Fjallatoppur – Lonicera alpigena
Harðgerður, meðalhár runni (1,5 – 2,0 m). Laufin fremur stór miðað við aðra toppa (Lonicera spp.), gagnstæð og gljáandi. Gulir haustlitir. Blómin smá, gul fyrri part sumars. Aldinið rautt ber, tvö og tvö saman á löngum stilk. Skuggþolinn. Hentar sérlega vel sem undirgróður undir stærri trjám. Einnig fer fjallatoppur vel í bland með öðrum gróðri eða nokkrir saman í þyrpingu eða röð. Tilvalinn í skuggsæl horn.
Vörunr. baae0a0a2f96
Vöruflokkar: Runnar, Tré og runnar í pottum
Tengdar plöntur
Þorrarunni ‘Dawn’ – Viburnum x bodnantense ‘Dawn’
Sumargrænn, meðalhár runni (1,5 - 2,5 m). Ung lauf bronslituð. Þorrarunni blómgast að vetri til eða réttara sagt hann getur blómgast frá hausti og fram á vor. Blómin eru rauð í knúpp en bleik útsprungin mörg saman í sveip, ilmandi. Þolir vel hálfskugga. Þorrarunni er glæsilegur stakstæður en einnig fleiri saman í þyrpingu með um 1 m millibili. Þorrarunni virðist harðgerður á höfuðborgarsvæðinu og víðar. Fremur sjaldgæfur í ræktun enn sem komið er.
Hafþyrnir – Hippophae rhamnoides
Harðgerður, lágvaxinn - hávaxinn runni (1 - 3 m). Laufið grásilfrað. Blómin smá og lítið árberandi. Sérbýll. Kvenplöntur þroska æt ber séu karlplöntur í nágrenninu. Berin hanga á runnunum langt fram á vetur þar sem fuglar virðast lítið sækja í þau. Sólelskur. Vind- og saltþolinn. Lifir í sambýli við niturbindandi bakteríur sem gerir honum kleift að vaxa í rýrum jarðvegi. Hafþyrnir hefur mjög skriðullt og kröftugt rótarkerfi. Berin eru nýtt í sultur og þess háttar og eru sögð mjög holl. Hentar sérlega vel við sjávarsíðuna, til að binda sendinn og malarborinn jarðveg og þess háttar. Rótarskot geta verið til ama t.d. nálægt gangstéttum og þess háttar. Fer jafnvel í gegnum malbik!
Skógarkvistur / Kóreukvistur ‘Finndís’ – Spiraea miyabei ‘Finndís’
Harðgerður, fremur lágvaxinn (0,5 - 0,8), þéttur runni. Stórir bleikir blómsveipir birtast síðsumars (ágúst - september). Rauðgulir haustlitir. Líkist japanskvist (Spiraea japonica). Skógarkvistur 'Finndís' hentar í ker, blönduð beð, raðir og þyrpingar. Blómgast á árssprotann. Best fer á því að klippa skógarkvistinn niður um alla vega helming seinni part vetrar. Kenndur við Finndísi, Dilksnesi, Höfn.
Lensuvíðir ‘Ljómi’ – Salix lasiandra ‘Ljómi’
All harðgerður stórvaxinn runni eða lítið tré (3 - 5 m). Laufið áberandi glansandi. Gulir haustlitir. Reklarnir eru ekki sérstaklega áberandi. Minnir í útliti nokkuð á bambus. Sólelskur. Hentar stakstæður, í raðir, þyrpingar, í bland með öðrum gróðri og í klippt limgerði. Fremur hraðvaxta. Karlkyns yrki valið úr efnivið úr Alaska-leiðangi Óla Vals Hanssonar og félaga árið 1985.
Mánaklungur – Rubus parviflorus
All harðgerður, meðalhár runni (1 - 2 m). Blöðin stór, flipótt. Blómin hvít, með 5 krónublöðum og gulum fræflum. Aldinið rautt, ætt ber, ekki ósvipað hindberi um 1 sm í þvermál. Þolir vel hálfskugga. Þrífst í venjulegri garðmold. Dreifir sér með rótarskotum. Hentar sem þekjandi planta undir trjám og þess háttar. Heimkynni: Vestanverð N-Ameríka.
Sýrena ‘Villa Nova’ – Syringa ‘Villa Nova’
Harðgerður, stórvaxinn runni (3 - 4 m). Blómin fjólubleik, mörg saman í stórum klasa, ilmandi. Þolir hálfskugga. Þrífst vel í venjulegri garðmold. Ein allra besta sýrenan. Fer vel stakstæð, aftarlega í blönduðum runna- og blómabeðum eða fleiri saman í þyrpingum eða röðum. Millibil 2 m. Ekki er nákvæmlega vitað um uppruna þessa yrkis. Sýrenan mun vera kennd við Vilhjálm Sigtryggsson fyrrverandi framkvæmdastjóra Skógræktarfélags Reykjavíkur.