Evrópulerki – Larix decidua
Alla jafna harðgert, hávaxið sumargrænt, einstofna barrtré. Hæð 10 – 20 m hérlendis. Getur sjálfsagt orðið enn hærra á góðum stöðum með tímanum. Krónan breiðkeilulaga eða óregluleg. Greinar gjarnan uppsveigðar í endann með hangandi smágreinum. Árssprotar eru gulbrúnir og hárlausir. Börkur á yngri trjám grábrúnleitur. Eftir því sem tréin eldast ber gjarnan á stálbláum lit á berki neðst á trjánum. Á eldri trjám er börkurinn rauðbrúnn, sprunginn og flögóttur. Nálar eru 2 – 4 sm á lengd. Stakar og skrúfstæðar á langsprotum. Á dvergsprotum sitja þær 30 – 40 talsins saman í knippi. Þær eru stinnari samanborið við nálar síberíulerkis/rússalerkis (Larix sibirica). Gulir haustlitir í október.
Kvenblóm rauð um 1,5 sm á lengd. Könglar egglaga – keilulaga, 2 – 6 sm á lengd og 2 – 2,5 sm á breidd fullþroska. Köngulhreistrið er beint og ávallt í endann. Stundum er það aðeins innsveigt. Könglarnir verða síðan dökkgráir og sitja áfram á trjánum í einhver ár. Lítið ber á hæringu á köngulhreistrinu nema kannski neðst á könglunum ólíkt hærðu köngulhreistri síberíulerkis. Hreisturblöðkurnar sjást neðst á könglunum.
Gerir litlar kröfur til jarðvegs. Þrífst þó ekki í blautum jarðvegi. Sólelskt. All vindþolið. Laufgast seinna samanborið við síberíulerki og verður því sjaldnast fyrir skemmdum á vorin. Getur orðið fyrir haustkali og þess vegna orðið kræklótt. Varpar ekki miklum skugga. Reynist almennt betur í lágsveitum sunnan- og vestanlands samanborið við síberíulerki. Evrópulerki hentar sem stakstætt tré eða í raðir/þyrpingar með 3-4 m millibili. Hentar einnig til skógræktar.
Evrópulerkið okkar er gjarnan vaxið upp af íslensku fræi. Heimkynni: Alpafjöll og Karpatafjöll í Evrópu. Afbrigðið L. decidua var. polonica vex á nokkrum aðgreindum svæðum í N- og Mið-Póllandi. Þallarætt (Pinaceae).