérstaklega græðandi. Í dag er almennt varað við inntöku og annarri notkun valurtar vegna hættu á lifrarskemmdum. Heimkynni: Víða í Evrópu, V-Asíu á rökum svæðum.