Fjallareynir – Sorbus commixta
Harðgerður, hávaxinn runni eða lágvaxið tré (3 – 6 m). Laufin stakfjöðruð. Smáblöðin 11 – 17 talsins, hvassydd. Áberandi eldrauðir haustlitir. Brum rauð og hárlaus. Hvítir blómsveipir fyrri part sumars. Rauðgul, fremur smá reyniber í klösum þroskast að hausti. Fjallareynir er glæsilegur stakur eða fleiri saman með að minnsta kosti 2 m millibili. Kjörinn í sumarhúsalóðir. Fjallareynir er talsvert breytilegur enda fjölgar hann sér með kynæxlun og getur t.d. myndað kynblendinga með ilmreyni (S. aucuparia). Þolir hálfskugga. Þrífst í allri venjulegri garðmold. Þrífst einnig vel í lúpínubreiðum. Allur fjallareynirinn okkar er vaxinn upp af fræi sem safnað er hérlendis. Heimkynni: Japan, Kína, Kórea og Sakalín.
Vörunr.
529177e6770b
Vöruflokkar: Tré, Tré og runnar í pottum
Tengdar plöntur
Blóðheggur ‘Colorata’ – Prunus padus ‘Colorata’
Lágvaxið, fremur harðgert tré (4 - 8 m). Stundum runni. Laufið purpurarautt / vínrautt á vorin og fyrri part sumars. Eldra lauf grænna þegar líður á sumarið. Laufgast strax og fer að hlýna í maí. Ljósrauðir - gulir haustlitir í september. Blómin bleik í klösum í lok maí - júní. Einstaka sinnum þroskast svört ber (steinaldin) á haustin. Oftast aflagast þó aldinin af völdum heggvendils (Taphrina padi). Sprotar nær svartir. Ljóselskur en þolir hálfskugga. Í skugga verður blóðheggur grænni en ella. Blóðheggur þrífst í öllum sæmilega frjóum og framræstum jarðvegi. Laufið getur farið illa af völdum lirfa og blaðlúsar í júní en blóðheggurinn laufgast þá upp á nýtt ef því er að skipta. Hentar stakstæður eða í bland með öðrum gróðri. 'Colorata' er sænskt yrki. Fundið í Smálöndum árið 1953. Fremur algengur í ræktun hérlendis.
Alpareynir – Sorbus mougeotii
Harðgert, fremur lágvaxið tré eða hávaxinn runni (5 - 8 m). Ýmist ein- eða margstofna. Laufið grænt og gljáandi að ofan en silfurhvít-hært að neðanverðu. Blóm hvít í hálfsveipum fyrri part sumars. Rauðir berjaklasar þroskast að hausti. Berin endast gjarnan á trjánum langt fram á vetur ólíkt berjum flestra annarra reynitegunda. Gulir haustlitir.
Alpareynir sómir sér stakstæður eða í þyrpingum og röðum. Millibil ekki minna en 2 m. Einnig má nota alpareyni í klippt limgerði og planta með um 50 - 60 sm millibili. Hentar jafnvel í stór ker (sjá mynd). Fremur vind- og saltþolinn. Þolir hálfskugga. Líkist mjög doppureyni/týrólareyni (S. austriaca) og silfurreyni (S. intermedia). Á það til að sá sér út. Heimkynni: Fjalllendi Mið- og V-Evrópu, þ.e.a.s. Pýreneafjöll, Alparnir og norður til Vosges-fjalla. Rósaætt (Rosaceae).
Broddhlynur rauður /“Purpurahlynur“ – Acer platanoides f. purpurea
Sæmilega harðgert tré. Hæð 5 - 6 m eða meira hérlendis. Hætt við haustkali. Blöðin eru dökkpurpurarauð og þunn. Laufgast í byrjun júní. Haustlitur skærrauður - rauðgulur. Blómgast stundum fyrri part sumars ljósgulum blómum í sveipum. Stundum myndast aldin sem eru vængjaðar hnotir tvær og tvær saman nánast í beinni línu en mynda ekki horn eins og aldin garðahlyns (A. pseudoplatanus). Þarf frjóan, vel framræstan, ekki súran jarðveg. Sólelskur en getur staðið í hálfskugga. Hentar í grónar lóðir þar sem vaxtartími er ekki of stuttur. Millibil alla vega 2 m. Broddhlynirnir okkar eru af fræi og því ekki sérstök yrki.
