Gljávíðir – Salix pentandra
Harðgerður runni eða tré. Hæð 3 – 7 m. Laufblöð sporöskjulaga, gljáandi, fíntennt, ljósgræn, 5 – 12 sm á lengd og 2 – 5 sm á breidd. Laufgast í júníbyrjun. Gulir haustlitir eða frýs grænn. Reklar myndast samhliða laufgun. Sérbýll. Við framleiðum og seljum nú yrki sem er kvk og myndar rekla og þroskar fræ með áberandi hvítri fræull á haustin sem er óvanalegt fyrir víði þar sem aðrar víðitegundir hérlendis þroska fræ fyrir eða um mitt sumar (júní – júlí).
Þetta yrki virðist laust við gljávíðiryð sem hefur leikið gljávíði illa síðastliðna þrjá áratugi en fram að því var gljávíðir ‘Schierbeck’ með allra vinsælustu runnum í limgerði hér á landi. Eftir að gljávíðiryðið breiddist út var framleiðslu á gljávíði hætt og flestum gljávíðilimgerðum skipt út fyrir eitthvað annað.
Gljávíðir er eins og annar víðir sólelskur og þrífst best í sæmilega frjóum, rakaheldnum jarðvegi. Í limgerði mælum við með 3 stk/m. Hentar einnig í þyrpingar með 1 – 1,5 m millibili. Gljávíðir hentar ekki á mjög vindasömum stöðum t.d. úti við ströndina. Þar henta jörfa- og alaskavíðir betur. Það var Jóhann Pálsson grasafræðingur og fyrrverandi garðyrkjustjóri Rvk sem kom með gljávíði þennan til landsins. Heimkynni gljávíðis eru N-Evrópa ekki þó Ísland og N-Asía. Í heimkynnum sínum vex gljávíðir aðallega í deigum og jafnvel blautum jarðvegi. Víðisætt (Salicaceae).