„Hansarós“ – Rosa rugosa ‘Hansa’
Harðgerð, meðalstór runnarós af ígulrósakyni (R. rugosa). Blómin stór, vel fyllt, rauðfjólblá og ilmandi. Blómgast frá því í júlí og eitthvað fram á haustið. Blómviljug. Þroskar lítið sem ekkert af nýpum. Rauðgulir haustlitir. Mjög algeng hérlendis. Mest notuð í raðir og þyrpingar. Hentar vel í limgerði sem ekki eru „stífklippt“. Millibil um 80 sm. Vind- og saltþolin. Skríður eitthvað út sé hún á eigin rót. Stundum kölluð „Vestmannaeyjarós“. Tvímælalaust algengasta rósin í íslenskum görðum. Ekki er óalgengt að ígulrósir (R. rugosa) séu í daglegu tali kallaðar „hansarósir“ þó að í raun eigi það aðeins við um þetta tiltekna yrki af ígulrós. Gamalt hollenskt yrki.
Vörunr.
a9d7f9d72d20
Vöruflokkar: Plöntur í limgerði/hekk, Rósir, Tré og runnar í pottum
Tengdar plöntur
Beyki – Fagus sylvatica
Sumargrænt, lágvaxið - meðalstórt tré hérlendis. Getur trúlega farið upp fyrir 12 m hæð á bestu stöðum. Laufið skærgrænt þegar það springur út fyrir miðjan júní. Visið, gullinbrúnt laufið hangir á greinum ungra trjáa allan veturinn og einnig á neðstu greinum eldri trjáa. Brum hvassydd. Börkur, sléttur, grár. Þarf hlýjan vaxtarstað og frjóan jarðveg til að þrífast. Þolir vel hálfskugga. Þolir vel klippingu og gjarnan notað í klippt limgerði erlendis. Yrki með purpurarauðum laufum (sjá blóðbeyki) eru algengari hérlendis heldur en beyki með grænum laufum. Sumir eru á því að þau rauðu þrífist betur en þau grænu. Beyki finnst hér og þar í görðum en ekki gróðursett í skógrækt hérlendis ennþá enda full hitakær tegund til stórfelldrar ræktunar hérlendis. Heimkynni: Stór hluti Evrópu þó ekki allra nyrst.
Baunatré – Caragana arborescens
Harðgerður runni eða lítið tré (1,5 - 2,5 m). Blómin smá, gul, ilmandi. Þau eru æt og má nota í salat. Aldinið belgur með nokkrum ætum baunum/fræjum. Sjóðið fræin áður en þeirra er neytt. Laufið er fjaðrað, mjög ljóst, nánast hvítt á vorin og fyrri part sumars en síðan áberandi gulgrænt. Axlarblöð lík þyrnum. Greinar grænleitar. Sólelskt. Hægvaxta. Lifir í sambýli við niturbinandi bakteríur. Baunatré gerir því litlar kröfur til jarðvegs. Baunatré sómir sér vel stakstætt í garðinum eða í blönduð beð með öðrum gróðri. Einnig má planta baunatré í klippt eða óklippt limgerði. Gengur einnig undir nöfnunum "síberískt baunatré" og "kergi". Náttúruleg heimkynni baunatrés er M-Asía.
Bjarmasýrena ‘Valkyrja’ – Syringa wolfii ‘Valkyrja’
Harðgerður, þéttur, meðalhár runni (1,5 - 2,5 m). Blómin lillableik, ilmandi í klösum. Lágvaxnari en aðrar sýrenur. Sólelsk en þolir hálfskugga. Nýtur sín vel stakstæð eða fleiri saman í þyrpingu með um 120 sm millibili. Hentar einnig í stóra potta. Kettir sækja talsvert í Bjarmasýrenu 'Valkyrju' og geta eyðilagt hana meðan hún er ung. Því borgar sig að setja girðingu/net utan um nýgróðursettar plöntur og hafa það í kring fyrstu árin þar sem mikið er um ketti. 'Valkyrja' er úrval úr Grasagarði Reykjavíkur.
Alaskasýprus – Cupressus nootkatensis
Lágvaxið, sígrænt tré. Gjarnan líkari runna fyrstu árin. Toppurinn og smágreinar áberandi drjúpandi. Barrið hreisturlaga, blágrænt - gulgrænt. Könglar kúlulaga á stærð við bláber. Dökkbláir fullþroska. Þokkafullur og jafnvel draugalegur að sjá. Þarf nokkurt skjól. Fremur skuggþolinn. Þolir vel klippingu. Almennt talinn harðgerðasti sýprusinn.
