Fjallagullregn – Laburnum alpinum
Harðgert, lágvaxið – meðalhátt tré (6 – 10 m). Gjarnan margstofna og umfangsmikið. Fjallagullregn er fremur hraðvaxta. Greinarnar vaxa gjarnan mest út til hliðanna. Þrífingrað lauf. Smáblöðin eru oddbaugótt eða egglaga, 3 – 10 sm á lengd. Hárlaus og aðeins gljáandi á efra borði. Hærð á jöðrum og á miðtaug á neðra borði. Laufgast ekki fyrr en í byrjun júní. Gulir haustlitir í lok september eða byrjun október eða frýs grænt. Gulir, ilmandi, drjúpandi blómklasar, 20 – 35 sm langir. Hvert blóm 0,5 – 2 sm á lengd. Byrjar að blómgast í lok júní eða byrjun júlí. „Baunabelgir“ þroskast á haustin. Þeir eru flatir, hárlausir, 4 – 8 sm á lengd. Hver með nokkrum, dökkbrúnum fræum sem eru eitraðasti hluti trésins.
Sólelskt en þolir hálfskugga. Sómir sér vel stakstætt. Þarf talsvert pláss þegar fram líða stundir. Lifir í sambýli við niturbindandi bakteríur og gerir því litlar kröfur til jarðvegs. Hann má þó ekki vera blautur. Sagt kjósa fremur súran jarðveg heldur en kalkríkan. Klippið og snyrtið gullregn á sumrin til að minnka líkur á átu. Með allra glæsilegustu trjám sem völ er á. Sáir sér gjarnan eitthvað út en ekki til ama. Eitrað sé þess neytt.
Fjallagullregn er all vind- og saltþolið og sleppur yfirleitt við vorhret þar sem það laufgast fremur seint. Vissara er að binda það vel upp til að byrja með. Það á síður við ef gróðursettar eru litlar plöntur og/eða margstofna. Fjallagullregnið okkar er vaxið upp af íslensku fræi. Það tekur plönturnar all nokkur ár að ná blómgunaraldri. Oft er það í kringum 10 ára aldurinn en stundum fyrr og stundum síðar á æviskeiðinu.
Heimkynni: Fjalllendi Mið- og S-Evrópu. Ertublómaætt (Fabaceae).