Fagursýprus / Jólasýprus – Chamaecyparis lawsoniana ‘Ellwoodii’
Þétt, sígrænt, upprétt vaxandi smátré eða runni. Barrið fíngert og fjaðurkennt, blágrænt. Skuggþolinn en skjólþurfi. Hægvaxta. Þrífst aðeins í skjólgóðum hverfum og skógarskjóli ekki of langt frá ströndinni. Skýlið fyrsta veturinn eftir gróðursetningu. Gjarnan seldur í blómabúðum fyrir jólin sem lítið „jólatré“. Mikið notaður í ker og potta. Endist yfirleitt illa þannig nema í góðu skjóli. Passið að halda moldinni ávallt rakri. Hentar í blönduð beð með öðrum sígrænum gróðri. Þolir vel klippingu en afskaplega hægvaxta. Verður með tímanum 2 – 3 m hérlendis á bestu stöðum.
Vörunr. 2a7d89601191
Vöruflokkar: Sígrænir runnar og sígræn smátré, Tré og runnar í pottum
Tengdar plöntur
Beyki – Fagus sylvatica
Sumargrænt, lágvaxið - meðalstórt tré hérlendis. Getur trúlega farið upp fyrir 12 m hæð á bestu stöðum. Laufið skærgrænt þegar það springur út fyrir miðjan júní. Visið, gullinbrúnt laufið hangir á greinum ungra trjáa allan veturinn og einnig á neðstu greinum eldri trjáa. Brum hvassydd. Börkur, sléttur, grár. Þarf hlýjan vaxtarstað og frjóan jarðveg til að þrífast. Þolir vel hálfskugga. Þolir vel klippingu og gjarnan notað í klippt limgerði erlendis. Yrki með purpurarauðum laufum eru algengari hérlendis heldur en beyki með grænum laufum. Sumir eru á því að þau rauðu þrífist betur en þau grænu. Beyki finnst hér og þar í görðum en ekki gróðursett í skógrækt hérlendis ennþá enda full hitakær tegund til stórfelldrar ræktunar hérlendis.
Alaskasýprus – Cupressus nootkatensis – íslensk kvæmi
Lágvaxið, sígrænt tré. Toppurinn áberandi drjúpandi. Barrið hreisturlaga, blágrænt - gulgrænt. Könglar kúlulaga á stærð við bláber. Dökkbláir fullþroska. Fremur gisgreinóttur. Þokkafullur og jafnvel draugalegur að sjá. Þarf nokkurt skjól. Fremur skuggþolinn. Þolir vel klippingu. Harðgerðasti sýprusinn. Óvíst er hveru hár alaskasýprus getur orðið hérlendis. Reikna má með 6 - 7 m hæð á bestu stöðum í skógarskjóli. Framleiðum eingöngu alaskasýprus af íslensku fræi. Hentar í skjólgóða garða, yndisskóga, ker og þess háttar.
Bergfura – Pinus uncinata
Mjög harðgert, sígrænt tré. Hæð fullvaxta trjáa mjög misjöfn enda trúlega oft blönduð fjallafuru (Pinus mugo) sem er runni en ekki tré. Nálar fremur langar, dökkgrænar - blágrænar, tvær saman í búnti. Nálar bergfuru eru lengri og dekkri samanborið við nálar stafafuru (Pinus contorta). Brum bergfuru er þykkt og ljóst enda þakið harpixi. Brum stafafuru er rauðbrúnt og mjórra og ekki þakið harpixi. Bergfura er nægjusöm en ljóselsk. Getur farið mjög illa af völdum brum- og greinaþurrkssvepps (Gremmeniella abietina). Til að koma í veg fyrir að sveppurinn nái sér á strik er mikilvægt að bergfura standi aldrei þétt heldur að það lofti vel um hana frá öllum hliðum. Bergfura er mest gróðursett stakstæð í görðum. Einnig gróðursett í rýrt mólendi, skriður og þess háttar. Með allra harðgerðustu trjám sem völ er á. Fremur hægvaxta.
Blárifs ‘Perla’ – Ribes bracteosum ‘Perla’
Fremur harðgerður lágvaxinn til meðalstór runni (1,5 - 2 m). Laufin fremur stór, handsepótt, gljáandi á löngum blaðstilk. Gulir haustlitir. Blómin brúnleit í útstæðum klösum. Berin bláhéluð í löngum útstæðum klösum. Henta í sultur og þess háttar en ekki sérstök til átu hrá. Blárifs 'Perla' er skuggþolið en þroskar mest af berjum í sól. Þrífst betur við ströndina en inn til landsins. Hentar í raðir, þyrpingar, í berjagarðinn og sem undirgróður undir trjám. 'Perla' er úrvalsyrki valið af Ólafi S. Njálssyni úr Alaskasafni því er barst til landsins með Óla Val og félögum árið 1985.
Alaskavíðir – Salix alaxensis – ‘Gústa’, ‘Oddur Guli’, ‘Töggur’ o.fl. yrki
Mjög harðgerður, vind- og saltþolinn, hraðvaxta, hávaxinn runni/lágvaxið tré (3-7 m). Greinar í fyrstu uppréttar en síðar útvaxnar og jafnvel drjúpandi. Sérbýll. Blómgast í apríl en silfurgráir reklar birtast gjarnan í mars. Humlur sækja í reklana á vorin. Laufblöð áberandi hvítloðin að neðanverðu. 'Gústa' sem einnig gengur undir nafninu "tröllavíðir" og "brúnn alaskavíðir" hefur dökkbrúna sprota, hvíthærða í endana. 'Oddur Guli' hefur gulgræna sprota og 'Töggur' skærgræna. Alaskavíðir er aðallega gróðursettur í skjólbelti og limgerði. Gróðursettar eru 2-3 plöntur/m. Þarf frjóan, steinefnaríkan og rakaheldinn jarðveg til að þrífast. Sólelskur. Klippið reglulega til að halda í góðu formi. Gulir haustlitir í október. Laus við asparglittu og ryð. Gamall (25 - 30 ára) óklipptur alaskavíðir fellur gjarnan um koll en stofnskot vaxa jafn harðan upp aftur. Sáir sér út í raskað land þar sem aðstæður leyfa.
Japansýr ‘Nana’ – Taxus cuspidata ‘Nana’
Lágvaxinn - meðalhár sígrænn runni. Barrið dökkgræn og mjúkt viðkomu. Skuggþolinn. Þarf eitthvert skjól. Hægvaxta. Þolir vel klippingu. Eitraður sé hans neytt. Japansýr er kjörið að gróðursetja undir stærri trjám, í blönduð beð með ekki of ágengum plöntum og jafnvel fleiri saman í þyrpingar. Talinn vera einn harðgerðasti ýviðurinn (Taxus sp.). 'Nana' er gamalt karlkyns yrki. Millibil um 1 m.
Blóðrifs ‘Færeyjar’ – Ribes sanguineum ‘Færeyjar’
Harðgerður, meðalhár runni (1,5 m). Lauf handflipótt, mött. Blómin fölbleik í klösum í maí - júní. Þroskar sjaldan ber. Gulir haustlitir. Þolir vel hálfskugga. Blóðrifs 'Færeyjar' hentar í raðir, þyrpingar og limgerði. Þolir vel klippingu. Vinsælt í limgerði í Færeyjum. Þrífst í allri venjulegri garðmold. Barst hingað frá Færeyjum en blóðrifs er annars ættað frá vestanverðri N-Ameríku.