Blágreni – Picea engelmannii
Harðgert, hávaxið, keilulaga, sígrænt barrtré. Nýja barrið bláleitt, ekki eins stingandi eins og barr sitkagrenis (Picea sitchensis). Gömul tré hérlendis þroska stundum köngla. Fremur hægvaxta. Krónan gjarnan fremur mjóslegin. Þolir hálfskugga. Þrífst betur inn til landsins en síður við sjávarsíðuna. Sitkalús getur verið vandamál. Blágreni er glæsilegt stakstætt tré. Sómir sér einnig í þyrpingum með að minnsta kosti 3 m millibili. Úrvals jólatré enda barrheldið. Víða nýtt til skógræktar sérstaklega norðan- og austanlands. Blágreni þykir all gott timburtré og viðurinn sagður léttur en fremur sterkur. M.a. nýtt í ýmis hljóðfæri. Blágreni er fyrst og fremst háfjallatré. Heimkynni blágrenis eru aðallega í Klettafjöllum og Fossafjöllum (Cascade Range) N-Ameríku. Vex þar víða upp að skógarmörkum. Myndar blendinga með hvít- (P. glauca) og sitkagreni (P. sitchensis) í heimkynnum sínum þar sem útbreiðslusvæði þessara tegunda skarast.
Alaskaösp – Populus trichocarpa ‘Keisari’, ‘Sæland’, ‘Pinni’, ‘Haukur’ og ‘Súla’
Hraðvaxta, harðgert, hávaxið, sumargrænt tré. Gulir haustlitir. Brum og brumhlífar klístruð. Balsamilmur áberandi á vorin og í röku veðri. Blómgast í apríl/maí. Blómskipunin rekill. Sérbýl. Kvenkyns tré dreifa miklu magni af fræi sem líkist dún upp úr miðju sumri. Króna mis umfangsmikil milli yrkja og því mis plássfrek. Rætur liggja almennt grunnt og rótarkambar því áberandi. Ljóselsk.
'Keisari' reynist best allra yrkja næst sjávarsíðunni. Gróðursett stakstæð, í raðir og þyrpingar. Fín í skjólbelti kringum landbúnaðarsvæði o.þ.h. Einstöku sinnum ræktuð sem klippt limgerði (sjá mynd).
Þrífst best í rakaheldnum, næringarríkum/steinefnaríkum jarðvegi. Þolir all vel bleytu hluta úr ári. Bil milli trjáa fer eftir því um hvaða yrki er um að ræða en getur spannað frá 2 - 6 m. Heimkynni: Vestanverð N-Ameríka. Allt frá Alaska til Baja Kalifornía í Mexíkó. Íslenski stofninn er allur eða nær allur ættaður frá Alaska.
Bolvíðir – Salix udensis – Ivashka, Kamsjatka
Harðgert, hraðvaxta tré / runni. Laufið er mjólensulaga. Gulir haustlitir. Virðist stöðugri og beinvaxnari en flestur annar víðir að selju (Salix caprea) undanskilinni. Sólelskur. Þrífst í allri venjulegri garðmold. Um er að ræða klón frá Ivashka, Kamtsjatka, Rússlandi sem safnað var í Kamtsjatka-leiðangri Óla Vals Hanssonar og Brynjólfs Jónssonar árið 1993. Bolvíðir hentar sem stakstætt tré en einnig í raðir og þyrpingar með um 2 m millibili hið minnsta. Sjaldgæfur hérlendis. Kvenkyns klón.
Heggur – Prunus padus
Harðgert, lágvaxið - meðalhátt tré (5 - 10 m). Ein- eða margstofna. Stundum runni. Blómin hvít, ilmandi í klösum í maí - júní. Stundum þroskast svört ber (steinaldin)í gisnum klösum að hausti. Gulir - rauðgulir haustlitir. Heggur þrífst í öllum sæmilega frjóum, framræstum jarðvegi. Heggur sómir sér vel stakur eða fleiri saman í þyrpingum og röðum. Tilvalinn í sumarhúsalandið. Þolir vel hálfskugga. Lágmarks-millibil: 2 m. Þolir vel klippingu en blómgast þá minna. Heggurinn okkar er vaxinn upp af fræi sem safnað er hérlendis. Heimkynni: Norður og M-Evrópu, Norður og NA-Asía.
Hengibaunatré ‘Pendula’ – Caragana arborescens ‘Pendula’
Harðgert, ágrætt, sumargrænt, einstofna smátré. Hæð: 1,5 - 2,0 m yfirleitt en það fer eftir hæð ágræðslunnar. Laufið fínlegt, fjaðrað. Nánast hvítt þegar það springur út á vorin, síðar ljósgrænt. Gul baunablóm birtast miðsumars. Baunabelgir þroskast að hausti. Sólelskt. Lifir í sambýli við niturbindandi bakteríur. Gerir því litlar kröfur til jarðvegs. Hentar stakstætt, innan um lægri gróður, framan við hús og í ker/potta. Hengibaunatré er ágrætt efst á stofn af venjulegu baunatré sem vaxið er upp af fræi. Fjarlægið því rótarskot, stofnskot og sprota upp eftir stofninum að ágræðslunni um leið og þeir myndast annars munu þeir yfirtaka hangandi hlutann.