Fagursýprus / Jólasýprus – Chamaecyparis lawsoniana ‘Ellwoodii’
Þétt, sígrænt, upprétt vaxandi smátré eða runni. Barrið fíngert og fjaðurkennt, blágrænt. Skuggþolinn en skjólþurfi. Hægvaxta. Þrífst aðeins í skjólgóðum hverfum og skógarskjóli ekki of langt frá ströndinni. Skýlið fyrsta veturinn eftir gróðursetningu. Gjarnan seldur í blómabúðum fyrir jólin sem lítið „jólatré“. Mikið notaður í ker og potta. Endist yfirleitt illa þannig nema í góðu skjóli. Passið að halda moldinni ávallt rakri. Hentar í blönduð beð með öðrum sígrænum gróðri. Þolir vel klippingu en afskaplega hægvaxta. Verður með tímanum 2 – 3 m hérlendis á bestu stöðum.
Vörunr.
2a7d89601191
Vöruflokkar: Sígrænir runnar og sígræn smátré, Tré og runnar í pottum
Tengdar plöntur
Birki / Ilmbjörk – Betula pubescens
Harðgert íslenskt tré. Hæð breytileg. Sólelskt. Í meðallagi hraðvaxið. Þrífst best í frjóum jarðvegi en annars nægjusamt. Getur lifað í all blautum jarðvegi. Lauf ilmar, sérstaklega á vorin í röku veðri. Haustlitur á ekta ilmbjörk er gulur. Eina trjátegundin sem myndað hefur skóga hérlendis frá því að síðustu ísöld lauk fyrir um 10.000 árum. Myndar gjarnan blendinga með fjalldrapa (B. nana). Blendingurinn kallast skógviðarbróðir og er misstór runni en ekki tré og mjög algengur í íslenskri náttúru, sérstaklega vestanlands. Skógviðarbróðir hefur yfirleitt dökkan / svartan börk, smágert lauf og rauðgulan haustlit. Birki hentar sem stakstætt tré eða fleiri saman í þyrpingum og röðum með að minnsta kosti 2,5 m millibili. Einnig notað til skógræktar og uppgræðslu. Vex þó hægt í ófrjóu landi. Birki hentar einnig í klippt limgerði á sólríkum stöðum. Upp á síðkastið hafa nýjar tegundir skordýra sem herja á birki numið land. Birkið okkar í Þöll er af Bæjarstaða-uppruna. Móðurtréin eru af yrkinu 'Embla'. Því fá tréin venjulega ljósan börk með aldrinum. Náttúruleg heimkynni imbjarkar eru auk Íslands mestur hluti Evrópu nema syðst, Norður og Mið-Asía og S-Grænland.
Bergfura – Pinus uncinata
Mjög harðgert, sígrænt tré. Hæð fullvaxta trjáa mjög misjöfn enda trúlega oft blönduð fjallafuru (Pinus mugo) sem er runni en ekki tré. Nálar fremur langar, dökkgrænar - blágrænar, tvær saman í búnti. Nálar bergfuru eru lengri og dekkri samanborið við nálar stafafuru (Pinus contorta). Brum bergfuru er þykkt og ljóst enda þakið harpixi. Brum stafafuru er rauðbrúnt og mjórra og ekki þakið harpixi. Könglar eru tvílitir, dekkri á jöðrum köngulhreisturs og minna á köngla fjallafuru en eru enn ljósari (sjá mynd). Bergfurukönglar eru kúptir að neðan en ekki sléttir eins og könglar fjallafuru. Könglar stafafuru eru aftur á móti einlitir, kanelbrúnir. Bergfura er nægjusöm en ljóselsk. Getur farið mjög illa af völdum brum- og greinaþurrkssvepps (Gremmeniella abietina). Til að koma í veg fyrir að sveppurinn nái sér á strik er mikilvægt að bergfura standi aldrei þétt heldur að það lofti vel um hana frá öllum hliðum. Bergfura er mest gróðursett stakstæð í görðum. Einnig gróðursett í rýrt mólendi, skriður og þess háttar. Með allra harðgerðustu trjám sem völ er á. Fremur hægvaxta. Heimkynni: Pýreneafjöll og V-Alparnir. Háfjallategund sem vex þar aðallega í 1000 - 2300 m.h.y.s. Finnst einnig lægra í frostpollum og barnamosamýrum. Þar sem útbreiðslusvæði berg- og fjallafuru skarast myndast gjarnan blendingar (Pinus x rotundata). Þessi blendingur virðist algengur hérlendis sem lýsir sér í fremur lágvöxnum, margstofna trjám eða stórum runnum upp á 4 - 7 m. Bergfura er stundum skilgreind sem undirtegund fjallafuru, Pinus mugo subsp. uncinata.
