Gráreynir – Sorbus hybrida
Harðgert meðalstórt tré (5-12m). Stundum runni. Laufin með minnst tveimur smáblaða-pörum neðst. Hvítgráloðin á neðra borði. Blómin hvít í sveip í júní. Berin rauð í klösum í október. All vind- og saltþolinn. Ekki viðkvæmur fyrir reyniátu (Cytospora rubescens). Þrífst vel í venjulegri, vel framræstri garðmold. Gráreynir hentar sem stakstætt tré, í raðir/þyrpingar, í sumarhúsalóðir og jafnvel sem götutré. Millibil um 3-4 m. Gráreynirinn okkar er allur af íslensku fræi sem við tínum af fallegum móðurtrjám. Þar sem gráreynir er „apomictic“ eru fræplönturnar með sama erfðamengi og móðurtréið.
Vörunr.
c53bc581cff2
Vöruflokkar: Hnausplöntur, Tré, Tré og runnar í pottum
Tengdar plöntur
Súlueik – Quercus robur ‘Fastigiata’
Fremur viðkvæmt tré hérlendis. Krónan mjóslegin. Laufgast upp úr miðjum júní. Frýs yfirleitt græn en stundum sjást gulir/gulbrúnir haustlitir. Fremur hægvaxta. Þrífst eingöngu í grónum görðum þar sem er skjólsælt. Sólelsk en þolir hálfskugga. Jarðvegurinn þarf að vera frjór og rakaheldinn. Óvíst er hversu hávaxin súleikin getur orðið hérlendis en reikna má með 6 - 7 m á allra bestu stöðum á löngum tíma.
Bolvíðir – Salix udensis – Ivashka, Kamsjatka
Harðgert, hraðvaxta tré / runni. Laufið er mjólensulaga. Gulir haustlitir. Virðist stöðugri og beinvaxnari en flestur annar víðir að selju (Salix caprea) undanskilinni. Sólelskur. Þrífst í allri venjulegri garðmold. Um er að ræða klón frá Ivashka, Kamtsjatka, Rússlandi sem safnað var í Kamtsjatka-leiðangri Óla Vals Hanssonar og Brynjólfs Jónssonar árið 1993. Bolvíðir hentar sem stakstætt tré en einnig í raðir og þyrpingar með um 2 m millibili hið minnsta. Sjaldgæfur hérlendis. Kvenkyns klón.
Ryðelri / Ryðölur – Alnus rubra
Harðgert, hraðvaxta, einstofna, meðalstór - stórvaxið tré (10 m). Lágvaxnara og runnkendara við erfið skilyrði. Laufin eru egglaga, 7 - 15 sm á lengd, sagtennt og langydd. Blaðjaðarinn verpist aðeins niður á við. Ung lauf gjarnan rauðmenguð. Haustlitur brúnn eða frýs grænn. Rauðleitir karlreklar vaxa fram snemma vors (mars / apríl). Kvenreklar brúnir fullþroska. Minna á litla köngla. Börkur grár með ljósum þverrákum. Gjarnan ber á uppblásnum trjákvoðu-bólum á berki. Sólelskt en gerir litlar kröfur til jarðvegs. Vex eins og annað elri í sambýli við niturbindandi bakteríur. Rótarskot engin eða lítið áberandi. Ryðelri hentar stakstætt, í raðir / þyrpingar með að minnsta kosti 2,5 m millibili. Hentar einnig til skógræktar. Nýlegur í ræktun en lofar mjög góðu. Hugsanlega hentugt sem götutré. Ryðölurinn okkar er allur vaxinn upp af fræi sem safnað hefur verið hérlendis. Heimkynni: Vesturströnd N-Ameríku allt frá Alaska suður til Kaliforníu.
Virginíuheggur ‘Canada Red’ – Prunus virginiana ‘Canada Red’
Lítið til meðalstórt (5- 7,5 m), all harðgert tré eða stórvaxinn runni. Gjarnan margstofna enda hefur virginíuheggur tilhneigingu til að skjóta upp stofnskotum. Hægt að forma með klippingu í einstofna tré. Fremur harðgerður. Grænt lauf fyrri part sumars. Dökk-purpurarautt lauf upp úr miðju sumri (júlí). Skærrautt lauf á haustin. Ljósir blómklasar, svört ber. Hefur þó lítið blómstrað hérlendis hingað til. Þolir hálfskugga en litsterkastur í fullri sól. Fallegur stakstæður eða innan um og framan við grænan og ljósari gróður. Virðist þola klippingu vel. Millibil 2,5/3 m eða meir. Heimkynni: Stór svæði í N-Ameríku. Aðallega S-Kanada og norðanverð Bandaríkin. Dæmigerður villtur virginíuheggur hefur ekki purpurarauð laufblöð yfir sumartímann. Yrkið 'Canada Red' er upprunið frá Minnesota í Bandaríkjunum frá því fyrir árið 1985.
