Grámispill – Cotoneaster integerrimus
Harðgerður, fremur lágvaxinn runni (0,5 – 1,2 m). Laufið grágrænt, heilrennt. Blómin smá, fölbleik. Aldinið rautt ber í september. Sólelskur en þolir hálfskugga. Hentar í blönduð beð með runnum og jurtum, sem kantplanta, í stórgerðar hleðslur og í lágvaxin limgerði.
Vörunr. 9f06bf5fc3d2
Vöruflokkur: Tré og runnar í pottum
Tengdar plöntur
Blágreni – Picea engelmannii
Harðgert, hávaxið, keilulaga, sígrænt barrtré. Nýja barrið bláleitt, ekki eins stingandi eins og barr sitkagrenis (Picea sitchensis). Fremur hægvaxta. Krónan gjarnan fremur mjóslegin. Þolir hálfskugga. Þrífst betur inn til landsins en síður við sjávarsíðuna. Sitkalús getur verið vandamál. Blágreni er glæsilegt stakstætt tré. Sómir sér einnig í þyrpingum með að minnsta kosti 2,5 m millibili. Úrvals jólatré. Víða nýtt til skógræktar sérstaklega norðan- og austanlands.
Bergfura – Pinus uncinata
Mjög harðgert, sígrænt tré. Hæð fullvaxta trjáa mjög misjöfn enda trúlega oft blönduð fjallafuru (Pinus mugo) sem er runni en ekki tré. Nálar fremur langar, dökkgrænar - blágrænar, tvær saman í búnti. Nálar bergfuru eru lengri og dekkri samanborið við nálar stafafuru (Pinus contorta). Brum bergfuru er þykkt og ljóst enda þakið harpixi. Brum stafafuru er rauðbrúnt og mjórra og ekki þakið harpixi. Bergfura er nægjusöm en ljóselsk. Getur farið mjög illa af völdum brum- og greinaþurrkssvepps (Gremmeniella abietina). Til að koma í veg fyrir að sveppurinn nái sér á strik er mikilvægt að bergfura standi aldrei þétt heldur að það lofti vel um hana frá öllum hliðum. Bergfura er mest gróðursett stakstæð í görðum. Einnig gróðursett í rýrt mólendi, skriður og þess háttar. Með allra harðgerðustu trjám sem völ er á. Fremur hægvaxta.
Birkikvistur – Spiraea betulifolia
Mjög harðgerður, fremur lágvaxinn (1 m), þéttur runni. Blómin hvít í sveipum miðsumars. Rauðir haustlitir. Þolir hálfskugga. Vind- og saltþolinn. Hentar í potta, raðir og þyrpingar. Þolir vel klippingu. Klipptir birkikvistar blómstra minna en ella. Bil milli plantna ætti ekki að vera minna en 60 sm. Mjög algengur og vinsæll hérlendis. Þetta yrki gengur undir heitunum 'Birkikvistur', 'Ísland' og 'Island' og er fáanlegt víða í Evrópu.
Einir – Juniperus communis – Undirhlíðar-Hfj
Harðgerður, sígrænn, lágvaxinn runni (30 - 120 sm). Ýmist jarðlægur eða hálfuppréttur. Sérbýll. Kvenplöntur þroska einiber á tveimur árum. Þau má nýta í matargerð. Sólelskur. Hægvaxta. Einir hentar í ker, hleðslur, kanta og þess háttar. Einnig í blönduð beð með öðrum sígrænum runnum. Jarðlæg yrki nokkuð þekjandi. Vex villtur víða um land.
Kanadalífviður ‘Brabant’ – Thuja occidentalis ‘Brabant’
Sæmilega harðgert, hægvaxta, þétt, upprétt, sígrænt tré. Hæð 3 - 4 m eftir 15 ár. Getur sjálfsagt náð 5 - 7 m hæð á bestu stöðum með tímanum. Breidd 1 - 1,5 m fyrstu 15 árin. Barrið hreisturkennt, grænt en gjarnan brúnleitara sérstaklega á greinaendum á veturna. Barrið ilmar sé það klippt eða nuddað. Könglar smáir, aflangir. Börkur rauðbrúnn og flagnar með tímanum af í strimlum. 'Brabant' er talið eitt harðgerðasta yrkið af lífvið til ræktunar hérlendis. Þolir vel hálfskugga. Þolir vel klippingu. Hentar í gróna, skjólgóða garða. Kanadalífviður 'Brabant' hentar í blönduð beð með öðrum sígrænum runnum og smátrjám. Einnig fyrir innan skjólgirðingar og þess háttar. Hentar í ker/potta þar sem er gott skjól annars sviðnar barrið illa og plantan veslast upp. Erlendis er 'Brabant' hvað mest gróðursettur í limgerði. Þrífst í allri vel framræstri garðmold. Hollenskt yrki frá níunda áratug síðustu aldar. 'Brabant' er af sumum talinn vera blendingur kanada- og risalífviðar (Thuja plicata).
Blátoppur ‘Þokki’ – Lonicera caerulea ‘Þokki’
Mjög harðgerður, þéttur, fremur hægvaxta runni. Laufið blágrænt, gagnstætt. Blómin smá, gulgræn og lítið áberandi. Aldinið blátt ber. Ekki talin góð til átu. Blátoppur 'Þokki' er skuggþolinn. Hentar í raðir, þyrpingar, limgerði og til uppfyllingar í skuggsæl horn og undir trjám. Lokar sér vel niður að jörð og heldur þannig niðri illgresi. Almennt heilbrigður. Þrífst vel í allri venjulegri garðmold. Millibil í limgerði um 50 sm eða meir.
Beyki – Fagus sylvatica
Sumargrænt, lágvaxið - meðalstórt tré hérlendis. Getur trúlega farið upp fyrir 12 m hæð á bestu stöðum. Laufið skærgrænt þegar það springur út fyrir miðjan júní. Visið, gullinbrúnt laufið hangir á greinum ungra trjáa allan veturinn og einnig á neðstu greinum eldri trjáa. Brum hvassydd. Börkur, sléttur, grár. Þarf hlýjan vaxtarstað og frjóan jarðveg til að þrífast. Þolir vel hálfskugga. Þolir vel klippingu og gjarnan notað í klippt limgerði erlendis. Yrki með purpurarauðum laufum eru algengari hérlendis heldur en beyki með grænum laufum. Sumir eru á því að þau rauðu þrífist betur en þau grænu. Beyki finnst hér og þar í görðum en ekki gróðursett í skógrækt hérlendis ennþá enda full hitakær tegund til stórfelldrar ræktunar hérlendis.