Garðakvistill – Physocarpus opulifolius
Harðgerður, þéttur, heilbrigður, sumargrænn, meðalhár runni (1,5 – 2,5 m). Getur orðið talsvert breiður. Laufið grænt, flipótt ekki ólíkt rifsi (Ribes spp.) eða hlyn (Acer spp.). Rauðgulir haustlitir. Blómin hvít í hvelfdum sveip miðsumars. Fræbelgir uppblásnir, fremur smáir, margir saman, rauðleitir. Rauðleitir árssprotar. Börkurinn flagnar með tímanum af í strimlum. Þolir vel hálfskugga. Þolir vel klippingu. Þrífst í sæmilega frjóum jarðvegi, jafnvel rökum en einnig fremur þurrum. Garðakvistill fer vel í blönduð runnabeð eða saman með fjölæringum. Einnig fer vel á því að planta nokkrum saman með um 80 – 100 sm millibili. Garðakvistil má nota í klippt eða óklippt limgerði. Hentar vel í jaðra skjólbelta. Garðakvistill gekk áður fyrr undir nafninu „blásurunni“ vegna uppblásinna aldinanna. Mun harðgerðari samanborið við yrki garðakvistils sem bera rauðleit lauf eins og ‘Diabolo’ og ‘Summer Wine’. Garðakvistill er sannarlega einn harðgerðasti skraut- og skjólrunni sem völ er á. Heimkynni garðakvistils eru í austanverðri N-Ameríku. Rósaætt (Rosaceae).