Glæsitoppur ‘Hákon’ – L. involucrata var. ledebourii ‘Hákon’
Mjög harðgerður, þéttur, heilbrigður, hraðvaxta meðalstór runni. Hæð: 1,5 – 1,8 m. Laufið lensulaga, gagnstætt og gljándi á efra borði. Gulir haustlitir. Blómin tvö og tvö saman, gul undir rauðum háblöðum. Blómgast í júní. Aldinið svart ber sem þroskast í ágúst. Berin almennt talin óæt. Fuglar sækja þó í berin. Greinar gulbrúnar en síðar gráleitar. Skuggþolinn. Þolir vel klippingu. Hentar í raðir, þyrpingar, limgerði og skjólbelti. Hentar einnig í villigarða og sumarhúsalóðir. Sáir sér stundum út. Glæsitoppur ‘Hákon’ er svo þéttur að illgresi þrífst tæplega undir honum. Yrkið er kennt við Hákon Bjarnason fyrrverandi skógræktarstjóra en samsvarandi runni fannst í sumarhúsalóð hans og konu hans Guðrúnar Bjarnason í Vatnshlíð við Hvaleyrarvatn í Hafnarfirði. Ef til vill er þetta ekki undirtegundin „ledobourii“! Millibil í limgerði að minnsta kosti 50 sm. Millibil í blönduðum beðum um 1 m. Þrífst í allri venjulegri garð- og skógarmold.