Fjallatoppur – Lonicera alpigena
Harðgerður, sumargrænn, meðalhár runni (1,5 – 2,0 m). Börkur gráleitur. Laufin eru með stuttan stilk, oddbaugótt, allt að 11 sm löng og 5,5 sm breið. Blaðgrunnur stundum snubbóttur. Þau er stór miðað við aðra toppa (Lonicera spp.), gagnstæð og gljáandi á efra borði. Laufin eru hærð á jöðrum og blaðstrengjum á neðra borði framan af sumri. Laufgast jafnvel í byrjun maí. Gulir haustlitir. Blómin smá, gul með rauðleitum fræflum tvö og tvö saman á löngum stilk fyrri part sumars. Aldinið rautt samvaxið, um eða yfir 1 sm langt, óætt ber sem minnir á kirsuber í útliti.
Fremur hægvaxta. Þolir vel hálfskugga. Hentar sérlega vel sem undirgróður undir stærri trjám. Einnig fer fjallatoppur vel í bland með öðrum gróðri eða nokkrir saman í þyrpingum eða röðum. Tilvalinn í skuggsæl horn. Þrífst í öllum sæmilega frjóum og rakaheldnum jarðvegi. Millibil 80 – 100 sm.
Heimkynni: Í skógum til fjalla í Mið- og S-Evrópu. Geitblaðsætt (Caprifoliaceae).