Graslaukur – Allium schoenoprasum
Harðgerð, fjölær jurt. Hæð: 35- 40 sm. Blöð og blóm má nota í mat. Blöð eru gjarnan notuð í eggjakökur, súpur og í fisk- og kartöflurétti. Hálfopnuð blómin henta í salat til að gefa bragð og til skrauts. Blómgast rauðfjólubláum, blómum í kúlulaga blómskipun í júní sem innihalda mikið af blómasafa og eru því hentug sem fæðulind fyrir humlur og aðrar býflugur. Graslaukur vex upp af litlum laukum. Graslaukur er auðræktaður í allri venjulegri garðmold á sólríkum stöðum. Blandið gjarnan gömlum búfjáráburði eða moltu saman við jarðveginn við gróðursetningu. Einnig er tilvalið að setja moltu í kringum eldri plöntur að vori. Þó að graslaukur laði að hunangsflugur er hann almennt talinn fæla í burt ýmis skordýr sem sníkja á plöntum sökum brennisteinssambanda sem í honum eru. Er því gjarnan notaður t.d. inn á milli matjurta og annarra plantna til að fæla í burt sníkjudýr sem leggjast á mat- og skrautjurtir. Vex villtur víða í Evrópu, Asíu og N-Ameríku.