Glæsiþinur – Abies fraseri
Sígrænt, keilulaga barrtré, frekar lágvaxið tré (5-8 m). Óvíst er þó hversu hátt það verður hérlendis í framtíðinni. Nálar mjúkar, fagurgrænar að ofan en ljósar að neðan. Könglar uppréttir. Ilmar. Þarf nokkurt skjól í uppvextinum. Nokkuð skuggþolinn. Vinsælt jólatré í N-Ameríku. Nýlegur í ræktun hérlendis en lofar góðu. Hentar í skjólgóða garða og inn í skóga/undir skermi. Ættaður frá Appalasíufjöllum í SA-Bandaríkjunum.
Vörunr. a0a0c45ef8c7
Vöruflokkar: Tré, Tré og runnar í pottum
Tengdar plöntur
Rúbínreynir – Sorbus bissetii
Stór runni eða lítið tré (3 - 5 m). Laufið stakfjaðrað, dökkgrænt og gljáandi. Rauðir haustlitir. Blómin hvít í sveip í júní. Berin vínrauð í ágúst en síðan bleik er líður að hausti. Virðist nokkuð harðgerður. Sérlega fallegt garðtré. Fremur nýlegur í ræktun hérlendis en lofar almennt góðu. Hentar stakstæður, í raðir og þyrpingar. Millibil alla vega 2 m. Heimkynni: Kína (Sichuan).
Bolvíðir – Salix udensis – Ivashka, Kamsjatka
Harðgert, hraðvaxta tré / runni. Laufið er mjólensulaga. Gulir haustlitir. Virðist stöðugri og beinvaxnari en flestur annar víðir að selju (Salix caprea) undanskilinni. Sólelskur. Þrífst í allri venjulegri garðmold. Um er að ræða klón frá Ivashka, Kamtsjatka, Rússlandi sem safnað var í Kamtsjatka-leiðangri Óla Vals Hanssonar og Brynjólfs Jónssonar árið 1993. Bolvíðir hentar sem stakstætt tré en einnig í raðir og þyrpingar með um 2 m millibili hið minnsta. Sjaldgæfur hérlendis. Kvenkyns klón.
Sumareik – Quercus robur
Sumargrænt tré. Óvíst er hversu há sumareikin getur orðið hérlendis en sjálfsagt mun hún vaxa upp fyrir 12 m hæð með tímanum á góðum vaxtarstöðum. Gulir haustlitir. Visin lauf sitja gjarnan á ungum trjám fram á vor. Þarf nokkurt skjól í uppvextinum. Þolir hálfskugga. Þrífst best í þokkalega frjóum jarðvegi. Má vera grýttur. Gott er að stýra vexti með klippingu annars vilja sumar eikur verða runnavaxnar. Almennt talið harðgerðasta eikin hérlendis og sú sem mesta hefur verið gróðursett. Samt er sumareik ennþá fremur sjaldgæf í ræktun. Sumareik hentar helst stakstæð í grónum görðum og í rjóður í skógarreitum og sumarhúsalóðum. Þrífst ekki á köldum og vindasömum stöðum. Sumareik laufgast seint eða ekki fyrr en um miðjan júní.
Súlueik – Quercus robur ‘Fastigiata’
Fremur viðkvæmt tré hérlendis. Krónan mjóslegin. Laufgast upp úr miðjum júní. Frýs yfirleitt græn en stundum sjást gulir/gulbrúnir haustlitir. Fremur hægvaxta. Þrífst eingöngu í grónum görðum þar sem er skjólsælt. Sólelsk en þolir hálfskugga. Jarðvegurinn þarf að vera frjór og rakaheldinn. Óvíst er hversu hávaxin súleikin getur orðið hérlendis en reikna má með 6 - 7 m á allra bestu stöðum á löngum tíma.
Baunatré – Caragana arborescens
Harðgerður runni eða lítið tré (1,5 - 2,5 m). Blómin smá, gul, ilmandi. Þau eru æt og má nota í salat. Aldinið belgur með nokkrum ætum baunum/fræjum. Sjóðið fræin áður en þeirra er neytt. Laufið er fjaðrað, mjög ljóst, nánast hvítt á vorin og fyrri part sumars en síðan áberandi gulgrænt. Axlarblöð lík þyrnum. Greinar grænleitar. Sólelskt. Hægvaxta. Lifir í sambýli við niturbinandi bakteríur. Baunatré gerir því litlar kröfur til jarðvegs. Baunatré sómir sér vel stakstætt í garðinum eða í blönduð beð með öðrum gróðri. Einnig má planta baunatré í klippt eða óklippt limgerði. Gengur einnig undir nöfnunum "síberískt baunatré" og "kergi". Náttúruleg heimkynni baunatrés er M-Asía.
Alaskaösp – Populus trichocarpa ‘Keisari’, ‘Sæland’, ‘Pinni’ og fleiri yrki
Hraðvaxta, harðgert, hávaxið, sumargrænt tré. Gulir haustlitir. Brum og brumhlífar klístruð. Balsamilmur áberandi á vorin og í röku veðri. Blómgast í apríl/maí. Blómskipunin rekill. Sérbýl. Kvenkyns tré dreifa miklu magni af fræi sem líkist dún upp úr miðju sumri. Króna mis umfangsmikil milli yrkja og því mis plássfrek. Rætur liggja almennt grunnt og rótarkambar því áberandi. Ljóselsk. 'Keisari' reynist best allra yrkja næst sjávarsíðunni. Gróðursett stakstæð, í raðir og þyrpingar. Fín í skjólbelti kringum landbúnaðarsvæði o.þ.h. Einstöku sinnum ræktuð sem klippt limgerði (sjá mynd). Þrífst best í rakaheldnum, næringarríkum/steinefnaríkum jarðvegi. Þolir all vel bleytu hluta úr ári. Bil milli trjáa fer eftir því um hvaða yrki er um að ræða en getur spannað frá 2 - 6 m.
Alpareynir – Sorbus mougeotii
Harðgert, fremur lágvaxið tré eða hávaxinn runni (5 - 8 m). Laufið grænt og gljáandi að ofan en silfurhvít-hært að neðanverðu. Rauðir berjaklasar þroskast að hausti. Berin endast gjarnan á trjánum langt fram á vetur ólíkt berjum flestra annarra reynitegunda. Gulir haustlitir. Alpareynir sómir sér stakstæður eða í þyrpingum og röðum. Millibil ekki minna en 2 m. Einnig má nota alpareyni í klippt limgerði og planta með um 50 - 60 sm millibili. Hentar jafnvel í stór ker (sjá mynd). Fremur vind- og saltþolinn. Þolir hálfskugga. Líkist mjög doppureyni/týrólareyni (Sorbus austriaca) og silfurreyni (Sorbus intermedia). Á það til að sá sér talsvert út.