Blágreni – Picea engelmannii
Harðgert, hávaxið, keilulaga, sígrænt barrtré. Nýja barrið bláleitt, ekki eins stingandi eins og barr sitkagrenis (Picea sitchensis). Fremur hægvaxta. Krónan gjarnan fremur mjóslegin. Þolir hálfskugga. Þrífst betur inn til landsins en síður við sjávarsíðuna. Sitkalús getur verið vandamál. Blágreni er glæsilegt stakstætt tré. Sómir sér einnig í þyrpingum með að minnsta kosti 2,5 m millibili. Úrvals jólatré. Víða nýtt til skógræktar sérstaklega norðan- og austanlands.
Alaskaösp – Populus trichocarpa ‘Keisari’, ‘Sæland’, ‘Pinni’ og fleiri yrki
Hraðvaxta, harðgert, hávaxið, sumargrænt tré. Gulir haustlitir. Brum og brumhlífar klístruð. Balsamilmur áberandi á vorin og í röku veðri. Blómgast í apríl/maí. Blómskipunin rekill. Sérbýl. Kvenkyns tré dreifa miklu magni af fræi sem líkist dún upp úr miðju sumri. Króna mis umfangsmikil milli yrkja og því mis plássfrek. Rætur liggja almennt grunnt og rótarkambar því áberandi. Ljóselsk. 'Keisari' reynist best allra yrkja næst sjávarsíðunni. Gróðursett stakstæð, í raðir og þyrpingar. Fín í skjólbelti kringum landbúnaðarsvæði o.þ.h. Einstöku sinnum ræktuð sem klippt limgerði (sjá mynd). Þrífst best í rakaheldnum, næringarríkum/steinefnaríkum jarðvegi. Þolir all vel bleytu hluta úr ári. Bil milli trjáa fer eftir því um hvaða yrki er um að ræða en getur spannað frá 2 - 6 m. Heimkynni: Vestanverð N-Ameríka. Allt frá Alaska til Baja Kalifornía í Mexíkó. Íslenski stofninn er allur eða nær allur ættaður frá Alaska.
Heggur ‘Laila’ – Prunus padus ssp. borealis ‘Laila’
Harðgert, fremur lágvaxið tré. Hæð 5 - 8 m. Blómin hvít, ilmandi í uppréttum klösum fyrri part sumars. Stundum sjást svört steinaldin/ber á haustin. Gulir haustlitir. Þolir hálfskugga. Þrífst í allri venjulegri garðmold. Heggur 'Laila' hentar stakstæður, í trjá- og runnaþyrpingar og í sumarhúsalóðina. Millibil: 2 - 3 m. 'Laila' er sænskt, blómsælt úrvalsyrki ættað frá Kukkola við Torne-ánna í N-Svíþjóð.
Sumareik – Quercus robur
Sumargrænt tré. Óvíst er hversu há sumareikin getur orðið hérlendis en sjálfsagt mun hún vaxa upp fyrir 12 m hæð með tímanum á góðum vaxtarstöðum. Gulir haustlitir. Visin lauf sitja gjarnan á ungum trjám fram á vor. Þarf nokkurt skjól í uppvextinum. Þolir hálfskugga. Þrífst best í þokkalega frjóum jarðvegi. Má vera grýttur. Gott er að stýra vexti með klippingu annars vilja sumar eikur verða runnavaxnar. Almennt talið harðgerðasta eikin hérlendis og sú sem mesta hefur verið gróðursett. Samt er sumareik ennþá fremur sjaldgæf í ræktun. Sumareik hentar helst stakstæð í grónum görðum og í rjóður í skógarreitum og sumarhúsalóðum. Þrífst ekki á köldum og vindasömum stöðum. Sumareik laufgast seint eða ekki fyrr en um miðjan júní.