Garðahlynur – Acer pseudoplatanus
Harðgert, meðalhátt – hávaxið tré. Á erfiðum stöðum lægri. Krónumikill. Blöðin fremur stór, handsepótt, með löngum, rauðum blaðstilk. Laufgast í lok maí eða júníbyrjun. Gulir – brúnir haustlitir í október. Gulgræn blóm í klösum birtast í júní. Aldinin vængjuð, tvö og tvö saman. Mynda 90 gráðu horn eða minna. Varpar fremur miklum skugga yfir sumarið. Þarf frjóan jarðveg. Plássfrekur með tímanum. Engin rótarskot. Þokkalega vind- og saltþolinn. Nær þó ekki að vaxa eðlilega upp á mjög vindasömum stöðum. Hætt við haustkali sérstaklega inn til landsins. Forðist að gróðursetja of litlar plöntur og að gróðursetja í frostpolla. Garðahlynur er fyrst og fremst notaður stakstæður í stórum görðum. Einnig gróðursettur í lundi á skógræktarsvæðum. Algengasti og almennt talinn harðgerðasti hlynurinn hérlendis. Gott timburtré. Blómin eru rík af frjói og blómasafa og því eftirsótt af hunangsflugum. Okkar garðahlynur er allur ræktaður upp af íslensku fræi. Þarf frjóan og vel framræstan jarðveg. Setjið vel af lífrænu efni (búfjáráburður/molta) við gróðursetningu. Þarf gjarnan stuðning til að byrja með. Sáir sér stundum út í görðum. Heimkynni: Mið-Evrópa og V-Asía. Ílendur í V-Evrópu, norður eftir Noregi, víða í N-Ameríku og víðar.