Fjallarós ‘Lina’ – Rosa pendulina ‘Lina’
Harðgerður, meðalhár, þéttur runni. Hæð og breidd um 2 m. Dreifir sér eitthvað með rótarskotum. Sprotar eru grænir eða rauðbrúnir og nánast þyrnalausir. Greinar í fyrstu uppréttar en síðan með tímanum útsveigðar. Axlarblöð kirtilhærð á jöðrunum. Laufið fjaðrað og matt. Smáblöðin eru 5 – 11 talsins, oddbaugótt, tvísagtennt og 2 – 6 sm á lengd hvert og eitt. Smáblöðin eru dúnhærð. Blómin einföld, fremur smá, rauðbleik/fjólubleik og ilmandi. Krónublöð ljósari nær miðju. Með fyrstu rósum að byrja að blómstra á sumrin. Fyrstu blómin sjást gjarnan í júní. Blómgast annars í júlí. Ef sumarið er vætusamt og kalt blómstrar hún fram í ágúst eins og gerðist sumarið 2024. Rauðar, smáar, aflangar nýpur þroskast á haustin. Gulir – rauðgulir haustlitir.
Sólelsk en þolir vel hálfskugga. All vind- og saltþolin. Þrífst í öllum sæmilega frjóum, framræstum jarðvegi. Blandið moltu eða stöðnu hrossataði saman við jarðveginn þar sem gróðursetja á fjallarós.
Fjallarós ‘Lina’ hentar sérlega vel í raðir /limgerði og þyrpingar. Einnig falleg stakstæð. Hentar í sumarhúsalóðir og villigarða þar sem hún þolir vel samkeppni við t.d. lúpínu. Þolir vel hóflega klippingu. Millibil um eða yfir 1 m. Í limgerði er 50 sm millibil hæfilegt. Þar sem fjallarós blómstrar á eldri greinar er heppilegt að klippa fjallarósalimgerði strax eftir blómgun í júlí eða ágústbyrjun. Fái hún að vaxa meira og minna frjálst felst snyrting aðallega í því að klippa í burt gamlar greinar alveg niður við jörð.
‘Lina’ er norskt úrvalsyrki frá Harstad sem m.a. þrífst í Finnmörku, N-Noregi. Annars eru náttúruleg heimkynni fjallarósar í fjöllum Mið- og S-Evrópu. Rósaætt (Rosaceae).