Óvíst er hveru hár alaskasýprus getur orðið hérlendis. Reikna má með 6 - 7 m hæð á bestu stöðum í skógarskjóli. Getur orðið talsvert breiður. Alaskasýprus þrífst í skjólgóðum görðum og trjálundum. Hentar í beð og þyrpingar með öðrum sígrænum runnum og smátrjám. Einnig framan við og jafnvel undir stærri trjám. Þrífst í allri venjulegri, framræstri garðmold. Framleiðum eingöngu alaskasýprus af íslensku fræi. Einnig nefndur Callitropsis nootkatensis. Heimkynni: Vesturströnd N-Ameríku. Allt frá Alaska suður til N-Kaliforníu. Grátviðarætt (Cupressaceae).
Blágreni – Picea engelmannii
Harðgert, hávaxið, keilulaga, sígrænt barrtré. Nýja barrið bláleitt, ekki eins stingandi eins og barr sitkagrenis (Picea sitchensis). Gömul tré hérlendis þroska stundum köngla. Fremur hægvaxta. Krónan gjarnan fremur mjóslegin. Þolir hálfskugga. Þrífst betur inn til landsins en síður við sjávarsíðuna. Sitkalús getur verið vandamál. Blágreni er glæsilegt stakstætt tré. Sómir sér einnig í þyrpingum með að minnsta kosti 3 m millibili. Úrvals jólatré enda barrheldið. Víða nýtt til skógræktar sérstaklega norðan- og austanlands. Blágreni þykir all gott timburtré og viðurinn sagður léttur en fremur sterkur. M.a. nýtt í ýmis hljóðfæri. Blágreni er fyrst og fremst háfjallatré. Heimkynni blágrenis eru aðallega í Klettafjöllum og Fossafjöllum (Cascade Range) N-Ameríku. Vex þar víða upp að skógarmörkum. Myndar blendinga með hvít- (P. glauca) og sitkagreni (P. sitchensis) í heimkynnum sínum þar sem útbreiðslusvæði þessara tegunda skarast.
Alaskaösp – Populus trichocarpa ‘Keisari’, ‘Sæland’, ‘Pinni’, ‘Haukur’ og ‘Súla’
Hraðvaxta, harðgert, hávaxið, sumargrænt tré. Gulir haustlitir. Brum og brumhlífar klístruð. Balsamilmur áberandi á vorin og í röku veðri. Blómgast í apríl/maí. Blómskipunin rekill. Sérbýl. Kvenkyns tré dreifa miklu magni af fræi sem líkist dún upp úr miðju sumri. Króna mis umfangsmikil milli yrkja og því mis plássfrek. Rætur liggja almennt grunnt og rótarkambar því áberandi. Ljóselsk.
'Keisari' reynist best allra yrkja næst sjávarsíðunni. Gróðursett stakstæð, í raðir og þyrpingar. Fín í skjólbelti kringum landbúnaðarsvæði o.þ.h. Einstöku sinnum ræktuð sem klippt limgerði (sjá mynd).
Þrífst best í rakaheldnum, næringarríkum/steinefnaríkum jarðvegi. Þolir all vel bleytu hluta úr ári. Bil milli trjáa fer eftir því um hvaða yrki er um að ræða en getur spannað frá 2 - 6 m. Heimkynni: Vestanverð N-Ameríka. Allt frá Alaska til Baja Kalifornía í Mexíkó. Íslenski stofninn er allur eða nær allur ættaður frá Alaska.
Blárifs ‘Perla’ – Ribes bracteosum ‘Perla’
Fremur harðgerður, sumargrænn, gisgreinóttur runni. Hæð: 1,5 - 2 m. Laufin fremur stór, handflipótt, 5 til 7 - flipótt með egglaga - egglensulaga, ydda og tennta flipa. Lauf gljáandi á löngum blaðstilk. Gulir haustlitir. Blómin græn-brúnleit í útstæðum klösum. Blómgast í júní. Berin bláhéluð, áberandi í löngum útstæðum klösum. Þroskast í lok ágúst og fram í september. Henta í sultur og þess háttar en sæmileg til átu beint af runnanum.
Blárifs 'Perla' þrífst best í sæmilega frjóum, rakaheldnum jarðvegi. Blandið gömlum húdýraáburði eða moltu saman við jarðveginn við gróðursetningu. Gott er að setja álíka lífrænt efni í kringum runnana á fárra ára fresti. Blárifs er all skuggþolið en þroskar mest af berjum í sól. Þrífst betur við ströndina en inn til landsins. Hentar í raðir, þyrpingar, í berjagarðinn og sem undirgróður undir trjám. Millibil um 1 m eða meir.
'Perla' er úrvalsyrki valið af Ólafi S. Njálssyni úr Alaskasafni því er barst til landsins með Óla Val og félögum árið 1985. Heimkynni: Vesturströnd N-Ameríku allt frá S-Alaska í norðri suður til N-Kaliforníu. Garðaberjaætt (Grossulariaceae).