Fjallafura / Dvergfura – Pinus mugo
Mjög harðgerður, lágvaxinn – meðalhár, sígrænn runni. Nálar dökkgrænar, 2 saman í búnti. Karlblóm ljósrauð, mörg saman neðst á árssprotum. Síðar rauðbrún. Könglar fremur smáir. Getur orðið talsvert breið. Til að halda fjallafuru þéttri borgar sig að brjóta til hálfs framan af brumun á greinaendum í kringum jónsmessuleytið. Fjallafura gerir litlar kröfur til jarðvegs. Fjallafura er sólelsk og hentar ekki sem undirgróður undir trjám. Fjallafura fer vel í blönduð beð með öðrum gróðri, nokkrar saman í þyrpingu með um 80 – 90 sm millibili. Einnig í stórgerðar hleðslur, ker og á opin svæði. Skýlið fjallafura alla vega fyrsta veturinn ef gróðursett er á mjög opnum og skjóllausum stöðum eins og í kringum háar byggingar o.þ.h. Smávaxin/fínleg fjallafura er gjarnan kölluð „dvergfura“. Í raun er um stömu tegund að ræða. Fjallafura/dvergfura er mjög vinsæl og útbreidd í görðum og útivistarskógum. Fjallafuran okkar í Þöll er öll vaxin upp af fræi sem safnað hefur verið hérlendis eins og t.d. í Rauðvatnsstöðinni í Rvk, Gráhelluhrauni í Hfj og víðar. Heimkynni: Fjalllendi Mið- og SA-Evrópu. Myndar blendinga með bergfuru (P. uncinata) þar sem útbreiðslusvæði tegundanna skarast í vestanverðum Ölpunum.