Fjallarifs / Alparifs ‘Dima’ – Ribes alpinum ‘Dima’
Harðgerður, þéttur, fínlegur, heilbrigður, sumargrænn runni. Greinar og sprotar ljósbrúnir til ljósgráir. Brum ljós, nánast hvít. Laufblöðin eru þrjú- til fimmsepótt, grófsagtennt, nokkrir sentimetrar á lengd. Græn að ofan en ljós að neðan. Blóm gulgræn í stuttum klösum. Sérbýllt. Laufgast snemma eða í lok apríl – byrjun maí. All skuggþolið. Mest notað í klippt limgerði. Hæð: 1,5 – 1,7 m. Það má auðveldlega halda því lægra með klippingu. Venjulega eru settar niður þrjár plöntur á hvern metra. Fremur hægvaxta. Gulir haustlitir. Fjallarifs er mjög mikið gróðursett í limgerði hérlendis. Hentar víðast hvar í byggð hérlendis nema á mjög vindasömum stöðum t.d. við sjó á útnesjum. Þá hentar jörfavíðir, alaskavíðir og strandavíðir betur. ‘Dima’ er kvenkyns yrki sem reynst hefur vel. Getur þroskað rauð, bragðdauf ber á haustin. Því ekki ræktað sem berjarunni! Aðallega fáanlegt á vorin og fyrri part sumars sem berrótarplöntur. Þrífst vel í allri venjulegri garðmold. Blandið gömlum búfjáráburði eða molti í jarðveginn áður eða þegar fjallarifs er gróðursett. Vökvið vel eftir gróðursetningu og næstu daga á eftir. Heimkynni fjallarifs eru aðallega í Alpafjöllunum en einnig hér og þar í N- og V-Evrópu. Einnig sagt villt í N- og A-Asíu.