Baunatré – Caragana arborescens
Harðgerður runni eða lítið tré (1,5 - 2,5 m). Blómin smá, gul, ilmandi. Þau eru æt og má nota í salat. Aldinið belgur með nokkrum ætum baunum/fræjum. Sjóðið fræin áður en þeirra er neytt. Laufið er fjaðrað, mjög ljóst, nánast hvítt á vorin og fyrri part sumars en síðan áberandi gulgrænt. Axlarblöð lík þyrnum. Greinar grænleitar. Sólelskt. Hægvaxta. Lifir í sambýli við niturbinandi bakteríur. Baunatré gerir því litlar kröfur til jarðvegs. Baunatré sómir sér vel stakstætt í garðinum eða í blönduð beð með öðrum gróðri. Einnig má planta baunatré í klippt eða óklippt limgerði. Gengur einnig undir nöfnunum "síberískt baunatré" og "kergi". Náttúruleg heimkynni baunatrés er M-Asía.
Beyki – Fagus sylvatica
Sumargrænt, lágvaxið - meðalstórt tré hérlendis. Getur trúlega farið upp fyrir 12 m hæð á bestu stöðum. Laufið skærgrænt þegar það springur út fyrir miðjan júní. Visið, gullinbrúnt laufið hangir á greinum ungra trjáa allan veturinn og einnig á neðstu greinum eldri trjáa. Brum hvassydd. Börkur, sléttur, grár. Þarf hlýjan vaxtarstað og frjóan jarðveg til að þrífast. Þolir vel hálfskugga. Þolir vel klippingu og gjarnan notað í klippt limgerði erlendis. Yrki með purpurarauðum laufum (sjá blóðbeyki) eru algengari hérlendis heldur en beyki með grænum laufum. Sumir eru á því að þau rauðu þrífist betur en þau grænu. Beyki finnst hér og þar í görðum en ekki gróðursett í skógrækt hérlendis ennþá enda full hitakær tegund til stórfelldrar ræktunar hérlendis. Heimkynni: Stór hluti Evrópu þó ekki allra nyrst.
Kínareynir ‘Bjartur’ – Sorbus vilmorinii ‘Bjartur’
Lítið tré eða stór runni (3 - 5 m). Virðist harðgerður. Vaxinn upp af fræi sem Ólafur Njálsson í Nátthaga, Ölfusi safnaði af reynirunna í N-Wales haustið 1989. 'Bjartur' var valinn til áframhaldandi ræktunar af þeim 5 plöntum sem komu upp. Virðist fræekta (apomixis). Hvítir blómsveipir birtast snemmsumars. Bleik ber þroskast á haustin. Rauðir haustlitir. Berin hanga á trjánum fram á vetur þar sem fuglar eru ekki sólgnir í þau. Þolir hálfskugga. Óvíst er hvort að um ekta kínareyni sé að ræða. 'Bjartur' hentar sem garðtré í t.d. litla garða. Þrífst í venjulegri, vel framræstri garðmold sem gjarnan má vera sand- og/eða malarborin.
