Gulvíðir – Salix phylicifolia
Harðgerður íslenskur runni. Hæð er mjög breytileg en finnst sums staðar allt að 5 m hár eða meir. Algeng hæð er 1-2 m. Myndar gjarnan hálfkúlulaga/hvelfda runna þar sem hann vex villtur og ekki er beit. Sprotar rauðbrúnir eða gulgrænir. Greinar gráar. Laufið lensulaga eða oddbaugótt og gljáandi. Gulir haustlitir. Meira og minna hárlaus. Gulvíðir vex villtur um land allt upp í 550 – 600 m.h.y.s. Gulvíðir hentar í limgerði og þyrpingar. Getur vaxið í deiglendi og þar sem vatn liggur yfir hluta úr ári. Gulvíðir hefur sums staðar farið illa af völdum asparglittu. Annars heilbrigður. Hæfilegt millibil í limgerðum er 30 – 50 sm. Annars allt að 1 m. Við í Þöll framleiðum gjarnan gulvíði af fallegum einstaklingum sem við finnum í náttúrunni. Sjá einnig strandavíði sem er karlkyns yrki af gulvíði. Náttúruleg heimkynni gulvíðis auk Íslands eru N-Evrópa og V-Síbería.