Gljámispill / glansmispill / fagurlaufamispill – Cotoneaster lucidus
Harðgerður, þéttur, meðalstór, sumargrænn runni. Hæð 1,5 – 2,2 m. Laufin egglaga, allt að 5 sm löng, gljáandi, dökkgræn – koparbrún. Lauf hærð á neðra borði í fyrstu. Skærrauðir haustlitir. Blómin smá, fölbleik. Aldinið svart ber (berepli) sem situr á greinunum fram á vetur.
Einn allra vinsælasti runninn í limgerði. Yfirleitt eru gróðursettar 3 plöntur/m. Þrífst best í fullri sól. Þolir þó hálfskugga. Þrífst í öllum sæmilega frjóum, framræstum jarðvegi. Blandið gömlum búfjáráburði eða moltu saman við jarðveginn fyrir gróðursetningu.
Gljámispill er aðallega notaður í klippt limgerði enda þolir hann vel klippingu. Stundum ber þó á „átu“ og skemmdum á laufi af völdum lirfa fyrri part sumars . Klippið hann jafnt og þétt og varist að klippa inn í gamlan við. Yfirleitt er gljámispill klipptur seinni part vetrar. Sumarklipping gæti þó verið heppilegri til að forðast sýkingu af völdum „átu“. Í meðallagi hraðvaxinn eða hægvaxta. Ekki nógu harðgerður á áveðurssömum stöðum t.d. við sjávarsíðuna. Þá henta t.d. strandavíðir (Salix phylicifolia ‘Strandir’), jörfavíðir (S. hookeriana) og alaskavíðir (S. alaxensis) betur. Yfirleitt afgreiddur sem berrótar-plöntur sem gróðursettar eru að vori eða snemma sumars. Heimkynni: Aðallega í Altai fjöllum í Asíu. Rósaætt (Rosaceae).