Glæsiþinur – Abies fraseri
Sígrænt, keilulaga barrtré, frekar lágvaxið tré (5-8 m). Óvíst er þó hversu hátt það verður hérlendis í framtíðinni. Nálar mjúkar, fagurgrænar að ofan en ljósar að neðan. Könglar uppréttir. Ilmar. Þarf nokkurt skjól í uppvextinum. Nokkuð skuggþolinn. Vinsælt jólatré í N-Ameríku. Nýlegur í ræktun hérlendis en lofar góðu. Hentar í skjólgóða garða og inn í skóga/undir skermi. Ættaður frá Appalasíufjöllum í SA-Bandaríkjunum.
Vörunr.
a0a0c45ef8c7
Vöruflokkar: Tré, Tré og runnar í pottum
Tengdar plöntur
Beyki – Fagus sylvatica
Sumargrænt, lágvaxið - meðalstórt tré hérlendis. Getur trúlega farið upp fyrir 12 m hæð á bestu stöðum. Laufið skærgrænt þegar það springur út fyrir miðjan júní. Visið, gullinbrúnt laufið hangir á greinum ungra trjáa allan veturinn og einnig á neðstu greinum eldri trjáa. Brum hvassydd. Börkur, sléttur, grár. Þarf hlýjan vaxtarstað og frjóan jarðveg til að þrífast. Þolir vel hálfskugga. Þolir vel klippingu og gjarnan notað í klippt limgerði erlendis. Yrki með purpurarauðum laufum (sjá blóðbeyki) eru algengari hérlendis heldur en beyki með grænum laufum. Sumir eru á því að þau rauðu þrífist betur en þau grænu. Beyki finnst hér og þar í görðum en ekki gróðursett í skógrækt hérlendis ennþá enda full hitakær tegund til stórfelldrar ræktunar hérlendis. Heimkynni: Stór hluti Evrópu þó ekki allra nyrst.
Rósareynir – Sorbus rosea
All harðgerður hávaxinn runni eða lágvaxið tré (2,5 - 5 m). Blöðin stakfjöðruð, mött. Rauðgulir haustlitir. Fölbleik blóm í sveipum birtast fyrri part sumars. Fremur stór, bleik/rósrauð reyniber í klösum þroskast á haustin. Þolir hálfskugga. Rósareynir sómir sér vel stakur eða í bland með öðrum runnum. Fremur nýlegur í ræktun hérlendis. Minnir í útliti á kasmírreyni (S. cashmiriana). Heimkynni: Karmír í Pakistan.
Baunatré – Caragana arborescens
Harðgerður runni eða lítið tré (1,5 - 2,5 m). Blómin smá, gul, ilmandi. Þau eru æt og má nota í salat. Aldinið belgur með nokkrum ætum baunum/fræjum. Sjóðið fræin áður en þeirra er neytt. Laufið er fjaðrað, mjög ljóst, nánast hvítt á vorin og fyrri part sumars en síðan áberandi gulgrænt. Axlarblöð lík þyrnum. Greinar grænleitar. Sólelskt. Hægvaxta. Lifir í sambýli við niturbinandi bakteríur. Baunatré gerir því litlar kröfur til jarðvegs. Baunatré sómir sér vel stakstætt í garðinum eða í blönduð beð með öðrum gróðri. Einnig má planta baunatré í klippt eða óklippt limgerði. Gengur einnig undir nöfnunum "síberískt baunatré" og "kergi". Náttúruleg heimkynni baunatrés er M-Asía.
Hengibaunatré ‘Pendula’ – Caragana arborescens ‘Pendula’
Harðgert, ágrætt, einstofna smátré. Hæð: 1,5 - 2,0 m. Laufið fínlegt, fjaðrað. Nánast hvítt þegar það springur út á vorin, síðar ljósgrænt. Gul baunablóm birtast miðsumars. Baunabelgir þroskast að hausti. Sólelskt. Lifir í sambýli við niturbindandi bakteríur. Gerir því litlar kröfur til jarðvegs. Hentar stakstætt, innan um lægri gróður, framan við hús og í ker/potta.
Súlueik – Quercus robur ‘Fastigiata’
Fremur viðkvæmt tré hérlendis. Krónan mjóslegin. Laufgast upp úr miðjum júní. Frýs yfirleitt græn en stundum sjást gulir/gulbrúnir haustlitir. Fremur hægvaxta. Þrífst eingöngu í grónum görðum þar sem er skjólsælt. Sólelsk en þolir hálfskugga. Jarðvegurinn þarf að vera frjór og rakaheldinn. Óvíst er hversu hávaxin súleikin getur orðið hérlendis en reikna má með 6 - 7 m á allra bestu stöðum á löngum tíma.
Lensuvíðir ‘Ljómi’ – Salix lasiandra ‘Ljómi’
All harðgerður stórvaxinn runni eða lítið tré (3 - 5 m). Laufið áberandi glansandi. Gulir haustlitir. Reklarnir eru ekki sérstaklega áberandi. Minnir í útliti nokkuð á bambus. Sólelskur. Hentar stakstæður, í raðir, þyrpingar, í bland með öðrum gróðri og í klippt limgerði. Fremur hraðvaxta. Karlkyns yrki valið úr efnivið úr Alaska-leiðangi Óla Vals Hanssonar og félaga árið 1985.
Virginíuheggur ‘Canada Red’ – Prunus virginiana ‘Canada Red’
Lítið til meðalstórt (5- 7,5 m), all harðgert tré eða stórvaxinn runni. Gjarnan margstofna enda hefur virginíuheggur tilhneigingu til að skjóta upp stofnskotum. Hægt að forma með klippingu í einstofna tré. Fremur harðgerður. Grænt lauf fyrri part sumars. Dökk-purpurarautt lauf upp úr miðju sumri (júlí). Skærrautt lauf á haustin. Ljósir blómklasar, svört ber. Hefur þó lítið blómstrað hérlendis hingað til. Þolir hálfskugga en litsterkastur í fullri sól. Fallegur stakstæður eða innan um og framan við grænan og ljósari gróður. Virðist þola klippingu vel. Millibil 2,5/3 m eða meir. Heimkynni: Stór svæði í N-Ameríku. Aðallega S-Kanada og norðanverð Bandaríkin. Dæmigerður villtur virginíuheggur hefur ekki purpurarauð laufblöð yfir sumartímann. Yrkið 'Canada Red' er upprunið frá Minnesota í Bandaríkjunum frá því fyrir árið 1985.
Alpareynir – Sorbus mougeotii
Harðgert, fremur lágvaxið tré eða hávaxinn runni (5 - 8 m). Ýmist ein- eða margstofna. Laufið grænt og gljáandi að ofan en silfurhvít-hært að neðanverðu. Blóm hvít í hálfsveipum fyrri part sumars. Rauðir berjaklasar þroskast að hausti. Berin endast gjarnan á trjánum langt fram á vetur ólíkt berjum flestra annarra reynitegunda. Gulir haustlitir. Alpareynir sómir sér stakstæður eða í þyrpingum og röðum. Millibil ekki minna en 2 m. Einnig má nota alpareyni í klippt limgerði og planta með um 50 - 60 sm millibili. Hentar jafnvel í stór ker (sjá mynd). Fremur vind- og saltþolinn. Þolir hálfskugga. Líkist mjög doppureyni/týrólareyni (Sorbus austriaca) og silfurreyni (Sorbus intermedia). Á það til að sá sér út. Heimkynni: Fjalllendi Mið- og V-Evrópu, þ.e.a.s. Pýreneafjöll, Alparnir og norður til Vosges-fjalla.