Fjallabergsóley – Clematis alpina
Harðgerður, sumargrænn vafningsviður. Blómin eru yfirleitt lillablá og klukkulaga. Blómgast snemmsumars (júní). Aldinið er silfurhærð biðukolla og eru biðukollurnar einnig skrautlegar. Bergsóleyjar klifra með því að blaðstilkarnir vefja sig utan um greinar, net og þess háttar. Vex upp í 2 – 3 m ef aðstæður leyfa. Breidd 1 – 1,5 m. Fjallabergsóley þolir vel hálfskugga. Gróðursetjið bergsóleyjar 20 – 30 sm frá vegg / klifurgrind. Getur einnig klifrað upp runna og tré. Þrífst í allri venjulegri garðmold. Þolir vel klippingu. Verður gjarnan ber að neðan með tímanum. Best fer á því að gróðursetja jurtir eða lágvaxna runna framan við bergsóleyjar. Einnig er ráð að klippa þær talsvert á nokkurra ára fresti þar sem þær vilja verða þykkar og miklar um sig efst. Sé klippt að vetri til blómgast þær lítið eða ekki næsta sumar eftir klippingu. Úrvalið af bergsóleyjum er misjafnt á milli ára hjá okkur. Stundum eru til nokkur yrki af fjallabergsóley og stundum einnig fleiri tegundir af Clematis. Heimkynni fjallabergsóleyjar eru fjalllendi M-Evrópu.