Grámispill – Cotoneaster integerrimus
Harðgerður, fremur lágvaxinn runni (0,5 – 1,2 m). Laufið grágrænt, heilrennt. Blómin smá, fölbleik. Aldinið rautt ber í september. Sólelskur en þolir hálfskugga. Hentar í blönduð beð með runnum og jurtum, sem kantplanta, í stórgerðar hleðslur og í lágvaxin limgerði.
Vörunr.
9f06bf5fc3d2
Vöruflokkur: Tré og runnar í pottum
Tengdar plöntur
Bergreynir – Sorbus x ambigua
Harðgert lítið tré eða all stór runni (2 - 5 m). Ýmist ein- eða margstofna. Lauf sporöskjulaga og sagtennt. Blómin eru rauðbleik í hálfsveip fyrri part sumars. Rauð ber í klösum í september. Rauðgulir haustlitir. Minnir mjög á úlfareyni (S. x hostii). Blöð bergreynis eru minna hærð og meira gljáandi samanborið við úlfareyni, einnig á neðra borði. Vindþolinn og trúlega saltþolinn einnig. Bergreyni sómir sér stakstæður, í beðum með öðrum gróðri, í raðir og þyrpingar. Mætti jafnvel nota í klippt limgerði. Tilvalinn í sumarhúsalóðina. Millibil 1,5 - 2 m. Í limgerði 50 - 100 sm. Byrjar ungur að blómgast og þroska ber, fyrr samanborið við úlfareyni. Bergreynir er náttúrulegur blendingur seljureynis (Sorbus aria) og blikreynis (S. chamaemespilus). Vex villtur í fjalllendi Mið - S-Evrópu. Íslenski stofninn er líklega allur kominn af tré/trjám í Grasagarði Rvk sem uxu upp af fræi frá Haute-Savoie í frönsku Ölpunum og sáð var til árið 1989.
Einir – Juniperus communis – Undirhlíðar-Hfj
Harðgerður, sígrænn, lágvaxinn runni (30 - 120 sm). Ýmist jarðlægur eða hálfuppréttur. Sérbýll. Kvenplöntur þroska einiber á tveimur árum. Þau má nýta í matargerð. Sólelskur. Hægvaxta. Einir hentar í ker, hleðslur, kanta og þess háttar. Einnig í blönduð beð með öðrum sígrænum runnum. Jarðlæg yrki nokkuð þekjandi. Vex villtur víða um land.
Þráðsýprus / Ertusýprus ‘Filifera’ – Chamaecyparis pisifera ‘Filifera’
Sígrænn hægvaxta breiðkeilulaga runni eða smátré. Hæð 1,5 m hérlendis. Getur hugsanlega orðið hærri með tímanum í skjólgóðum görðum. Barrið hreisturkennt og gulgrænt á lit. Greinarendar slútandi, þráðmjóir. Þráðsýprus hentar í skjólgóða garða í sæmilega frjóum, rakaheldnum, framræstum jarðvegi. Þolir vel hálfskugga. Hefur reynst ágætlega í pottum í skjóli. Tegundin er ættuð frá Japan.
Alaskaösp – Populus trichocarpa ‘Keisari’, ‘Sæland’, ‘Pinni’, ‘Haukur’ og ‘Súla’
Hraðvaxta, harðgert, hávaxið, sumargrænt tré. Gulir haustlitir. Brum og brumhlífar klístruð. Balsamilmur áberandi á vorin og í röku veðri. Blómgast í apríl/maí. Blómskipunin rekill. Sérbýl. Kvenkyns tré dreifa miklu magni af fræi sem líkist dún upp úr miðju sumri. Króna mis umfangsmikil milli yrkja og því mis plássfrek. Rætur liggja almennt grunnt og rótarkambar því áberandi. Ljóselsk.
'Keisari' reynist best allra yrkja næst sjávarsíðunni. Gróðursett stakstæð, í raðir og þyrpingar. Fín í skjólbelti kringum landbúnaðarsvæði o.þ.h. Einstöku sinnum ræktuð sem klippt limgerði (sjá mynd).
Þrífst best í rakaheldnum, næringarríkum/steinefnaríkum jarðvegi. Þolir all vel bleytu hluta úr ári. Bil milli trjáa fer eftir því um hvaða yrki er um að ræða en getur spannað frá 2 - 6 m. Heimkynni: Vestanverð N-Ameríka. Allt frá Alaska til Baja Kalifornía í Mexíkó. Íslenski stofninn er allur eða nær allur ættaður frá Alaska.
Blátoppur ‘Þokki’ – Lonicera caerulea ‘Þokki’
Mjög harðgerður, þéttur, fremur hægvaxta runni. Laufið blágrænt, gagnstætt. Blómin smá, gulgræn og lítið áberandi. Aldinið blátt ber. Ekki talin góð til átu. Blátoppur 'Þokki' er skuggþolinn. Hentar í raðir, þyrpingar, limgerði og til uppfyllingar í skuggsæl horn og undir trjám. Lokar sér vel niður að jörð og heldur þannig niðri illgresi. Almennt heilbrigður. Þrífst vel í allri venjulegri garðmold. Millibil í limgerði um 50 sm eða meir.
Kínareynir ‘Bjartur’ – Sorbus vilmorinii ‘Bjartur’
Lítið tré eða stór runni (3 - 5 m). Virðist harðgerður. Vaxinn upp af fræi sem Ólafur Njálsson í Nátthaga, Ölfusi safnaði af reynirunna í N-Wales haustið 1989. 'Bjartur' var valinn til áframhaldandi ræktunar af þeim 5 plöntum sem komu upp. Virðist fræekta (apomixis). Hvítir blómsveipir birtast snemmsumars. Bleik ber þroskast á haustin. Rauðir haustlitir. Berin hanga á trjánum fram á vetur þar sem fuglar eru ekki sólgnir í þau. Þolir hálfskugga. Óvíst er hvort að um ekta kínareyni sé að ræða. 'Bjartur' hentar sem garðtré í t.d. litla garða. Þrífst í venjulegri, vel framræstri garðmold sem gjarnan má vera sand- og/eða malarborin.