Garðakvistill ‘Luteus’ – Physocarpus opulifolius ‘Luteus’
Meðalstór, þokkalega harðgerður runni. Hæð um 1,5 m. Laufið áberandi gulgrænt. Nývöxtur koparlitur. Hvítir blómsveipir miðsumars. Fræbelgir, uppblásnir, rauðleitir í fyrstu. Þolir hálfskugga. Þrífst í venjulegri garðmold. Börkur flagnar með tímanum af í strimlum. Kelur stundum mikið. Hentar í blönduð beð með runnum og fjölæringum í þokkalegu skjóli. Millibil um 80 – 90 sm.
Vörunr. d7a701b767c7
Vöruflokkar: Runnar, Tré og runnar í pottum
Tengdar plöntur
Sýrena ‘Bríet’ – Syringa ‘Bríet’
Harðgerður, stórvaxinn runni eða lítið tré. Hæð 4 - 5 m. Laufgast seinna en aðrar sýrenur og verður því ekki fyrir "vor-kvefi". Laufið er einnig smærra en á flestum öðrum sýrenum sem hér eru í ræktun. Blómin eru mörg saman í klasa, laxableik og ilmandi. Blómgast í júlí. Þolir vel hálfskugga. Móðurplantan stendur í garði í Þingholtunum í Reykjavík. Stórvaxnasta sýrenan sem hér er í ræktun. Sýrena 'Bríet' hentar stakstæð, í raðir, þyrpingar og blönduð runna- og blómabeð. Gæti jafnvel hentað í skjólbelti. Millibil að minnsta kosti 1,5 m. Yrkið er kennt við Bríet Bjarnhéðinsdóttur (1856 - 1940).
Þingvíðir – Salix viminalis ‘Þingvíðir’
All harðgerður stórvaxinn, hraðvaxta runni eða lítið tré. Hæð: 3 - 8 m. Greinar ólívugrænar. Sprotar rauðbrúnir. Blöð 10 - 15 sm og 2 - 3 sm á breidd og íbjúg. Silkihærð á neðra borði. Gulir haustlitir. Sólelskur. Reklar fremur smáir. Birtast snemma (feb. - mars). Þingvíðir þrífst í frjóum, rakaheldnum jarðvegi. Þingvíðir hentar stakstæður og í raðir og þyrpingar. Millibil 1 - 2 m. Þolir vel klippingu. Sagt er að um aldamótin 1900 hafi Tryggvi Gunnarsson (1835 - 1917) plantað þingvíði í garðinn við Alþingishúsið en Tryggvi bjó þann garð til og sinnti honum einkar vel á efri árum. Jóhann Pálsson grasafræðingur telur þennan körfuvíðiklón ættaðan frá norðanverðum Úralfjöllum eða N-Síberíu.
Loðvíðir – Salix lanata – jarðlægur
Mjög harðgerður, íslenskur, lágvaxinn/jarðlægur runni. Lauf og sprotar eru gráloðin. Karlreklar eru fallega gulir og birtast í apríl - maí. Sólelskur. Vind- og saltþolinn. Gerir litlar kröfur til jarðvegs. Vex villtur um land allt. Loðvíðir hentar í hleðslur, kanta, steinhæðir, ker og þess háttar. Jarðlægi loðvíðirinn okkar er karlkyns og seldur í stykkjatali í pottum.
Bogsýrena – S. komarowii ssp. reflexa ‘Hólmfríður’
Harðgerður, stórvaxinn runni eða lítið tré (3 - 4 m). Blómin fyrst lillableik en síðan bleik í drjúpandi klösum, ilmandi. Blómgast miðsumars (júlí). Móðurtréið stendur í garðinum að Skúlaskeiði 32, Hafnarfirði þar sem Hólmfríður Finnbogadóttir og Reynir Jóhannsson bjuggu lengst af. Hólmfríður var formaður og síðan framkvæmdastjóri Skógræktarfélags Hafnarfjarðar og Þallar ehf.
Demantsvíðir ‘Flesja’ – S. pulchra ‘Flesja’
Harðgerður, alveg jarðlægur runni. Litlir gráloðnir reklar birtast jafnvel á miðjum vetri. Laufið ljósgrænt, heilrennt og gljáandi. Axlarblöð áberandi. Visin lauf sitja gjarnan á greinunum fram á vetur. Hentar í hleðslur, kanta, ker o.þ.h. Sólelskur. Úrvalsyrki úr Alaskaferð Óla Vals og félaga 1985.