Alaskayllir / Rauðyllir – Sambucus racemosa ssp. arborescens
Harðgerður, stórvaxinn, grófur runni. Hæð: 3-5 m. Blómin mörg saman í kremuðum klasa í maí - júní. Berin eldrauð í ágúst. Fuglar sækja mjög í berin. Brumin gagnstæð. Laufblöðin stór, stakfjöðruð. Laufgast snemma á vorin. Gulir - brúnir haustlitir. Hraðvaxta. Mjög skuggþolinn. Þrífst í frjóum, rakaheldnum jarðvegi. Sáir sér gjarnan út þar sem aðstæður leyfa. Góður til uppfyllingar í skuggsæl horn o.þ.h. Getur hæglega vaxið yfir aðrar plöntur og skyggt þær út. Virðist nokkuð saltþolinn. Þolir vel klippingu. Millibil 1,5 - 2,0 m. Berin má nýta í sultur, vín og fleira séu þau soðin og fræið, sem er eitrað, sigtað frá. Alaskayllir er sá yllir sem er algengastur hérlendis. Sú deilitegund (S. racemosa ssp. arborescens) eða afbrigði (S. racemosa var. racemosa) er ættað frá vestanverðri N-Ameríku.
Alaskaösp – Populus trichocarpa ‘Keisari’, ‘Sæland’, ‘Pinni’, ‘Haukur’ og ‘Súla’
Hraðvaxta, harðgert, hávaxið, sumargrænt tré. Gulir haustlitir. Brum og brumhlífar klístruð. Balsamilmur áberandi á vorin og í röku veðri. Blómgast í apríl/maí. Blómskipunin rekill. Sérbýl. Kvenkyns tré dreifa miklu magni af fræi sem líkist dún upp úr miðju sumri. Króna mis umfangsmikil milli yrkja og því mis plássfrek. Rætur liggja almennt grunnt og rótarkambar því áberandi. Ljóselsk.
'Keisari' reynist best allra yrkja næst sjávarsíðunni. Gróðursett stakstæð, í raðir og þyrpingar. Fín í skjólbelti kringum landbúnaðarsvæði o.þ.h. Einstöku sinnum ræktuð sem klippt limgerði (sjá mynd).
Þrífst best í rakaheldnum, næringarríkum/steinefnaríkum jarðvegi. Þolir all vel bleytu hluta úr ári. Bil milli trjáa fer eftir því um hvaða yrki er um að ræða en getur spannað frá 2 - 6 m. Heimkynni: Vestanverð N-Ameríka. Allt frá Alaska til Baja Kalifornía í Mexíkó. Íslenski stofninn er allur eða nær allur ættaður frá Alaska.
Blóðbeyki – Fagus sylvatica ‘Purpurea’
Sæmilega harðgert, þétt, fremur hægvaxta tré. Hæstu blóðbeyki hérlendis eru hátt í 9 m há. Getur sjálfsagt náð 12 m á hæð eða meir á bestu stöðum. Laufin áberandi purpurarauð/vínrauð. Dökkgræn/blágræn í skugga. Laufgast um mánaðarmótin maí/júní. Laufin sitja visin, ljósbrún á greinum yngri trjáa og á neðstu greinum á eldri trjám allan veturinn. Sólelskt. Almennt heilbrigt.
Blóðbeyki þarf sæmilega djúpan, frjóan og vel framræstan jarðveg. Hentar aðeins til ræktunar í sæmilega grónum hverfum og í skógarskjóla ekki of langt inn til landsins. Aðallega gróðursett stakstætt. Millibil 3 m eða meir. Blóðbeyki er stökkbreyting af venjulegu beyki (F. sylvatica) sem hefur óvenju mikið af "anthocyanin" litarefni. Blóðbeyki er fyrst talið hafa fundist í skógi við bæinn Sondershausen í Thuringia í Þýskalandi árið 1690. Talið er að stærstur hluti blóðbeykitrjáa í dag reki uppruna sinn til þessa trés. Beykiætt (Fagaceae).