Gráelri / Gráölur – Alnus incana
Harðgert, hraðvaxta, sumargrænt, venjulega einstofna tré. Hæð 7 – 15 m. Getur sjálfsagt orðið enn hærra á góðum stöðum hérlendis. Stundum runni við erfiðar aðstæður. Börkur grár og sléttur. Brum stilkuð. Laufið egglaga, mattgrænt og tennt. Nýtt lauf á vorin og fyrri part sumars gjarnan rauðbrúnleitt. Haustlitir ekki áberandi en laufið verður gjarnan brúnleitt áður en það fellur.
Lifir í sambýli við niturbindandi bakteríur sem gera elrinu kleift að lifa og vaxa í ófrjóum jarðvegi. Þolir að vaxa í deiglendi. Sólelskt. Vindþolið en ekki talið sérlega saltþolið. Karlreklar birtast strax á haustin og vaxa fram síðvetrar eða snemma vors. Drjúpandi, 5 – 7 sm, gulbrúnir. Kvenreklar eru fullþroska að hausti. Líkjast litlum könglum. Dökkbrúnir. Stundum ber talsvert á rótarskotum hjá gráelri.
Hentar stakstætt, í raðir, þyrpingar og til skógræktar og uppgræðslu. Einnig stundum gróðursett sem götutré hérlendis. Millibil að minnsta kosti 3 m. Gráelrið okkar er mest megnis ættað frá Hallormsstað og Egilsstöðum. Heimkynni gráelris (A. incana subsp. incana) er Evrópa og NV-Asía. Elrivendill (Taphrina alni) er gjarnan áberandi á kvenreklum gráelris. Bjarkarætt (Betulaceae).